• Átta mánaða áskrift að Útihreyfingunni. Æfingaáætlun sem byggir á tveimur til þremur sameiginlegum krossþjálfunaræfingum á viku þar sem blandað er saman mismunandi æfingum og mismunandi hreyfingu. Markmiðið er að tryggja líkamlega getu, þol og þrek fyrir alls konar útivist og ævintýramennsku. Meðlimir Útihreyfingarinnar æfa allt árið um kring.
  • Þriðjudagar kl. 17:30 Styrktar- og þrekæfingar ásamt alls konar hraðasprettum. Oftast hlaupandi en stundum á hjólum. Æfingarnar fara fram í Elliðaárdal, Öskjuhlíð, Laugardal og víðar.
  • Fimmtudagar kl. 17:30 Tækni- og gæðaæfingar. Hlaup, hjól eða skíði. Á Hólmsheiðinni, Úlfarsfelli, í Heiðmörk, Bláfjöllum og víðar.
  • Laugardagar / sunnudagar kl. 9:30 Lengri hreyfing aðra hvora helgi, til skiptis á laugardögum og sunnudögum. Fjallganga, hjólreiðar, fjallahlaup, fjallaskíði, gönguskíði, kajak, ferðaskíði, klifur, sjósund. Gamlir og nýir slóðar í nágrenni Reykjavíkur.
  Æfingarnar eru hraðaskiptar og henta öllum getustigum. Við bendum þó byrjendum og þeim sem eru að fara af stað eftir langt hlé, á Úti 101, 2ja mánaða byrjendanámskeið sem hefjast í janúar og september á hverju ári. Þar er lögð áhersla á hæga uppbyggingu með auknu utanumhaldi, kennslu og fræðslu. Við trúum ekki á átaksverkefni en vitum að það getur verið erfitt að halda sér að verki. Þess vegna er persónulegt utanumhald mikilvægur þáttur í Útihreyfingunni. Strax eftir skráningu er meðlimum boðið í rafrænt upphafsviðtal um markmið og væntingar, ásamt því að þrisvar á ári fá allir endurgjöf og mat á stöðu sinni og árangri. Átta mánaða áskrift kostar 113.600 kr. eða 14.200 kr. á mánuði. Hægt er að greiða áskriftina í einu lagi eða skipta greiðslum eins og hver og einn kýs inni í greiðsluferlinu sjálfu. Meðlimir í Útihreyfingunni njóta forgangs og ríflegs afsláttar í flestar ferðir og námskeið hreyfingarinnar, Úti ævintýri, sem farnar eru meðan á áskriftinni stendur.
 • Fjögurra mánaða áskrift að Útihreyfingunni. Æfingaáætlun sem byggir á tveimur til þremur sameiginlegum krossþjálfunaræfingum á viku þar sem blandað er saman mismunandi æfingum og mismunandi hreyfingu. Markmiðið er að tryggja líkamlega getu, þol og þrek fyrir alls konar útivist og ævintýramennsku. Meðlimir Útihreyfingarinnar æfa allt árið um kring.
  • Þriðjudagar kl. 17:30 Styrktar- og þrekæfingar ásamt alls konar hraðasprettum. Oftast hlaupandi en stundum á hjólum. Æfingarnar fara fram í Elliðaárdal, Öskjuhlíð, Laugardal og víðar.
  • Fimmtudagar kl. 17:30 Tækni- og gæðaæfingar. Hlaup, hjól eða skíði. Á Hólmsheiðinni, Úlfarsfelli, í Heiðmörk, Bláfjöllum og víðar.
  • Laugardagar / sunnudagar kl. 9:30 Lengri hreyfing aðra hvora helgi, til skiptis á laugardögum og sunnudögum. Fjallganga, hjólreiðar, fjallahlaup, fjallaskíði, gönguskíði, kajak, ferðaskíði, klifur, sjósund. Gamlir og nýir slóðar í nágrenni Reykjavíkur.
  Æfingarnar eru hraðaskiptar og henta öllum getustigum. Við bendum þó byrjendum og þeim sem eru að fara af stað eftir langt hlé, á Úti 101, 2ja mánaða byrjendanámskeið sem hefjast í janúar og september á hverju ári. Þar er lögð áhersla á hæga uppbyggingu með auknu utanumhaldi, kennslu og fræðslu. Við trúum ekki á átaksverkefni en vitum að það getur verið erfitt að halda sér að verki. Þess vegna er persónulegt utanumhald mikilvægur þáttur í Útihreyfingunni. Strax eftir skráningu er meðlimum boðið í rafrænt upphafsviðtal um markmið og væntingar, ásamt því að þrisvar á ári fá allir endurgjöf og mat á stöðu sinni og árangri. Fjögurra mánaða áskrift kostar 64.800 kr. eða 16.200 kr. á mánuði. Hægt er að greiða áskriftina í einu lagi eða skipta greiðslum eins og hver og einn kýs inni í greiðsluferlinu sjálfu. Meðlimir í Útihreyfingunni njóta forgangs og ríflegs afsláttar í flestar ferðir og námskeið hreyfingarinnar, Úti ævintýri, sem farnar eru meðan á áskriftinni stendur.
 • Ævintýralega góð gjöf Dýrmætasta gjöfin er alltaf samvera með þeim sem þér þykir vænt um. Og það verður ekki betra en þegar samveran er í formi skemmtilegrar útivistar þar sem allir leika sér saman. Gefðu þér eða þínum gjafabréf sem gildir í alla útihreyfingu, námskeið eða ævintýri Útihreyfingarinnar. Það er hægt er að velja upphæð hér að neðan. Svo má senda póst á utihreyfingin@utihreyfingin.is til að gefa gjafabréf með upphæð að eigin vali eða til að panta gjafabréf inn í sérstaka ævintýraferð með Útihreyfingunni. Gjafabréfið kemur fallega uppsett í tölvupósti til útprentunar.
 • Norski skerjagarðurinn. Kajak

  50.000 kr.197.000 kr.
  ÖRFÁ SÆTI LAUS Fjórir himneskir ferðadagar á kajak 14.-19. ágúst Róleg og nærandi kajakferð til Suður-Noregs þar sem ferðast er á milli afskekktra eyja og skerja. Aðeins er róið stutt í einu, mikið staldrað við, skoðað, gengið, synt og slappað af. Svæðið er þekkt fyrir mikla náttúrufegurð og er hluti þess friðaður. Yfir öllu liggur andi gamals tíma, ró og friður. Fátt er eins viðeigandi og að ferðast á kajak um þetta svæði, renna hljóðlaust yfir hafflötinn og njóta nálægðarinnar við náttúruna. Dagleiðirnar eru stuttar eða frá 2 til 12 km og róið er innan skerjagarðsins í vari fyrir öldum úthafsins. Hópurinn stoppar oft til að njóta umhverfisins, fara í land, ganga og skoða sig um. Þeir sem vilja, geta róið meira útfrá náttstað. Að auki verðum við með veiðistangir og línur svo allir geta reynt sig við að veiða í matinn. Svo er auðvitað ómissandi að skella sér að minnsta kosti einu sinni á dag í hressandi sjósund en sjórinn er að öllu jöfnu um 20° á þessum árstíma. Gist er í þrjár nætur í skálum sem eru hver öðrum glæsilegri og standa allir á draumfögrum og afskekktum eyjum sem aðeins eru aðgengilegar sjóleiðina. Í öllum skálunum er fyrirtaks aðstaða og uppábúin rúm en fólk þarf að koma með eigin skálapoka / silkipoka. Hver og einn flytur sinn eigin farangur í kajaknum á milli gistiskálanna. Hópurinn flytur líka með sér mat og eldar saman í náttstað en líka verður stoppað á kaffihúsum og veitingastöðum sem finna má á sumum þeirra eyja sem heimsóttar verða. Ferðin tekur í heild sex daga. Þar af er róið á kajak í fjóra daga en fyrsti og síðasti dagurinn eru ferðadagar þar sem þátttakendur koma sér til og frá Noregi á eigin vegum og gista í Osló, bæði fyrir og eftir ferð. Hópurinn heldur af stað frá Osló með rútu snemma fimmtudaginn 15. ágúst og ferðinni lýkur í Osló sunnudagskvöldið 18. ágúst. Þátttakendur þurfa því að vera komnir til Oslóar í síðasta lagi miðvikudagskvöldið 14. ágúst og geta ekki flogið aftur heim fyrr en í fyrsta lagi mánudaginn 19. ágúst. Athugið að kajaknámskeið og/eða einhver kajakreynsla er forkrafa inn í ferðina. Við bendum á byrjendanámskeið Útihreyfingarinnar sem tekur eitt kvöld og verður haldið 5. júní. Verð 197.000 kr. Innifalið: Gisting í 3 nætur, ferðir innan Noregs, kajakleiga og allur tilheyrandi búnaður. Undirbúningsfundur, leiðsögn og utanumhald. Ekki innifalið: Flug til Noregs og gisting í Osló fyrir og eftir ferð. Hægt er að greiða ferð að fullu eða staðfestingargjald 50.000 kr. og eftirstöðvar í síðasta lagi sex vikum fyrir ferð. Lágmarksþátttaka miðar við 10 manns.
 • Öskjuvegur og Herðubreið. Snarganga

  108.000 kr.134.000 kr.
  Fimm snargöngudagar og Herðubreið í kaupbæti 22.- 27. ágúst Hrá og stórbrotin fimm daga óbyggðaleið á milli skála á hálendinu norðan Vatnajökuls. Leiðin, sem kölluð er Öskjuvegur, liggur á milli Herðubreiðalinda og Svartárkots og er samtals um 100 km löng. Þetta er skemmtileg áskorun, dagleiðirnar eru 15-26 km langar og slóðin liggur um afskekkt hálendi þar sem allra veðra er von, líka að sumri til. Verðlaunin eru hins vegar ekki af verri endanum. Svartir sandar, úfin hraun og kyngimagnaðar eldstöðvar einkenna leiðina og auðvitað fegursta fjall Íslands, Herðubreið. Farangur er trússaður á milli skálanna fimm sem gist er í, svo að hægt er að ferðast hratt og létt yfir daginn. Við köllum þennan ferðamáta snargöngu, sem er íslenskun á fyrirbærinu fast hiking og liggur á milli hefðbundinnar fjallgöngu og fjallahlaups. Í snargönguferðum er verið að njóta náttúrunnar og hraði er ekki takmark í sjálfu sér. Hins vegar er leitast við að ferðast með eins léttan bakpoka og kostur er og stundum er valhoppað við fót! Þátttakendur koma á eigin bílum að Svartárkoti í Bárðardal í upphafi ferðar en þaðan er haldið með rútu í Herðubreiðalindir þar sem gist er í Þorsteinsskála fyrstu nóttina. Daginn eftir er byrjað á því að ganga að og upp á Herðubreið, þaðan sem virða má fyrir sér næstu dagleiðir. Eftir fjallgönguna er stuttur spölur yfir söndugt helluhraun í skálann í Bræðrafelli. Á degi tvö er gengið úr Bræðrafelli suður í Drekagil í Öskju sem er vinsæll áfangastaður ferðamanna. Á fáum stöðum er öræfakyrrðin dýpri en á þessum slóðum. Drekagil er alltaf gaman að skoða og ekki mun væsa um okkur í vel búnum skálunum. Dagur þrjú er lengsti og erfiðasti en jafnframt fjölbreyttasti dagurinn. Stefnan er tekin yfir Dyngjufjöll og upp á austurbarm Öskju inn í eina mestu himnafegurð íslenskra fjalla. Askjan öll og hið dularfulla og síkvika Öskjuvatn blasir við okkur á meðan við lækkum okkur niður að Víti og Knebelsvörðunni og veltum fyrir okkur örlögum vísindamannanna sem hér hurfu árið 1907. Aftur þarf að hækka sig upp á norðurbarm Öskju áður en leiðin liggur niður í móti að skálanum í Dyngjufelli. Nú erum við komin vel út fyrir troðnar slóðir. Hér er fáfarið og auðvelt að gleyma stað og stund í eilífðarþögninni sem aðeins er rofin af taktföstum fótatökum göngumanna á grófum vikrinum niður Jónsskarð í Dyngjufjalladal. Á fjórða degi er stefnan tekin í Botnaskála. Gengið er um sandorpin hraun í víðfeðmri fjallasýn þar sem Trölladyngja, Kollóttadyngja, Bláfjall og auðvitað Herðubreið skreyta sjóndeildarhringinn. Hér ríkir fegurðin ein og ummerki um slóða og mannaferðir mást smám saman út í sandinum meðfram apalhraunbrún Suðurárhraunsins. Fimmti og síðasti dagurinn ber okkur í norðvestur og skyndilega er hér ofgnótt af silfurtæru lindarvatni en dagleiðirnar hingað til hafa verið giska vatnslitlar og einungis hægt að nálgast vatn í skálunum. Auðnir Ódáðahrauns eru brátt að baki og við komum á gróið land. Gengið er niður með Suðurá í átt að Stóruflesju og áfram í Svartárkoti þar sem bílarnir bíða og formlegri ferð lýkur. Fararstjóri er Helga María Heiðarsdóttir. Ferðin kostar 108 þúsund fyrir meðlimi Útihreyfingarinnar en 134 þúsund fyrir aðra. Hægt er að greiða ferð að fullu eða skipta greiðslum eins og hver og einn kýs inni í greiðsluferlinu sjálfu. Innifalið í verði er leiðsögn og utanumhald, gisting í fimm nætur í skálum, trúss á farangri á milli skála og rútuferð úr Bárðardal að Herðubreiðalindum í upphafi ferðar. Skráðir þátttakendur fá ítarlegan upplýsinga- og pökkunarpóst í aðdraganda ferðar. Lágmarksþátttaka er 10 manns.
 • Gullfossleiðin. Fjallahjól

  78.000 kr.103.000 kr.
  Tveir hjóladagar. Ein nótt í skála 7.-8. september Dekurleiðangur að hausti. Hjólað um fáfarna vegaslóða frá Kerlingarfjöllum að Flúðum með nokkrum skemmtilegum útúrdúrum. Gist er í eina nótt í skála þar sem sérstakur leiðangurskokkur reiðir fram dýrindis kvöldmáltíð. Ferðin endar svo í Gömlu Lauginni / Secret Lagoon á Flúðum. Að mestu er hjólað á ágætum malarvegum og því geta bæði fjallahjól og malarmerðir (gravelhjól) hentað í þetta ferðalag. Trússbíll fylgir hópnum alla leið og er til taks ef eitthvað bilar eða fólk verður þreytt. Vegalengdin sem hjóluð er á þessum tveimur dögum er alls um 100 km og hallar mest megnis niður í móti, þar sem byrjað er að hjóla í um 700 metra hæð yfir sjávarmáli og endað í 70 m hæð. Ferðin hefst eldsnemma á laugardagsmorgni með því að ekið er á einkabílum að Flúðum. Þar eru bílar skildir eftir, hjólum komið fyrir á kerru og haldið með rútu upp í Kerlingarfjöll þaðan sem hjólað er af stað. Dagleiðin er um 45-50 km og á leiðinni verður meðal annars kíkt á hina víðfrægu Kerlingu sem Kerlingarfjöll draga nafn sitt af. Gist er í skemmtilegum fjallaskála um nóttina þar sem hópurinn gerir vel við sig í mat og drykk. Leiðangurskokkur er með í för sem sér til þess að allir séu saddir og sælir. Seinni dagurinn hefst á staðgóðum sameiginlegum morgunmat og þegar búið er að ganga frá og pakka farangri inn í trússbílinn, heldur ferðalagið áfram. Fyrst um sinn liggur leiðin um eyðilega malarmela en eftir því sem hálendið fjarlægist og byggð nálgast verður sífellt gróskumeira og áður en varir er hjólað um gríðarfallegan birkiskóg. Þennan dag eru nokkrar náttúruperlur skoðaðar, meðal annars verður kíkt á Gullfoss frá allt öðru sjónarhorni en hefðbundið er. Deginum lýkur svo með baði í Gömlu Lauginni á Flúðum áður haldið er heim á leið. 50-55 km dagur. Innifalið: Utanumhald, leiðsögn, flutningur á fólki, farangri og hjólum frá Flúðum og upp í Kerlingarfjöll, skálagisting í eina nótt, 1x kvöldmatur og morgunmatur. Trúss á farangri og bílafylgd alla leið.
 • Vatnajökull endilangur. Ferðaskíði

  229.000 kr.265.000 kr.
  30. apríl - 7. maí, 2025 Stórkostlegur vikulangur leiðangur þar sem sjálfur konungur jöklanna, Vatnajökull, er genginn endilangur á ferðaskíðum. Svona leiðangrar verða jafnan eitt af stærstu ævintýrunum í lífi hverrar manneskju. Við lofum ógleymanlegu, valdeflandi og krefjandi ferðalagi, fyrir bæði líkama og sál. Þátttakendur ganga á svokölluðum ferðaskíðum (utanbrautargönguskíðum með stálköntum) og draga púlkur / sleða með öllum farangrinum á eftir sér. Gist er í tjöldum á jöklinum í fjórar nætur en eina nótt í skála á Grímsfjalli. Gert er ráð fyrir að jöklagangan sjálf taki 6-7 daga en nokkrir dagar eru hafðir til vara ef hópurinn þarf að hafast við á jöklinum og bíða af sér veður og jafnframt til að gera ráð fyrir ferðalögum til og frá jökli. Það fer eftir færð og veðri í aðdraganda ferðar hvort gengið verður frá austri til vesturs eða frá vestri til austurs. Leiðangurinn hefst því annað hvort við Jöklasel á Skálafellsjökli við suðurbrún Vatnajökuls eða upp frá Jökulheimum undir Tungnaárjökli við vesturbrún jökulsins. Ógnarfegurð, alger kyrrð og mikil núvitund felst í svona löngu ferðalagi yfir jökul. Fegurðin getur stundum verið yfirþyrmandi. Rósrauð sólris og sólsetur einkenna jökulinn og á leiðinni gefst stórkostlegt útsýni á marga af hæstu tindum landsins. Stundum er þó líka gengið í hrímþoku eða algerri hvítablindu sem reynir á skilningarvitin á allt annan hátt. Þegar ferðalagið er nokkurn veginn hálfnað, nánast á miðjum jöklinum, er komið á Grímsfjall við Grímsvatnaeldstöðina. Þar bíður vistlegur skáli Jöklarannsóknarfélagsins eftir göngufólkinu, hlýr og notalegur. Í skálanum er hægt að kjarna sig, elda dýrindismat, þurrka föt ef á þarf að halda og síðast en ekki síst láta þreytuna líða úr sér í goðsagnakenndu jöklagufubaði! Heildarvegalengd leiðangursins er 130 km og gert er ráð fyrir að hópurinn skíði 20-25 km á hverjum degi, eftir færð og veðri. Þetta er krefjandi ferð sem hentar vönu ferðafólki með reynslu af vetrarferðalögum eða fólki sem ætlar að nota veturinn fyrir leiðangurinn til að læra og æfa sig. Óvönum er bent á námskeiðið Ferðast á gönguskíðum sem haldið verður í janúar/febrúar 2025. Gert er ráð fyrir að hópurinn hittist töluvert og kynnist fyrir ferð og æfi sig að einhverju leyti saman en stungið verður upp á sameiginlegum ferðum og æfingum í aðdraganda leiðangursins. Brynhildur Ólafsdóttir og Helga María Heiðarsdóttir leiða ferðina en báðar eru mjög reynslumiklar og hafa leiðsagt fjölmargar ævintýraferðir, bæði hérlendis og erlendis. Þær eru með gilt Wilderness First Responder skírteini og hafa lokið réttindanámi hjá Félagi íslenskra fjallaleiðsögumanna (AIMG), bæði í fjalla- og jöklaleiðsögn. Ferðin kostar 229.000 kr. fyrir meðlimi Útihreyfingarinnar en annars 265.000 kr. Athugið að hægt er að greiða ferðina í einu lagi eða skipta greiðslum eins og hver og einn kýs inni í greiðsluferlinu sjálfu. Innifalið í verðinu er gisting í eina nótt á Grímsfjalli, far með jepparútum til og frá Reykjavík og að og frá jökli, nokkrir undirbúningsfundir, aðstoð með búnað, næringu, æfingaáætlun og pökkun, ein óveðursútilega í aðraganda ferðar ásamt leiðsögn og utanumhaldi í sjálfum leiðangrinum.
 • Undir Eiger. Snarganga

  80.000 kr.357.000 kr.
  Dýrðardagar undir stórbrotnum Alpatindum 21.-28. ágúst ÖRFÁ SÆTI LAUS Ævintýraleg snargönguferð innan um stórbrotnustu alpatinda Sviss, þar sem saga háfjallaklifurs hófst. Svæðið er fyrirmynd Tolkiens að heimkynnum álfanna í Hringadróttinssögu enda annálað fyrir himneska fegurð. Gengið er um stórkostlega fjallastíga undir og að frægustu fjallaþrenningu Alpanna: Eiger, Mönch og Jungfrau. Upplifunin er engu lík. Við reynum okkur líka við auðvelda klettagöngu, göngum smáspöl á jökli og hendum okkur við hvert gefið tækifæri í hressandi alpabað í öllum þeim blágrænu fjallavötnum sem á leið okkar verða. Við köllum þennan ferðamáta snargöngu, sem er íslenskun á fyrirbærinu fast hiking og liggur á milli hefðbundinnar fjallgöngu og fjallahlaups. Í snargönguferðum er verið að njóta náttúrunnar og hraði er ekki takmark í sjálfu sér. Hins vegar er leitast við að ferðast með eins léttan bakpoka og kostur er og stundum er valhoppað við fót, því Sviss er jú heimaland sjálfrar Heidi :) Ferðin hefst í Zurich með því að hópurinn ferðast saman með lest til bæjarins Interlaken þar sem gist er fyrstu tvær næturnar. Næstu sex daga er svo gengið í ólýsanlegu útsýni og fjallafegurð. Dagleiðirnar eru mislangar en að meðaltali er farið um 15 km á dag. Stysti dagurinn er 10 km en sá lengsti 23 km. Flesta daga er líka hægt að velja um bæði lengri og styttri leiðir, þar sem oft er hægt að taka kláf upp/niður. Þar sem að mestu er gengið langt utan akvega og alfaraleiða þá er ekki hægt að trússa daglegan farangur á milli næturstaða. Hann er hins vegar fluttur frá upphafsstað og á áfangastað auk þess að um mitt ferðalagið verður hægt að komast í töskurnar, skipta um föt og losa sig við allan óþarfa. Með þessum hætti þarf aldrei að ganga meira en í tvo daga án þess að komast í farangurinn. Þrjár nætur er gist í sögufrægum fjallaskálum og þrjár nætur á huggulegum gistiheimilum. Síðustu nóttinni er svo eytt í gleði á góðu hóteli með sundlaug, gufu og öllum heimsins þægindum. Þar fagnar hópurinn líka áfanganum með veglegri sameiginlegri matarveislu. Ferðin er skipulögð með þeim hætti að fólk getur flogið frá Íslandi til Zurich sama dag og ferðin hefst, þ.e. 21. ágúst og jafnframt náð flugi heim frá Sviss daginn eftir síðustu nóttina, þ.e. 28. ágúst. Athugið að einnig er hægt að fljúga til og frá Genfar eða koma annars staðar frá og slást í hópinn í Interlaken. Fararstjórar eru Brynhildur Ólafsdóttir og Róbert Marshall. Innifalið í ferðinni, sem kostar 357 þúsund er gisting í sjö nætur, allur morgunmatur og fimm af sjö kvöldmáltíðum, allar ferðir í lestum og kláfum, flutningur á farangri á milli staða, undirbúningsfundur, leiðsögn og utanumhald. Flug til og frá Sviss er ekki innifalið. Hægt er að greiða ferð að fullu eða greiða staðfestingargjald 80.000 kr og eftirstöðvar í síðasta lagi sex vikum fyrir ferð. Lágmarksþátttaka miðar við 10 manns. Umsagnir um ferðina

  „Það er alltaf ævintýri að ferðast með Brynhildi og Róberti! Þau eru meistarar í að deila fróðleik og sögum af svæðinu og eiga þátt í að búa til einstaka stemmingu, eins og fararstjórar Útihreyfingarinnar allir.“

  Fyrsta sinn sem ég fer í svona ferð og stóðst hún allar mínar væntingar og meira til. Frábær leiðsögn með endalausum fróðleik um fjöll og menn og allt skipulag upp á 10.

  Enginn dagur eins sem gerði þetta einstaklega spennandi, ævintýralega gaman og oft farið út fyrir þægindarammann sem var mikill persónulegur sigur.

  Minningarbankinn stútfullur af myndum og einstakri upplifun. Þakklát fyrir frábæra ferðafélaga og magnað ævintýri.

 • Arnarfjörður. Gönguferð

  98.000 kr.117.000 kr.
  Upplifun og dekur um fjöll og fjörur 20.-22. september Ferðalög færast á annað stig þegar ferðast er í fylgd með heimamönnum. Þeir þekkja svæðið eins og lófann á sér, allar földu náttúruperlurnar og skemmtisögurnar. Í þessari upplifunar- og dekurferð leiðir kokkurinn og lífskúnstnerinn Sirrý Ágústsdóttir frá Bíldudal göngur um sínar heimaslóðir og dekrar við þátttakendur eins og henni einni er lagið. Ferðin hefst snemma á föstudagsmorgni þegar ekið er í samfloti úr Reykjavík áleiðis vestur á firði eða allt upp á Dynjandisheiði. Bílar eru skildir eftir og lagt af stað gangandi ofan fjalla út Langanes og niður að Langanesvita við Arnarfjörð, um 16 km leið. Þar er slegið upp veislu við varðeld í fallegri fjörulaut á meðan hópurinn drekkur í sig útsýnið yfir hin dulmögnuðu vestfirsku alpafjöll með öllum sínum óteljandi hvilftum og flötum toppum. Langanesið er magnaður staður. Enginn vegur liggur að vitanum og aðeins er fært þangað gangandi eða sjóleiðina. Hvergi er sólarlagið fallegra en einmitt þarna og eftir að búið er að njóta þess er hópurinn fluttur á bát þvert yfir Arnarfjörðinn á Bíldudal. Hnúfubakar, hrefnur og hnísur gera sig heimkomna í firðinum og ef heppnin er með í för sjáum við til þessara tignarlegu skepna. Gist er á hlýlegu og notalegu gistiheimili á Bíldudal næstu tvær nætur. Daginn eftir er ekið á smárútu út Arnarfjörðinn og inn í Selárdal. Eftir að hafa skoðað hið merkilega safn listamannsins Samúels og Uppsali þar sem þjóðsagnapersónan Gísli bjó, eru bakpokar axlaðir og haldið upp Selárdalinn. Gengið er ofan á fjallgarðinum og komið niður hinn réttnefnda Fagradal í Tálknafirði, um 15 km leið. Á leiðarenda skolar hópurinn af sér göngurykið í fallegri náttúrulaug og svamlar í sjónum við gula sandströnd. Eftir gott bað og búbblur er haldið til baka á Bíldudal í kvöldmat og kvöldvöku að hætti heimamanna hjá sjálfum Vegamótaprinsinum. Að loknum letilegum morgunmat er boðið upp á stutta en snarpa fjallgöngu upp á Bíldudalsfjall þaðan sem sést vítt og breitt yfir Arnarfjörðinn. Eftir léttan hádegismat er svo ekið heim á leið með viðkomu í náttúrulauginni í Reykjafirði. Ferðin kostar 98 þúsund fyrir meðlimi Útihreyfingarinnar en 117 þúsund fyrir aðra. Athugið að hægt er að greiða ferðina í einu lagi eða skipta greiðslum eins og hver og einn kýs inni í greiðsluferlinu sjálfu. Mikið er innifalið í verðinu eða gisting í tvær nætur í tveggja manna herbergi með morgunmat, tveir kvöldverðir, nesti og fordrykkur, trúss og selflutningur á bílum og bátum ásamt leiðsögn og alls utanumhalds.

Title

Go to Top