Jöklaáskorun Útihreyfingarinnar
30. apríl - 7. maí
Stórkostlegur vikulangur leiðangur þar sem sjálfur konungur jöklanna, Vatnajökull, er genginn endilangur á ferðaskíðum. Svona leiðangrar verða jafnan eitt af stærstu ævintýrunum í lífi hverrar manneskju. Við lofum ógleymanlegu, valdeflandi og krefjandi ferðalagi, fyrir bæði líkama og sál.
Þátttakendur ganga á svokölluðum ferðaskíðum (utanbrautargönguskíðum með stálköntum) og draga púlkur / sleða með öllum farangrinum á eftir sér. Gist er í tjöldum á jöklinum í fjórar nætur en eina nótt í skála á Grímsfjalli.
Gert er ráð fyrir að jöklagangan sjálf taki 6-7 daga en nokkrir dagar eru hafðir til vara ef hópurinn þarf að hafast við á jöklinum og bíða af sér veður og jafnframt til að gera ráð fyrir ferðalögum til og frá jökli.
Það fer eftir færð og veðri í aðdraganda ferðar hvort gengið verður frá austri til vesturs eða frá vestri til austurs. Leiðangurinn hefst því annað hvort við Jöklasel á Skálafellsjökli við suðurbrún Vatnajökuls eða upp frá Jökulheimum undir Tungnaárjökli við vesturbrún jökulsins.
Ógnarfegurð, alger kyrrð og mikil núvitund felst í svona löngu ferðalagi yfir jökul. Fegurðin getur stundum verið yfirþyrmandi. Rósrauð sólris og sólsetur einkenna jökulinn og á leiðinni gefst stórkostlegt útsýni á marga af hæstu tindum landsins. Oft er þó líka gengið í hrímþoku eða algerri hvítablindu sem reynir á skilningarvitin á allt annan hátt.
Þegar ferðalagið er nokkurn veginn hálfnað, nánast á miðjum jöklinum, er komið á Grímsfjall við Grímsvatnaeldstöðina. Þar bíður vistlegur skáli Jöklarannsóknarfélagsins eftir göngufólkinu, hlýr og notalegur. Í skálanum er hægt að kjarna sig, elda dýrindismat, þurrka föt ef á þarf að halda og síðast en ekki síst láta þreytuna líða úr sér í goðsagnakenndu jöklagufubaði!
Heildarvegalengd leiðangursins er 130 km og gert er ráð fyrir að hópurinn skíði 20-25 km á hverjum degi, eftir færð og veðri. Þetta er krefjandi ferð sem hentar vönu ferðafólki með reynslu af vetrarferðalögum eða fólki sem ætlar að nota veturinn fyrir leiðangurinn til að læra og æfa sig.
Við bendum fólki á að nota æfingahópinn
Úti ferðaskíði og námskeiðið
Ferðast á gönguskíðum. Þeir sem ekki eru vanir jöklaferðum þurfa að auki að hafa tekið námskeiðið
Vetrarfjallamennska. Gert er ráð fyrir að hópurinn hittist töluvert og kynnist fyrir ferð og æfi sig að einhverju leyti saman, en stungið verður upp á sameiginlegum ferðum og æfingum í aðdraganda leiðangursins.
Brynhildur Ólafsdóttir og Helga María Heiðarsdóttir leiða ferðina en báðar eru mjög reynslumiklar og hafa leiðsagt fjölmargar ævintýraferðir, bæði hérlendis og erlendis. Þær eru með gilt Wilderness First Responder skírteini og hafa lokið réttindanámi hjá Félagi íslenskra fjallaleiðsögumanna (AIMG), bæði í fjalla- og jöklaleiðsögn.
Ferðin kostar 265.000 kr. Athugið að hægt er að greiða ferðina í einu lagi eða skipta greiðslum eins og hver og einn kýs inni í greiðsluferlinu sjálfu.
Innifalið í verðinu er gisting í eina nótt á Grímsfjalli, far með jepparútum til og frá Reykjavík og að og frá jökli, nokkrir undirbúningsfundir, aðstoð með búnað, næringu, æfingaáætlun og pökkun, ein óveðursútilega í aðraganda ferðar ásamt leiðsögn og utanumhaldi í sjálfum leiðangrinum.
Jöklafarar
Þessi ferð telst hluti af verkefninu Jöklafarar sem er jöklaáskorun Útihreyfingarinnar, þar sem gengið er á ferðaskíðum yfir sex stærstu jökla landsins.
Sjá nánar hér.