Hvítárvatn. Kajak og fjallganga

62.000 kr.81.000 kr.

Tjaldnótt í krúnudjásni Hvítárvatns, Karlsdrætti
22.-23. júní

Sólkatla, Baldheiði og Hrefnubúðir. Örnefnin í kringum Karlsdrátt í Hvítárvatni eru nánast óþekkt og það er ótrúlegt til þess að hugsa að við séum rétt hjá Kili, Hvítárnesi og Bláfellshálsi en samt á svo framandi slóðum.

Karlsdráttur er lítill og aflokaður, gróðursæll vogur í norðurenda Hvítárvatns þar sem fjölbreytt plöntulíf birtist óvænt milli jökulvatns og eyðisanda. Hér vex birki upp í miðjar hlíðar og einkennisblóm staðarins, eyrarrósin er alltumlykjandi. Alls vaxa hér 82 aðrar plöntutegundir í rúmlega 400 metra hæð yfir sjávarmáli sem þykir einstakt á Íslandi.

Gegnt voginum skríður Norðurjökull út úr Langjökli við hlið Skriðufells og kelfir næstum því ofan í fölgrænt jökulvatnið. Neðar fellur sama jökulvatn í foss allra íslenskra fossa, Gullfoss í gljúfri Hvítár, sem Hvítárvatnið dregur nafn sitt af.

Við leggjum í hann um sólstöður með vistir og viðlegubúnað til tveggja daga frá bökkum Hvítárvatns og róum 8-10 kílómetra leið að höfðanum sem lokar af voginum. Þarna sláum við upp tjöldum og gistum eina töfranótt í þessari vin á hálendinu. Þau allra hörðustu baða sig að sjálfsögðu í Hvítárvatni eða velta sér í það minnsta upp úr dögginni á þessum kyngimagnaða stað!

Í morgunsárið daginn eftir, fyllum við á brúsa með tæru lindarvatni og göngum á Sólkötlu sem rís í ríflega 1000 metra hæð yfir sjávarmáli. Þaðan er stórkostlegt útsýni yfir Langjökul og jökulskerin Þursaborg og Fjallkirkju auk þess sem Hrútfellið, Hvítárvatnið sjálft og sögufrægt umhverfi Kjalvegar blasir við frá afar sjaldséðu sjónarhorni. Gangan er um 10 km fram og til baka. Að göngu lokinni, seinnipart sunnudags tökum við saman tjaldbúðir og róum til baka sömu leið og við komum.

Athugið að kajaknámskeið og kajakreynsla er forkrafa inn í ferðina. Við bendum á þetta kvöldnámskeið sem er bæði ætlað byrjendum og lengra komnum.

Skráðir þátttakendur fá ítarlegan upplýsinga- og pökkunarpóst í aðdraganda ferðarinnar.

Ferðin kostar 62 þúsund fyrir meðlimi Útihreyfingarinnar en 81 þúsund fyrir aðra. Athugið að hægt er að greiða ferðina í einu lagi eða skipta greiðslum eins og hver og einn kýs inni í greiðsluferlinu sjálfu.

Innifalið í verðinu er leiðsögn og utanumhald, leiga og flutningur á kajak, ár, toppi, svuntu og björgunarvesti. Sérhæfðir kajakleiðsögumenn fylgja hópnum alla leið.

Title

Go to Top