• Úti 101

    29.900 kr.

    NÆSTA NÁMSKEIÐ HEFST Í JANÚAR

    Kynningarfundur kl. 17:30, 14. janúar í verslun Útilífs, Skeifunni 11 Fyrsta æfing þriðjudagur, 21. janúar

    Sex vikna grunnnámskeið, haldið þrisvar á ári, í janúar, apríl og september. Námskeiðið er fyrir fólk sem er að byrja að stunda útihreyfingu eða að fara af stað eftir langt hlé og vill læra undirstöðuatriði í útihlaupi, kynnast sjósundi og byggja upp þol og styrk fyrir útihreyfingu og ævintýri. Æft er tvisvar til þrisvar í viku og mikið er um göngur, létt hlaup og þrekæfingar.
    Dagskrá námskeiðsins
    • Alla þriðjudaga kl. 17:30 Styrktar- og þrekæfingar. Æfingarnar fara fram í Elliðaárdal, Öskjuhlíð, Laugardal og víðar.
    • Alla fimmtudaga kl. 17:30 Tækni- og gæðaæfingar. Á Hólmsheiðinni, Úlfarsfelli, í Heiðmörk, Bláfjöllum og víðar.
    • Laugardagar / sunnudagar kl. 9:30 Lengri hreyfing aðra hvora helgi, til skiptis á laugardögum og sunnudögum. Gamlir og nýir slóðar í nágrenni Reykjavíkur. Helgaræfingarnar á næsta námskeiði verða laugardaginn 25. janúar, sunnudaginn 9. febrúar og laugardaginn 22. febrúar.
    Á Úti 101 er sérstök áhersla lögð á persónulegt utanumhald sem hefst með upphafsviðtali um markmið og væntingar. Námskeiðið er því tilvalið fyrir þá sem vilja koma sér af stað í útihreyfingu og að því loknu er hægt að skrá sig á framhaldsnámskeið Úti 102 eða jafnvel taka þátt í Hálfvættanámskeiði Útihreyfingarinnar. Úti 101 endar á sameiginlegri útskriftarferð þar sem áfanganum er fagnað. Hægt er að greiða fyrir námskeiðið í einu lagi eða skipta greiðslum eins og hver og einn kýs inni í greiðsluferlinu sjálfu. Á meðan á námskeiðinu stendur njóta þátttakendur sérstakra afsláttarkjara Útihreyfingarinnar. Umsjón með námskeiðinu hefur Kristín Ýr Lyngdal ásamt Helgu Maríu Heiðarsdóttur.
  • Útigengið

    42.000 kr.
    NÆSTA NÁMSKEIÐ HEFST 19. JANÚAR Fyrir öll sem elska fjöll og vilja nýta náttúruna til líkamsræktar Útigengið er fyrir fólk sem finnst gaman að vera úti í náttúrunni, kynnast nýjum stöðum, bæta við færni sína á fjöllum, eða þau sem langar að dusta rykið af göngubúnaðinum. Dagskráin er fjölbreytt að vanda og áhersla á stuttar til meðallangar fjallgöngur. Gengið er á sunnudögum, tvær helgar í mánuði og flestar göngurnar taka 3-5 klst. Þátttakendum gefst þó einnig tækifæri til að ganga sig í form fyrir erfiðari og flóknari göngu því haldið er á Eyjafjallajökul í lok apríl þar sem reynir meira á færni og form.  Útigengið er einnig tilvalin æfingahópur fyrir lengri göngur að vori eins og til dæmis á Hrútsfjallstinda. Dagskrá eftir áramót Athugið að ef veður hamlar för á sunnudegi, getur verið að göngu verði flýtt til laugardags. Þátttaka í Útigenginu eftir áramótum kostar 42.000 kr. sem felur í sér 8 göngur frá janúar fram í maí. Þátttakendur njóta sérstakra afsláttarkjara Útihreyfingarinnar. Umsjónarmenn Útigengisins eru allt vanir leiðsögumenn Útihreyfingarinnar Skráðir þátttakendur fá upplýsingapóst í aðdraganda námskeiðsins.
  • Jöklaáskorun Útihreyfingarinnar Nóttina 14.-15. júní Einstök næturskíðaferð yfir þveran Langjökul á meðan sólin sest fyrir aftan hópinn og rís á sama tíma fyrir framan hann! Það er varla hægt að hugsa sér magnaðri upplifun en að vaka og skíða um bjarta sumarnóttina undir litaskiptum jökulsins sem logar í roðaglóð. Hópurinn ekur á eigin bílum úr Reykjavík seinnipart laugardagsins 14. júní, upp að Skálpanesi á Kili, austan megin við Langjökul. Þar eru bílarnir skildir eftir en jepparúta flytur hópinn að upphafsstað göngunnar, vestan Langjökuls. Rétt við jökulröndina vestan megin þar sem vegurinn endar, stendur skálinn Jaki. Þar er tími til kominn að spenna á sig skíðin, axla byrðar og leggja af stað upp í mót. Mesta hækkunin er tekin út í upphafi ferðarinnar, upp fremur þægilega brekku á hæsta punkt leiðarinnar. Þaðan er að mestu aflíðandi leið, alla leið niður jökulinn að austanverðu og að bílunum sem bíða vestan megin. Leiðin er 42-46 km löng og gera má ráð fyrir að hún taki hópinn 10-12 klukkustundir, allt eftir aðstæðum á jöklinum. Gert er ráð fyrir að lagt sé af stað úr Reykjavík skömmu fyrir kvöldmat á laugardag og komið heim um hádegisbil á sunnudag eftir óviðjafnanlega hásumarnótt! Þátttakendur þurfa að vera í góðu líkamlegu formi og hafa einhverja reynslu af ferðalögum á skíðum. Við bendum fólki á að nota æfingahópinn Úti ferðaskíði og fjölbreyttar ferðaskíðaferðir Úthreyfingarinnar til að æfa sig á skíðunum. Þeir sem ekki eru vanir jöklaferðum þurfa að auki að hafa tekið námskeiðið Vetrarfjallamennska. Athugið að dagsetningin gæti hnikast eitthvað til eða frá, ef veðurspáin er betri dagana í kring. Skráðir þátttakendur fá ítarlegan upplýsinga- og pökkunarpóst í aðdraganda ferðarinnar en nauðsynlegt er að eiga ferðaskíði, stafi með stórri kringlu og skinn undir skíðin, jöklaþrennuna; belti, brodda og ísöxi ásamt þægilegum dagpoka sem hægt er að hengja skíðin utan á, ef svo ber undir. Ferðin kostar 58.000 kr. og innifalið er skutl með jepparútu á upphafsstað, utanumhald og leiðsögn. Jöklafarar Þessi ferð telst hluti af verkefninu Jöklafarar sem er jöklaáskorun Útihreyfingarinnar, þar sem gengið er á ferðaskíðum yfir sex stærstu jökla landsins. Sjá nánar hér.
  • Jöklaáskorun Útihreyfingarinnar 12.-14. apríl Þriggja daga skíðaferð yfir Drangajökul, í hinn draumfagra Reykjarfjörð á Ströndum þar sem ómótstæðileg heit sundlaug bíður ferðalanga. Skíðað er á ferðaskíðum yfir jökulinn með svefnpoka og vistir í bakpoka og gist í Reykjarfirði í tvær nætur. Ferðin hefst snemma að morgni laugardags 12. apríl í Kaldalóni við Ísafjarðardjúp. Þar er stigið á skíðin, byrðar axlaðar og haldið sem leið liggur upp á Drangajökul. Gengið er yfir jökulinn og niður í Reykjarfjörð, alls um 25 km leið. Enginn vegur liggur í Reykjarfjörð sem fór í eyði árið 1964 og því er aðeins fært þangað gangandi, skíðandi eða á bát. Afkomendur síðustu ábúendanna hafa viðhaldið gömlu húsunum og hópurinn gistir einmitt í svokölluðu Gamlahúsi. Á sunnudaginn mun hópurinn halda kyrru fyrir í Reykjarfirði, skoða nágrennið og liggja í bleyti í hinni víðfrægu bláu sundlaug sem er ótrúlegur unaðsreitur inni í þessu landslagi. Laugin er engin smásmíð eða 8x20 metrar og var reist af mikilli framsýni árið 1938. Eldsnemma mánudaginn 14. apríl, í upphafi Dymbilviku, er svo gengið á skíðunum aftur til baka yfir Drangajökul og í bílana sem bíða í Kaldalóni. Ef veðurspá er sérlega óhagstæð þessa þrjá daga, verður skoðað að hnika ferðinni til um 1-2 daga. Dagleiðirnar eru langar og þátttakendur þurfa að hafa nokkuð gott vald á ferðaskíðum og reynslu af ferðalögum á skíðum. Við bendum fólki á að nota æfingahópinn Úti ferðaskíði og fjölbreyttar ferðaskíðaferðir Úthreyfingarinnar til að æfa sig á skíðunum. Þeir sem ekki eru vanir jöklaferðum þurfa að auki að hafa tekið námskeiðið Vetrarfjallamennska. Athugið að Útihreyfingin er búin að taka frá svefnpokapláss fyrir hópinn nóttina fyrir brottför, skammt frá Kaldalóni. Þeir sem það vilja, geta keypt sér gistingu þar og þá sofið lengur að morgni brottfarardagsins! Haldinn er rafrænn undirbúningsfundur í aðdraganda ferðar og skráðir þátttakendur fá ítarlegan upplýsinga- og búnaðarpóst. Nauðsynlegt er að eiga ferðaskíði, stafi með stórri kringlu og skinn undir skíðin, jöklaþrennuna; belti, brodda og ísöxi ásamt góðum bakpoka sem hægt er að hengja skíðin utan á. Ferðin kostar 105.000 kr. og innifalið er gisting í tvær nætur í Reykjarfirði, undirbúningsfundur, leiðsögn og utanumhald. Hægt er að greiða ferðina í einu lagi eða skipta greiðslum eins og hver og einn kýs inni í greiðsluferlinu sjálfu. Jöklafarar Þessi ferð telst hluti af verkefninu Jöklafarar sem er jöklaáskorun Útihreyfingarinnar, þar sem gengið er á ferðaskíðum yfir sex stærstu jökla landsins. Sjá nánar hér.
  • Dagsganga um gamla þjóðleið 22. febrúar Útihreyfingin hefur síðustu ár verið að þræða gamlar þjóðleiðir á Snæfellsnesi, nýja leið á hverju ári þar sem gengið er á ferðaskíðum á einum degi yfir Nesið frá norðri til suðurs. Að þessu sinni koma alls fjórar gamlar þjóðleiðir til greina en hver þeirra verður fyrir valinu fer eftir aðstæðum og snjóalögum. Sú stysta er um 15 km en sú lengsta 23 km. Allar leiðirnar liggja yfir innanvert Snæfellsnes, austan við Vatnaleiðina. Leiðirnar þræða dali og lág skörð svo að hvorki er um óyfirstíganlega hækkun né lækkun að ræða. Þátttakendur þurfa þó að hafa nokkuð gott vald á ferðaskíðum en þetta er einmitt tilvalin ferð til að taka ferðaskíðamennskuna upp á nýtt stig, æfa sig í tækninni og njóta þess að skoða nýja staði og nýtt landslag í leiðinni. Við bendum fólki líka á að nota námskeiðið Úti ferðaskíði til að koma sér í ferðaform. Lagt er af stað snemma á laugardagsmorgun til að nýta daginn sem best og byrjað verður á því að skilja bíla eftir við lokastað göngunnar áður en haldið er á upphafsstaðinn og ferðin hefst fyrir alvöru. Gera má ráð fyrir að gengið verði allan daginn á meðan sauðljóst er og stefnt er að því að hópurinn ljúki síðan ferð með því að borða saman, annað hvort á Vegamótum eða í Borgarnesi. Það verður því ekki komið aftur til Reykjavíkur fyrr en um kvöldið. Ef veðurspáin er óhagstæð fyrir laugardaginn, er mögulegt að ferðin verði færð yfir á sunnudag. Þátttakendur fá nánari upplýsingar og búnaðarlista í tölvupósti í aðdraganda ferðar en þurfa að lágmarki að eiga eftirfarandi búnað, fá hann lánaðan eða leigðan: Ferðaskíði, þ.e. utanbrautarskíði með stálköntum, skinn undir skíðin og skíðastafi. Hægt er að leigja skíði á nokkrum stöðum, m.a. hjá skíðaleigu Útilífs. Ferðin kostar 24.900 kr. og innifalið í verðinu er leiðsögn og utanumhald.
  • Landvættur 2025

    161.100 kr.

    Æfingar eru hafnar Hægt er að slást í hópinn til áramóta

    ... Skoraðu á sjálfan þig! Þjálfun og undirbúningur til að ljúka heilum Landvætti sem kallar á að þátttakendur ljúki fjórum þrautum í fjórum landshlutum á innan við ári. Þrautirnar felast í skíðagöngukeppni, hjólreiðakeppni, fjallahlaupi og vatnasundskeppni. Þetta er frábær áskorun fyrir þá sem eru nú þegar í sæmilega góðu formi, vilja komast í sitt besta lífsform og þjálfa sig í alls konar útiíþróttum. Jafnframt heppilegur næsti áfangi fyrir þá sem hafa lokið hálfum Landvætti. Dagsetningar þrautanna fjögurra
    • Fossavatnsgangan 12. apríl 2025 50 km skíðaganga
    • Bláalónsþrautin, dagsetning 2025 ekki staðfest en síðast 8. júní 2024 60 km hjólreiðar
    • Þorvaldsdalsskokkið, dagsetning ekki staðfest 2025 en síðast 6. júlí 2024 25 km fjallahlaup
    • Urriðavatnssundið, dagsetning ekki staðfest 2025 en síðast 27. júlí 2024 2500 m vatnasund
    Æfingaáætlunin Fyrstu tvo mánuðina byggir æfingaáætlun Landvættahópsins alfarið á æfingagrunni Útihreyfingarinnar þar sem fjórar til fimm sameiginlegar æfingar eru í boði í hverri viku.
    • Á mánudagsmorgnum kl. 6:30 er farið á fjall fyrir vinnu. Mismunandi fjöll í nágrenni höfuðborgarsvæðisins verða fyrir valinu.1-1,5 klst.
    • Á þriðjudögum og fimmtudögum kl. 17:30 eru styrktar-, liðleika-, þrek- og sprettæfingar.1 klst.
    • Í hádeginu á miðvikudögum, kl. 12:15 er farið í sjóinn, oftast í Nauthólsvík. 30-40 mín.
    • Aðra helgi (helgi 2) í hverjum mánuði er æfing sem byrjar oftast kl. 9:30. Þetta getur verið gönguskíðaæfing í braut, hjólaæfing, hlaup eða stuttar fjallgöngur. 1-2 klst.
    • Fjórðu helgi (helgi 4) í hverjum mánuði er svo lengra helgarævintýri sem byrjar oftast kl. 9:30. Þetta geta verið lengri fjallgöngur, hjólaferðir eða ferðaskíðaferðir. 2-4 klst.
    Að auki er gert ráð fyrir að þátttakendur byrji strax þessa fyrstu mánuði á sérstöku prógrammi þar sem þeir hlaupa sig upp í gott 10 km form. Eftir því sem líður á prógrammið og nær dregur keppnunum sjálfum verður þjálfunin sérhæfðari með sértækari æfingaáætlun og þjálfun og aukaæfingum. Meðal annars taka allir í hópnum fjögur mislöng námskeið sem eru innifalin í þátttökugjaldinu: Þessi námskeið eru öll skipulögð þannig að þau henta bæði byrjendum sem og þeim sem eru lengra komnir. Þátttakendur þurfa því t.d. ekki að hafa grunn í skíðagöngu til að taka þátt. Þátttakendur í Landvættahópnum fara í gegnum upphafsviðtal um stöðu sína og markmið og fá markvissa endurgjöf, eftirfylgni og utanumhald allt tímabilið. Í gegnum allt námskeiðið er mikil kennsla og fræðsla, m.a. um tækni, búnað, keppnisundirbúning og keppnisnæringu. Þá eru fræðslu- og upplýsingafundir haldnir fyrir hverja keppnisgrein og þátttakendur fá stuðning og fylgni í gegnum keppnirnar sjálfar. Þjálfarar Sérmenntaðir þjálfarar og sérfræðingar með mikla þekkingu og reynslu í hverri grein fyrir sig koma að þjálfun Landvættahópsins. Þannig eru þjálfarar Útihreyfingarinnar allir með margfalda Landvættatitla og hafa þjálfað vel yfir 50% af öllum sem klárað hafa Landvættaþrautirnar frá upphafi. Það er því fyrir löngu búið að besta þetta æfingaprógram! Námskeiðið tekur 9 mánuði og kostar 161.100 kr. eða 17.900 kr. á mánuði. Hægt er greiða fyrir námskeiðið í einu lagi eða skipta greiðslum eins og hver og einn kýs inni í greiðsluferlinu sjálfu. Á meðan á námskeiðinu stendur eru þátttakendur meðlimir í Útihreyfingunni og njóta góðra afsláttarkjara í völdum verslunum. Viltu vita meira? Hér getur þú lesið allt um hvað það þýðir að verða Landvættur.
  • Námskeið í vetrarferðalögum Bóklegt 13. jan og verklegt 25.-26. jan Þátttakendur læra og æfa það helsta sem kunna þarf til að geta ferðast með öruggum hætti á ferðaskíðum (utanbrautarskíðum með stálköntum) um ótroðnar slóðir íslenskra óbyggða. Námskeiðið skiptist annars vegar í fræðslukvöld og hins vegar æfingaferð í nágrenni Reykjavíkur, þar sem markmiðið er að reyna sig í krefjandi en öruggum vetraraðstæðum. Á fræðslukvöldinu verður m.a. farið yfir hvaða útbúnað þarf til vetrarferðalaga á skíðum, hvernig tjöld, dýnur, svefnpoka og sleða / púlku best er að nota, þau öryggisatriði sem þarf að hafa í huga, hvernig á að velja tjaldstað og tjalda í snjó, hita vatn og næra sig, halda á sér hita og útbúa klósett! Á síðari hluta námskeiðsins er svo komið að því að nota þekkinguna í alvöru vetrarferðalagi. Gengið er á skíðum á laugardagsmorgni með farangurinn í eftirdragi og tjaldbúðir settar upp í snjó. Á leiðinni er skíðatæknin æfð, upp og niður brekkur sem og hliðrun í brattlendi. Hópurinn lærir og æfir að auki grunnatriði í leiðavali og rötun ásamt því hvernig á að moka út neyðarskýli í snjó og fleira. Áfangastaðurinn þessa æfingahelgi skiptir minna máli en ferðalagið sjálft og fer alfarið eftir snjóalögum og færð. Þó er stefnt að því að halda sig nálægt höfuðborgarsvæðinu. Námskeiðið kostar 52.000 kr og innifalið í verði er öll kennsla og æfingar, búnaðarfundur, leiðsögn og utanumhald.
  • Kajaknámskeið

    26.000 kr.
    Náðu tökum á tækninni 2. júní, 2025 Fátt er eins nærandi, draumkennt og dásamlegt og að líða hljóðlaust áfram á kajak í fullkominni sátt og tengingu við náttúruna. Á þessu þriggja klukkustunda námskeiði verður farið yfir þann grunn sem þarf til að geta bjargað sér á kajak og byrjað að lifa drauminn! Farið er yfir búnaðinn og áratökin útskýrð áður en allir koma sér fyrir, hver í sínum kajak og ýtt er úr vör. Í framhaldi eru áratökin æfð ásamt mismunandi aðferðum við að stýra kajaknum, halda réttri stefnu, beygja og snúa við. Farið er yfir undirstöðuatriðin í félagabjörgun og að lokum eru allir látnir velta kajaknum sínum til að æfa sig í því að komast klakklaust úr honum og upp í hann aftur. Mæting er við höfnina á Stokkseyri kl. 18 þar sem byrjað verður á því að taka til kajakana og klæða sig í viðeigandi fatnað áður en kennsla hefst. Þátttakendur fá allan nauðsynlegan búnað á námskeiðinu og þurfa aðeins að mæta í hlýjum fötum og með aukaföt til skiptanna. Ítarlegur upplýsingapóstur er sendur á þátttakendur í aðdraganda námskeiðs. Athugið að þetta námskeið eða sambærilegt námskeið og/eða reynsla er forkrafa inn í allar kajakferðir Útihreyfingarinnar svo sem Kajakferð á Hvítárvatn og Kajakferð í norska skerjagarðinn. Námskeiðið kostar 26.000 kr. og innifalið er kajakleiga, ár, toppur, svunta og björgunarvesti ásamt kennslu faglærðra kajakkennara.
  • Úti ferðaskíði. Námskeið

    24.000 kr.28.000 kr.
    Vikulegar æfingar á utanbrautarskíðum 8. janúar - 12. febrúar Markmið ferðaskíðahóps Útihreyfingarinnar eru þríþætt. Fyrst og fremst viljum við að þátttakendur læri vel á ferðaskíðin og skinnin og alla tækni við beitingu skíðanna. Við byrjum því veturinn á alls konar tækniæfingum. Bæði til að koma sér í gírinn fyrir skíðavertíðina en einnig til að mæta mismunandi getustigi. Þannig fá bæði byrjendur og lengra komnir eitthvað fyrir sinn snúð. Brekkur upp. Brekkur niður. Hliðarhalli. Mismunandi snjóalög, færi og undirlag. Allt þarf að læra á og æfa sig í að gera. Að auki verður ein æfing þar sem fólk getur fengið að skoða og prufa mismunandi sleða og púlkur. Í öðru lagi finnst okkur alltaf gaman að ganga á skíðum á nýjum stöðum. Við viljum því nota tækifærið til að kynna hópinn fyrir fjölbreyttum og skemmtilegum skíðaáfangastöðum í nágrenni Reykjavíkur. Og ekki er verra ef svæðið geymir einhverja sögu sem hægt er að fræðast um. Síðast en ekki síst viljum við í sameiningu skapa fallegan félagsskap fólks sem nærist á skemmtilegri samveru og útiveru og nýtur þess að leika sér úti við í öllum veðrum. Þetta er, og á alltaf að vera, BARA GAMAN :) Hópurinn hittist alls sjö sinnum. Einu sinni á fræðslufundi í upphafi, á fimm miðvikudagsgöngum og einni lengri laugardagsgöngu. Á fræðslufundinum verður farið yfir dagskrá vetrarins, allt skipulagið í kringum æfingarnar og nauðsynlegan búnað, muninn á mismunandi skíðum og skinnum etc. Miðvikudagsgöngurnar hefjast kl. 18, eru allar í nágrenni Reykjavíkur og reynt verður að miða við að það taki aldrei lengri tíma en að hámarki 40 mínútur að aka á upphafsstað göngunnar. Göngurnar sjálfar taka svo að meðaltali 1.5-2.5 klst. Í helgargöngunni leyfum við okkur að fara aðeins lengra og vera örlítið lengur á skíðunum. Stefnt er á göngu í jaðri Þingvallaþjóðgarðs, allt eftir snjóalögum og færi. Dagskrá námskeiðsins
    • Mið. 8. jan. Kl. 20. Fræðslufundur.
    • Mið. 15. jan. Kl. 18.
    • Mið. 22. jan. Kl. 18.
    • Mið. 29. jan. Kl. 18.
    • Mið. 5. feb. Kl. 18.
    • Lau. 8. feb. Kl. 10. Þingvellir
    • Mið. 12. feb. K. 18.
    Þátttakendur þurfa að eiga eða leigja ferðaskíði, þ.e. utanbrautarskíði með stálköntum. Hægt er að leigja skíði á nokkrum stöðum, m.a. hjá skíðaleigu Útilífs. Leiðbeinendur og fararstjórar eru Brynhildur Ólafsdóttir, Helga María Heiðarsdóttir og Róbert Marshall sem öll eru með réttindi hjá Félagi íslenskra fjallaleiðsögumanna og gilt skírteini í WFR eða Fyrstu hjálp í óbyggðum. Þau eru þrautreyndir leiðsögumenn sem á milli sín hafa þverað alla jökla landsins og Grænlandsjökul að auki, gengið þvers og kruss á ferðaskíðum á Íslandi og erlendis auk þess að búa yfir hafsjó af fróðleik og hafa menntað sig, ekki bara sem skíðakennarar (Brynhildur og Róbert), heldur líka í jarð- og jöklafræði (Helga María). Námskeiðið kostar 24 þúsund kr. fyrir þau sem æfa með Útihreyfingunni en 28 þúsund kr. fyrir aðra. Skráðir þátttakendur fá nánari upplýsingar í tölvupósti í aðdraganda námskeiðsins.
  • Jöklaáskorun Útihreyfingarinnar 29. mars Þetta ævintýri fer ofarlega á montlista alls fjallafólks, enda getum við fullyrt að um er að ræða eina allra fallegustu jökladagleið á Íslandi! Lagt er af stað í rauðabítið úr Reykjavík því þetta er löng dagleið og það þarf að nýta alla þá birtu sem gefst. Bílar eru skildir eftir við Skógafoss og hópnum skutlað með jepparútu að vesturrönd jökulsins, upp af Hamragarðaheiði, þar sem ferðalagið hefst. Gengið er á skíðunum sem leið liggur austur yfir jökulinn, yfir öskjuna og niður á Fimmvörðuháls eins langt og hægt er að skíða, en búast má við að ganga þurfi með skíðin á bakinu síðasta spölinn niður í bíla. Landslagið er gríðarfjölbreytt. Í fyrstu er löng en jöfn hækkun upp á öskjubrún, með hin fallegu Sker á vinstri hönd og óviðjafnanlegt útsýni yfir til Vestmannaeyja. Svo tekur við glíma við hájökulinn þar sem stundum þarf að skipta skíðum út fyrir jöklabrodda. Þegar komið er yfir öskjuna blasir Þórsmörk, Tindfjallajökull og reyndar allt Fjallabakið við skíðafólki ásamt kærkominni langri og mikilli brekku niður í átt að Mýrdalsjökli og svo áfram niður Fimmvörðuhálsinn meðfram gljúfrum og fossum Skógárinnar. Það er alltaf áskorun að fara upp á Eyjafjallajökul og þetta ferðalag er krefjandi, ekki síst vegna þess að um er að ræða 35-40 km langa dagleið. Við bendum fólki á að nota æfingahópinn Úti ferðaskíði og fjölbreyttar ferðaskíðaferðir Úthreyfingarinnar til að æfa sig á skíðunum. Þeir sem ekki eru vanir jöklaferðum þurfa að auki að hafa tekið námskeiðið Vetrarfjallamennska. Athugið að ef veðurspá er óhagstæð fyrir þennan laugardag, er mögulegt að ferðin verði færð yfir á sunnudag. Haldinn er rafrænn undirbúningsfundur í aðdraganda ferðar og skráðir þátttakendur fá ítarlegan upplýsinga- og búnaðarpóst. Nauðsynlegt er að eiga ferðaskíði, stafi með stórri kringlu og skinn undir skíðin, jöklaþrennuna; belti, brodda og ísöxi ásamt góðum bakpoka sem hægt er að hengja skíðin utan á. Ferðin kostar 58.000 kr. og innifalið er skutl með jepparútu á upphafsstað, undirbúningsfundur, leiðsögn og utanumhald. Jöklafarar Þessi ferð telst hluti af verkefninu Jöklafarar sem er jöklaáskorun Útihreyfingarinnar, þar sem gengið er á ferðaskíðum yfir sex stærstu jökla landsins. Sjá nánar hér.
  • Úti brautarskíði. Námskeið

    16.000 kr.20.000 kr.
    Stutt upphafsnámskeið á brautarskíðum Hefst 2. janúar með fræðslufundi Allir geta gengið á skíðum og allir ættu að læra þessa frábæru íþrótt sem reynir á allan líkamann og eykur úthald, þol og styrk. Við hjá Útihreyfingunni höldum því fram að hvort sem fólk stefni á frama og verðlaunapalla í skíðagöngukeppnum eða þverun jökla á ferðaskíðum með púlkur í eftirdragi, þá þurfi allir að byrja á því að læra undirstöðutæknina í skíðagöngu í braut. Grunntæknina verður að kenna í spori áður en sá lærdómur er yfirfærður yfir á ferðaskíðin þannig að fólk geti byrjað að láta skíðin vinna fyrir sig og svífi áfram í staðinn fyrir að þramma! Þetta námskeið er því bæði hugsað fyrir byrjendur á brautarskíðum sem og þá sem hafa hingað til aðeins gengið á ferðaskíðum en vilja bæta tæknina. Þetta er líka frábært upphafsnámskeið fyrir skíðavertíðina, þ.e. fyrir þá sem þegar kunna eitthvað á brautarskíðum, en þurfa að rifja upp grunntæknina og taktana! Námskeiðið hefst á rafrænum fræðslufundi þar sem fjallað er um hvað þarf að hafa í huga þegar kemur að búnaði, hver er munurinn á mismunandi skíðategundum, skíðaskóm og stöfum og hvernig á að klæða sig þegar gengið er á skíðum í spori. Á fyrstu æfingunni er svo komið að því að læra á búnaðinn, hvernig á að spenna á sig skíðin, hvernig best er að detta (því allir detta!) og taka fyrstu skíðagöngusveifluna :) Fyrstu þrjár æfingarnar eru skipulagðar dag eftir dag en einmitt með því að láta ekki of langan tíma líða á milli æfinga í upphafi, nær fólk mestum árangri og framförum. Lögð er megináhersla á að allir þátttakendur læri taktinn og nái tökum á vanaganginum, þ.e. klassíska sporinu í skíðagöngunni með alls konar tækniæfingum og leikjum. Að auki fá þátttakendur grunnkennslu í öðrum skíðagöngusporum svo sem ýtingum, ýtingum með frásparki, síldarbeinagangi upp brekkur og æfingu í því að renna niður brekkur. Hver kennslustund tekur um 2 klukkustundir og kennsla fer fram á skíðagöngusvæðinu í Bláfjöllum. Aðgangur að svæðinu er ekki innifalinn í verði. Dagskrá námskeiðsins
    • Fim. 2. jan. Kl. 20. Fræðslufundur
    • Lau. 4. jan. Kl. 10.
    • Sun. 5. jan. Kl. 10
    • Mán. 6. jan. Kl. 18
    • Sun. 12. jan. Kl. 10
    Athugið að veður og snjóalög setja mjög oft strik í reikninginn þegar kemur að lagningu skíðaspora og því gæti þurft að hliðra kennslunni til um einhverja daga. Þátttakendur þurfa að eiga eða leigja brautargönguskíði, gönguskíðaskó og stafi. Hægt er að leigja skíði á nokkrum stöðum, m.a. hjá skíðaleigu Everest. Leiðbeinendur á námskeiðinu eru Brynhildur Ólafsdóttir, Helga María Heiðarsdóttir og Róbert Marshall, þrautreynt skíðagöngufólk með réttindi. Námskeiðið kostar 16 þúsund kr. fyrir þá sem æfa með Útihreyfingunni en 20 þúsund kr. fyrir aðra. Skráðir þátttakendur fá nánari upplýsingar í tölvupósti í aðdraganda námskeiðsins.
  • Úti 102

    22.900 kr.

    NÁMSKEIÐ HEFST 4. MARS Fjögurra vikna framhaldsnámskeið fyrir fólk sem hefur farið á Úti 101 námskeið Útihreyfingarinnar eða er með einhvern grunn í útivist og langar til að bæta við sig; hlaupa lengra, fara hærra á fjöllum, og vera aðeins lengur ofan í sjónum. Æft er tvisvar til þrisvar í viku og mikið er um göngur, létt hlaup og þrekæfingar.

    Dagskrá námskeiðsins
    • Alla þriðjudaga kl. 17:30 Styrktar- og þrekæfingar með Útihreyfingunni. Æfingarnar fara fram á grænum svæðum í Reykjavík og nágrenni.
    • Alla fimmtudaga kl. 17:30 Tækni- og gæðaæfingar með Úti 102 þjálfara. Æfingarnar fara fram á grænum svæðum í Reykjavík og nágrenni.
    • Laugardagar / sunnudagar kl. 9:30 Tvær lengri helgaræfingar.
    Á Úti 102 er sérstök áhersla lögð á persónulegt utanumhald sem hefst með upphafsviðtali um markmið og væntingar. Námskeiðið er tilvalið fyrir þau sem vilja halda áfram að hreyfa sig, koma sér aftur af stað í útihreyfingu og einnig tilvalið fyrir þau sem hafa áhuga á að taka síðan þátt í Hálfvættanámskeiði Útihreyfingarinnar sem hefst í lok október 2025.
    Námskeiðið kostar 22.900 kr. og umsjón með því hefur Kristín Ýr Lyngdal.
  • Jöklaáskorun Útihreyfingarinnar 30. apríl - 7. maí Stórkostlegur vikulangur leiðangur þar sem sjálfur konungur jöklanna, Vatnajökull, er genginn endilangur á ferðaskíðum. Svona leiðangrar verða jafnan eitt af stærstu ævintýrunum í lífi hverrar manneskju. Við lofum ógleymanlegu, valdeflandi og krefjandi ferðalagi, fyrir bæði líkama og sál. Þátttakendur ganga á svokölluðum ferðaskíðum (utanbrautargönguskíðum með stálköntum) og draga púlkur / sleða með öllum farangrinum á eftir sér. Gist er í tjöldum á jöklinum í fjórar nætur en eina nótt í skála á Grímsfjalli. Gert er ráð fyrir að jöklagangan sjálf taki 6-7 daga en nokkrir dagar eru hafðir til vara ef hópurinn þarf að hafast við á jöklinum og bíða af sér veður og jafnframt til að gera ráð fyrir ferðalögum til og frá jökli. Það fer eftir færð og veðri í aðdraganda ferðar hvort gengið verður frá austri til vesturs eða frá vestri til austurs. Leiðangurinn hefst því annað hvort við Jöklasel á Skálafellsjökli við suðurbrún Vatnajökuls eða upp frá Jökulheimum undir Tungnaárjökli við vesturbrún jökulsins. Ógnarfegurð, alger kyrrð og mikil núvitund felst í svona löngu ferðalagi yfir jökul. Fegurðin getur stundum verið yfirþyrmandi. Rósrauð sólris og sólsetur einkenna jökulinn og á leiðinni gefst stórkostlegt útsýni á marga af hæstu tindum landsins. Oft er þó líka gengið í hrímþoku eða algerri hvítablindu sem reynir á skilningarvitin á allt annan hátt. Þegar ferðalagið er nokkurn veginn hálfnað, nánast á miðjum jöklinum, er komið á Grímsfjall við Grímsvatnaeldstöðina. Þar bíður vistlegur skáli Jöklarannsóknarfélagsins eftir göngufólkinu, hlýr og notalegur. Í skálanum er hægt að kjarna sig, elda dýrindismat, þurrka föt ef á þarf að halda og síðast en ekki síst láta þreytuna líða úr sér í goðsagnakenndu jöklagufubaði! Heildarvegalengd leiðangursins er 130 km og gert er ráð fyrir að hópurinn skíði 20-25 km á hverjum degi, eftir færð og veðri. Þetta er krefjandi ferð sem hentar vönu ferðafólki með reynslu af vetrarferðalögum eða fólki sem ætlar að nota veturinn fyrir leiðangurinn til að læra og æfa sig. Við bendum fólki á að nota æfingahópinn Úti ferðaskíði og námskeiðið Ferðast á gönguskíðum. Þeir sem ekki eru vanir jöklaferðum þurfa að auki að hafa tekið námskeiðið Vetrarfjallamennska. Gert er ráð fyrir að hópurinn hittist töluvert og kynnist fyrir ferð og æfi sig að einhverju leyti saman, en stungið verður upp á sameiginlegum ferðum og æfingum í aðdraganda leiðangursins. Brynhildur Ólafsdóttir og Helga María Heiðarsdóttir leiða ferðina en báðar eru mjög reynslumiklar og hafa leiðsagt fjölmargar ævintýraferðir, bæði hérlendis og erlendis. Þær eru með gilt Wilderness First Responder skírteini og hafa lokið réttindanámi hjá Félagi íslenskra fjallaleiðsögumanna (AIMG), bæði í fjalla- og jöklaleiðsögn. Ferðin kostar 265.000 kr. Athugið að hægt er að greiða ferðina í einu lagi eða skipta greiðslum eins og hver og einn kýs inni í greiðsluferlinu sjálfu. Innifalið í verðinu er gisting í eina nótt á Grímsfjalli, far með jepparútum til og frá Reykjavík og að og frá jökli, nokkrir undirbúningsfundir, aðstoð með búnað, næringu, æfingaáætlun og pökkun, ein óveðursútilega í aðraganda ferðar ásamt leiðsögn og utanumhaldi í sjálfum leiðangrinum. Jöklafarar Þessi ferð telst hluti af verkefninu Jöklafarar sem er jöklaáskorun Útihreyfingarinnar, þar sem gengið er á ferðaskíðum yfir sex stærstu jökla landsins. Sjá nánar hér.
  • Fjögurra mánaða æfingahópur fyrir stráka sem vilja koma sér af stað í hreyfingu og útivist.  Haldið einu sinni á ári og hefst í september. Hreyfinga- og ævintýrabræðralag fyrir stráka á öllum aldri sem vilja koma sér í og viðhalda góðu formi. Markmið hópsins er ná og tryggja líkamlega getu; þol, þrek, jafnvægi og liðleika fyrir útivist og ævintýri. Æfingaáætlunin byggir á fjölbreyttri hreyfingu og útivist í lokuðum hópi fyrstu vikurnar en svo taka við æfingar með æfingahópi Útihreyfingarinnar sem æfir tvisvar til þrisvar í viku, þriðjudaga og fimmtudaga kl. 17:30 og aðra hvora helgi, til skiptis á laugardögum og sunnudögum kl. 9:30. Þátttakendur taka fyrstu skrefin inn í nýjan lífsstíl þar sem hreyfing og útivera í samfélagi við aðra er megininntakið. Markmiðið er að koma sér í það form að geta æft með stærri hópum, gengið á fjöll, hlaupið, hjólað, synt og farið í sjóinn. Sameiginlegar göngur og styrktaræfingar ásamt hreyfingaáætlun þar sem áhersla er á stuttar daglegar göngur á virkum dögum. Í hádeginu alla miðvikudaga er hist í sjósundi í Nauthólsvík. Persónulegt upphafsviðtal og eftirfylgni ásamt fyrirlestrum um hreyfingu, mataræði og markmiðasetningu. Á meðan á námskeiðinu stendur eru þátttakendur meðlimir í Útihreyfingunni og njóta forgangs og afsláttarkjara í ferðir hreyfingarinnar, Úti ævintýri, auk góðra afsláttarkjara í völdum verslunum. Aðgangur að sjóbaðsaðstöðunni í Nauthólsvík er ekki innifalinn í verði. Hægt er að greiða fyrir þátttökuna í einu lagi eða skipta greiðslum eins og hver og einn kýs inni í greiðsluferlinu sjálfu. Umsjón með námskeiðinu hefur Róbert Marshall. Skráðir þátttakendur fá ítarlegan upplýsingapóst í aðdraganda námskeiðs.
  • Himneskir Jötunheimar. Ferðaskíði

    70.000 kr.272.000 kr.
    Skíðað á milli skála í Noregi 20.-25. mars Það má líkja Jötunheimum í Noregi við Fjallabak okkar Íslendinga. Þetta stórkostlega fjallahérað er eitt vinsælasta útivistarsvæði Norðmanna, umkringt jöklum og hæstu fjöllum landsins. Á milli fjallanna liggja stór og mikil vötn sem á veturnar bjóða upp á sannkallaðar himnabrautir fyrir skíðafólk á gönguskíðum. Á veturnar er líka aðeins hægt að ferðast um Jötunheima fótgangandi eða á skíðum og það gerum við í þessari ferð því gengið er á ferðaskíðum (utanbrautarskíðum með stálköntum) í alls fjóra daga og gist í huggulegum, hlýjum og fullþjónustuðum fjallaskálum. Fyrsti og síðasti dagurinn eru ferðadagar. Leiðangurinn hefst á lestarferðalagi frá Gardemoen flugvelli í Osló. Haldið er norður í Guðbrandsdal en þaðan er svo ekið með smárútu á fyrsta næturstaðinn, rómantískt sveitasetur með mikla sögu. Þar bíður góður kvöldmatur eldaður úr hráefni frá héraði og að auki sána og heitur pottur þar sem hægt er að láta ferðaþreytuna líða úr sér og undirbúa sig fyrir átök næstu daga. Eftir staðgóðan morgunmat næsta dag hefst skíðaferðalagið sjálft á því að gengið er inn í Jötunheimana. Þennan dag er gengið á skíðum um 24 km leið, allt á skíðabrautum í góðum skíðasporum. Þessa aðra nótt er svo gist í einum stærsta og þekktasta fjallaskála Norðmanna sem hefur verið starfræktur í tæplega 150 ár! Næstu þrjá daga er gengið á skíðunum á milli stórra og vel útbúinna skála þar sem boðið er upp á allan mat og þjónustu, hægt að kaupa drykki og ýmsan smávarning og komast í sturtu. Dagleiðirnar þessa þrjá daga eru um 20 km og tvær þeirra liggja að mestu eftir frosnum, rennisléttum fjallavötnum sem gerir færið jafnt og slétt og býður upp á magnað útsýni á fjöllin sem umlykja okkur á alla vegu. Síðasta daginn er skíðað til byggða, niður í lítið fjallaþorp þar sem gist er á góðu hóteli með heilsulind. Þar gerir hópurinn vel við sig í mat og drykk en um morguninn næsta dag er ekið með rútu beint á Gardemoen flugvöll í Osló, þar sem ferð lýkur um kl. 15 25. mars. Þátttakendur þurfa að hafa einhverja reynslu á gönguskíðum og gott er að undirbúa sig í aðdraganda ferðar með því að taka námskeið eða fara í æfingaferðir. Við mælum með æfingahópnum Úti ferðaskíði og bendum á mikið úrval skíðaferða inni í Ævintýrabúð Útihreyfingarinnar. Haldinn er rafrænn undirbúningsfundur fyrir ferð þar sem m.a. verður farið ítarlega yfir búnað og annað skipulag. Athugið að ekki er hægt að trússa farangur á milli fjallaskálanna og því er gengið á milli þeirra með lágmarksbúnað í bakpoka. Ef á þarf að halda, er hægt að geyma aukafarangur, meðan á ferðinni stendur, í farangursgeymslu á Gardemoen flugvelli, þar sem ferð hefst og lýkur. Fararstjórar eru Brynhildur Ólafsdóttir og Róbert Marshall. Innifalið í ferðinni sem kostar 272 þúsund er öll gisting, þ.e. þrjár nætur í fjallaskálum, ein á gistiheimili og ein á hóteli. Allur matur utan dagsnesti ferðadagana tvo, þ.e. fyrsta og síðasta daginn. Lestar- og rútufargjöld innan Noregs. Undirbúningsfundur, leiðsögn og utanumhald. Flug til og frá Noregs er ekki innifalið, en ferðin er skipulögð þannig að þátttakendur geta flogið út að morgni 20. mars, sama dag og leiðangurinn hefst og heim seinnipartinn, daginn sem honum lýkur, þ.e. 25. mars. Hægt er að greiða ferð að fullu eða greiða staðfestingargjald 70.000 kr og eftirstöðvar í síðasta lagi sex vikum fyrir ferð. Lágmarksþátttaka miðar við 10 manns.
  • Norski skerjagarðurinn. Kajak

    50.000 kr.197.000 kr.
    Fjórir himneskir ferðadagar á kajak 6.-10. ágúst, 2025 Róleg og nærandi kajakferð til Suður-Noregs þar sem ferðast er á milli fallegra og afskekktra eyja og skerja. Aðeins er róið stutt í einu, mikið staldrað við, skoðað, gengið, synt og slappað af. Svæðið er þekkt fyrir mikla náttúrufegurð og er hluti þess friðaður. Yfir öllu liggur andi gamals tíma, ró og friður. Fátt er eins viðeigandi og að ferðast á kajak um þetta svæði, renna hljóðlaust yfir hafflötinn og njóta nálægðarinnar við náttúruna og fjörlegt fuglalíf. Dagleiðirnar eru mjög stuttar eða frá 2 til 12 km og róið er innan skerjagarðsins í vari fyrir öldum úthafsins. Hópurinn stoppar oft til að njóta umhverfisins, fara í land, ganga og skoða sig um. Þeir sem vilja, geta róið meira útfrá náttstað. Að auki verðum við með veiðistangir og línur svo allir geta reynt sig við að veiða í matinn. Svo er auðvitað ómissandi að skella sér að minnsta kosti einu sinni á dag í hressandi sjósund en sjórinn er að öllu jöfnu um 20° á þessum árstíma. Gist er í þrjár nætur í skálum sem eru hver öðrum glæsilegri og standa allir á draumfögrum og afskekktum eyjum sem aðeins eru aðgengilegar sjóleiðina. Í öllum skálunum er fyrirtaks aðstaða og uppábúin rúm en fólk þarf að koma með eigin skálapoka / lakpoka. Hver og einn flytur sinn eigin farangur í kajaknum á milli gistiskálanna. Hópurinn flytur líka með sér mat og eldar saman í náttstað en auk þess verður stoppað á kaffihúsum og veitingastöðum sem finna má á sumum þeirra eyja sem heimsóttar verða. Ferðin tekur í heild fimm daga. Þar af er róið á kajak í fjóra daga en fyrsti dagurinn er ferðadagur. Þátttakendur koma sér til og frá Noregi á eigin vegum og gista í Osló eina nótt fyrir ferð og ef vill, eftir ferð. Hópurinn heldur af stað frá Osló með rútu snemma fimmtudaginn 7. ágúst og ferðinni lýkur í Osló sunnudagskvöldið 10. ágúst. Þátttakendur þurfa því að vera komnir til Oslóar í síðasta lagi miðvikudagskvöldið 6. ágúst og geta annað hvort flogið heim seint á sunnudagskvöld eða á mánudagsmorgun 11. ágúst. Athugið að kajaknámskeið og/eða einhver kajakreynsla er forkrafa inn í ferðina. Við bendum á byrjendanámskeið Útihreyfingarinnar sem tekur eitt kvöld og verður haldið 2. júní, 2025. Verð 197.000 kr. Innifalið: Gisting í 3 nætur, ferðir innan Noregs með rútum, strætóum og leigubílum, kajakleiga og allur tilheyrandi búnaður. Undirbúningsfundur, leiðsögn og utanumhald. Ekki innifalið: Flug til Noregs og gisting í Osló fyrir og eftir ferð. Hægt er að greiða ferð að fullu eða staðfestingargjald 50.000 kr. og eftirstöðvar í síðasta lagi sex vikum fyrir ferð. Lágmarksþátttaka miðar við 10 manns.

Title

Go to Top