Himneskir Jötunheimar. Ferðaskíði
70.000 kr. – 272.000 kr.
Skíðað á milli skála í Noregi
20.-25. mars
Það má líkja Jötunheimum í Noregi við Fjallabak okkar Íslendinga. Þetta stórkostlega fjallahérað er eitt vinsælasta útivistarsvæði Norðmanna, umkringt jöklum og hæstu fjöllum landsins. Á milli fjallanna liggja stór og mikil vötn sem á veturnar bjóða upp á sannkallaðar himnabrautir fyrir skíðafólk á gönguskíðum.
Á veturnar er líka aðeins hægt að ferðast um Jötunheima fótgangandi eða á skíðum og það gerum við í þessari ferð því gengið er á ferðaskíðum (utanbrautarskíðum með stálköntum) í alls fjóra daga og gist í huggulegum, hlýjum og fullþjónustuðum fjallaskálum.
Fyrsti og síðasti dagurinn eru ferðadagar. Leiðangurinn hefst á lestarferðalagi frá Gardemoen flugvelli í Osló. Haldið er norður í Guðbrandsdal en þaðan er svo ekið með smárútu á fyrsta næturstaðinn, rómantískt sveitasetur með mikla sögu. Þar bíður góður kvöldmatur eldaður úr hráefni frá héraði og að auki sána og heitur pottur þar sem hægt er að láta ferðaþreytuna líða úr sér og undirbúa sig fyrir átök næstu daga.
Eftir staðgóðan morgunmat næsta dag hefst skíðaferðalagið sjálft á því að gengið er inn í Jötunheimana. Þennan dag er gengið á skíðum um 24 km leið, allt á skíðabrautum í góðum skíðasporum. Þessa aðra nótt er svo gist í einum stærsta og þekktasta fjallaskála Norðmanna sem hefur verið starfræktur í tæplega 150 ár!
Næstu þrjá daga er gengið á skíðunum á milli stórra og vel útbúinna skála þar sem boðið er upp á allan mat og þjónustu, hægt að kaupa drykki og ýmsan smávarning og komast í sturtu. Dagleiðirnar þessa þrjá daga eru um 20 km og tvær þeirra liggja að mestu eftir frosnum, rennisléttum fjallavötnum sem gerir færið jafnt og slétt og býður upp á magnað útsýni á fjöllin sem umlykja okkur á alla vegu.
Síðasta daginn er skíðað til byggða, niður í lítið fjallaþorp þar sem gist er á góðu hóteli með heilsulind. Þar gerir hópurinn vel við sig í mat og drykk en næsta dag er ekið með rútu beint á Gardemoen flugvöll í Osló, þar sem flogið er heim til Íslands, nú eða hvert á land sem er!
Þátttakendur þurfa að hafa einhverja reynslu á gönguskíðum og gott er að undirbúa sig í aðdraganda ferðar með því að taka námskeið eða fara í æfingaferðir.
Haldinn er rafrænn undirbúningsfundur fyrir ferð þar sem m.a. verður farið ítarlega yfir búnað og annað skipulag.
Fararstjórar eru Brynhildur Ólafsdóttir og Róbert Marshall.
Innifalið í ferðinni sem kostar 272 þúsund er öll gisting, þ.e. þrjár nætur í fjallaskálum, ein á gistiheimili og ein á hóteli. Allur matur utan dagsnesti ferðadagana tvo, þ.e. fyrsta og síðasta daginn. Lestar- og rútufargjöld innan Noregs. Undirbúningsfundur, leiðsögn og utanumhald.
Flug til og frá Noregs er ekki innifalið, en ferðin er skipulögð þannig að þátttakendur geta flogið út að morgni 20. mars, sama dag og leiðangurinn hefst og heim daginn sem honum lýkur, þ.e. 25. mars.
Hægt er að greiða ferð að fullu eða greiða staðfestingargjald 70.000 kr og eftirstöðvar í síðasta lagi sex vikum fyrir ferð. Lágmarksþátttaka miðar við 10 manns.