Drangajökull Ferðaskíði

UPPSELT

Þrír dagar á ferðaskíðum
29. apríl-1. maí

Þriggja daga skíðaferð yfir Drangajökul, í hinn draumfagra Reykjarfjörð á Ströndum þar sem heit sundlaug býður ferðalanganna. Gist í Reykjarfirði í tvær nætur.

Skíðað er á ferðaskíðum yfir jökulinn með svefnpoka og vistir í bakpoka.

Ferðin hefst að morgni laugardagsins 29. apríl í Kaldalóni við Ísafjarðardjúp. Þar er stigið á skíðin, byrðar axlaðar og haldið sem leið liggur upp á Drangajökul. Gengið er yfir jökulinn, með viðkomu á hæsta tindi, Hrolleifsborg, ef aðstæður leyfa, og svo niður í Reykjarfjörð, alls um 25 km leið.

Enginn vegur liggur í Reykjarfjörð sem fór í eyði árið 1964 og því er aðeins fært þangað gangandi, skíðandi eða á bát. Afkomendur síðustu ábúendanna hafa viðhaldið gömlu húsunum og hópurinn gistir einmitt í svokölluðu Gamlahúsi.

Á sunnudaginn mun hópurinn halda kyrru fyrir í Reykjarfirði, skoða nágrennið og liggja í bleyti í hinni víðfrægu bláu sundlaug sem er ótrúlegur unaðsreitur inni í þessu landslagi. Laugin er engin smásmíð eða 8×20 metrar og var reist af mikilli framsýni árið 1938.

Eldsnemma mánudaginn 1. maí er svo gengið á skíðunum aftur til baka yfir Drangajökul og í bílana sem bíða í Kaldalóni.

Þátttakendur þurfa að hafa einhverja reynslu á ferðaskíðum.

Haldinn verður rafrænn undirbúningsfundur í aðdraganda ferðar og skráðir þátttakendur fá ítarlegan upplýsinga- og búnaðarpóst.

Innifalið: Gisting í tvær nætur, undirbúningsfundur, leiðsögn og utanumhald.

 

Ef þú vilt skrá big á biðlista í þessa ferð – sendu þá póst á utihreyfingin@utihreyfingin.is

Title

Go to Top