-
Geirmundartindur í Akrafjalli 9. mars Ganga á Akrafjall er alltaf skemmtileg. Ekki síst því Akrafjallið kemur öllum á óvart með fjölbreytileika, útsýni og krefjandi tindum. Geirmundartindur er annar tveggja hápunkta fjallsins en jafnframt sá sem er sjaldfarnari. Fyrir þá sem hafa bara farið á Háahnjúk, að sunnanverðu, er þetta eiginlega skylduganga því hér gefst frábært færi á að virða fyrir sér Leirársveitina og Skarðsheiðina, já og allt Vesturland í einni hendingu af stórglæsilegum fjallstoppi. Þetta er jafnframt tilvalin fjallganga fyrir þau sem þjást af örlítilli lofthræðslu því ekkert er betra til að læknast af slíkum óþarfa en að æfa sig í því að ganga á öruggum fjallaslóðum sem jafnframt eru í nokkurri hæð. Gangan hefst kl. 9 frá bílastæðinu undir Akrafjalli og fyrst um sinn er gengið á fjölförnum slóða upp í mynni Berjadals sem klýfur fjallið nánast í sundur. Þetta er leiksvæði Skagamanna sem nota Akrafjall sem nokkurs konar líkamsræktarstöð og margir ganga hér um að minnsta kosti einu sinni í viku! Það er brattgengt upp úr Berjadalnum, norður eftir eggjum fjallsins og upp á Geirmundartind. Slóðin er að auki grýtt yfirferðar á köflum og því seinfarin en verðlaunin eru því meiri og betri þegar upp er komið. Leiðin fram og til baka er um 7 km með um 600 m hækkun og gera má ráð fyrir að gangan fram og til baka taki um 4 klst. Skráðir þátttakendur fá ítarlegan tölvupóst með ferðalýsingu og búnaðarlista í aðdraganda ferðar. Í þessari fjallgöngu er gengið með Útigenginu, fjallgönguhópi Útihreyfingarinnar. Í Útigenginu er gleðin í fyrirrúmi og dagskráin hentar fyrir þau sem langar að kynnast fjöllum og stöðum í nágrenni Reykjavíkur. Tilvalinn hópur fyrir fólk sem er að taka sín fyrstu skref í fjallgöngum eða þau sem langar að dusta rykið af göngubúnaðinum og vilja kynnast öðru útivistarfólki, nýjum stöðum og bæta við færni sína á fjöllum.
-
Jöklaáskorun Útihreyfingarinnar 12.-14. apríl Þriggja daga skíðaferð yfir Drangajökul, í hinn draumfagra Reykjarfjörð á Ströndum þar sem ómótstæðileg heit sundlaug bíður ferðalanga. Skíðað er á ferðaskíðum yfir jökulinn með svefnpoka og vistir í bakpoka og gist í Reykjarfirði í tvær nætur. Ferðin hefst snemma að morgni laugardags 12. apríl í Kaldalóni við Ísafjarðardjúp. Þar er stigið á skíðin, byrðar axlaðar og haldið sem leið liggur upp á Drangajökul. Gengið er yfir jökulinn og niður í Reykjarfjörð, alls um 25 km leið. Enginn vegur liggur í Reykjarfjörð sem fór í eyði árið 1964 og því er aðeins fært þangað gangandi, skíðandi eða á bát. Afkomendur síðustu ábúendanna hafa viðhaldið gömlu húsunum og hópurinn gistir einmitt í svokölluðu Gamlahúsi. Á sunnudaginn mun hópurinn halda kyrru fyrir í Reykjarfirði, skoða nágrennið og liggja í bleyti í hinni víðfrægu bláu sundlaug sem er ótrúlegur unaðsreitur inni í þessu landslagi. Laugin er engin smásmíð eða 8x20 metrar og var reist af mikilli framsýni árið 1938. Eldsnemma mánudaginn 14. apríl, í upphafi Dymbilviku, er svo gengið á skíðunum aftur til baka yfir Drangajökul og í bílana sem bíða í Kaldalóni. Ef veðurspá er sérlega óhagstæð þessa þrjá daga, verður skoðað að hnika ferðinni til um 1-2 daga. Dagleiðirnar eru langar og þátttakendur þurfa að hafa nokkuð gott vald á ferðaskíðum og reynslu af ferðalögum á skíðum. Við bendum fólki á að nota æfingahópinn Úti ferðaskíði og fjölbreyttar ferðaskíðaferðir Úthreyfingarinnar til að æfa sig á skíðunum. Þeir sem ekki eru vanir jöklaferðum þurfa að auki að hafa tekið námskeiðið Vetrarfjallamennska. Athugið að Útihreyfingin er búin að taka frá svefnpokapláss fyrir hópinn nóttina fyrir brottför, skammt frá Kaldalóni. Þeir sem það vilja, geta keypt sér gistingu þar og þá sofið lengur að morgni brottfarardagsins! Haldinn er rafrænn undirbúningsfundur í aðdraganda ferðar og skráðir þátttakendur fá ítarlegan upplýsinga- og búnaðarpóst. Nauðsynlegt er að eiga ferðaskíði, stafi með stórri kringlu og skinn undir skíðin, jöklaþrennuna; belti, brodda og ísöxi ásamt góðum bakpoka sem hægt er að hengja skíðin utan á. Ferðin kostar 105.000 kr. og innifalið er gisting í tvær nætur í Reykjarfirði, undirbúningsfundur, leiðsögn og utanumhald. Hægt er að greiða ferðina í einu lagi eða skipta greiðslum eins og hver og einn kýs inni í greiðsluferlinu sjálfu. Jöklafarar Þessi ferð telst hluti af verkefninu Jöklafarar sem er jöklaáskorun Útihreyfingarinnar, þar sem gengið er á ferðaskíðum yfir sex stærstu jökla landsins. Sjá nánar hér.
-
Ævintýri lífsins! 5.-17. nóvember 2025 Komdu með okkur í hið fullkomna Himalaya ævintýri upp í hinar goðsagnakenndu grunnbúðir Everest! Að komast upp í Everest Base Camp er alltaf mikið afrek og í raun lífsbreytandi ferðalag. Þessi ferð bíður upp á að haka þetta ævintýri út af draumaferðalistanum - undir faglegri og öruggri fararstjórn. Á níu dögum göngum við í gegnum fögur Sherpa þorp, forn klaustur og mismunandi gróðurlendi í stórkostlegum fjallasölum Himalaya. Við göngum í skugga hæstu fjalla jarðar, yfir hengibrýr sem hanga yfir beljandi jökulfljótum og njótum útsýnisins á Everestfjall og nágranna þess, útsýni sem mun gera þig orðlausa. Hópurinn gistir á krúttlegum tehúsum á leiðinni og kynnist hinni dásamlegu nepölsku menningu og upplifir nepalska matargerð. Á boðstólum er líka nóg af afslöppun og gæðatíma. Á leiðinni til baka gefst svo einstakt tækifæri til að skoða gönguleiðina og hæstu tinda veraldar úr lofti. Því af hverju að ganga sömu leið til baka þegar þú getur svifið yfir hið stórkostlega landslag Himalaya og skoðað útsýnið í einkaþyrlu? Ferðin byrjar og endar í höfuðborg Nepal, Katmandu þar sem gist verður á fimm stjörnu hóteli. Í lok ferðar verða litríkar og fjölskrúðugar götur Kathmandu skoðaðar, ásamt fornum musterum, og stöðum sem eru á heimsminjaskrá UNESCO. Þessi ferð er svo miklu meira en bara gönguferð. Þetta er ævintýraferð sem skilur eftir sig fullan poka af ógleymanlegum minningum. Helga María, leiðsögukona Útihreyfingarinnar í þessari ferð, hefur ferðast og gengið víða í Nepal og meðal annars mikið á þessu svæði og er að auki með mikla reynslu af ferðalögum í hæð. Helga María er með réttindi frá Félagi íslenskra fjallaleiðsögumanna og gilt Wilderness First Responder skírteini, áratuga reynslu af leiðsögn og hefur leiðsagt óteljandi ferðir bæði hérlendis sem erlendis. Hún er einnig land- og jöklafræðingur, þekkir jarðfræði og sögu Himalaya vel og hefur einstaklega gaman að því að deila þeim fróðleik með þeim sem ferðast með henni. Innifalið í ferðinni sem kostar 565 þúsund er íslensk fararstjórn, undirbúningsfundir og aðstoð við undirbúning, nepalskur leiðsögumaður og burðarmenn, öll ferðalög innanlands í Nepal (rútur, flug, þyrluferð), matur á meðan göngu stendur, gisting í tehúsum í göngunni, gisting á 5 stjörnu hótelum í Kathmandu, þjóðgarðsgjöld, skoðunarferð um sögufræga staði í Kathmandu og sameiginlegur kveðju kvöldverður. Athugið að flug til að frá Nepal er ekki innifalið. Heldur ekki vegabréfsáritun, ferðatryggingar, þjórfé fyrir nepalskt starfsfólk, matur í Kathmandu (fyrir utan loka kvöldverð), öll persónuleg útgjöld og annað sem ekki er tekið fram að sé innifalið. Ferðin er unnin í samstarfi við vini okkar hjá Himalayan Outdoor Project. Lágmarksþátttaka miðar við 8 manns en hópurinn getur að hámarki talið 12 manns. Staðfestingargjald skal greiða í síðasta lagi fyrir 1. maí en eftirstöðvar ferðarinnar eru greiddar í síðasta lagi sex vikum fyrir ferð. Einfalt er að dreifa greiðslum með því að senda póst á Útihreyfinguna.
-
Jöklaáskorun Útihreyfingarinnar 29. mars Þetta ævintýri fer ofarlega á montlista alls fjallafólks, enda getum við fullyrt að um er að ræða eina allra fallegustu jökladagleið á Íslandi! Lagt er af stað í rauðabítið úr Reykjavík því þetta er löng dagleið og það þarf að nýta alla þá birtu sem gefst. Bílar eru skildir eftir við Skógafoss og hópnum skutlað með jepparútu að vesturrönd jökulsins, upp af Hamragarðaheiði, þar sem ferðalagið hefst. Gengið er á skíðunum sem leið liggur austur yfir jökulinn, yfir öskjuna og niður á Fimmvörðuháls eins langt og hægt er að skíða, en búast má við að ganga þurfi með skíðin á bakinu síðasta spölinn niður í bíla. Landslagið er gríðarfjölbreytt. Í fyrstu er löng en jöfn hækkun upp á öskjubrún, með hin fallegu Sker á vinstri hönd og óviðjafnanlegt útsýni yfir til Vestmannaeyja. Svo tekur við glíma við hájökulinn þar sem stundum þarf að skipta skíðum út fyrir jöklabrodda. Þegar komið er yfir öskjuna blasir Þórsmörk, Tindfjallajökull og reyndar allt Fjallabakið við skíðafólki ásamt kærkominni langri og mikilli brekku niður í átt að Mýrdalsjökli og svo áfram niður Fimmvörðuhálsinn meðfram gljúfrum og fossum Skógárinnar. Það er alltaf áskorun að fara upp á Eyjafjallajökul og þetta ferðalag er krefjandi, ekki síst vegna þess að um er að ræða 35-40 km langa dagleið. Við bendum fólki á að nota æfingahópinn Úti ferðaskíði og fjölbreyttar ferðaskíðaferðir Úthreyfingarinnar til að æfa sig á skíðunum. Þeir sem ekki eru vanir jöklaferðum þurfa að auki að hafa tekið námskeiðið Vetrarfjallamennska. Athugið að ef veðurspá er óhagstæð fyrir þennan laugardag, er mögulegt að ferðin verði færð yfir á sunnudag. Haldinn er rafrænn undirbúningsfundur í aðdraganda ferðar og skráðir þátttakendur fá ítarlegan upplýsinga- og búnaðarpóst. Nauðsynlegt er að eiga ferðaskíði, stafi með stórri kringlu og skinn undir skíðin, jöklaþrennuna; belti, brodda og ísöxi ásamt góðum bakpoka sem hægt er að hengja skíðin utan á. Ferðin kostar 58.000 kr. og innifalið er skutl með jepparútu á upphafsstað, undirbúningsfundur, leiðsögn og utanumhald. Jöklafarar Þessi ferð telst hluti af verkefninu Jöklafarar sem er jöklaáskorun Útihreyfingarinnar, þar sem gengið er á ferðaskíðum yfir sex stærstu jökla landsins. Sjá nánar hér.
-
Einn af þessum stóru! 26. apríl Klassísk jöklaganga á Hámund í Eyjafjallajökli, sem telst einn af flottari jöklatindum landsins. Gígur Eyjafjallajökuls er prýddur fjórum tindum og er Hámundur sá hæsti, rís í 1620 m hæð og er einn af hundrað hæstu tindum landsins. Útsýnið af jöklinum á sér vart hliðstæðu. Bæði er fádæma fallegt útsýni yfir suðurströndina og til Vestmannaeyja sem jökullinn er kenndur við og þegar upp á Hámund er komið opnast að auki sýn yfir öskjuna og norður um allt Fjallabak. Gengið er upp frá Seljavöllum, sunnan undir jöklinum og sömu leið niður aftur. Leiðin liggur alveg frá upphafi nánast viðstöðulaust upp í mót en alls er hækkunin um 1500 m. Þegar komið er á jökul, fara allir í jöklabelti og ganga í línu. Mjög líklega verða jöklabroddar nauðsynlegir þegar ofar dregur og þá er ísöxin sjaldan langt undan. Þetta er erfið uppganga sem krefst líkamlegrar hreysti og andlegs styrks. Gera má ráð fyrir að gangan taki 8-12 tíma, allt eftir aðstæðum. Þátttakendur ættu að miða við að geta gengið upp að Steini í Esjunni á undir klukkutíma. Þeir sem ekki eru vanir jöklaferðum, þurfa að auki að hafa tekið námskeiðið Vetrarfjallamennska. Á jöklum er auðvitað allra veðra von og að auki er gengið upp í töluverða hæð, svo að nauðsynlegt er að vera vel útbúinn með hlý, vatns-, og vindþétt utanyfirföt og gott nesti. Athugið að ef veðurspá er óhagstæð fyrir þennan laugardag, er mögulegt að ferðin verði færð yfir á sunnudag. Skráðir þátttakendur verða boðaðir á rafrænan upplýsingafund og fá ítarlegan upplýsinga- og búnaðarpóst í aðdraganda ferðar. Að lágmarki er nauðsynlegt að eiga góða gönguskó, dagpoka og jöklaþrennuna; belti, brodda og ísöxi. Hægt er að leigja jöklaþrennuna, m.a. hjá Útilífi. Ferðin kostar 18.900. Innifalið í verði er leiðsögn, utanumhald og rafrænn upplýsingafundur í aðdraganda ferðar. Í þessari fjallgöngu er gengið með Útigenginu, fjallgönguhópi Útihreyfingarinnar sem æfir sig frá áramótum í því að ganga á fjöll með það að takmarki að ganga á Eyjafjallajökul að vori.
-
Námskeið í vetrarferðalögum Bóklegt 13. jan og verklegt 25.-26. jan Þátttakendur læra og æfa það helsta sem kunna þarf til að geta ferðast með öruggum hætti á ferðaskíðum (utanbrautarskíðum með stálköntum) um ótroðnar slóðir íslenskra óbyggða. Námskeiðið skiptist annars vegar í fræðslukvöld og hins vegar æfingaferð í nágrenni Reykjavíkur, þar sem markmiðið er að reyna sig í krefjandi en öruggum vetraraðstæðum. Á fræðslukvöldinu verður m.a. farið yfir hvaða útbúnað þarf til vetrarferðalaga á skíðum, hvernig tjöld, dýnur, svefnpoka og sleða / púlku best er að nota, þau öryggisatriði sem þarf að hafa í huga, hvernig á að velja tjaldstað og tjalda í snjó, hita vatn og næra sig, halda á sér hita og útbúa klósett! Á síðari hluta námskeiðsins er svo komið að því að nota þekkinguna í alvöru vetrarferðalagi. Gengið er á skíðum á laugardagsmorgni með farangurinn í eftirdragi og tjaldbúðir settar upp í snjó. Á leiðinni er skíðatæknin æfð, upp og niður brekkur sem og hliðrun í brattlendi. Hópurinn lærir og æfir að auki grunnatriði í leiðavali og rötun ásamt því hvernig á að moka út neyðarskýli í snjó og fleira. Áfangastaðurinn þessa æfingahelgi skiptir minna máli en ferðalagið sjálft og fer alfarið eftir snjóalögum og færð. Þó er stefnt að því að halda sig nálægt höfuðborgarsvæðinu. Námskeiðið kostar 52.000 kr og innifalið í verði er öll kennsla og æfingar, búnaðarfundur, leiðsögn og utanumhald.
-
Upplifunarveisla fyrir sál og líkama 21.-28. apríl Í þessari ferð þarf oft að stoppa. Anda inn. Anda út. Og andvarpa svo af ánægju yfir lífsins lystisemdum. Gengið er á aldagömlum steinlögðum stígum um Tramuntana fjöllin á spænsku eyjunni Mallorca. Á milli friðsælla strand- og fjallaþorpa, um ilmandi appelsínu- og sítrónulundi, gil og klettaborgir, blágræn fjallavötn og litlar víkur. Fjölbreytt dýralíf, marglitt blómskrúð og ævaforn, kræklótt ólífutré gleðja augað við hvert fótmál. Svo ekki sé talað um matinn! Ferskur fiskur, ferskur appelsínusafi, sælkeratómatar, ólífur fyrir alla bragðlauka, brakandi súrdeigsbrauð, bragðsterkar harðpulsur og ótrúlegir eftirréttir úr möndlum og hunangi sem hvoru tveggja eru þekktar landbúnaðarafurðir frá eyjunni. Þetta er hlið á Mallorca sem fæstir kynnast og er í órafjarlægð og hrópandi andstöðu við háværa strandbari og yfirfullar sólarstrendur sem er ímynd flestra af þessari fallegu Miðjarðarhafseyju. Ferðin tekur alls átta daga en fyrsti og síðasti dagurinn eru ferðadagar. Gengið er í fimm daga og dagleiðirnar eru frekar þægilegar og engin lengri en 15 km. Einn hvíldardagur er inni í miðri ferð ásamt því að næstsíðasta daginn er aðeins gengið í tæpar 2 klst að morgni áður en við tekur afslöppun og dekur. Gist er í fjórar nætur á gistiheimilum, tvær nætur í fjallaskálum og eina nótt á lúxushóteli. Athugið að þar sem ekki er hægt að trússa farangur í fjallaskálana þá þurfa þátttakendur að ganga með bakpoka með fötum til skiptanna. Annar farangur verður fluttur á lokahótelið og bíður þar. Ferðin hefst í Barcelona um seinnpart mánudaginn, 21. apríl, þaðan sem hópurinn flýgur saman til Mallorca. Frá flugvellinum er ferðast í smárútu upp í Tramuntana fjöllin og fyrstu nóttina er gist í sögufrægu og afar fallegu fjallaþorpi, þar sem tími gefst til að skoða sig um og snæða góðan kvöldverð. Daginn eftir er gengið yfir Tramuntana fjallgarðinn og byrjað á því að ganga upp á ríflega 900 metra hátt fjall þar sem stórkostlegt útsýni opnast yfir stóran hluta Mallorca. Svo er fetað hægt og rólega niður bratt gil og niður í annað ekki síður fallegt fjallaþorp þar sem gist er um nóttina. 14 km. 500 m hækkun. Á þriðja degi er þræddur stígur sem liggur um friðsæla aldinlundi meðfram norðurströnd eyjunnar með útsýni yfir blágrænt hafið. Þennan dag er gist í litlum strandbæ þar sem hægt er að busla í sjónum og gæða sér á nýveiddu fiskmeti. 14 km. 250 m hækkun. Fjórði dagur ferðarinnar er menningarlegur afslöppunardagur. Morguninn er letilegur og kannski verður farið í sjóinn áður en ferðast er með opnum sporvagni inn í næsta þorp. Þar er hægt að skoða lítil söfn með verkum Picasso og Miró, rölta á milli búða og bragða á dæmigerðum réttum eyjunnar. Fimmti dagurinn er lengsti og erfiðasti göngudagurinn og því er gott að hafa safnað kröftum daginn áður. Gengið er á góðum stíg upp þverbratt en geysifagurt gil, framhjá uppistöðulónum, gegnum lítil jarðgöng og í huggulegan fjallaskála þar sem gist er um nóttina. 15 km. 1200 m hækkun. Á sjötta degi er byrjað á því að lækka sig niður úr fjöllunum áður en gengið er aftur upp og nú upp á snarbratta en hreint ótrúlega klettaborg sem hýsir gamla kapellu og kastala sem búið er að breyta í fjallaskála. Útsýnið er óviðjafnanlegt og næturstaðurinn svo einstakur að honum verður vart lýst með orðum. Þetta er einfaldlega eitthvað sem fólk verður að upplifa á eigin skinni! 15 km. 600 m hækkun. Að morgni næsta dags er gengið í um 7 km niður af klettaborginni og í næsta þorp þar sem smárúta bíður til að flytja hópinn á lúxushótel við draumfagra strönd. Þar er hægt að láta gönguþreytuna líða úr sér í algjöru dekri, marflöt undir sólhlíf, synda í tærum sjó og snæða saman síðustu kvöldmáltíðina. Snemma síðasta daginn ferðast hópurinn með rútu á flugvöllinn í Mallorca og flýgur til Barcelona þar sem ferð lýkur í tæka tíð til að hægt sé að ná flugi seinnipart dags heim til Íslands eða hvert á land sem er. Leiðsögumenn ferðarinnar eru Brynhildur Ólafsdóttir og Róbert Marshall. Innifalið í ferðinni, sem kostar 305 þúsund er flug frá Barcelona til Mallorca og til baka, gisting í sjö nætur, allur morgunmatur og tvær kvöldmáltíðir, allar ferðir og flutningur á farangri innan Mallorca, undirbúningsfundur, leiðsögn og utanumhald. Athugið að flug til og frá Barcelona er ekki innifalið en ferðin er skipulögð þannig að þátttakendur geta flogið frá Íslandi til Barcelona, á upphafsdegi ferðarinnar, þ.e. snemma sunnudaginn 20. apríl og heim frá Barcelona, sama dag og ferð líkur, þ.e. mánudaginn 28. apríl. Lágmarksþátttaka miðar við 10 manns en sökum þess að staðfesta þarf gistingu í fjallaskálunum að lágmarki 4 mánuði fyrir ferð, þá er nauðsynlegt að greiða staðfestingargjald ferðarinnar FYRIR 20. DESEMBER. Eftirstöðvar ferðarinnar eru síðan greiddar í síðasta lagi sex vikum fyrir ferð.
-
Ævintýralega góð gjöf Dýrmætasta gjöfin er alltaf samvera með þeim sem þér þykir vænt um. Og það verður ekki betra en þegar samveran er í formi skemmtilegrar útivistar þar sem allir leika sér saman. Gefðu þér eða þínum gjafabréf sem gildir í alla útihreyfingu, námskeið eða ævintýri Útihreyfingarinnar. Það er hægt er að velja upphæð hér að neðan. Svo má senda póst á utihreyfingin@utihreyfingin.is til að gefa gjafabréf með upphæð að eigin vali eða til að panta gjafabréf inn í sérstaka ævintýraferð með Útihreyfingunni. Gjafabréfið kemur fallega uppsett í tölvupósti til útprentunar.
-
Æfingar eru hafnar Hægt er að slást í hópinn til áramóta
... Besta áskorun lífs þíns! Þjálfun og undirbúningur til að ljúka hálfum vegalengdum Landvættaáskorunarinnar sem kallar á að þátttakendur ljúki fjórum þrautum í fjórum landshlutum á innan við ári. Þrautirnar felast í skíðagöngukeppni, hjólreiðakeppni, fjallahlaupi og vatnasundskeppni. Stórskemmtileg áskorun til að komast í gott form og þjálfa sig í alls konar útiíþróttum. Þetta er til dæmis heppilegur næsti áfangi fyrir þá sem hafa lokið Úti 101 námskeiðinu. Dagsetningar þrautanna fjögurra- Fossavatnsgangan 12. apríl 2025 25 km skíðaganga
- Bláalónsþrautin, dagsetning ekki staðfest en síðast 8. júní 2024 30 km hjólreiðar
- Þorvaldsdalsskokkið, dagsetning ekki staðfest en síðast 6. júlí 2024 16 km fjallahlaup
- Urriðavatnssundið, dagsetning ekki staðfest en síðast 27. júlí 2024 1250 m vatnasund
- Á mánudagsmorgnum kl. 6:30 er farið á fjall fyrir vinnu. Mismunandi fjöll í nágrenni höfuðborgarsvæðisins verða fyrir valinu. 1-1,5 klst.
- Á þriðjudögum og fimmtudögum kl. 17:30 eru styrktar-, liðleika-, þrek- og sprettæfingar. 1 klst.
- Í hádeginu á miðvikudögum, kl. 12:15 er farið í sjóinn, oftast í Nauthólsvík. 30-40 mín.
- Aðra helgi (helgi 2) í hverjum mánuði er æfing sem byrjar oftast kl. 9:30. Þetta getur verið gönguskíðaæfing í braut, hjólaæfing, hlaup eða stuttar fjallgöngur. 1-2 klst.
- Fjórðu helgi (helgi 4) í hverjum mánuði er svo lengra helgarævintýri sem byrjar oftast kl. 9:30. Þetta geta verið lengri fjallgöngur, hjólaferðir eða ferðaskíðaferðir. 2-4 klst.
- Úti brautarskíði
- Úti fjallahjól
- Úti langhlaup
- Úti villisund
-
Skíðað á milli skála í Noregi 20.-25. mars Það má líkja Jötunheimum í Noregi við Fjallabak okkar Íslendinga. Þetta stórkostlega fjallahérað er eitt vinsælasta útivistarsvæði Norðmanna, umkringt jöklum og hæstu fjöllum landsins. Á milli fjallanna liggja stór og mikil vötn sem á veturnar bjóða upp á sannkallaðar himnabrautir fyrir skíðafólk á gönguskíðum. Á veturnar er líka aðeins hægt að ferðast um Jötunheima fótgangandi eða á skíðum og það gerum við í þessari ferð því gengið er á ferðaskíðum (utanbrautarskíðum með stálköntum) í alls fjóra daga og gist í huggulegum, hlýjum og fullþjónustuðum fjallaskálum. Fyrsti og síðasti dagurinn eru ferðadagar. Leiðangurinn hefst á lestarferðalagi frá Gardemoen flugvelli í Osló. Haldið er norður í Guðbrandsdal en þaðan er svo ekið með smárútu á fyrsta næturstaðinn, rómantískt sveitasetur með mikla sögu. Þar bíður góður kvöldmatur eldaður úr hráefni frá héraði og að auki sána og heitur pottur þar sem hægt er að láta ferðaþreytuna líða úr sér og undirbúa sig fyrir átök næstu daga. Eftir staðgóðan morgunmat næsta dag hefst skíðaferðalagið sjálft á því að gengið er inn í Jötunheimana. Þennan dag er gengið á skíðum um 24 km leið, allt á skíðabrautum í góðum skíðasporum. Þessa aðra nótt er svo gist í einum stærsta og þekktasta fjallaskála Norðmanna sem hefur verið starfræktur í tæplega 150 ár! Næstu þrjá daga er gengið á skíðunum á milli stórra og vel útbúinna skála þar sem boðið er upp á allan mat og þjónustu, hægt að kaupa drykki og ýmsan smávarning og komast í sturtu. Dagleiðirnar þessa þrjá daga eru um 20 km og tvær þeirra liggja að mestu eftir frosnum, rennisléttum fjallavötnum sem gerir færið jafnt og slétt og býður upp á magnað útsýni á fjöllin sem umlykja okkur á alla vegu. Síðasta daginn er skíðað til byggða, niður í lítið fjallaþorp þar sem gist er á góðu hóteli með heilsulind. Þar gerir hópurinn vel við sig í mat og drykk en um morguninn næsta dag er ekið með rútu beint á Gardemoen flugvöll í Osló, þar sem ferð lýkur um kl. 15 25. mars. Þátttakendur þurfa að hafa einhverja reynslu á gönguskíðum og gott er að undirbúa sig í aðdraganda ferðar með því að taka námskeið eða fara í æfingaferðir. Við mælum með æfingahópnum Úti ferðaskíði og bendum á mikið úrval skíðaferða inni í Ævintýrabúð Útihreyfingarinnar. Haldinn er rafrænn undirbúningsfundur fyrir ferð þar sem m.a. verður farið ítarlega yfir búnað og annað skipulag. Athugið að ekki er hægt að trússa farangur á milli fjallaskálanna og því er gengið á milli þeirra með lágmarksbúnað í bakpoka. Ef á þarf að halda, er hægt að geyma aukafarangur, meðan á ferðinni stendur, í farangursgeymslu á Gardemoen flugvelli, þar sem ferð hefst og lýkur. Fararstjórar eru Brynhildur Ólafsdóttir og Róbert Marshall. Innifalið í ferðinni sem kostar 272 þúsund er öll gisting, þ.e. þrjár nætur í fjallaskálum, ein á gistiheimili og ein á hóteli. Allur matur utan dagsnesti ferðadagana tvo, þ.e. fyrsta og síðasta daginn. Lestar- og rútufargjöld innan Noregs. Undirbúningsfundur, leiðsögn og utanumhald. Flug til og frá Noregs er ekki innifalið, en ferðin er skipulögð þannig að þátttakendur geta flogið út að morgni 20. mars, sama dag og leiðangurinn hefst og heim seinnipartinn, daginn sem honum lýkur, þ.e. 25. mars. Hægt er að greiða ferð að fullu eða greiða staðfestingargjald 70.000 kr og eftirstöðvar í síðasta lagi sex vikum fyrir ferð. Lágmarksþátttaka miðar við 10 manns.
-
Löng en heillandi dagsganga 31. maí Fáir tindar á Íslandi bjóða uppá jafn heillandi háfjallaumhverfi og Hrútfellstindar í Öræfasveit. Þetta er ganga sem að erfiðleikastigi er á pari við Hvannadalshnjúk en er fjölbreyttari og að margra mati mun skemmtilegri leið en á hæsta tind Íslands. Þessi fjallaleiðangur lifir lengi í minningunni enda útheimtir hann góðan undirbúning og góðar veðuraðstæður. Gangan krefst jöklabrodda, beltis og ísaxar og í næringu þarf að gera ráð fyrir að vera á fjalli í 10 til 15 tíma. Gengið verður í línu síðustu kílómetrana en efsti hluti leiðarinnar er á jökli. Gengið verður á hæsta tind Hrútfjallstinda, Norðurtindinn, sem er 1852 metra hár. Þetta er erfið leið og ætti enginn að leggja í þessa fjallgöngu án þess að hafa þjálfað vel í aðdragandanum og geta að minnsta kosti gengið upp að steini í Esjunni á undir klukkutíma. Þeir sem ekki eru vanir jöklaferðum, þurfa að auki að hafa tekið námskeiðið Vetrarfjallamennska. Athugið að ef veðurspá er óhagstæð fyrir þennan laugardag, er mögulegt að ferðin verði færð yfir á sunnudag. Gert er ráð fyrir að þátttakendur komi og gisti á eigin vegum í Öræfunum og við mælum sterklega með að fólk geri ráð fyrir gistingu bæði fyrir og eftir ferð. Tjaldstæðið í Svínafelli er t.d. í miklu uppáhaldi hjá okkur í Útihreyfingunni. Skráðir þátttakendur verða boðaðir á rafrænan upplýsingafund og fá ítarlegan upplýsinga- og búnaðarpóst í aðdraganda ferðar. Að lágmarki er nauðsynlegt að eiga góða gönguskó, dagpoka og jöklaþrennuna; belti, brodda og ísöxi. Hægt er að leigja jöklaþrennuna, m.a. hjá Útilífi. Ferðin kostar 45.000 kr. Innifalið í verði er leiðsögn, utanumhald og rafrænn upplýsingafundur í aðdraganda ferðar, auk þess sem hópurinn mun hittast kvöldið fyrir gönguna í undirbúningsspjall og búnaðarskoðun. Lágmarksþátttaka miðar við fjóra.
-
Tjaldnótt í krúnudjásni Hvítárvatns, Karlsdrætti 19.-20. júlí Sólkatla, Baldheiði og Hrefnubúðir. Örnefnin í kringum Karlsdrátt í Hvítárvatni eru nánast óþekkt og það er ótrúlegt til þess að hugsa að við séum rétt hjá Kili, Hvítárnesi og Bláfellshálsi en samt á svo framandi slóðum. Karlsdráttur er lítill og aflokaður, gróðursæll vogur í norðurenda Hvítárvatns þar sem fjölbreytt plöntulíf birtist óvænt milli jökulvatns og eyðisanda. Hér vex birki upp í miðjar hlíðar og einkennisblóm staðarins, eyrarrósin er alltumlykjandi. Alls vaxa hér 82 aðrar plöntutegundir í rúmlega 400 metra hæð yfir sjávarmáli sem þykir einstakt á Íslandi. Gegnt voginum skríður Norðurjökull út úr Langjökli við hlið Skriðufells og kelfir næstum því ofan í fölgrænt jökulvatnið. Neðar fellur sama jökulvatn í foss allra íslenskra fossa, Gullfoss í gljúfri Hvítár, sem Hvítárvatnið dregur nafn sitt af. Við leggjum í hann með vistir og viðlegubúnað til tveggja daga frá bökkum Hvítárvatns og róum 8-10 kílómetra leið að höfðanum sem lokar af voginum. Þarna sláum við upp tjöldum og gistum eina töfranótt í þessari vin á hálendinu. Þau allra hörðustu baða sig að sjálfsögðu í Hvítárvatni eða velta sér í það minnsta upp úr dögginni á þessum kyngimagnaða stað! Í morgunsárið daginn eftir, fyllum við á brúsa með tæru lindarvatni og göngum á Sólkötlu sem rís í ríflega 1000 metra hæð yfir sjávarmáli. Þaðan er stórkostlegt útsýni yfir Langjökul og jökulskerin Þursaborg og Fjallkirkju auk þess sem Hrútfellið, Hvítárvatnið sjálft og sögufrægt umhverfi Kjalvegar blasir við frá afar sjaldséðu sjónarhorni. Gangan er um 10 km fram og til baka. Að göngu lokinni, seinnipart sunnudags tökum við saman tjaldbúðir og róum til baka sömu leið og við komum. Athugið að kajaknámskeið og/eða kajakreynsla er forkrafa inn í ferðina. Við bendum á undirbúningsnámskeið Útihreyfingarinnar. Skráðir þátttakendur fá ítarlegan upplýsinga- og pökkunarpóst í aðdraganda ferðarinnar. Ferðin kostar 83.000 kr. og innifalið í verðinu er leiðsögn og utanumhald, leiga og flutningur á kajak, ár, toppi, svuntu og björgunarvesti. Sérhæfðir kajakleiðsögumenn fylgja hópnum alla leið.
-
Jöklaáskorun Útihreyfingarinnar Þriggja ára stórbrotið ferðalag Jöklafarar er heitið á nýrri áskorun Útihreyfingarinnar þar sem þátttakendur ganga á ferðaskíðum þvert yfir sex stærstu jökla landsins, þ.e. Eyjafjallajökul, Drangajökul, Mýrdalsjökul, Hofsjökul, Langjökul og Vatnajökul. Markmiðið er ekki að fara upp á hæsta tind hvers jökuls fyrir sig, þ.e. fram og til baka, heldur að skíða þvert yfir jöklana þannig að endað sé á öðrum stað en ferðin hófst. Hægt er að klára áskorunina á eigin hraða, þ.e. á eins skömmum eða löngum tíma og hentar hverjum og einum. Hins vegar skipuleggur Útihreyfingin verkefnið og mælir með því að það sé klárað á alls þremur árum frá upphafi til enda, þannig að byrjað sé á æfingum á ferðaskíðum og minni jöklum áður en ráðist er í flóknari og lengri ferðir og jöklaútilegur. Í hnotskurn Þeir sem hafa enga reynslu og eru að byrja frá grunni, geta hafið vegferðina strax í janúar á næsta ári, 2025 með því að læra á ferðaskíði þ.e. utanbrautargönguskíði með stálköntum og æfa sig svo vikulega nágrenni Reykjavíkur með Úti ferðaskíðahópnum. Að auki þurfa óvanir að taka kvöldnámskeið þar sem kennd er línuhegðun á jökli og notkun á jöklabroddum og ísöxi. Að vori verða svo þrír jöklar þveraðir: Drangajökull, Eyjafjallajökull og Langjökull. Þessa jökla er hægt að þvera hvern um sig á einum löngum skíðadegi og því þarf ekki að gista í tjaldi á jökli þetta fyrsta árið. Annað árið hefst á námskeiðinu Ferðast á gönguskíðum þar sem þátttakendur læra öll trixin við að ferðast með púlku í eftirdragi og tjalda í snjó auk þess sem farið er í æfingaútilegu til að þjálfa handtökin. Að vori er síðan haldið í 3-4 daga ferðir á Hofsjökul annars vegar og Mýrdalsjökul hins vegar. Síðasta árið er svo komið að konungi íslenskra jökla, sjálfum Vatnajökli. Það er ferðalag sem tekur heila viku og þarfnast góðs undirbúnings og æfinga. Ekki aðeins þurfa þátttakendur að vera í góðu líkamlegu formi og þekkja búnaðinn sinn vel, heldur er líka nauðsynlegt að undirbúa hausinn fyrir átökin og langa daga á jökli. Að lokum fá þátttakendur viðurkenningarskjal og heiðursnafnbótina Jöklafari og eru þá komnir með fullan og óskoraðan rétt til að grobba sig á alla jöklakanta, jafnvel á alþjóðavettvangi 🙂 Síðasta tækifærið? Markmið þessa verkefnis er þó ekki eingöngu að vera þátttakendum til skemmtunar og áskorunar. Með frásögnum af ferðunum í máli og myndum, viljum við líka vekja athygli almennings, heima og erlendis, á hraðri bráðnun jöklanna af völdum loftslagshlýnunar. Myndum leiðangursmanna verður m.a. safnað á sameiginlega myndasíðu á samfélagsmiðlum undir samheitinu #lastoftheglaciers eða síðustu jöklarnir. Hópurinn reynir þannig að leggja sín lóð á vogarskálarnar svo að okkar kynslóð verði ekki síðasta kynslóðin sem nýtur þess að ferðast á skíðum um jökla landsins. Skráning Athugið að hvorki er nauðsynlegt að klára áskorunina í ofangreindri röð né á þremur árum. Ef fólk er vant því að ferðast á skíðum þá er hægt að raða jöklaferðunum saman á hvern þann hátt sem hentar og jafnvel byrja á Vatnajökli! Að auki geta þeir sem þegar eru búnir að þvera einhverja jökla auðvitað líka verið með og bætt í safnið. Til að taka þátt þarf aðeins að skrá sig til leiks með því að smella hér. Í kjölfarið verður þér boðið inn í sérstakan FB hóp allra þátttakanda og ævintýrið hefst. Hér að neðan eru linkar inn á viðeigandi jöklaferðir og undirbúningsnámskeið auk ferða sem hægt er að nýta til að æfa skíðatæknina og handtökin. JÖKLAFERÐIR 2025 Eyjafjallajökull. 29. mars Drangajökull. 12.-14. apríl Vatnajökull. 30. apríl - 7. maí Langjökull. 14.-15. júní Mýrdalsjökull. Á dagskrá 2026 Hofsjökull. Á dagskrá 2026 UNDIRBÚNINGSNÁMSKEIÐ 2025 Úti ferðaskíði. Námskeið og æfingahópur. Hefst 8. jan. Vetrarfjallamennska. Grunnnámskeið. 24. feb og 3. mars Ferðast á gönguskíðum. Námskeið og útilega. 13. jan. og 25.-26. jan. ÆFINGAFERÐIR 2025 Norðurljósaganga á ferðaskíðum. Kvöldganga. 18. jan. Þingvellir. Dagsferð. 8. feb. Undir Tröllakirkju. Púlkuferðalag. 15.-16. feb. Yfir Snæfellsnes. Dagsferð. 22. feb. Tvídægra. Skíðað á milli skála. 28. feb-2. mars. Ok. Dagsferð. 15. mars Jötunheimar í Noregi. Skíðað á milli skála. 20.-25. mars
-
Náðu tökum á tækninni 2. júní, 2025 Fátt er eins nærandi, draumkennt og dásamlegt og að líða hljóðlaust áfram á kajak í fullkominni sátt og tengingu við náttúruna. Á þessu þriggja klukkustunda námskeiði verður farið yfir þann grunn sem þarf til að geta bjargað sér á kajak og byrjað að lifa drauminn! Farið er yfir búnaðinn og áratökin útskýrð áður en allir koma sér fyrir, hver í sínum kajak og ýtt er úr vör. Í framhaldi eru áratökin æfð ásamt mismunandi aðferðum við að stýra kajaknum, halda réttri stefnu, beygja og snúa við. Farið er yfir undirstöðuatriðin í félagabjörgun og að lokum eru allir látnir velta kajaknum sínum til að æfa sig í því að komast klakklaust úr honum og upp í hann aftur. Mæting er við höfnina á Stokkseyri kl. 18 þar sem byrjað verður á því að taka til kajakana og klæða sig í viðeigandi fatnað áður en kennsla hefst. Þátttakendur fá allan nauðsynlegan búnað á námskeiðinu og þurfa aðeins að mæta í hlýjum fötum og með aukaföt til skiptanna. Ítarlegur upplýsingapóstur er sendur á þátttakendur í aðdraganda námskeiðs. Athugið að þetta námskeið eða sambærilegt námskeið og/eða reynsla er forkrafa inn í allar kajakferðir Útihreyfingarinnar svo sem Kajakferð á Hvítárvatn og Kajakferð í norska skerjagarðinn. Námskeiðið kostar 26.000 kr. og innifalið er kajakleiga, ár, toppur, svunta og björgunarvesti ásamt kennslu faglærðra kajakkennara.
-
Æfingar eru hafnar Hægt er að slást í hópinn til áramóta
... Skoraðu á sjálfan þig! Þjálfun og undirbúningur til að ljúka heilum Landvætti sem kallar á að þátttakendur ljúki fjórum þrautum í fjórum landshlutum á innan við ári. Þrautirnar felast í skíðagöngukeppni, hjólreiðakeppni, fjallahlaupi og vatnasundskeppni. Þetta er frábær áskorun fyrir þá sem eru nú þegar í sæmilega góðu formi, vilja komast í sitt besta lífsform og þjálfa sig í alls konar útiíþróttum. Jafnframt heppilegur næsti áfangi fyrir þá sem hafa lokið hálfum Landvætti. Dagsetningar þrautanna fjögurra- Fossavatnsgangan 12. apríl 2025 50 km skíðaganga
- Bláalónsþrautin, dagsetning 2025 ekki staðfest en síðast 8. júní 2024 60 km hjólreiðar
- Þorvaldsdalsskokkið, dagsetning ekki staðfest 2025 en síðast 6. júlí 2024 25 km fjallahlaup
- Urriðavatnssundið, dagsetning ekki staðfest 2025 en síðast 27. júlí 2024 2500 m vatnasund
- Á mánudagsmorgnum kl. 6:30 er farið á fjall fyrir vinnu. Mismunandi fjöll í nágrenni höfuðborgarsvæðisins verða fyrir valinu.1-1,5 klst.
- Á þriðjudögum og fimmtudögum kl. 17:30 eru styrktar-, liðleika-, þrek- og sprettæfingar.1 klst.
- Í hádeginu á miðvikudögum, kl. 12:15 er farið í sjóinn, oftast í Nauthólsvík. 30-40 mín.
- Aðra helgi (helgi 2) í hverjum mánuði er æfing sem byrjar oftast kl. 9:30. Þetta getur verið gönguskíðaæfing í braut, hjólaæfing, hlaup eða stuttar fjallgöngur. 1-2 klst.
- Fjórðu helgi (helgi 4) í hverjum mánuði er svo lengra helgarævintýri sem byrjar oftast kl. 9:30. Þetta geta verið lengri fjallgöngur, hjólaferðir eða ferðaskíðaferðir. 2-4 klst.
- Úti brautarskíði
- Úti fjallahjól
- Úti langhlaup
- Úti villisund
-
Jöklaáskorun Útihreyfingarinnar Nóttina 14.-15. júní Einstök næturskíðaferð yfir þveran Langjökul á meðan sólin sest fyrir aftan hópinn og rís á sama tíma fyrir framan hann! Það er varla hægt að hugsa sér magnaðri upplifun en að vaka og skíða um bjarta sumarnóttina undir litaskiptum jökulsins sem logar í roðaglóð. Hópurinn ekur á eigin bílum úr Reykjavík seinnipart laugardagsins 14. júní, upp að Skálpanesi á Kili, austan megin við Langjökul. Þar eru bílarnir skildir eftir en jepparúta flytur hópinn að upphafsstað göngunnar, vestan Langjökuls. Rétt við jökulröndina vestan megin þar sem vegurinn endar, stendur skálinn Jaki. Þar er tími til kominn að spenna á sig skíðin, axla byrðar og leggja af stað upp í mót. Mesta hækkunin er tekin út í upphafi ferðarinnar, upp fremur þægilega brekku á hæsta punkt leiðarinnar. Þaðan er að mestu aflíðandi leið, alla leið niður jökulinn að austanverðu og að bílunum sem bíða vestan megin. Leiðin er 42-46 km löng og gera má ráð fyrir að hún taki hópinn 10-12 klukkustundir, allt eftir aðstæðum á jöklinum. Gert er ráð fyrir að lagt sé af stað úr Reykjavík skömmu fyrir kvöldmat á laugardag og komið heim um hádegisbil á sunnudag eftir óviðjafnanlega hásumarnótt! Þátttakendur þurfa að vera í góðu líkamlegu formi og hafa einhverja reynslu af ferðalögum á skíðum. Við bendum fólki á að nota æfingahópinn Úti ferðaskíði og fjölbreyttar ferðaskíðaferðir Úthreyfingarinnar til að æfa sig á skíðunum. Þeir sem ekki eru vanir jöklaferðum þurfa að auki að hafa tekið námskeiðið Vetrarfjallamennska. Athugið að dagsetningin gæti hnikast eitthvað til eða frá, ef veðurspáin er betri dagana í kring. Skráðir þátttakendur fá ítarlegan upplýsinga- og pökkunarpóst í aðdraganda ferðarinnar en nauðsynlegt er að eiga ferðaskíði, stafi með stórri kringlu og skinn undir skíðin, jöklaþrennuna; belti, brodda og ísöxi ásamt þægilegum dagpoka sem hægt er að hengja skíðin utan á, ef svo ber undir. Ferðin kostar 58.000 kr. og innifalið er skutl með jepparútu á upphafsstað, utanumhald og leiðsögn. Jöklafarar Þessi ferð telst hluti af verkefninu Jöklafarar sem er jöklaáskorun Útihreyfingarinnar, þar sem gengið er á ferðaskíðum yfir sex stærstu jökla landsins. Sjá nánar hér.