• Fjallastígar Mallorca. Gönguferð

    80.000 kr.305.000 kr.
    Upplifunarveisla fyrir sál og líkama 21.-28. apríl Í þessari ferð þarf oft að stoppa. Anda inn. Anda út. Og andvarpa svo af ánægju yfir lífsins lystisemdum. Gengið er á aldagömlum steinlögðum stígum um Tramuntana fjöllin á spænsku eyjunni Mallorca. Á milli friðsælla strand- og fjallaþorpa, um ilmandi appelsínu- og sítrónulundi, gil og klettaborgir, blágræn fjallavötn og litlar víkur. Fjölbreytt dýralíf, marglitt blómskrúð og ævaforn, kræklótt ólífutré gleðja augað við hvert fótmál. Svo ekki sé talað um matinn! Ferskur fiskur, ferskur appelsínusafi, sælkeratómatar, ólífur fyrir alla bragðlauka, brakandi súrdeigsbrauð, bragðsterkar harðpulsur og ótrúlegir eftirréttir úr möndlum og hunangi sem hvoru tveggja eru þekktar landbúnaðarafurðir frá eyjunni. Þetta er hlið á Mallorca sem fæstir kynnast og er í órafjarlægð og hrópandi andstöðu við háværa strandbari og yfirfullar sólarstrendur sem er ímynd flestra af þessari fallegu Miðjarðarhafseyju. Ferðin tekur alls átta daga en fyrsti og síðasti dagurinn eru ferðadagar. Gengið er í fimm daga og dagleiðirnar eru frekar þægilegar og engin lengri en 15 km. Einn hvíldardagur er inni í miðri ferð ásamt því að næstsíðasta daginn er aðeins gengið í tæpar 2 klst að morgni áður en við tekur afslöppun og dekur. Gist er í fjórar nætur á gistiheimilum, tvær nætur í fjallaskálum og eina nótt á lúxushóteli. Athugið að þar sem ekki er hægt að trússa farangur í fjallaskálana þá þurfa þátttakendur að ganga með bakpoka með fötum til skiptanna. Annar farangur verður fluttur á lokahótelið og bíður þar. Ferðin hefst í Barcelona um seinnpart mánudaginn, 21. apríl, þaðan sem hópurinn flýgur saman til Mallorca. Frá flugvellinum er ferðast í smárútu upp í Tramuntana fjöllin og fyrstu nóttina er gist í sögufrægu og afar fallegu fjallaþorpi, þar sem tími gefst til að skoða sig um og snæða góðan kvöldverð. Daginn eftir er gengið yfir Tramuntana fjallgarðinn og byrjað á því að ganga upp á ríflega 900 metra hátt fjall þar sem stórkostlegt útsýni opnast yfir stóran hluta Mallorca. Svo er fetað hægt og rólega niður bratt gil og niður í annað ekki síður fallegt fjallaþorp þar sem gist er um nóttina. 14 km. 500 m hækkun. Á þriðja degi er þræddur stígur sem liggur um friðsæla aldinlundi meðfram norðurströnd eyjunnar með útsýni yfir blágrænt hafið. Þennan dag er gist í litlum strandbæ þar sem hægt er að busla í sjónum og gæða sér á nýveiddu fiskmeti. 14 km. 250 m hækkun. Fjórði dagur ferðarinnar er menningarlegur afslöppunardagur. Morguninn er letilegur og kannski verður farið í sjóinn áður en ferðast er með opnum sporvagni inn í næsta þorp. Þar er hægt að skoða lítil söfn með verkum Picasso og Miró, rölta á milli búða og bragða á dæmigerðum réttum eyjunnar. Fimmti dagurinn er lengsti og erfiðasti göngudagurinn og því er gott að hafa safnað kröftum daginn áður. Gengið er á góðum stíg upp þverbratt en geysifagurt gil, framhjá uppistöðulónum, gegnum lítil jarðgöng og í huggulegan fjallaskála þar sem gist er um nóttina. 15 km. 1200 m hækkun. Á sjötta degi er byrjað á því að lækka sig niður úr fjöllunum áður en gengið er aftur upp og nú upp á snarbratta en hreint ótrúlega klettaborg sem hýsir gamla kapellu og kastala sem búið er að breyta í fjallaskála. Útsýnið er óviðjafnanlegt og næturstaðurinn svo einstakur að honum verður vart lýst með orðum. Þetta er einfaldlega eitthvað sem fólk verður að upplifa á eigin skinni! 15 km. 600 m hækkun. Að morgni næsta dags er gengið niður af klettaborginni og í næsta þorp þar sem smárúta bíður til að flytja hópinn á lúxushótel við draumfagra strönd. Þar er hægt að láta gönguþreytuna líða úr sér í algjöru dekri, marflöt undir sólhlíf, synda í tærum sjó og snæða saman síðustu kvöldmáltíðina. 7 km. Snemma síðasta daginn ferðast hópurinn með rútu á flugvöllinn í Mallorca og flýgur til Barcelona þar sem ferð lýkur í tæka tíð til að hægt sé að ná flugi seinnipart dags heim til Íslands eða hvert á land sem er. Leiðsögumenn ferðarinnar eru Brynhildur Ólafsdóttir og Róbert Marshall. Innifalið í ferðinni, sem kostar 305 þúsund er flug frá Barcelona til Mallorca og til baka, gisting í sjö nætur, allur morgunmatur og tvær kvöldmáltíðir, allar ferðir og flutningur á farangri innan Mallorca, undirbúningsfundur, leiðsögn og utanumhald. Athugið að flug til og frá Barcelona er ekki innifalið en ferðin er skipulögð þannig að þátttakendur geta flogið frá Íslandi til Barcelona, á upphafsdegi ferðarinnar, þ.e. snemma sunnudaginn 20. apríl og heim frá Barcelona, sama dag og ferð líkur, þ.e. mánudaginn 28. apríl. Lágmarksþátttaka miðar við 10 manns en sökum þess að staðfesta þarf gistingu í fjallaskálunum að lágmarki 4 mánuði fyrir ferð, þá er nauðsynlegt að greiða staðfestingargjald ferðarinnar FYRIR 15. DESEMBER. Eftirstöðvar ferðarinnar eru síðan greiddar í síðasta lagi sex vikum fyrir ferð.
  • Kerlingarfjöll. Fjallaskíðanámskeið

    93.000 kr.125.000 kr.
    Fjallaskíðanámskeið 22.-24. nóvember Stórskemmtilegt fjallaskíðanámskeið í Kerlingarfjöllum, vöggu íslenskrar skíðamenningar. Hér hafa Íslendingar lært að skíða í árafjöld og hvergi er betra að æfa sig í skíðalistinni. Í Kerlingarfjöllum má finna brekkur við allra hæfi, allt frá þægilegum aflíðandi byrjendabrekkum yfir í snarbrattar  jökulhlíðar. Að auki er frábært að ferðast vítt og breitt um þessa fallegustu útsýnistinda landsins með fjallaskíðin á fótunum og koma niður á allt öðrum stað en upp var farið. Gert er ráð fyrir því að þátttakendur hafi reynslu á svigskíðum, en námskeiðið er bæði fyrir byrjendur og lengra komna á fjallaskíðum. Þátttakendum er skipt upp í getuhópa þannig að á meðan sumir eru að læra að nota fjallaskíði í fyrsta sinn, þá eru aðrir sem eru komnir lengra að fá tækifæri til að fínpússa tæknina, fara hærra, lengra og hraðar. Byrjendur fá kennslu í grunnatriðum fjallaskíðamennsku; hækkanir með skinnum og broddum, undirbúning skíðaferða og leiðarval ásamt kennslu í skíðatækni utan brauta. Að auki verður farið yfir meginatriði í snjóflóðamati og notkun snjóflóðaýla. Það er góð regla að rifja árlega upp tæknina við snjóflóðaleit og björgun og sett verður upp æfingaleit í því skyni. Allir þátttakendur fá persónulegar ábendingar og leiðsögn þrautreyndra skíðakennara og myndbandsupptökur eru notaðar til að fínstilla tæknina hjá hverjum og einum. Miðað er við að þátttakendur komi á eigin fjallabílum í Kerlingarfjöll og lagt er af stað í samfloti um hádegisbil á föstudegi og áætluð heimkoma aftur til Reykjavíkur er síðla dags á sunnudag. Gist er í tvær nætur á nýju og glæsilegu fjallahóteli í Kerlingarfjöllum, Highland Base með morgunmat og kvöldmat. Þar er frábær aðstaða og hægt að láta líða úr sér í nýopnuðum Hálendisböðum fyrir hefðbundna Kerlingarfjallakvöldvöku með gítarspili við arineld síðar um kvöldið. Námskeiðið kostar 93.000 kr. fyrir meðlimi Útihreyfingarinnar en annars 125.000 kr. Verðið er pr. mann og miðar við tveggja manna standard herbergi en hægt er að panta einstaklingsherbergi og/eða uppfæra í delux gegn hærra gjaldi. Sendið fyrirspurn á utihreyfingin@utihreyfingin.is. Innifalið: Gisting í tvær nætur, morgunverður og aðgangur að Hálendisböðum. Léttur kvöldverður á föstudagskvöldinu og þriggja rétta kvöldverður seinna kvöldið ásamt fordrykk. Skíðakennsla, leiðsögn og utanumhald.
  • Átta mánaða áskrift að Útihreyfingunni. Æfingaáætlun sem byggir á tveimur til þremur sameiginlegum krossþjálfunaræfingum á viku þar sem blandað er saman mismunandi æfingum og mismunandi hreyfingu. Markmiðið er að tryggja líkamlega getu, þol og þrek fyrir alls konar útivist og ævintýramennsku. Meðlimir Útihreyfingarinnar æfa allt árið um kring.
    • Þriðjudagar kl. 17:30 Styrktar- og þrekæfingar ásamt alls konar hraðasprettum. Oftast hlaupandi en stundum á hjólum. Æfingarnar fara fram í Elliðaárdal, Öskjuhlíð, Laugardal og víðar.
    • Fimmtudagar kl. 17:30 Tækni- og gæðaæfingar. Hlaup, hjól eða skíði. Á Hólmsheiðinni, Úlfarsfelli, í Heiðmörk, Bláfjöllum og víðar.
    • Laugardagar / sunnudagar kl. 9:30 Lengri hreyfing aðra hvora helgi, til skiptis á laugardögum og sunnudögum. Fjallganga, hjólreiðar, fjallahlaup, fjallaskíði, gönguskíði, kajak, ferðaskíði, klifur, sjósund. Gamlir og nýir slóðar í nágrenni Reykjavíkur.
    Æfingarnar eru hraðaskiptar og henta öllum getustigum. Við bendum þó byrjendum og þeim sem eru að fara af stað eftir langt hlé, á Úti 101, 2ja mánaða byrjendanámskeið sem hefjast í janúar og september á hverju ári. Þar er lögð áhersla á hæga uppbyggingu með auknu utanumhaldi, kennslu og fræðslu. Við trúum ekki á átaksverkefni en vitum að það getur verið erfitt að halda sér að verki. Þess vegna er persónulegt utanumhald mikilvægur þáttur í Útihreyfingunni. Strax eftir skráningu er meðlimum boðið í rafrænt upphafsviðtal um markmið og væntingar, ásamt því að þrisvar á ári fá allir endurgjöf og mat á stöðu sinni og árangri. Átta mánaða áskrift kostar 113.600 kr. eða 14.200 kr. á mánuði. Hægt er að greiða áskriftina í einu lagi eða skipta greiðslum eins og hver og einn kýs inni í greiðsluferlinu sjálfu. Meðlimir í Útihreyfingunni njóta forgangs og ríflegs afsláttar í flestar ferðir og námskeið hreyfingarinnar, Úti ævintýri, sem farnar eru meðan á áskriftinni stendur.
  • Hálfvættur 2025

    161.100 kr.
    NÆSTA NÁMSKEIÐ HEFST Í NÓV KYNNINGARFUNDUR 24. SEPT Besta áskorun lífs þíns! Þjálfun og undirbúningur til að ljúka hálfum vegalengdum Landvættaáskorunarinnar sem kallar á að þátttakendur ljúki fjórum þrautum í fjórum landshlutum á innan við ári. Þrautirnar felast í skíðagöngukeppni, hjólreiðakeppni, fjallahlaupi og vatnasundskeppni. Stórskemmtileg áskorun til að komast í gott form og þjálfa sig í alls konar útiíþróttum. Þetta er til dæmis heppilegur næsti áfangi fyrir þá sem hafa lokið Úti 101 námskeiðinu. Dagsetningar þrautanna fjögurra
    • Fossavatnsgangan 12. apríl 2025 25 km skíðaganga
    • Bláalónsþrautin, dagsetning ekki staðfest en síðast 8. júní 2024 30 km hjólreiðar
    • Þorvaldsdalsskokkið, dagsetning ekki staðfest en síðast 6. júlí 2024 16 km fjallahlaup
    • Urriðavatnssundið, dagsetning ekki staðfest en síðast 27. júlí 2024 1250 m vatnasund
    Æfingaáætlunin byggir á tveimur til þremur sameiginlegum æfingum á viku. Æft er á þriðjudögum og fimmtudögum kl. 17:30 og aðra hvora helgi til skiptis laugardag og sunnudag kl. 9:30. Þjálfunin styðst við æfingagrunn Útihreyfingarinnar en verður því sérhæfðari er nær dregur keppnunum með sértækri æfingaáætlun og þjálfun. Athugið að þátttakendur þurfa ekki að hafa grunn í skíðagöngu til að vera með, því þær viðbótaræfingar sem bætast ofan á, snúa fyrst og fremst að því að kenna og ná upp færni á gönguskíðunum en einnig er um að ræða sundæfingar og kuldaþjálfun. Sérmenntaðir þjálfarar og sérfræðingar í skíðagöngu og sundi munu meðal annars koma inn á þessar æfingar. Að öðru leyti koma margir þjálfarar með mikla þekkingu og reynslu í hverri grein fyrir sig að námskeiðinu. Þjálfarar Útihreyfingarinnar eru allir með margfalda Landvættatitla og hafa þjálfað vel yfir 50% af öllum sem klárað hafa Landvættaþrautirnar frá upphafi. Þátttakendur fara í gegnum upphafsviðtal um stöðu sína og markmið og fá markvissa endurgjöf, eftirfylgni og utanumhald allt tímabilið. Í gegnum allt námskeiðið er mikil kennsla og fræðsla, m.a. um tækni, búnað, keppnisundirbúning og keppnisnæringu. Þá eru fræðslu- og upplýsingafundir haldnir fyrir hverja keppnisgrein og þátttakendur fá stuðning og fylgni í gegnum keppnirnar sjálfar. Námskeiðið tekur 9 mánuði og kostar 161.100 kr. eða 17.900 kr. á mánuði. Hægt er að greiða fyrir námskeiðið í einu lagi eða skipta greiðslum eins og hver og einn kýs inni í greiðsluferlinu sjálfu. Á meðan á námskeiðinu stendur eru þátttakendur meðlimir í Útihreyfingunni og njóta forgangs og afsláttarkjara í ferðir hreyfingarinnar, Úti ævintýri, auk góðra afsláttarkjara í völdum verslunum. Viltu vita meira? Hér getur þú lesið allt um hvað það þýðir að verða Landvættur.
  • Landvættur 2025

    161.100 kr.
    NÆSTA NÁMSKEIÐ HEFST Í NÓV KYNNINGARFUNDUR 24. SEPT Skoraðu á sjálfan þig! Þjálfun og undirbúningur til að ljúka heilum Landvætti sem kallar á að þátttakendur ljúki fjórum þrautum í fjórum landshlutum á innan við ári. Þrautirnar felast í skíðagöngukeppni, hjólreiðakeppni, fjallahlaupi og vatnasundskeppni. Þetta er frábær áskorun fyrir þá sem eru nú þegar í sæmilega góðu formi, vilja komast í sitt besta lífsform og þjálfa sig í alls konar útiíþróttum. Jafnframt heppilegur næsti áfangi fyrir þá sem hafa lokið hálfum Landvætti. Dagsetningar þrautanna fjögurra
    • Fossavatnsgangan 12. apríl 2025 50 km skíðaganga
    • Bláalónsþrautin, dagsetning 2025 ekki staðfest en síðast 8. júní 2024 60 km hjólreiðar
    • Þorvaldsdalsskokkið, dagsetning ekki staðfest 2025 en síðast 6. júlí 2024 25 km fjallahlaup
    • Urriðavatnssundið, dagsetning ekki staðfest 2025 en síðast 27. júlí 2024 2500 m vatnasund
    Æfingaáætlunin byggir á tveimur til þremur sameiginlegum æfingum á viku. Æft er á þriðjudögum og fimmtudögum kl. 17:30 og aðra hvora helgi til skiptis laugardag og sunnudag kl. 9:30. Þjálfunin styðst við æfingagrunn Útihreyfingarinnar en verður því sérhæfðari er nær dregur keppnunum með sértækri æfingaáætlun og þjálfun. Athugið að þátttakendur þurfa ekki að hafa grunn í skíðagöngu til að taka þátt, því þær viðbótaræfingar sem bætast ofan á, snúa fyrst og fremst að því að kenna og ná upp færni á gönguskíðunum en einnig er um að ræða sundæfingar og kuldaþjálfun. Sérmenntaðir þjálfarar og sérfræðingar í skíðagöngu og sundi munu meðal annars koma inn á þessar æfingar. Að öðru leyti koma margir þjálfarar með mikla þekkingu og reynslu í hverri grein fyrir sig að námskeiðinu. Þjálfarar Útihreyfingarinnar eru allir með margfalda Landvættatitla og hafa þjálfað vel yfir 50% af öllum sem klárað hafa Landvættaþrautirnar frá upphafi. Þátttakendur fara í gegnum upphafsviðtal um stöðu sína og markmið og fá markvissa endurgjöf, eftirfylgni og utanumhald allt tímabilið. Í gegnum allt námskeiðið er mikil kennsla og fræðsla, m.a. um tækni, búnað, keppnisundirbúning og keppnisnæringu. Þá eru fræðslu- og upplýsingafundir haldnir fyrir hverja keppnisgrein og þátttakendur fá stuðning og fylgni í gegnum keppnirnar sjálfar. Námskeiðið tekur 9 mánuði og kostar 161.100 kr. eða 17.900 kr. á mánuði. Hægt er greiða fyrir námskeiðið í einu lagi eða skipta greiðslum eins og hver og einn kýs inni í greiðsluferlinu sjálfu. Á meðan á námskeiðinu stendur eru þátttakendur meðlimir í Útihreyfingunni og njóta forgangs og afsláttarkjara í ferðir hreyfingarinnar, Úti ævintýri, auk góðra afsláttarkjara í völdum verslunum. Viltu vita meira? Hér getur þú lesið allt um hvað það þýðir að verða Landvættur.
  • Vatnajökull endilangur. Ferðaskíði

    229.000 kr.265.000 kr.
    30. apríl - 7. maí, 2025 Stórkostlegur vikulangur leiðangur þar sem sjálfur konungur jöklanna, Vatnajökull, er genginn endilangur á ferðaskíðum. Svona leiðangrar verða jafnan eitt af stærstu ævintýrunum í lífi hverrar manneskju. Við lofum ógleymanlegu, valdeflandi og krefjandi ferðalagi, fyrir bæði líkama og sál. Þátttakendur ganga á svokölluðum ferðaskíðum (utanbrautargönguskíðum með stálköntum) og draga púlkur / sleða með öllum farangrinum á eftir sér. Gist er í tjöldum á jöklinum í fjórar nætur en eina nótt í skála á Grímsfjalli. Gert er ráð fyrir að jöklagangan sjálf taki 6-7 daga en nokkrir dagar eru hafðir til vara ef hópurinn þarf að hafast við á jöklinum og bíða af sér veður og jafnframt til að gera ráð fyrir ferðalögum til og frá jökli. Það fer eftir færð og veðri í aðdraganda ferðar hvort gengið verður frá austri til vesturs eða frá vestri til austurs. Leiðangurinn hefst því annað hvort við Jöklasel á Skálafellsjökli við suðurbrún Vatnajökuls eða upp frá Jökulheimum undir Tungnaárjökli við vesturbrún jökulsins. Ógnarfegurð, alger kyrrð og mikil núvitund felst í svona löngu ferðalagi yfir jökul. Fegurðin getur stundum verið yfirþyrmandi. Rósrauð sólris og sólsetur einkenna jökulinn og á leiðinni gefst stórkostlegt útsýni á marga af hæstu tindum landsins. Stundum er þó líka gengið í hrímþoku eða algerri hvítablindu sem reynir á skilningarvitin á allt annan hátt. Þegar ferðalagið er nokkurn veginn hálfnað, nánast á miðjum jöklinum, er komið á Grímsfjall við Grímsvatnaeldstöðina. Þar bíður vistlegur skáli Jöklarannsóknarfélagsins eftir göngufólkinu, hlýr og notalegur. Í skálanum er hægt að kjarna sig, elda dýrindismat, þurrka föt ef á þarf að halda og síðast en ekki síst láta þreytuna líða úr sér í goðsagnakenndu jöklagufubaði! Heildarvegalengd leiðangursins er 130 km og gert er ráð fyrir að hópurinn skíði 20-25 km á hverjum degi, eftir færð og veðri. Þetta er krefjandi ferð sem hentar vönu ferðafólki með reynslu af vetrarferðalögum eða fólki sem ætlar að nota veturinn fyrir leiðangurinn til að læra og æfa sig. Óvönum er bent á námskeiðið Ferðast á gönguskíðum sem haldið verður í janúar/febrúar 2025. Gert er ráð fyrir að hópurinn hittist töluvert og kynnist fyrir ferð og æfi sig að einhverju leyti saman en stungið verður upp á sameiginlegum ferðum og æfingum í aðdraganda leiðangursins. Brynhildur Ólafsdóttir og Helga María Heiðarsdóttir leiða ferðina en báðar eru mjög reynslumiklar og hafa leiðsagt fjölmargar ævintýraferðir, bæði hérlendis og erlendis. Þær eru með gilt Wilderness First Responder skírteini og hafa lokið réttindanámi hjá Félagi íslenskra fjallaleiðsögumanna (AIMG), bæði í fjalla- og jöklaleiðsögn. Ferðin kostar 229.000 kr. fyrir meðlimi Útihreyfingarinnar en annars 265.000 kr. Athugið að hægt er að greiða ferðina í einu lagi eða skipta greiðslum eins og hver og einn kýs inni í greiðsluferlinu sjálfu. Innifalið í verðinu er gisting í eina nótt á Grímsfjalli, far með jepparútum til og frá Reykjavík og að og frá jökli, nokkrir undirbúningsfundir, aðstoð með búnað, næringu, æfingaáætlun og pökkun, ein óveðursútilega í aðraganda ferðar ásamt leiðsögn og utanumhaldi í sjálfum leiðangrinum.

Title

Go to Top