Kerlingarfjöll. Fjallaskíðanámskeið
93.000 kr. – 125.000 kr.
Fjallaskíðanámskeið
22.-24. nóvember
Stórskemmtilegt fjallaskíðanámskeið í Kerlingarfjöllum, vöggu íslenskrar skíðamenningar. Hér hafa Íslendingar lært að skíða í árafjöld og hvergi er betra að æfa sig í skíðalistinni. Í Kerlingarfjöllum má finna brekkur við allra hæfi, allt frá þægilegum aflíðandi byrjendabrekkum yfir í snarbrattar jökulhlíðar. Að auki er frábært að ferðast vítt og breitt um þessa fallegustu útsýnistinda landsins með fjallaskíðin á fótunum og koma niður á allt öðrum stað en upp var farið.
Gert er ráð fyrir því að þátttakendur hafi reynslu á svigskíðum, en námskeiðið er bæði fyrir byrjendur og lengra komna á fjallaskíðum. Þátttakendum er skipt upp í getuhópa þannig að á meðan sumir eru að læra að nota fjallaskíði í fyrsta sinn, þá eru aðrir sem eru komnir lengra að fá tækifæri til að fínpússa tæknina, fara hærra, lengra og hraðar. Byrjendur fá kennslu í grunnatriðum fjallaskíðamennsku; hækkanir með skinnum og broddum, undirbúning skíðaferða og leiðarval ásamt kennslu í skíðatækni utan brauta. Að auki verður farið yfir meginatriði í snjóflóðamati og notkun snjóflóðaýla. Það er góð regla að rifja árlega upp tæknina við snjóflóðaleit og björgun og sett verður upp æfingaleit í því skyni.
Allir þátttakendur fá persónulegar ábendingar og leiðsögn þrautreyndra skíðakennara og myndbandsupptökur eru notaðar til að fínstilla tæknina hjá hverjum og einum.
Miðað er við að þátttakendur komi á eigin fjallabílum í Kerlingarfjöll og lagt er af stað í samfloti um hádegisbil á föstudegi og áætluð heimkoma aftur til Reykjavíkur er síðla dags á sunnudag.
Gist er í tvær nætur á nýju og glæsilegu fjallahóteli í Kerlingarfjöllum, Highland Base með morgunmat og kvöldmat. Þar er frábær aðstaða og hægt að láta líða úr sér í nýopnuðum Hálendisböðum fyrir hefðbundna Kerlingarfjallakvöldvöku með gítarspili við arineld síðar um kvöldið.
Námskeiðið kostar 93.000 kr. fyrir meðlimi Útihreyfingarinnar en annars 125.000 kr. Verðið er pr. mann og miðar við tveggja manna standard herbergi en hægt er að panta einstaklingsherbergi og/eða uppfæra í delux gegn hærra gjaldi. Sendið fyrirspurn á utihreyfingin@utihreyfingin.is.
Innifalið: Gisting í tvær nætur, morgunverður og aðgangur að Hálendisböðum. Léttur kvöldverður á föstudagskvöldinu og þriggja rétta kvöldverður seinna kvöldið ásamt fordrykk. Skíðakennsla, leiðsögn og utanumhald.