• Úti 101

    29.900 kr.

    NÆSTA NÁMSKEIÐ HEFST 17. SEPT Kynningarfundur 10. sept, kl. 17:30 í Útilífi, Skeifunni 11

    Sex vikna grunnnámskeið, haldið þrisvar á ári, í janúar, apríl og september. Námskeiðið er fyrir fólk sem er að byrja að stunda útihreyfingu eða að fara af stað eftir langt hlé og vill læra undirstöðuatriði í útihlaupi, kynnast sjósundi og byggja upp þol og styrk fyrir útihreyfingu og ævintýri. Æft er tvisvar til þrisvar í viku og mikið er um göngur, létt hlaup og þrekæfingar.

    Dagskrá námskeiðsins
    • Alla þriðjudaga kl. 17:30 Styrktar- og þrekæfingar. Æfingarnar fara fram í Elliðaárdal, Öskjuhlíð, Laugardal og víðar.
    • Alla fimmtudaga kl. 17:30 Tækni- og gæðaæfingar. Á Hólmsheiðinni, Úlfarsfelli, í Heiðmörk, Bláfjöllum og víðar.
    • Laugardagar / sunnudagar kl. 9:30 Lengri hreyfing aðra hvora helgi, til skiptis á laugardögum og sunnudögum. Gamlir og nýir slóðar í nágrenni Reykjavíkur. Helgaræfingar næsta námskeiðs eru haldnar laugardaginn 21. september, sunnudaginn 29. september og laugardaginn 19. október.
    Á Úti 101 er sérstök áhersla lögð á persónulegt utanumhald sem hefst með upphafsviðtali um markmið og væntingar. Námskeiðið er því tilvalið fyrir þá sem vilja koma sér af stað í útihreyfingu og að því loknu er hægt að skrá sig á framhaldsnámskeið Úti 102 eða jafnvel taka þátt í Hálfvættanámskeiði Útihreyfingarinnar. Úti 101 endar á sameiginlegri útskriftarferð þar sem áfanganum er fagnað. Hægt er að greiða fyrir námskeiðið í einu lagi eða skipta greiðslum eins og hver og einn kýs inni í greiðsluferlinu sjálfu. Á meðan á námskeiðinu stendur njóta þátttakendur sérstakra afsláttarkjara Útihreyfingarinnar. Umsjón með námskeiðinu hefur Kristín Ýr Lyngdal ásamt Helgu Maríu Heiðarsdóttur.
  • Úti 102

    22.900 kr.

    NÁMSKEIÐ HEFST 29. október Fjögurra vikna framhaldsnámskeið fyrir fólk sem hefur farið á Úti 101 námskeið Útihreyfingarinnar eða er með einhvern grunn í útivist og langar til að bæta við sig; hlaupa lengra, fara hærra á fjöllum, og vera aðeins lengur ofan í sjónum. Æft er tvisvar til þrisvar í viku og mikið er um göngur, létt hlaup og þrekæfingar.

    Dagskrá námskeiðsins
    • Alla þriðjudaga kl. 17:30 Styrktar- og þrekæfingar með Útihreyfingunni. Æfingarnar fara fram á grænum svæðum í Reykjavík og nágrenni.
    • Alla fimmtudaga kl. 17:30 Tækni- og gæðaæfingar með Úti 102 þjálfara. Æfingarnar fara fram á grænum svæðum í Reykjavík og nágrenni.
    • Laugardagar / sunnudagar kl. 9:30 Tvær lengri helgaræfingar, laugardaginn 2. nóvember og sunnudaginn 24. nóvember.
    Á Úti 102 er sérstök áhersla lögð á persónulegt utanumhald sem hefst með upphafsviðtali um markmið og væntingar. Námskeiðið er tilvalið fyrir þau sem vilja halda áfram að hreyfa sig, koma sér aftur af stað í útihreyfingu og einnig tilvalið fyrir þau sem hafa áhuga á að taka síðan þátt í Hálfvættanámskeiði Útihreyfingarinnar sem hefst í lok nóvember.
    Hægt er að greiða fyrir námskeiðið í einu lagi eða skipta greiðslum eins og hver og einn kýs inni í greiðsluferlinu sjálfu. Á meðan á námskeiðinu stendur njóta þátttakendur sérstakra afsláttarkjara Útihreyfingarinnar. Umsjón með námskeiðinu hefur Kristín Ýr Lyngdal.
  • Dagsferð í núvitund 8. desember Þessi skemmtilega aðventuhefð varð til fyrir nokkrum árum og hefur ræklega slegið í gegn. Gengið er á ferðaskíðum annan sunnudag í aðventu, með bókina Aðventu eftir Gunnar Gunnarsson í eyrunum, í snilldarlestri Róberts Arnfinnssonar. Þetta er sannkölluð núvitundarganga því við tökum hlustuninni alvarlega og í þessari göngu er ekki talað, bara hlustað! Göngumenn lifa sig inn í þjóðlegan reynsluheim fyrri alda og spegla sig í ævintýrum Fjalla-Bensa sem stundaði eftirleitir á jólaföstunni á Mývatnsöræfum. Þar gekk hann um á skíðum, oft í stórhríð og fimbulkulda, ásamt forystusauðinum Eitli og hundinum Leó og bjargaði sauðfé frá því að fenna í kaf og verða úti. Lagt er af stað í ljósaskiptunum eða kl. 15 og gengið með höfuðljós inn í myrkrið, í alls tæplega 3 klst. Gangan hefst og endar við Skíðaskálann í Hveradölum og þar geta þátttakendur, að göngu lokinni, gætt sér á nýbökuðum vöflum og rjúkandi heitu súkkulaði með rjóma. Ef ekki gefur nægan snjó til skíðagöngu frá Hveradölum, verður skoðað að færa gönguna. Ferðin er ókeypis fyrir meðlimi Útihreyfingarinnar sem þó þurfa að smella hér til að skrá sig til leiks, svo hægt sé að skipuleggja ferðina sem best. Aðrir greiða 13 þúsund kr. og fara í gegnum kaupferlið hér að neðan. Allir skráðir þátttakendur fá nánari upplýsingapóst þegar nær dregur ferð.
  • Fjallganga 29. september Fáir fjallstoppar bjóða uppá jafn glæsilegt útsýni og Botnsúlur sem standa fyrir botni Hvalfjarðar og eru á sama tíma krúnudjásnið í fjallasýn Þingvalla. Þessi þúsund metra hái fjallabálkur er skyldufag í íslenzkum fjallafræðum. Þarna þurfa allir að ganga upp og kynnast þessu risastóra útivistarsvæði í nágrenni höfuðborgarinnar. Þetta er umtalsverð fjallganga um gróið land og skriður í töluverðum bratta en efst er greiður og breiður hryggur. Búast má við 4-5 tíma göngu yfir um það bil 6 til 7 km, með hækkun uppá 970 metra. Útigengið er fjallgönguhópur þar sem gleðin er í fyrirrúmi. Dagskráin er fyrir öll sem langar að kynnast fjöllum og stöðum í nágrenni Reykjavíkur. Tilvalinn hópur fyrir fólk sem er að taka sín fyrstu skref í fjallgöngum eða þau sem langar að dusta rykið af göngubúnaðinum og vilja kynnast útivistarfólki, nýjum stöðum og bæta við færni sína á fjöllum.
  • Fjallganga 27. október Blákollur er fjall sem kemur á óvart! Þetta er sjaldfarinn tindur en samt í alfaraleið því við höfum öll ekið þarna framhjá mörg hundruð sinnum. Leiðin á tindinn opnar á útsýni á fjalllendi sem hulið er sjónum þegar ekið er framhjá Hafnarfjalli. Landsýnin á tindinum er stórfengleg. Í suðri er Akrafjall, Esjan og Reykjanesið, í vestri allt Snæfellsnesið, Baula og Holtavörðuheiði í norður og allir tindar Skarðsheiðarinnar í austur. Góður stígur hefur myndast á hryggnum á leið upp á Blákoll en búast má við að gangan taki 3-4 tíma með um það bil 700 metra hækkun yfir rúma 5 kílómetra. Útigengið er fjallgönguhópur þar sem gleðin er í fyrirrúmi. Dagskráin er fyrir öll sem langar að kynnast fjöllum og stöðum í nágrenni Reykjavíkur. Tilvalinn hópur fyrir fólk sem er að taka sín fyrstu skref í fjallgöngum eða þau sem langar að dusta rykið af göngubúnaðinum og vilja kynnast útivistarfólki, nýjum stöðum og bæta við færni sína á fjöllum.
  • Aftur út

    4.900 kr.
    NÆSTA NÁMSKEIÐ HEFST 3. OKT
    Námskeið þar sem útivist er notuð til endurhæfingar ásamt samveru og jafningjaspjalli
    Ætlað öllum sem eru að koma sér aftur af stað eftir erfið veikindi svo sem krabbameinsmeðferð. Leiðarljós námskeiðsins er fólk finni sinn eigin kraft og frið í náttúrunni og öðlist styrk í gegnum samveru með öðrum sem eru á sama stað.  Frábært fyrsta skrefið fyrir meistara sem vilja koma sér í gott útivistarform, sigra fjöll og firnindi og sig sjálf í leiðinni. Léttar göngur, kaffispjall og raunhæf markmið, eitt skref í einu! Hópurinn hittist alls fimm sinnum og lokatakmarkið er hæg ganga upp á Úlfarsfell sem rís tæplega 300 metra yfir sjávarmál.  Dagskrá námskeiðsins
    • 3. okt, kl. 14. Laugardalur. Ganga og léttar æfingar. Kaffispjall í Kaffi Flóru.
    • 10. okt, kl. 14. Öskjuhlíð. Ganga og léttar æfingar. Kaffispjall á Bragganum.
    • 17. okt, kl. 14. Elliðaárdalur. Ganga og léttar æfingar. Kaffispjall á Bístró. 
    • 24. okt, kl. 14. Úlfarsfell. Sigurgangan :)
    • Í lok námskeiðs verður bónusferð í sjósund í Nauthólsvík.
    Guðrún Sigríður Ágústsdóttir, betur þekkt sem Sirrý, leiðir námskeiðið. Hún hefur tvisvar greinst með krabbamein og hefur reynt á eigin skinni hversu mikilvæg útivist er í endurhæfingu og bataferli. Tíu árum eftir að hún greindist fyrst, gekk hún á gönguskíðum eftir endilöngum Vatnajökli og ári síðar á Hvannadalshnúk. Hér fyrir neðan eru tvö viðtöl þar sem Sirrý segir sína sögu.  Viðtal í Vísi Viðtal á mbl.is Skráðir þátttakendur fá upplýsingapóst og boð á undirbúningsfund í aðdraganda námskeiðsins.

  • Ævintýralega góð gjöf Dýrmætasta gjöfin er alltaf samvera með þeim sem þér þykir vænt um. Og það verður ekki betra en þegar samveran er í formi skemmtilegrar útivistar þar sem allir leika sér saman. Gefðu þér eða þínum gjafabréf sem gildir í alla útihreyfingu, námskeið eða ævintýri Útihreyfingarinnar. Það er hægt er að velja upphæð hér að neðan. Svo má senda póst á utihreyfingin@utihreyfingin.is til að gefa gjafabréf með upphæð að eigin vali eða til að panta gjafabréf inn í sérstaka ævintýraferð með Útihreyfingunni. Gjafabréfið kemur fallega uppsett í tölvupósti til útprentunar.

Title

Go to Top