• Dagsferð í núvitund 8. desember Þessi skemmtilega aðventuhefð varð til fyrir nokkrum árum og hefur ræklega slegið í gegn. Gengið er á ferðaskíðum annan sunnudag í aðventu, með bókina Aðventu eftir Gunnar Gunnarsson í eyrunum, í snilldarlestri Róberts Arnfinnssonar. Þetta er sannkölluð núvitundarganga því við tökum hlustuninni alvarlega og í þessari göngu er ekki talað, bara hlustað! Göngumenn lifa sig inn í þjóðlegan reynsluheim fyrri alda og spegla sig í ævintýrum Fjalla-Bensa sem stundaði eftirleitir á jólaföstunni á Mývatnsöræfum. Þar gekk hann um á skíðum, oft í stórhríð og fimbulkulda, ásamt forystusauðinum Eitli og hundinum Leó og bjargaði sauðfé frá því að fenna í kaf og verða úti. Lagt er af stað í ljósaskiptunum eða kl. 15 og gengið með höfuðljós inn í myrkrið, í alls tæplega 3 klst. Gangan hefst og endar við Skíðaskálann í Hveradölum og þar geta þátttakendur, að göngu lokinni, gætt sér á nýbökuðum vöflum og rjúkandi heitu súkkulaði með rjóma. Ef ekki gefur nægan snjó til skíðagöngu frá Hveradölum, verður skoðað að færa gönguna. Ferðin er ókeypis fyrir meðlimi Útihreyfingarinnar sem þó þurfa að smella hér til að skrá sig til leiks, svo hægt sé að skipuleggja ferðina sem best. Aðrir greiða 13 þúsund kr. og fara í gegnum kaupferlið hér að neðan. Allir skráðir þátttakendur fá nánari upplýsingapóst þegar nær dregur ferð.
  • Hálfvættur 2025

    161.100 kr.
    NÆSTA NÁMSKEIÐ HEFST Í NÓV KYNNINGARFUNDUR 24. SEPT Besta áskorun lífs þíns! Þjálfun og undirbúningur til að ljúka hálfum vegalengdum Landvættaáskorunarinnar sem kallar á að þátttakendur ljúki fjórum þrautum í fjórum landshlutum á innan við ári. Þrautirnar felast í skíðagöngukeppni, hjólreiðakeppni, fjallahlaupi og vatnasundskeppni. Stórskemmtileg áskorun til að komast í gott form og þjálfa sig í alls konar útiíþróttum. Þetta er til dæmis heppilegur næsti áfangi fyrir þá sem hafa lokið Úti 101 námskeiðinu. Dagsetningar þrautanna fjögurra
    • Fossavatnsgangan 12. apríl 2025 25 km skíðaganga
    • Bláalónsþrautin, dagsetning ekki staðfest en síðast 8. júní 2024 30 km hjólreiðar
    • Þorvaldsdalsskokkið, dagsetning ekki staðfest en síðast 6. júlí 2024 16 km fjallahlaup
    • Urriðavatnssundið, dagsetning ekki staðfest en síðast 27. júlí 2024 1250 m vatnasund
    Æfingaáætlunin byggir á tveimur til þremur sameiginlegum æfingum á viku. Æft er á þriðjudögum og fimmtudögum kl. 17:30 og aðra hvora helgi til skiptis laugardag og sunnudag kl. 9:30. Þjálfunin styðst við æfingagrunn Útihreyfingarinnar en verður því sérhæfðari er nær dregur keppnunum með sértækri æfingaáætlun og þjálfun. Athugið að þátttakendur þurfa ekki að hafa grunn í skíðagöngu til að vera með, því þær viðbótaræfingar sem bætast ofan á, snúa fyrst og fremst að því að kenna og ná upp færni á gönguskíðunum en einnig er um að ræða sundæfingar og kuldaþjálfun. Sérmenntaðir þjálfarar og sérfræðingar í skíðagöngu og sundi munu meðal annars koma inn á þessar æfingar. Að öðru leyti koma margir þjálfarar með mikla þekkingu og reynslu í hverri grein fyrir sig að námskeiðinu. Þjálfarar Útihreyfingarinnar eru allir með margfalda Landvættatitla og hafa þjálfað vel yfir 50% af öllum sem klárað hafa Landvættaþrautirnar frá upphafi. Þátttakendur fara í gegnum upphafsviðtal um stöðu sína og markmið og fá markvissa endurgjöf, eftirfylgni og utanumhald allt tímabilið. Í gegnum allt námskeiðið er mikil kennsla og fræðsla, m.a. um tækni, búnað, keppnisundirbúning og keppnisnæringu. Þá eru fræðslu- og upplýsingafundir haldnir fyrir hverja keppnisgrein og þátttakendur fá stuðning og fylgni í gegnum keppnirnar sjálfar. Námskeiðið tekur 9 mánuði og kostar 161.100 kr. eða 17.900 kr. á mánuði. Hægt er að greiða fyrir námskeiðið í einu lagi eða skipta greiðslum eins og hver og einn kýs inni í greiðsluferlinu sjálfu. Á meðan á námskeiðinu stendur eru þátttakendur meðlimir í Útihreyfingunni og njóta forgangs og afsláttarkjara í ferðir hreyfingarinnar, Úti ævintýri, auk góðra afsláttarkjara í völdum verslunum. Viltu vita meira? Hér getur þú lesið allt um hvað það þýðir að verða Landvættur.
  • Úti 102

    22.900 kr.

    NÁMSKEIÐ HEFST 29. október Fjögurra vikna framhaldsnámskeið fyrir fólk sem hefur farið á Úti 101 námskeið Útihreyfingarinnar eða er með einhvern grunn í útivist og langar til að bæta við sig; hlaupa lengra, fara hærra á fjöllum, og vera aðeins lengur ofan í sjónum. Æft er tvisvar til þrisvar í viku og mikið er um göngur, létt hlaup og þrekæfingar.

    Dagskrá námskeiðsins
    • Alla þriðjudaga kl. 17:30 Styrktar- og þrekæfingar með Útihreyfingunni. Æfingarnar fara fram á grænum svæðum í Reykjavík og nágrenni.
    • Alla fimmtudaga kl. 17:30 Tækni- og gæðaæfingar með Úti 102 þjálfara. Æfingarnar fara fram á grænum svæðum í Reykjavík og nágrenni.
    • Laugardagar / sunnudagar kl. 9:30 Tvær lengri helgaræfingar, laugardaginn 2. nóvember og sunnudaginn 24. nóvember.
    Á Úti 102 er sérstök áhersla lögð á persónulegt utanumhald sem hefst með upphafsviðtali um markmið og væntingar. Námskeiðið er tilvalið fyrir þau sem vilja halda áfram að hreyfa sig, koma sér aftur af stað í útihreyfingu og einnig tilvalið fyrir þau sem hafa áhuga á að taka síðan þátt í Hálfvættanámskeiði Útihreyfingarinnar sem hefst í lok nóvember.
    Hægt er að greiða fyrir námskeiðið í einu lagi eða skipta greiðslum eins og hver og einn kýs inni í greiðsluferlinu sjálfu. Á meðan á námskeiðinu stendur njóta þátttakendur sérstakra afsláttarkjara Útihreyfingarinnar. Umsjón með námskeiðinu hefur Kristín Ýr Lyngdal.
  • Himneskir Jötunheimar. Ferðaskíði

    70.000 kr.272.000 kr.
    Skíðað á milli skála í Noregi 20.-25. mars Það má líkja Jötunheimum í Noregi við Fjallabak okkar Íslendinga. Þetta stórkostlega fjallahérað er eitt vinsælasta útivistarsvæði Norðmanna, umkringt jöklum og hæstu fjöllum landsins. Á milli fjallanna liggja stór og mikil vötn sem á veturnar bjóða upp á sannkallaðar himnabrautir fyrir skíðafólk á gönguskíðum. Á veturnar er líka aðeins hægt að ferðast um Jötunheima fótgangandi eða á skíðum og það gerum við í þessari ferð því gengið er á ferðaskíðum (utanbrautarskíðum með stálköntum) í alls  fjóra daga og gist í huggulegum, hlýjum og fullþjónustuðum fjallaskálum. Fyrsti og síðasti dagurinn eru ferðadagar. Leiðangurinn hefst á lestarferðalagi frá Gardemoen flugvelli í Osló. Haldið er norður í Guðbrandsdal en þaðan er svo ekið með smárútu á fyrsta næturstaðinn, rómantískt sveitasetur með mikla sögu. Þar bíður góður kvöldmatur eldaður úr hráefni frá héraði og að auki sána og heitur pottur þar sem hægt er að láta ferðaþreytuna líða úr sér og undirbúa sig fyrir átök næstu daga. Eftir staðgóðan morgunmat næsta dag hefst skíðaferðalagið sjálft á því að gengið er inn í Jötunheimana. Þennan dag er gengið á skíðum um 24 km leið, allt á skíðabrautum í góðum skíðasporum. Þessa aðra nótt er svo gist í einum stærsta og þekktasta fjallaskála Norðmanna sem hefur verið starfræktur í tæplega 150 ár! Næstu þrjá daga er gengið á skíðunum á milli stórra og vel útbúinna skála þar sem boðið er upp á allan mat og þjónustu, hægt að kaupa drykki og ýmsan smávarning og komast í sturtu. Dagleiðirnar þessa þrjá daga eru um 20 km og tvær þeirra liggja að mestu eftir frosnum, rennisléttum fjallavötnum sem gerir færið jafnt og slétt og býður upp á magnað útsýni á fjöllin sem umlykja okkur á alla vegu. Síðasta daginn er skíðað til byggða, niður í lítið fjallaþorp þar sem gist er á góðu hóteli með heilsulind. Þar gerir hópurinn vel við sig í mat og drykk en næsta dag er ekið með rútu beint á Gardemoen flugvöll í Osló, þar sem flogið er heim til Íslands, nú eða hvert á land sem er! Þátttakendur þurfa að hafa einhverja reynslu á gönguskíðum og gott er að undirbúa sig í aðdraganda ferðar með því að taka námskeið eða fara í æfingaferðir. Haldinn er rafrænn undirbúningsfundur fyrir ferð þar sem m.a. verður farið ítarlega yfir búnað og annað skipulag. Fararstjórar eru Brynhildur Ólafsdóttir og Róbert Marshall. Innifalið í ferðinni sem kostar 272 þúsund er öll gisting, þ.e. þrjár nætur í fjallaskálum, ein á gistiheimili og ein á hóteli. Allur matur utan dagsnesti ferðadagana tvo, þ.e. fyrsta og síðasta daginn. Lestar- og rútufargjöld innan Noregs. Undirbúningsfundur, leiðsögn og utanumhald. Flug til og frá Noregs er ekki innifalið, en ferðin er skipulögð þannig að þátttakendur geta flogið út að morgni 20. mars, sama dag og leiðangurinn hefst og heim daginn sem honum lýkur, þ.e. 25. mars. Hægt er að greiða ferð að fullu eða greiða staðfestingargjald 70.000 kr og eftirstöðvar í síðasta lagi sex vikum fyrir ferð. Lágmarksþátttaka miðar við 10 manns.
  • Aftur út

    4.900 kr.
    NÆSTA NÁMSKEIÐ HEFST 3. OKT
    Námskeið þar sem útivist er notuð til endurhæfingar ásamt samveru og jafningjaspjalli
    Ætlað öllum sem eru að koma sér aftur af stað eftir erfið veikindi svo sem krabbameinsmeðferð. Leiðarljós námskeiðsins er fólk finni sinn eigin kraft og frið í náttúrunni og öðlist styrk í gegnum samveru með öðrum sem eru á sama stað.  Frábært fyrsta skrefið fyrir meistara sem vilja koma sér í gott útivistarform, sigra fjöll og firnindi og sig sjálf í leiðinni. Léttar göngur, kaffispjall og raunhæf markmið, eitt skref í einu! Hópurinn hittist alls fimm sinnum og lokatakmarkið er hæg ganga upp á Úlfarsfell sem rís tæplega 300 metra yfir sjávarmál.  Dagskrá námskeiðsins
    • 3. okt, kl. 14. Laugardalur. Ganga og léttar æfingar. Kaffispjall í Kaffi Flóru.
    • 10. okt, kl. 14. Öskjuhlíð. Ganga og léttar æfingar. Kaffispjall á Bragganum.
    • 17. okt, kl. 14. Elliðaárdalur. Ganga og léttar æfingar. Kaffispjall á Bístró. 
    • 24. okt, kl. 14. Úlfarsfell. Sigurgangan :)
    • Í lok námskeiðs verður bónusferð í sjósund í Nauthólsvík.
    Guðrún Sigríður Ágústsdóttir, betur þekkt sem Sirrý, leiðir námskeiðið. Hún hefur tvisvar greinst með krabbamein og hefur reynt á eigin skinni hversu mikilvæg útivist er í endurhæfingu og bataferli. Tíu árum eftir að hún greindist fyrst, gekk hún á gönguskíðum eftir endilöngum Vatnajökli og ári síðar á Hvannadalshnúk. Hér fyrir neðan eru tvö viðtöl þar sem Sirrý segir sína sögu.  Viðtal í Vísi Viðtal á mbl.is Skráðir þátttakendur fá upplýsingapóst og boð á undirbúningsfund í aðdraganda námskeiðsins.

  • Úti últra æfingahópur

    35.000 kr.99.800 kr.
    NÆSTA NÁMSKEIÐ HEFST 2. APRÍL, 2025 Hlaupa- og undirbúningshópur fyrir Kerlingarfjöll Ultra eða önnur löng fjallahlaup Fjögurra mánaða æfinga- og undirbúningshópur sem er sérstaklega hugsaður fyrir þau sem stefna að því að taka þátt í Kerlingarfjöll Ultra hlaupinu sem haldið verður laugardaginn 26. júlí, 2025. Æfingaáætlunin hentar bæði fyrir 22 km og 60 km vegalengdina en má líka nota fyrir önnur löng fjallahlaup sem haldin eru á svipuðum tíma. Löng fjallahlaup eða svokölluð últra hlaup eru keppnir þar sem hlaupið er lengra en 50 km en undir þessa skilgreiningu falla til dæmis Hengill Ultra, Laugavegshlaupið, Dyrfjallahlaupið og Súlur Vertical. Á svona markmiðstengdu ferðalagi skiptir höfuðmáli að æfingaferlið sé skemmtilegt og félagsskapurinn góður. Í þessum hópi finnur þú æfingafélagana sem halda þér við efnið, þjást með þér í gegnum súrt og sætt og deila með þér nördalegum áhuga á langhlaupum. Æskilegt er að þeir sem ætla að hlaupa 60 km í Kerlingarfjallahlaupinu, hafi hlaupið reglulega í þó nokkurn tíma fram að upphafi námskeiðs og geti a.m.k. hlaupið 15 km án vandræða. Þeir sem stefna á 22 km í Kerlingarfjallahlaupinu, þurfa að treysta sér í að hlaupa 5 km í upphafi námskeiðsins. Sameiginlegar æfingar hefjast 2. apríl, 2025 og standa til mánaðarmóta júlí/ágúst. Hópurinn æfir saman tvisvar sinnum í viku, kl. 18 á miðvikudögum og kl. 10 á sunnudögum. Að auki æfir hópurinn með Útihreyfingunni 2-3 sinnum í viku (kl. 17:30 á þriðjudögum og fimmtudögum og kl. 9:30 til skiptis á laugardögum og sunnudögum). Í æfingaáætlun hópsins er líka gert ráð fyrir einu hlaupi í viku á eigin vegum. Þátttaka kostar 35.000 kr. fyrir þá sem eru nú þegar meðlimir í Útihreyfingunni eða 8.750 kr. á mánuði í fjóra mánuði. Aðrir borga 99.800 kr. sem er þátttökugjaldið plús fjögurra mánaða áskrift að Útihreyfingunni. Meðlimir í Útihreyfingunni hafa aðgang að 2-3 alls konar útiæfingum í hverri viku, fá allt að 40% afslátt í ferðir hreyfingarinnar, Úti ævintýri, auk góðra afsláttarkjara í völdum verslunum. Athugið að hægt er að greiða þátttökugjaldið í einu lagi eða skipta greiðslum eins og hver og einn kýs inni í greiðsluferlinu sjálfu. Þjálfarar hópsins eru Helga María Heiðarsdóttir, Róbert Marshall og Kjartan Salómonsson, allt þrautreyndir langhlauparar og útivistarfólk. Útihreyfingin er framkvæmdaraðili Kerlingarfjallahlaupsins og þjálfarar hópsins þekkja því leiðina, landslag og aðstæður gríðarlega vel. Skráðir þátttakendur fá ítarlegan upplýsingapóst og boð á undirbúningsfund í aðdraganda námskeiðsins.

Title

Go to Top