Úti últra

25.000 kr.89.800 kr.

Æfinga- og undirbúningshópur fyrir löng fjallahlaup eða svokölluð últra hlaup. Það eru keppnir þar sem hlaupið er lengra en 50 km en undir þessa skilgreiningu falla til dæmis Hengill Ultra, Laugavegshlaupið og Austur Ultra.

Á svona markmiðstengdu ferðalagi skiptir höfuðmáli að æfingaferlið sé skemmtilegt og félagsskapurinn góður. Í þessum hópi finnur þú æfingafélagana sem halda þér við efnið, þjást með þér í gegnum súrt og sætt og deila með þér nördalegum áhuga á langhlaupum 😀

Hópurinn byggir ofan á grunnæfingaáætlun Útihreyfingarinnar, þ.e. virkri krossþjálfun tvisvar til þrisvar í viku á sameiginlegum æfingum, víðs vegar á stór Reykjavíkursvæðinu.

Ofan á það bætast svo ein til tvær æfingar á viku þar sem áherslan er aðallega hraðaæfingar og úthald með löngum stigvaxandi hlaupum. Sumar þessara aukaæfinga Úti últra eru gerðar á eigin vegum en aðrar eru sameiginlegar þar sem hópurinn hittist með þjálfara, spáir og spekúlerar og æfir saman.

Úti últra 2023 starfar í átta mánuði, þ.e. frá febrúar til ágúst. Þátttakendur byrja þó ekki að æfa með hópnum fyrr en um fjóra mánuði fyrir þá keppni sem þeir stefna á.

Hægt er að koma inn í hópinn á hvaða tímapunkti sem er, til að þjálfa fyrir margvíslegar keppnir og viðburði. Úti últra 2023 beinir þó sjónum sínum sérstaklega að þremur langhlaupum sem haldin eru á Íslandi næsta sumar, þ.e. frá  júní til ágúst.

  • Hengill 53 km. 10. júní 2023.
    Þeir sem stefna á þetta hlaup byrja að æfa með Úti últra um miðjan febrúar.
  • Laugavegur 55 km. 15. júlí 2023.
    Þeir sem stefna á þetta hlaup byrja að æfa með Úti últra um miðjan mars.
  • Austur Ultra 53 km. 12. ágúst 2023.
    Þeir sem stefna á þetta hlaup byrja að æfa með Úti últra um miðjan apríl.

Það er vel gerlegt að taka bæði Hengil 53 og Austur Ultra næsta sumar en við mælum ekki með því að taka öll þrjú hlaupin á sama árinu!

Hver og einn þátttakandi í Úti últra er með sitt eigið persónulega markmið og aðeins þeir sem eru að fara í sömu keppni eru á nákvæmlega sama stað í æfingaáætluninni. Þrátt fyrir það geta þátttakendur stutt hvorn annan, lært hver af öðrum og æft saman á mismunandi álagi.

Athugið að Úti últra er ekki fyrir algera byrjendur í hlaupum. Fólk þarf að vera búið að hlaupa reglulega í nokkurn tíma og geta, í það allra minnsta, hlaupið 10 km án vandræða.

Auk ítarlegrar æfingaáætlunar og sameiginlegra æfinga þá er margvísleg fræðsla innifalin í þátttökugjaldinu, m.a. um næringu, hlaupatækni og keppnisundirbúning ásamt ítarlegum upplýsingum og fundi fyrir hvert keppnishlaup þar sem farið er yfir brautina, hvað ber að varast, veðurútlit, búnað og svo framvegis.

Sérstakur Facebookhópur er stofnaður utan um Úti últra þar sem þjálfarar og þátttakendur deila upplýsingum og fróðleik, skipuleggja aukaæfingarnar og nördast saman.

Námskeiðið kostar 25.000 kr. fyrir þá sem æfa nú þegar með Útihreyfingunni eða 6.250 kr. á mánuði. Aðrir þurfa að auki að kaupa fjögurra mánaða aðild að Útihreyfingunni sem kostar 64.800 kr. og borga þá 22.450 kr. á mánuði í fjóra mánuði.

Þátttakendur sjá sjálfir um að kaupa skráningarnúmer í þær keppnir sem þeir ætla í. Á meðan á námskeiðinu stendur njóta þátttakendur allra sömu kjara og aðrir meðlimir í Útihreyfingunni m.a. forgangs og afsláttarkjara í ferðir hreyfingarinnar, Úti ævintýri.

Title

Go to Top