• Geirmundartindur í Akrafjalli 9. mars Ganga á Akrafjall er alltaf skemmtileg. Ekki síst því Akrafjallið kemur öllum á óvart með fjölbreytileika, útsýni og krefjandi tindum. Geirmundartindur er annar tveggja hápunkta fjallsins en jafnframt sá sem er sjaldfarnari. Fyrir þá sem hafa bara farið á Háahnjúk, að sunnanverðu, er þetta eiginlega skylduganga því hér gefst frábært færi á að virða fyrir sér Leirársveitina og Skarðsheiðina, já og allt Vesturland í einni hendingu af stórglæsilegum fjallstoppi. Þetta er jafnframt tilvalin fjallganga fyrir þau sem þjást af örlítilli lofthræðslu því ekkert er betra til að læknast af slíkum óþarfa en að æfa sig í því að ganga á öruggum fjallaslóðum sem jafnframt eru í nokkurri hæð. Gangan hefst kl. 9 frá bílastæðinu undir Akrafjalli og fyrst um sinn er gengið á fjölförnum slóða upp í mynni Berjadals sem klýfur fjallið nánast í sundur. Þetta er leiksvæði Skagamanna sem nota Akrafjall sem nokkurs konar líkamsræktarstöð og margir ganga hér um að minnsta kosti einu sinni í viku! Það er brattgengt upp úr Berjadalnum, norður eftir eggjum fjallsins og upp á Geirmundartind. Slóðin er að auki grýtt yfirferðar á köflum og því seinfarin en verðlaunin eru því meiri og betri þegar upp er komið. Leiðin fram og til baka er um 7 km með um 600 m hækkun og gera má ráð fyrir að gangan fram og til baka taki um 4 klst. Skráðir þátttakendur fá ítarlegan tölvupóst með ferðalýsingu og búnaðarlista í aðdraganda ferðar. Í þessari fjallgöngu er gengið með Útigenginu, fjallgönguhópi Útihreyfingarinnar. Í Útigenginu er gleðin í fyrirrúmi og dagskráin hentar fyrir þau sem langar að kynnast fjöllum og stöðum í nágrenni Reykjavíkur. Tilvalinn hópur fyrir fólk sem er að taka sín fyrstu skref í fjallgöngum eða þau sem langar að dusta rykið af göngubúnaðinum og vilja kynnast öðru útivistarfólki, nýjum stöðum og bæta við færni sína á fjöllum.
  • Everest Base Camp. Gönguferð

    80.000 kr.565.000 kr.
    Ævintýri lífsins! 5.-17. nóvember 2025 Komdu með okkur í hið fullkomna Himalaya ævintýri upp í hinar goðsagnakenndu grunnbúðir Everest! Að komast upp í Everest Base Camp er alltaf mikið afrek og í raun lífsbreytandi ferðalag. Þessi ferð bíður upp á að haka þetta ævintýri út af draumaferðalistanum - undir faglegri og öruggri fararstjórn. Á níu dögum göngum við í gegnum fögur Sherpa þorp, forn klaustur og mismunandi gróðurlendi í stórkostlegum fjallasölum Himalaya. Við göngum í skugga hæstu fjalla jarðar, yfir hengibrýr sem hanga yfir beljandi jökulfljótum og njótum útsýnisins á Everestfjall og nágranna þess, útsýni sem mun gera þig orðlausa. Hópurinn gistir á krúttlegum tehúsum á leiðinni og kynnist hinni dásamlegu nepölsku menningu og upplifir nepalska matargerð. Á boðstólum er líka nóg af afslöppun og gæðatíma. Á leiðinni til baka gefst svo einstakt tækifæri til að skoða gönguleiðina og hæstu tinda veraldar úr lofti. Því af hverju að ganga sömu leið til baka þegar þú getur svifið yfir hið stórkostlega landslag Himalaya og skoðað útsýnið í einkaþyrlu? Ferðin byrjar og endar í höfuðborg Nepal, Katmandu þar sem gist verður á fimm stjörnu hóteli. Í lok ferðar verða litríkar og fjölskrúðugar götur Kathmandu skoðaðar, ásamt fornum musterum, og stöðum sem eru á heimsminjaskrá UNESCO. Þessi ferð er svo miklu meira en bara gönguferð. Þetta er ævintýraferð sem skilur eftir sig fullan poka af ógleymanlegum minningum. Helga María, leiðsögukona Útihreyfingarinnar í þessari ferð, hefur ferðast og gengið víða í Nepal og meðal annars mikið á þessu svæði og er að auki með mikla reynslu af ferðalögum í hæð. Helga María er með réttindi frá Félagi íslenskra fjallaleiðsögumanna og gilt Wilderness First Responder skírteini, áratuga reynslu af leiðsögn og hefur leiðsagt óteljandi ferðir bæði hérlendis sem erlendis. Hún er einnig land- og jöklafræðingur, þekkir jarðfræði og sögu Himalaya vel og hefur einstaklega gaman að því að deila þeim fróðleik með þeim sem ferðast með henni. Innifalið í ferðinni sem kostar 565 þúsund er íslensk fararstjórn, undirbúningsfundir og aðstoð við undirbúning, nepalskur leiðsögumaður og burðarmenn, öll ferðalög innanlands í Nepal (rútur, flug, þyrluferð), matur á meðan göngu stendur, gisting í tehúsum í göngunni, gisting á 5 stjörnu hótelum í Kathmandu, þjóðgarðsgjöld, skoðunarferð um sögufræga staði í Kathmandu og sameiginlegur kveðju kvöldverður. Athugið að flug til að frá Nepal er ekki innifalið. Heldur ekki vegabréfsáritun, ferðatryggingar, þjórfé fyrir nepalskt starfsfólk, matur í Kathmandu (fyrir utan loka kvöldverð), öll persónuleg útgjöld og annað sem ekki er tekið fram að sé innifalið. Ferðin er unnin í samstarfi við vini okkar hjá Himalayan Outdoor Project. Lágmarksþátttaka miðar við 8 manns en hópurinn getur að hámarki talið 12 manns. Staðfestingargjald skal greiða í síðasta lagi fyrir 1. maí en eftirstöðvar ferðarinnar eru greiddar í síðasta lagi sex vikum fyrir ferð. Einfalt er að dreifa greiðslum með því að senda póst á Útihreyfinguna.
  • Jöklaáskorun Útihreyfingarinnar Þriggja ára stórbrotið ferðalag Jöklafarar er heitið á nýrri áskorun Útihreyfingarinnar þar sem þátttakendur ganga á ferðaskíðum þvert yfir sex stærstu jökla landsins, þ.e. Eyjafjallajökul, Drangajökul, Mýrdalsjökul, Hofsjökul, Langjökul og Vatnajökul. Markmiðið er ekki að fara upp á hæsta tind hvers jökuls fyrir sig, þ.e. fram og til baka, heldur að skíða þvert yfir jöklana þannig að endað sé á öðrum stað en ferðin hófst. Hægt er að klára áskorunina á eigin hraða, þ.e. á eins skömmum eða löngum tíma og hentar hverjum og einum. Hins vegar skipuleggur Útihreyfingin verkefnið og mælir með því að það sé klárað á alls þremur árum frá upphafi til enda, þannig að byrjað sé á æfingum á ferðaskíðum og minni jöklum áður en ráðist er í flóknari og lengri ferðir og jöklaútilegur. Í hnotskurn Þeir sem hafa enga reynslu og eru að byrja frá grunni, geta hafið vegferðina strax í janúar á næsta ári, 2025 með því að læra á ferðaskíði þ.e. utanbrautargönguskíði með stálköntum og æfa sig svo vikulega nágrenni Reykjavíkur með Úti ferðaskíðahópnum. Að auki þurfa óvanir að taka kvöldnámskeið þar sem kennd er línuhegðun á jökli og notkun á jöklabroddum og ísöxi. Að vori verða svo þrír jöklar þveraðir: Drangajökull, Eyjafjallajökull og Langjökull. Þessa jökla er hægt að þvera hvern um sig á einum löngum skíðadegi og því þarf ekki að gista í tjaldi á jökli þetta fyrsta árið. Annað árið hefst á námskeiðinu Ferðast á gönguskíðum þar sem þátttakendur læra öll trixin við að ferðast með púlku í eftirdragi og tjalda í snjó auk þess sem farið er í æfingaútilegu til að þjálfa handtökin. Að vori er síðan haldið í 3-4 daga ferðir á Hofsjökul annars vegar og Mýrdalsjökul hins vegar. Síðasta árið er svo komið að konungi íslenskra jökla, sjálfum Vatnajökli. Það er ferðalag sem tekur heila viku og þarfnast góðs undirbúnings og æfinga. Ekki aðeins þurfa þátttakendur að vera í góðu líkamlegu formi og þekkja búnaðinn sinn vel, heldur er líka nauðsynlegt að undirbúa hausinn fyrir átökin og langa daga á jökli. Að lokum fá þátttakendur viðurkenningarskjal og heiðursnafnbótina Jöklafari og eru þá komnir með fullan og óskoraðan rétt til að grobba sig á alla jöklakanta, jafnvel á alþjóðavettvangi 🙂 Síðasta tækifærið? Markmið þessa verkefnis er þó ekki eingöngu að vera þátttakendum til skemmtunar og áskorunar. Með frásögnum af ferðunum í máli og myndum, viljum við líka vekja athygli almennings, heima og erlendis, á hraðri bráðnun jöklanna af völdum loftslagshlýnunar. Myndum leiðangursmanna verður m.a. safnað á sameiginlega myndasíðu á samfélagsmiðlum undir samheitinu #lastoftheglaciers eða síðustu jöklarnir. Hópurinn reynir þannig að leggja sín lóð á vogarskálarnar svo að okkar kynslóð verði ekki síðasta kynslóðin sem nýtur þess að ferðast á skíðum um jökla landsins. Skráning Athugið að hvorki er nauðsynlegt að klára áskorunina í ofangreindri röð né á þremur árum. Ef fólk er vant því að ferðast á skíðum þá er hægt að raða jöklaferðunum saman á hvern þann hátt sem hentar og jafnvel byrja á Vatnajökli! Að auki geta þeir sem þegar eru búnir að þvera einhverja jökla auðvitað líka verið með og bætt í safnið. Til að taka þátt þarf aðeins að skrá sig til leiks með því að smella hér. Í kjölfarið verður þér boðið inn í sérstakan FB hóp allra þátttakanda og ævintýrið hefst. Hér að neðan eru linkar inn á viðeigandi jöklaferðir og undirbúningsnámskeið auk ferða sem hægt er að nýta til að æfa skíðatæknina og handtökin. JÖKLAFERÐIR 2025 Eyjafjallajökull. 29. mars Drangajökull. 12.-14. apríl Vatnajökull. 30. apríl - 7. maí Langjökull. 14.-15. júní Mýrdalsjökull. Á dagskrá 2026 Hofsjökull. Á dagskrá 2026 UNDIRBÚNINGSNÁMSKEIÐ 2025 Úti ferðaskíði. Námskeið og æfingahópur. Hefst 8. jan. Vetrarfjallamennska. Grunnnámskeið. 24. feb og 3. mars Ferðast á gönguskíðum. Námskeið og útilega. 13. jan. og 25.-26. jan. ÆFINGAFERÐIR 2025 Norðurljósaganga á ferðaskíðum. Kvöldganga. 18. jan. Þingvellir. Dagsferð. 8. feb. Undir Tröllakirkju. Púlkuferðalag. 15.-16. feb. Yfir Snæfellsnes. Dagsferð. 22. feb. Tvídægra. Skíðað á milli skála. 28. feb-2. mars. Ok. Dagsferð. 15. mars Jötunheimar í Noregi. Skíðað á milli skála. 20.-25. mars

Title

Go to Top