Langjökull. Ferðaskíði

UPPSELT

Nóttin 15.-16. júní

Einstök næturskíðaferð yfir þveran Langjökul á meðan sólin sest fyrir aftan hópinn og rís á sama tíma fyrir framan hann! Það er varla hægt að hugsa sér magnaðri upplifun en að vaka og skíða yfir bjarta sumarnóttina undir litaskiptum jökulsins sem logar í roðaglóð.

Hópurinn ekur á eigin bílum úr Reykjavík seinnipart laugardagsins 15. júní, upp að Skálpanesi á Kili, austan megin við Langjökul. Þar eru bílarnir skildir eftir en jepparúta flytur hópinn að upphafsstað göngunnar, vestan Langjökuls.

Rétt við jökulröndina vestan megin, stendur skálinn Jaki. Þar endar vegurinn og tími til kominn að spenna á sig skíðin, axla byrðar og leggja af stað upp í mót. Mesta hækkunin er tekin út í upphafi ferðarinnar, upp fremur þægilega brekku á hæsta punkt leiðarinnar. Þaðan er að mestu aflíðandi leið, alla leið niður jökulinn að austanverðu og að bílum sem bíða við skálann Klaka við Skálpanes.

Leiðin er 40-45 km löng og gera má ráð fyrir að hún taki hópinn 9-12 klukkustundir, allt eftir aðstæðum á jöklinum. Gert er ráð fyrir að lagt sé af stað úr Reykjavík skömmu fyrir kvöldmat á laugardag og komið heim um hádegisbil á sunnudag eftir óviðjafnanlega hásumarnótt.

Þátttakendur þurfa að vera í góðu líkamlegu formi og hafa einhverja reynslu af ferðalögum á skíðum. Athugið að dagsetningin gæti hnikast eitthvað til eða frá, ef veðurspáin er betri dagana í kring.

Skráðir þátttakendur fá ítarlegan upplýsinga- og pökkunarpóst í aðdraganda ferðarinnar en nauðsynlegt er að eiga ferðaskíði, stafi með stórri kringlu og skinn undir skíðin, jöklaþrennuna; belti, brodda og ísöxi ásamt þægilegum dagpoka sem hægt er að hengja skíðin utan á, ef svo ber undir.

Ferðin kostar 38.000 kr. fyrir meðlimi Útihreyfingarinnar en annars 53.000 kr. Hægt er að greiða ferðina í einu lagi eða skipta greiðslum eins og hver og einn kýs inni í greiðsluferlinu sjálfu.

Innifalið er skutl með jepparútu á upphafsstað, utanumhald og leiðsögn.

Title

Go to Top