Þingvellir. Ferðaskíði
10.500 kr. – 12.900 kr.
Dagsganga í jaðri þjóðgarðsins
8. febrúar
Þjóðgarðurinn á Þingvöllum er dásamlegt útivistarsvæði allan ársins hring en vetrarferðir þangað eru í sérstöku uppáhaldi hjá Útihreyfingunni. Þar sem Þingvellir liggja að nokkru ofan í sigdal, þá geta frosthörkur orðið þar miklar og sambland íss og snævar breytt svæðinu í stórkostlegt undraland.
Langskemmtilegast, og raunar auðveldast líka, er að njóta þessarar dýrðar á ferðaskíðum. Það þarf þó ætíð að fara mjög varlega þegar ferðast er um Þingvallasvæðið og sérstaklega að vetri til, þar sem alls konar holur, gjótur og gjár geta leynst undir snjónum. Því mælum við alltaf með því að fylgja einhverjum sem þekkir til og veit hvar best er að fara.
Í þessari ferð er stefnt að því að ganga um austurhluta þjóðgarðsins, og fara skemmtilega hringleið um Reyðarbarm, Hrútafjöll og Stóra Dímon, alls um 15 km, sem tekur um 5-6 klst. Fyrsta hluti leiðarinnar er gengið nokkuð jafnt og þétt upp í móti en hvergi mjög bratt og um leið og haldið er til baka þá tekur við þægileg lækkun, jafnvel þannig að hægt verður að renna sér frekar áreynslulaust nánast alla leið aftur í bíl!
Lagt er af stað kl. 8 á laugardagmorgni úr Reykjavík og stefnt að því að komið sé til baka til Reykjavíkur ekki seinna en um kl. 16.
Athugið að endanleg ferðatilhögun svona skíðaferða þarf alltaf að taka tillit til bæði veðurs og snjóalaga. Þannig gæti þurft að breyta leiðarvali og ef veðurspáin er óhagstæð fyrir laugardaginn, er mögulegt að ferðin verði færð yfir á sunnudag.
Þátttakendur fá nánari upplýsingar og búnaðarlista í tölvupósti í aðdraganda ferðar en þurfa að lágmarki að eiga eftirfarandi búnað, fá hann lánaðan eða leigðan: Ferðaskíði, þ.e. utanbrautarskíði með stálköntum, skinn undir skíðin og skíðastafi. Hægt er að leigja skíði á nokkrum stöðum, m.a. hjá skíðaleigu Útilífs.
Ferðin er hluti af námskeiðinu Úti ferðaskíði og er ókeypis fyrir þá sem æfa með hópnum. Meðlimir Útihreyfingarinnar borga 10.500 kr. en aðrir 12.900 kr.
Innifalið í verðinu er leiðsögn og utanumhald.