Tvídægra. Ferðaskíði
99.000 kr. – 128.000 kr.
Skíðað á milli skála
28. feb.-2. mars
Þriggja daga skíðaleiðangur um Tvídægru, hásléttuna sem í grófum dráttum liggur á milli Holtavörðuheiðar og Eiríksjökuls/Húsafells. Þetta er tiltölulega þægilegt ferðalag sem hentar flestum getustigum enda er skíðað um frekar slétt landslag og að auki er farangur trússaður á milli skála.
Ferðin hefst á því að bílar eru skildir eftir í uppsveitum Borgarfjarðar og rúta skutlar hópnum og farangri hans upp á háheiði Holtavörðuheiðar þar sem farangrinum er staflað inn í trússbílana áður en stigið er á skíðin.
Fyrsta daginn er gengið á skíðunum tæplega 15 km leið í skála en ekki þarf að hafa áhyggjur af þungum byrðum því allur farangur og matur er fluttur á milli og bíður í skálanum við komuna þangað. Dagleiðin í næsta skála er stutt eða aðeins um 10 km. Á síðasta degi er svo gengið meðfram afar fallegu gili sem leið liggur niður í bíla en sú dagleið getur verið frá 12-20 km eftir snjóalögum hverju sinni.
Gist er í tveimur gangnamannaskálum á leiðinni þar sem húsakynni eru frekar fábreytileg. Í báðum skálum er þó hiti, ágætis aðstaða til að elda mat, allur borðbúnaður og góð rúmstæði. Bæði morgunmatur og kvöldmatur er sameiginlegur en fólk tekur með sér nesti fyrir dagana þrjá.
Þó að ekki sé farið um ýkja erfitt landslag, þá þarf fólk að hafa reynslu af ferðaskíðum og vera í ágætu formi. Við mælum með námskeiðinu Úti ferðaskíði og fjölbreyttum dagsferðum Útihreyfingarinnar á ferðaskíðum til að æfa sig á skíðunum.
Haldinn verður rafrænn undirbúningsfundur í aðdraganda ferðar og þátttakendur fá ítarlegan upplýsinga- og búnaðapóst. Að lágmarki þarf að eiga eftirfarandi búnað, fá hann lánaðan eða leigðan: Ferðaskíði, þ.e. utanbrautarskíði með stálköntum, skinn undir skíðin og skíðastafi. Hægt er að leigja skíði á nokkrum stöðum, m.a. hjá skíðaleigu Útilífs.
Ferðin kostar 99.000 kr. fyrir meðlimi Útihreyfingarinnar en annars 128.000 kr. Innifalið í verðinu er rútuferð á upphafsstað, trúss á farangri á milli skála, skálagisting, tveir morgunverðir og tveir kvöldverðir, leiðsögn og utanumhald, auk undirbúningsfundar.