-
Ævintýralega góð gjöf Dýrmætasta gjöfin er alltaf samvera með þeim sem þér þykir vænt um. Og það verður ekki betra en þegar samveran er í formi skemmtilegrar útivistar þar sem allir leika sér saman. Gefðu þér eða þínum gjafabréf sem gildir í alla útihreyfingu, námskeið eða ævintýri Útihreyfingarinnar. Það er hægt er að velja upphæð hér að neðan. Svo má senda póst á utihreyfingin@utihreyfingin.is til að gefa gjafabréf með upphæð að eigin vali eða til að panta gjafabréf inn í sérstaka ævintýraferð með Útihreyfingunni. Gjafabréfið kemur fallega uppsett í tölvupósti til útprentunar. -
Fyrir öll sem elska fjöll og vilja nýta náttúruna til líkamsræktar Útigengið er fyrir fólk sem finnst gaman að vera úti í náttúrunni, kynnast nýjum stöðum, bæta við færni sína á fjöllum, eða þau sem langar að dusta rykið af göngubúnaðinum. Haustdagskráin er fjölbreytt. Áhersla er lögð á góða blöndu af kunnuglegum fjöllum í nágrenni höfuðborgarsvæðisins og fjöllum sem eru sjaldfarnari og krefjast aðeins lengri aksturs. Gengið er á laugardögum, tvær helgar í mánuði og flestar göngurnar taka 3-6 klst. Hópurinn er farinn af stað en hægt er að kaupa sig inn í stakar göngur á 6,500 kr með því að smella á hverja göngu hér fyrir neðan. Næstu göngur með Útigenginu Athugið að ef veður hamlar för á laugardegi, getur verið að göngu verði seinkað til sunnudags. Umsjónarmenn Útigengisins eru Brynhildur Ólafsdóttir og Róbert Marshall ásamt öðru leiðsögufólki Útihreyfingarinnar. Skráðir þátttakendur fá upplýsingapóst í aðdraganda göngu. -
Jöklaáskorun Útihreyfingarinnar Þriggja ára stórbrotið ferðalag Jöklafarar er heitið á nýrri áskorun Útihreyfingarinnar þar sem þátttakendur ganga á ferðaskíðum þvert yfir sex stærstu jökla landsins, þ.e. Eyjafjallajökul, Drangajökul, Mýrdalsjökul, Hofsjökul, Langjökul og Vatnajökul. Markmiðið er ekki að fara upp á hæsta tind hvers jökuls fyrir sig, þ.e. fram og til baka, heldur að skíða þvert yfir jöklana þannig að endað sé á öðrum stað en ferðin hófst. Hægt er að klára áskorunina á eigin hraða, þ.e. á eins skömmum eða löngum tíma og hentar hverjum og einum. Hins vegar skipuleggur Útihreyfingin verkefnið og mælir með því að það sé klárað á alls þremur árum frá upphafi til enda, þannig að byrjað sé á æfingum á ferðaskíðum og minni jöklum áður en ráðist er í flóknari og lengri ferðir og jöklaútilegur. Í hnotskurn Við mælum með því að þau sem hafa enga reynslu og eru að byrja frá grunni, hefji vegferðina með því að læra á ferðaskíði þ.e. utanbrautargönguskíði með stálköntum og æfa sig svo vikulega nágrenni Reykjavíkur með Úti ferðaskíðahópnum. Að auki þurfa óvanir að taka kvöldnámskeið þar sem kennd er línuhegðun á jökli og notkun á jöklabroddum og ísöxi. Fyrsta árið er frábært að stefna að því að þvera einn eða alla af þessum þremur jöklum: Drangajökul, Eyjafjallajökul og Langjökul. Þessa jökla er hægt að þvera hvern um sig á einum löngum skíðadegi og því þarf ekki að gista í tjaldi á jökli þetta fyrsta árið. Annað árið mælum við með námskeiðinu Ferðast á gönguskíðum þar sem þátttakendur læra öll trixin við að ferðast með púlku í eftirdragi og tjalda í snjó auk þess sem farið er í æfingaútilegu til að þjálfa handtökin. Að vori er síðan hægt að halda í 3-4 daga ferðir á Hofsjökul annars vegar og Mýrdalsjökul hins vegar. Síðasta árið er svo komið að konungi íslenskra jökla, sjálfum Vatnajökli. Það er ferðalag sem tekur heila viku og þarfnast góðs undirbúnings og æfinga. Ekki aðeins þurfa þátttakendur að vera í góðu líkamlegu formi og þekkja búnaðinn sinn vel, heldur er líka nauðsynlegt að undirbúa hausinn fyrir átökin og langa daga á jökli. Að lokum fá þátttakendur viðurkenningarskjal og heiðursnafnbótina Jöklafari og eru þá komnir með fullan og óskoraðan rétt til að grobba sig á alla jöklakanta, jafnvel á alþjóðavettvangi 🙂 Síðasta tækifærið? Markmið þessa verkefnis er þó ekki eingöngu að vera þátttakendum til skemmtunar og áskorunar. Með frásögnum af ferðunum í máli og myndum, viljum við líka vekja athygli almennings, heima og erlendis, á hraðri bráðnun jöklanna af völdum loftslagshlýnunar. Myndum leiðangursmanna verður m.a. safnað á sameiginlega myndasíðu á samfélagsmiðlum undir samheitinu #lastoftheglaciers eða síðustu jöklarnir. Hópurinn reynir þannig að leggja sín lóð á vogarskálarnar svo að okkar kynslóð verði ekki síðasta kynslóðin sem nýtur þess að ferðast á skíðum um jökla landsins. Skráning Athugið að hvorki er nauðsynlegt að klára áskorunina í ofangreindri röð né á þremur árum. Ef fólk er vant því að ferðast á skíðum þá er hægt að raða jöklaferðunum saman á hvern þann hátt sem hentar og jafnvel byrja á Vatnajökli! Að auki geta þeir sem þegar eru búnir að þvera einhverja jökla auðvitað líka verið með og bætt í safnið. Til að taka þátt þarf aðeins að skrá sig til leiks með því að smella hér. Í kjölfarið verður þér boðið inn í sérstakan FB hóp allra þátttakanda og ævintýrið hefst. Hér að neðan setjum við jafnóðum inn linka inn á viðeigandi jöklaferðir og undirbúningsnámskeið auk ferða sem hægt er að nýta til að æfa skíðatæknina og handtökin. JÖKLAFERÐIR 2026 Eyjafjallajökull. Ný dagsetning fljótlega Drangajökull. Ný dagsetning fljótlega Vatnajökull. 30. apríl - 7. maí. Langjökull. Ný dagsetning fljótlega Mýrdalsjökull. Á dagskrá 2026 Hofsjökull. Á dagskrá 2026 UNDIRBÚNINGSNÁMSKEIÐ 2026 Úti ferðaskíði. Námskeið og æfingahópur. Ný dagsetning fljótlega Ferðast á gönguskíðum. Námskeið og útilega. 21. jan. og 31. jan-1. feb. Vetrarfjallamennska. Grunnnámskeið. Ný dagsetning fljótlega ÆFINGAFERÐIR 2025. Ferðir 2026 detta fljótlega inn Norðurljósaganga á ferðaskíðum. Kvöldganga. 18. jan. Ferð er lokið Þingvellir. Dagsferð. 8. feb. Ferð er lokið Undir Tröllakirkju. Púlkuferðalag. 15.-16. feb. Ferð er lokið Yfir Snæfellsnes. Dagsferð. 22. feb. Ferð er lokið Tvídægra. Skíðað á milli skála. 28. feb-2. mars. Ferð er lokið Ok. Dagsferð. 15. mars. Ferð er lokið Jötunheimar í Noregi. Skíðað á milli skála. 20.-25. mars. Ferð er lokið -
Dagsferð í núvitund 14. desember Þessi skemmtilega aðventuhefð varð til fyrir nokkrum árum og hefur ræklega slegið í gegn. Gengið er á ferðaskíðum þriðja sunnudag í aðventu, með bókina Aðventu eftir Gunnar Gunnarsson í eyrunum, í snilldarlestri Róberts Arnfinnssonar. Þetta er sannkölluð núvitundarganga því við tökum hlustuninni alvarlega og í þessari göngu er ekki talað, bara hlustað! Göngumenn lifa sig inn í þjóðlegan reynsluheim fyrri alda og spegla sig í ævintýrum Fjalla-Bensa sem stundaði eftirleitir á jólaföstunni á Mývatnsöræfum. Þar gekk hann um á skíðum, oft í stórhríð og fimbulkulda, ásamt forystusauðinum Eitli og hundinum Leó og bjargaði sauðfé frá því að fenna í kaf og verða úti. Lagt er af stað skömmu fyrir ljósaskiptin eða kl. 14:30 og gengið með höfuðljós inn í myrkrið, í alls tæplega 3 klst. Gangan hefst og endar við Skíðaskálann í Hveradölum og þar geta þátttakendur, að göngu lokinni, gætt sér á nýbökuðum vöflum og rjúkandi heitu súkkulaði með rjóma. Ef ekki gefur nægan snjó til skíðagöngu frá Hveradölum, verður skoðað að færa gönguna. Ferðin er ókeypis fyrir þá sem æfa með Útihreyfingunni í Útiræktinni. Aðrir greiða 14.900 þúsund kr. og fara í gegnum kaupferlið hér að neðan. Allir þátttakendur fá nánari upplýsingapóst þegar nær dregur ferð. -
Kvöldganga í ljósadýrð 23. janúar Við fögnum myrkrinu og snjónum á köldu janúarkvöldi með því að halda í stjörnu- og norðurljósaskoðun á gönguskíðum. Markmiðið er að njóta kvöldsins, spjalla og fræðast um ljósasýningu himingeimsins, bæði stjörnur og norðurljós. Með því að ganga á skíðum halda allir sér heitum í vetrarnóttinni en við setjum líka upp tjald þar sem hægt er að leita skjóls og kveikjum lítinn varðeld auk þess að ylja okkur saman á heitu súkkulaði undir stjörnubjörtum himninum. Stefnt er að því að ganga í nágrenni höfuðborgarsvæðisins, kl. 20, föstudagskvöldið 23. janúar og að ferðin taki alls 2-3 klst., þannig að þátttakendur verði komnir heim og undir sæng fyrir miðnætti. Athugið að áfangastaðurinn miðar þó alltaf við snjóalög, veður og ekki síst skýjahuluspá en það getur reynst nauðsynlegt að færa ferðina fram eða aftur um eitt eða tvö kvöld, eftir spá. Ferðalagið hentar öllum getustigum og er tilvalið fyrir byrjendur á ferðaskíðum. Þátttakendur fá nánari upplýsingar og búnaðarlista í tölvupósti í aðdraganda ferðar en þurfa að lágmarki að eiga eftirfarandi búnað, fá hann lánaðan eða leigðan: Ferðaskíði, þ.e. utanbrautarskíði með stálköntum, skinn undir skíðin og skíðastafi. Hægt er að leigja skíði á nokkrum stöðum, m.a. hjá skíðaleigu Útilífs. Ferðin kostar 14.900 kr. og innifalið er leiðsögn og utanumhald. -
Stutt ferðaskíðanámskeið fyrir byrjendur 12. - 17. janúar Markmið námskeiðsins er að þátttakendur fái að kynnast ferðaskíðum / utanbrautarskíðum og þessum frábæra ferðamáta sem sameinar skíðagöngu, náttúruupplifun og vetrargleði. Þetta er stutt, snarpt en hagnýtt námskeið þar sem þú fræðist um muninn á mismunandi búnaði, lærir á skíðin og skinnin, kynnist grunntækni í beitingu skíðanna og hvernig við skíðum örugglega og áreynslulaust á mismunandi undirlagi. Við byrjum rólega, lærum á skíðin, bindingarnar og skinnin og tökum svo fyrstu skrefin í brekkum og hliðarhalla, mismunandi færi og í fjölbreyttu landslagi. Námskeiðið samanstendur af rafrænum fræðslufundi og tveimur skíðaæfingum sem taka um 2 klst hvor. Staðsetning æfinganna fer eftir snjóalögum og færð, en reynt er að miða við að ekki taki meira en 30-40 mínútur að aka frá Reykjavík á æfingastaðinn. Dagskrá námskeiðsins- Mán. 12. jan. Kl. 20. Rafrænn fræðslufundur
- Mið. 14. jan. Kl. 18. Æfing
- Lau. 17. jan. Kl. 10. Æfing
-
Dagsganga í jaðri þjóðgarðsins 7. febrúar Þjóðgarðurinn á Þingvöllum er dásamlegt útivistarsvæði allan ársins hring en vetrarferðir þangað eru í sérstöku uppáhaldi hjá Útihreyfingunni. Þar sem Þingvellir liggja að nokkru ofan í sigdal, þá geta frosthörkur orðið þar miklar og sambland íss og snævar breytt svæðinu í stórkostlegt undraland. Langskemmtilegast, og raunar auðveldast líka, er að njóta þessarar dýrðar á ferðaskíðum. Það þarf þó ætíð að fara mjög varlega þegar ferðast er um Þingvallasvæðið og sérstaklega að vetri til, þar sem alls konar holur, gjótur og gjár geta leynst undir snjónum. Því mælum við alltaf með því að fylgja einhverjum sem þekkir til og veit hvar best er að fara. Í þessari ferð er stefnt að því að ganga um austurhluta þjóðgarðsins, og fara skemmtilega hringleið um Reyðarbarm, Hrútafjöll og Stóra Dímon, alls um 15 km, sem tekur um 5-6 klst. Fyrsta hluta leiðarinnar er gengið nokkuð jafnt og þétt upp í móti en hvergi mjög bratt og um leið og haldið er til baka þá tekur við þægileg lækkun, jafnvel þannig að hægt verður að renna sér frekar áreynslulaust nánast alla leið aftur í bíl! Lagt er af stað kl. 8 á laugardagsmorgni úr Reykjavík og stefnt að því að komið sé til baka til Reykjavíkur ekki seinna en um kl. 16. Athugið að endanleg ferðatilhögun svona skíðaferða þarf alltaf að taka tillit til bæði veðurs og snjóalaga. Þannig gæti þurft að breyta leiðarvali og ef veðurspáin er óhagstæð fyrir laugardaginn, er mögulegt að ferðin verði færð yfir á sunnudag. Þátttakendur fá nánari upplýsingar og búnaðarlista í tölvupósti í aðdraganda ferðar en þurfa að lágmarki að eiga eftirfarandi búnað, fá hann lánaðan eða leigðan: Ferðaskíði, þ.e. utanbrautarskíði með stálköntum, skinn undir skíðin og skíðastafi. Hægt er að leigja skíði á nokkrum stöðum, m.a. hjá skíðaleigu Útilífs. Ferðin kostar 19.900 kr. og innifalið er leiðsögn og utanumhald. -
Tveggja kvölda grunnnámskeið 9. og 16. mars Á þessu tveggja kvölda námskeiði er fjallað um þrennuna sem alltaf er skyldubúnaður þegar ferðast er um jökla landsins og fjalllendi að vetri til, þ.e. ísbrodda, gönguísaxir og göngubelti. Fyrra kvöldið hittast þátttakendur á stuttum rafrænum fræðslufundi þar sem farið er yfir grunnatriðin sem hafa þarf á tæru. Hver er munurinn á mismunandi tegundum brodda, axa og belta? Hvað þarf að hafa í huga þegar þessir hlutir eru keyptir? Hvernig á að stilla þá og passa að þeir sitji rétt og hvað ber að varast? Seinna kvöldið er svo haldið til fjalla í nágrenni Reykjavíkur á 2-3 klst. verklega æfingu. Áfangastaðurinn fer eftir aðstæðum hverju sinni en á æfingunni er kennt á ísbrodda auk þess sem notkun þeirra og beiting er æfð við mismunandi aðstæður og í mismunandi halla. Þá er farið yfir notkun gönguísaxar í brattlendi og á jöklum og ísaxabremsa æfð við mismunandi aðstæður. Ennfremur er kennt hvaða reglur gilda um notkun línu þegar ferðast er í hópi á jökli og hvað megi teljast til góðrar línuhegðunar. Þátttakendur þurfa að eiga, leigja eða fá lánaða ísbrodda, gönguöxi og belti. Hægt er að leigja þennan búnað á nokkrum stöðum, m.a. hjá Útilíf. Nauðsynlegt er að hafa lokið þessu námskeiði eða sambærilegu til að taka þátt í vetrarfjallgöngum og jöklaferðum með Útihreyfingunni. Námskeiðið kostar 19.900 kr. Leiðbeinandi er Róbert Marshall. -
NÆSTA NÁMSKEIÐ HEFST Í MARS Fjögurra vikna framhaldsnámskeið fyrir fólk sem hefur farið á Úti 101 námskeið Útihreyfingarinnar eða er með einhvern grunn í útivist og langar til að bæta við sig.
Æft er tvisvar til þrisvar í viku og mikið er um göngur, létt hlaup og þrekæfingar.
Dagskrá síðasta námskeiðs- Alla þriðjudaga kl. 17:30 Styrktar- og þrekæfingar með Útihreyfingunni. Æfingarnar fara fram á grænum svæðum í Reykjavík og nágrenni.
- Alla fimmtudaga kl. 17:30 Tækni- og gæðaæfingar með Úti 102 þjálfara. Æfingarnar fara fram á grænum svæðum í Reykjavík og nágrenni.
- Sunnudagar kl. 9:30 Tvær lengri helgaræfingar, sunnudagana 26. október og 9. nóvember.
Námskeiðið kostar 22.900 kr. og umsjón með því hefur Kristín Ýr Lyngdal. -
Dagsganga um gamla þjóðleið 7. mars Útihreyfingin hefur síðustu ár verið að þræða gamlar þjóðleiðir á Snæfellsnesi, nýja leið á hverju ári þar sem gengið er á ferðaskíðum á einum degi yfir Nesið frá norðri til suðurs. Að þessu sinni koma alls fjórar gamlar þjóðleiðir til greina en hver þeirra verður fyrir valinu fer eftir aðstæðum og snjóalögum. Sú stysta er um 15 km en sú lengsta 23 km. Allar leiðirnar liggja yfir innanvert Snæfellsnes, austan við Vatnaleiðina. Leiðirnar þræða dali og lág skörð svo að hvorki er um óyfirstíganlega hækkun né lækkun að ræða. Þátttakendur þurfa þó að hafa nokkuð gott vald á ferðaskíðum en þetta er einmitt tilvalin ferð til að taka ferðaskíðamennskuna upp á nýtt stig, æfa sig í tækninni og njóta þess að skoða nýja staði og nýtt landslag í leiðinni. Við bendum fólki líka á að nota æfingahópinn Úti ferðaskíði til að koma sér í ferðaform. Lagt er af stað snemma á laugardagsmorgun til að nýta daginn sem best og byrjað verður á því að skilja bíla eftir við lokastað göngunnar áður en haldið er á upphafsstaðinn og ferðin hefst fyrir alvöru. Gera má ráð fyrir að gengið verði allan daginn á meðan sauðljóst er og stefnt er að því að hópurinn ljúki síðan ferð með því að borða saman, annað hvort á Vegamótum eða í Borgarnesi. Það verður því ekki komið aftur til Reykjavíkur fyrr en um kvöldið. Ef veðurspáin er óhagstæð fyrir laugardaginn, er mögulegt að ferðin verði færð yfir á sunnudag. Þátttakendur fá nánari upplýsingar og búnaðarlista í tölvupósti í aðdraganda ferðar en þurfa að lágmarki að eiga eftirfarandi búnað, fá hann lánaðan eða leigðan: Ferðaskíði, þ.e. utanbrautarskíði með stálköntum, skinn undir skíðin og skíðastafi. Hægt er að leigja skíði á nokkrum stöðum, m.a. hjá skíðaleigu Útilífs. Ferðin kostar 27.900 kr. og innifalið í verðinu er leiðsögn og utanumhald. -
Æfingaferðir á utanbrautarskíðum 17. janúar - 25. mars Eitt aðalmarkmið æfingahópsins er að þátttakendur læri vel á ferðaskíðin og skinnin og alla tækni við beitingu skíðanna. Brekkur upp. Brekkur niður. Hliðarhalli. Mismunandi snjóalög, færi og undirlag. Allt þarf að læra á og æfa sig í að gera. Í öðru lagi finnst okkur alltaf gaman að ganga á skíðum á nýjum stöðum. Við viljum því nota tækifærið til að kynna hópinn fyrir fjölbreyttum og skemmtilegum skíðaáfangastöðum í nágrenni Reykjavíkur. Og ekki er verra ef svæðið geymir einhverja sögu sem hægt er að fræðast um. Síðast en ekki síst viljum við í sameiningu skapa fallegan félagsskap fólks sem nærist á skemmtilegri samveru og útiveru og nýtur þess að leika sér úti við í öllum veðrum. Þetta er, og á alltaf að vera, BARA GAMAN :) Hópurinn hittist alls sex sinnum. Fyrsta æfingin er á laugardegi en næstu fimm kl. 18 á miðvikudögum. Allar æfingarnar eru í nágrenni Reykjavíkur og reynt verður að miða við að aldrei taki lengri tíma en um 40 mínútur að aka á upphafsstað göngunnar. Göngurnar sjálfar taka svo að meðaltali 1.5-2.5 klst. Dagskrá- Lau. 17. jan. Kl. 11
- Mið. 28. jan. Kl. 18
- Mið. 11. feb. Kl. 18
- Mið. 25. feb. Kl. 18
- Mið. 11. mar. Kl. 18
- Mið. 25. mar. Kl. 18
-
Stutt upphafsnámskeið á brautarskíðum 5. - 10. janúar Allir geta gengið á skíðum og allir ættu að læra þessa frábæru íþrótt sem reynir á allan líkamann og eykur úthald, þol og styrk. Við hjá Útihreyfingunni höldum því fram að hvort sem fólk stefni á frama og verðlaunapalla í skíðagöngukeppnum eða þverun jökla á ferðaskíðum með púlkur í eftirdragi, þá þurfi allir að byrja á því að læra undirstöðutæknina í skíðagöngu í braut. Grunntæknina verður að læra í spori áður en sá lærdómur er yfirfærður yfir á ferðaskíðin, þannig að fólk geti byrjað að láta skíðin vinna fyrir sig og svífi áfram í staðinn fyrir að þramma! Þetta námskeið er því bæði hugsað fyrir byrjendur á brautarskíðum sem og þá sem hafa hingað til aðeins gengið á ferðaskíðum en vilja bæta tæknina. Þetta er líka frábært upphafsnámskeið fyrir skíðavertíðina, þ.e. fyrir þá sem þegar kunna eitthvað á brautarskíðum, en þurfa að rifja upp grunntæknina og taktana! Námskeiðið hefst á rafrænum fræðslufundi þar sem fjallað er um hvað þarf að hafa í huga þegar kemur að búnaði, hver er munurinn á mismunandi skíðategundum, skíðaskóm og stöfum og hvernig á að klæða sig þegar gengið er á skíðum í spori. Á fyrstu æfingunni er svo komið að því að læra á búnaðinn, hvernig á að spenna á sig skíðin, hvernig best er að detta (því allir detta!) og taka fyrstu skíðagöngusveifluna :) Fyrstu þrjár æfingarnar eru skipulagðar dag eftir dag en einmitt með því að láta ekki of langan tíma líða á milli æfinga í upphafi, nær fólk mestum árangri og framförum. Lögð er megináhersla á að allir þátttakendur læri taktinn og nái tökum á vanaganginum, þ.e. klassíska sporinu í skíðagöngunni með alls konar tækniæfingum og leikjum. Að auki fá þátttakendur grunnkennslu í öðrum skíðagöngusporum svo sem ýtingum, ýtingum með frásparki, síldarbeinagangi upp brekkur og æfingu í því að renna niður brekkur. Hver kennslustund tekur um 2 klukkustundir og kennsla fer fram á skíðagöngusvæðinu í Bláfjöllum. Aðgangur að svæðinu er ekki innifalinn í verði. Dagskrá námskeiðsins- Mán. 5. jan. Kl. 20. Fræðslufundur
- Þri. 6. jan. Kl. 18
- Mið. 7. jan. Kl. 18
- Fim. 8. jan. Kl. 18
- Lau. 10. jan. Kl. 10
- Ég hef áður farið á helgarnámskeið en fagmennskan hér er framúrskarandi í samanburði.
- Gleði og þolinmæði kennaranna er áberandi.
- Gott að geta klárað þetta á stuttum tíma í stað þess að draga þetta yfir nokkrar vikur.
- Námskeiðið er vel upp byggt og frábært að blanda leikjum saman við tækniæfingar.
- Skilvirkar æfingar, ég náði miklum framförum á fáum skiptum.
- Frábært námskeið og rosa gaman.
- Allt skemmtilegt og gaman að brjóta kennsluna upp með leikjum.
-
Næsta námskeið hefst í janúar 2026
Sex vikna grunnnámskeið, haldið þrisvar á ári, í janúar, maí og september. Námskeiðið er fyrir fólk sem er að byrja að stunda útihreyfingu eða að fara af stað eftir langt hlé og vill læra undirstöðuatriði í útihlaupi, kynnast sjósundi og byggja upp þol og styrk fyrir útihreyfingu og ævintýri. Æft er tvisvar til þrisvar í viku og mikið er um göngur, létt hlaup og þrekæfingar. Æfingarnar fara fram á útivistarsvæðum víðs vegar á höfuðborgarsvæðinu, svo sem í Elliðaárdal, Öskjuhlíð og Laugardal en líka er gengið á lægri fjöll í nágrenni Reykjavíkur svo sem upp á Mosfell og Úlfarsfell og víðar.Dagskrá síðasta námskeiðs- Kynningarfundur 26. ágúst kl. 20:00
- Alla þriðjudaga og fimmtudaga kl. 17:30
- Lengri æfingar aðra hvora helgi, kl. 9:30
- Sunnudaginn 7. sept
- Sunnudaginn 21. sept
- Sunnudaginn 5. okt
Á námskeiðinu er sérstök áhersla lögð á persónulegt utanumhald sem hefst með upphafsviðtali um markmið og væntingar. Námskeiðið er því tilvalið fyrir þá sem vilja koma sér af stað í útihreyfingu og að því loknu er hægt að skrá sig á framhaldsnámskeið Úti 102. Úti 101 endar á sameiginlegri útskriftaræfingu þar sem áfanganum er fagnað. Umsjón með námskeiðinu hefur Kristín Ýr Lyngdal. -
Námskeið í vetrarferðalögum Bóklegt 21. jan og verklegt 31. jan - 1. feb Þátttakendur læra og æfa það helsta sem kunna þarf til að geta ferðast með öruggum hætti á ferðaskíðum (utanbrautarskíðum með stálköntum) um ótroðnar slóðir íslenskra óbyggða. Námskeiðið skiptist annars vegar í rafrænt fræðslukvöld í gegnum Zoom og hins vegar æfingaferð í nágrenni Reykjavíkur, þar sem markmiðið er að reyna sig í krefjandi en öruggum vetraraðstæðum. Á fræðslukvöldinu verður m.a. farið yfir hvaða útbúnað þarf til vetrarferðalaga á skíðum, hvernig tjöld, dýnur, svefnpoka og sleða / púlku best er að nota, þau öryggisatriði sem þarf að hafa í huga, hvernig á að velja tjaldstað og tjalda í snjó, hita vatn og næra sig, halda á sér hita og útbúa klósett! Þátttakendum er í kjölfarið boðið á búnaðarkvöld í bílskúr leiðbeinenda, þar sem hægt er að skoða alls konar mismunandi búnað og koma með eigin búnað og fá mat á honum. Á síðari hluta námskeiðsins er svo komið að því að nota þekkinguna í alvöru vetrarferðalagi. Gengið er á skíðum á laugardagsmorgni með farangurinn í eftirdragi og tjaldbúðir settar upp í snjó. Á leiðinni er skíðatæknin æfð, upp og niður brekkur sem og hliðrun í brattlendi. Hópurinn lærir og æfir að auki grunnatriði í leiðavali og rötun ásamt því hvernig á að moka út neyðarskýli í snjó og fleira. Áfangastaðurinn þessa æfingahelgi skiptir minna máli en ferðalagið sjálft og fer alfarið eftir snjóalögum og færð. Þó er stefnt að því að halda sig nálægt höfuðborgarsvæðinu. Námskeiðið kostar 58.000 kr og innifalið í verði er öll kennsla og æfingar, fræðslukvöld, búnaðarfundur, leiðsögn og utanumhald. Leiðbeinendur og kennarar eru Brynhildur Ólafsdóttir og Róbert Marshall. -
Fjórir himneskir ferðadagar á kajak 14.-18. ágúst, 2026 Róleg og nærandi kajakferð til Suður-Noregs þar sem ferðast er á milli fallegra og afskekktra eyja og skerja. Aðeins er róið stutt í einu, mikið staldrað við, skoðað, synt og slappað af, auk þess sem sérstakur leiðangurskokkur er með í för til að halda hópnum vel nærðum og glöðum! Svæðið er þekkt fyrir mikla náttúrufegurð og er hluti þess friðaður. Yfir öllu liggur andi gamals tíma, ró og friður. Fátt er eins viðeigandi og að ferðast á kajak um þetta svæði, renna hljóðlaust yfir hafflötinn og njóta nálægðarinnar við náttúruna og fjörlegt fuglalíf. Dagleiðirnar eru mjög stuttar eða frá 2 til 12 km og róið er innan skerjagarðsins í vari fyrir öldum úthafsins. Hópurinn stoppar oft til að njóta umhverfisins, fara í land, ganga og skoða sig um. Þeir sem vilja, geta róið meira útfrá náttstað. Að auki verðum við með veiðistangir og línur svo allir geta reynt sig við að veiða í matinn. Svo er auðvitað ómissandi að skella sér að minnsta kosti einu sinni á dag í hressandi sjósund en sjórinn er að öllu jöfnu um 20° á þessum árstíma. Fyrstu nóttina er gist á hóteli í fallegum strandbæ en næstu þrjár nætur er gist í skálum sem eru hver öðrum glæsilegri og standa allir á draumfögrum og afskekktum eyjum sem aðeins eru aðgengilegar sjóleiðina. Í öllum skálunum er fyrirtaks aðstaða og uppábúin rúm en fólk þarf að koma með eigin skálapoka / lakpoka. Hver og einn flytur sinn eigin farangur og sameiginlegan mat í kajaknum á milli gistiskálanna. Í upphafi ferðarinnar kaupir hópurinn saman í matinn en annar fararstjóranna er lærður kokkur og galdrar fram dásemdarmáltíðir bæði kvölds og morgna. Auk þess verður stoppað á kaffihúsum og veitingastöðum sem finna má á sumum þeirra eyja sem heimsóttar verða. Ferðin tekur í heild fimm daga. Þar af er róið á kajak í fjóra daga en fyrsti dagurinn er ferðadagur. Þátttakendur koma sér til og frá Noregi á eigin vegum. Hópurinn heldur svo af stað frá Osló með rútu eftir hádegi föstudaginn 14. ágúst og ferðinni lýkur í Osló þriðjudagskvöldið 18. ágúst. Ferðin er skipulögð þannig að þátttakendur geta flogið til Oslóar með morgunflugi sama dag og ferðin hefst, þ.e. föstudaginn 14. ágúst og geta annað hvort flogið heim, seint á þriðjudagskvöld 18. ágúst eða gist í Osló í eina nótt eftir ferð og flogið heim á miðvikudagsmorgun 19. ágúst. Athugið að kajaknámskeið og/eða einhver kajakreynsla er forkrafa inn í ferðina. Við bendum á byrjendanámskeið Útihreyfingarinnar sem tekur eitt kvöld og verður haldið í byrjun júní, 2026. Fararstjórar eru Brynhildur Ólafsdóttir og Sirrý Ágústsdóttir. Verð 226.000 kr. Innifalið: Gisting í 4 nætur, ferðir innan Noregs með rútum og leigubílum, kajakleiga og allur tilheyrandi búnaður. Undirbúningsfundur, leiðsögn og utanumhald. Ekki innifalið: Flug til Noregs. Hægt er að greiða ferð að fullu eða staðfestingargjald 60.000 kr. og eftirstöðvar í síðasta lagi sex vikum fyrir ferð. Lágmarksþátttaka miðar við 10 manns. -
Þriggja daga púlkuleiðangur. Ein nótt í tjaldi og ein í skála. 20.-22. febrúar Margar gamlar þjóðleiðir og fjöldi skemmtilegra slóða liggja um Skaftártungu og heiðarnar austan Mýrdalsjökuls. Þetta er frekar sjaldfarið svæði en gríðarlega margt að sjá og skoða og sagan lifnar hér við hvert fótmál. Í þessum leiðangri er ætlunin að fara góða hringleið um svæðið á ferðaskíðum (utanbrautarskíðum) með púlku í eftirdragi og leggja að baki um 50 km á þremur dögum. Fyrri nóttina verður gist í tjaldi en þá síðari í huggulegum og rúmgóðum fjallaskála. Ferðin hefst við nyrstu bæi í Skaftárhreppi, þaðan sem lagt er upp á Ljótarstaðaheiði. Stefnan er tekin norður undir Svartahnúk, þar sem slegið verður upp tjöldum eftir 15-20 km skíðagöngu, eftir færð og snjóalögum. Daginn eftir verður farin um 12 km leið, framhjá skálanum í Álftavötnum (sem ekki skyldi rugla saman við skálann við Álftavatn), yfir Syðri-Ófæru og í Hólaskjól, skálann í Lambaskarðshólum. Þar verður hægt að koma sér vel fyrir, slá upp veislu og henda í góða fjallakvöldvöku. Síðasta daginn er svo stefnan tekin stystu leið aftur niður í byggð og í bíla, 15-20 km leið. Þátttakendur þurfa að hafa nokkuð gott vald á ferðaskíðum og treysta sér í að skíða með púlkur í eftirdragi bæði upp og niður. Við bendum fólki á æfingahópinn Úti ferðaskíði ásamt námskeiðinu Ferðast á gönguskíðum. Athugið að endanleg ferðatilhögun þarf alltaf að taka tillit, bæði til veðurs og snjóalaga. Þannig gæti þurft að breyta leiðarvali vegna snjóleysis og að auki gæti þurft að hnika ferðinni fram eða aftur um dag, vegna veðurs. Haldinn verður rafrænn undirbúningsfundur í aðdraganda ferðar, þar sem farið verður yfir ferðatilhögun og búnaðarpælingar auk þess sem þátttakendur fá ítarlegan upplýsinga- og búnaðapóst. Fararstjórar eru Brynhildur Ólafsdóttir og Róbert Marshall.