• Dagsganga um gamla þjóðleið 22. febrúar Útihreyfingin hefur síðustu ár verið að þræða gamlar þjóðleiðir á Snæfellsnesi, nýja leið á hverju ári þar sem gengið er á ferðaskíðum á einum degi yfir Nesið frá norðri til suðurs. Að þessu sinni koma alls fjórar gamlar þjóðleiðir til greina en hver þeirra verður fyrir valinu fer eftir aðstæðum og snjóalögum. Sú stysta er um 15 km en sú lengsta 23 km. Allar leiðirnar liggja yfir innanvert Snæfellsnes, austan við Vatnaleiðina. Leiðirnar þræða dali og lág skörð svo að hvorki er um óyfirstíganlega hækkun né lækkun að ræða. Þátttakendur þurfa þó að hafa nokkuð gott vald á ferðaskíðum en þetta er einmitt tilvalin ferð til að taka ferðaskíðamennskuna upp á nýtt stig, æfa sig í tækninni og njóta þess að skoða nýja staði og nýtt landslag í leiðinni. Við bendum fólki líka á að nota námskeiðið Úti ferðaskíði til að koma sér í ferðaform. Lagt er af stað snemma á laugardagsmorgun til að nýta daginn sem best og byrjað verður á því að skilja bíla eftir við lokastað göngunnar áður en haldið er á upphafsstaðinn og ferðin hefst fyrir alvöru. Gera má ráð fyrir að gengið verði allan daginn á meðan sauðljóst er og stefnt er að því að hópurinn ljúki síðan ferð með því að borða saman, annað hvort á Vegamótum eða í Borgarnesi. Það verður því ekki komið aftur til Reykjavíkur fyrr en um kvöldið. Ef veðurspáin er óhagstæð fyrir laugardaginn, er mögulegt að ferðin verði færð yfir á sunnudag. Þátttakendur fá nánari upplýsingar og búnaðarlista í tölvupósti í aðdraganda ferðar en þurfa að lágmarki að eiga eftirfarandi búnað, fá hann lánaðan eða leigðan: Ferðaskíði, þ.e. utanbrautarskíði með stálköntum, skinn undir skíðin og skíðastafi. Hægt er að leigja skíði á nokkrum stöðum, m.a. hjá skíðaleigu Útilífs. Ferðin kostar 24.900 kr. og innifalið í verðinu er leiðsögn og utanumhald.
  • Dagsganga í jaðri þjóðgarðsins 8. febrúar Þjóðgarðurinn á Þingvöllum er dásamlegt útivistarsvæði allan ársins hring en vetrarferðir þangað eru í sérstöku uppáhaldi hjá Útihreyfingunni. Þar sem Þingvellir liggja að nokkru ofan í sigdal, þá geta frosthörkur orðið þar miklar og sambland íss og snævar breytt svæðinu í stórkostlegt undraland. Langskemmtilegast, og raunar auðveldast líka, er að njóta þessarar dýrðar á ferðaskíðum. Það þarf þó ætíð að fara mjög varlega þegar ferðast er um Þingvallasvæðið og sérstaklega að vetri til, þar sem alls konar holur, gjótur og gjár geta leynst undir snjónum. Því mælum við alltaf með því að fylgja einhverjum sem þekkir til og veit hvar best er að fara. Í þessari ferð er stefnt að því að ganga um austurhluta þjóðgarðsins, og fara skemmtilega hringleið um Reyðarbarm, Hrútafjöll og Stóra Dímon, alls um 15 km, sem tekur um 5-6 klst. Fyrsta hluti leiðarinnar er gengið nokkuð jafnt og þétt upp í móti en hvergi mjög bratt og um leið og haldið er til baka þá tekur við þægileg lækkun, jafnvel þannig að hægt verður að renna sér frekar áreynslulaust nánast alla leið aftur í bíl! Lagt er af stað kl. 8 á laugardagsmorgni úr Reykjavík og stefnt að því að komið sé til baka til Reykjavíkur ekki seinna en um kl. 16. Athugið að endanleg ferðatilhögun svona skíðaferða þarf alltaf að taka tillit til bæði veðurs og snjóalaga. Þannig gæti þurft að breyta leiðarvali og ef veðurspáin er óhagstæð fyrir laugardaginn, er mögulegt að ferðin verði færð yfir á sunnudag. Þátttakendur fá nánari upplýsingar og búnaðarlista í tölvupósti í aðdraganda ferðar en þurfa að lágmarki að eiga eftirfarandi búnað, fá hann lánaðan eða leigðan: Ferðaskíði, þ.e. utanbrautarskíði með stálköntum, skinn undir skíðin og skíðastafi. Hægt er að leigja skíði á nokkrum stöðum, m.a. hjá skíðaleigu Útilífs. Ferðin kostar 12.900 kr. og innifalið er leiðsögn og utanumhald. Athugið að ferðin er hluti af námskeiðinu Úti ferðaskíði og er ókeypis fyrir þá sem æfa með hópnum.
  • Fjögurra mánaða æfingahópur fyrir stráka sem vilja koma sér af stað í hreyfingu og útivist.  Haldið einu sinni á ári og hefst í september. Hreyfinga- og ævintýrabræðralag fyrir stráka á öllum aldri sem vilja koma sér í og viðhalda góðu formi. Markmið hópsins er ná og tryggja líkamlega getu; þol, þrek, jafnvægi og liðleika fyrir útivist og ævintýri. Æfingaáætlunin byggir á fjölbreyttri hreyfingu og útivist í lokuðum hópi fyrstu vikurnar en svo taka við æfingar með æfingahópi Útihreyfingarinnar sem æfir tvisvar til þrisvar í viku, þriðjudaga og fimmtudaga kl. 17:30 og aðra hvora helgi, til skiptis á laugardögum og sunnudögum kl. 9:30. Þátttakendur taka fyrstu skrefin inn í nýjan lífsstíl þar sem hreyfing og útivera í samfélagi við aðra er megininntakið. Markmiðið er að koma sér í það form að geta æft með stærri hópum, gengið á fjöll, hlaupið, hjólað, synt og farið í sjóinn. Sameiginlegar göngur og styrktaræfingar ásamt hreyfingaáætlun þar sem áhersla er á stuttar daglegar göngur á virkum dögum. Í hádeginu alla miðvikudaga er hist í sjósundi í Nauthólsvík. Persónulegt upphafsviðtal og eftirfylgni ásamt fyrirlestrum um hreyfingu, mataræði og markmiðasetningu. Á meðan á námskeiðinu stendur eru þátttakendur meðlimir í Útihreyfingunni og njóta forgangs og afsláttarkjara í ferðir hreyfingarinnar, Úti ævintýri, auk góðra afsláttarkjara í völdum verslunum. Aðgangur að sjóbaðsaðstöðunni í Nauthólsvík er ekki innifalinn í verði. Hægt er að greiða fyrir þátttökuna í einu lagi eða skipta greiðslum eins og hver og einn kýs inni í greiðsluferlinu sjálfu. Umsjón með námskeiðinu hefur Róbert Marshall. Skráðir þátttakendur fá ítarlegan upplýsingapóst í aðdraganda námskeiðs.

Title

Go to Top