• Stóra Kóngsfell, Drottning og Eldborg 23. mars Stóra Kóngsfell, Drottning og Eldborg í nágrenni Bláfjalla blasa við öllum sem aka á skíðavæði höfuðborgarinnar en færri gera sér ferð þangað. Það er synd því þessi snotru fjöll eru svo sannarlega þess virði að skoða nánar. Oft er gengið á alla þrenninguna í einu og það ætlum við að gera í þessari ferð, enda eru þessir þrír toppar hver öðrum ólíkari og útsýnið mismunandi. Það er einstaklega gaman að ganga um þetta fjölbreytta svæði sem allt er undirlagt dramatískum og óvæntum gígum og smáhnjúkum. Magnaður vitnisburður um eldsumbrot og jarðhræringa fyrri tíma. En hér þarf líka að huga vel að því hvar stigið er niður fæti, því stundum leynast holur undir mjúkum mosa! Gangan hefst kl. 9 frá Bláfjallaafleggjaranum og gert er ráð fyrir því að ganga í góðan hring, fyrst á Eldborg, svo Drottningu og enda á Stóra Kóngsfelli áður en hringnum er lokað aftur við bíla. Leiðin er um 5 km með um 300 m hækkun og gera má ráð fyrir að gangan taki um 3 klst með góðri nestispásu. Skráðir þátttakendur fá ítarlegan tölvupóst með ferðalýsingu og búnaðarlista í aðdraganda ferðar. Í þessari fjallgöngu er gengið með Útigenginu, fjallgönguhópi Útihreyfingarinnar. Í Útigenginu er gleðin í fyrirrúmi og dagskráin hentar fyrir þau sem langar að kynnast fjöllum og stöðum í nágrenni Reykjavíkur. Tilvalinn hópur fyrir fólk sem er að taka sín fyrstu skref í fjallgöngum eða þau sem langar að dusta rykið af göngubúnaðinum og vilja kynnast öðru útivistarfólki, nýjum stöðum og bæta við færni sína á fjöllum.
  • Einn af þessum stóru! 26. apríl Klassísk jöklaganga á Hámund í Eyjafjallajökli, sem telst einn af flottari jöklatindum landsins. Gígur Eyjafjallajökuls er prýddur fjórum tindum og er Hámundur sá hæsti, rís í 1620 m hæð og er einn af hundrað hæstu tindum landsins. Útsýnið af jöklinum á sér vart hliðstæðu. Bæði er fádæma fallegt útsýni yfir suðurströndina og til Vestmannaeyja sem jökullinn er kenndur við og þegar upp á Hámund er komið opnast að auki sýn yfir öskjuna og norður um allt Fjallabak. Gengið er upp frá Seljavöllum, sunnan undir jöklinum og sömu leið niður aftur. Leiðin liggur alveg frá upphafi nánast viðstöðulaust upp í mót en alls er hækkunin um 1500 m. Þegar komið er á jökul, fara allir í jöklabelti og ganga í línu. Mjög líklega verða jöklabroddar nauðsynlegir þegar ofar dregur og þá er ísöxin sjaldan langt undan. Þetta er erfið uppganga sem krefst líkamlegrar hreysti og andlegs styrks. Gera má ráð fyrir að gangan taki 8-12 tíma, allt eftir aðstæðum. Þátttakendur ættu að miða við að geta gengið upp að Steini í Esjunni á undir klukkutíma. Þeir sem ekki eru vanir jöklaferðum, þurfa að auki að hafa tekið námskeiðið Vetrarfjallamennska. Á jöklum er auðvitað allra veðra von og að auki er gengið upp í töluverða hæð, svo að nauðsynlegt er að vera vel útbúinn með hlý, vatns-, og vindþétt utanyfirföt og gott nesti. Athugið að ef veðurspá er óhagstæð fyrir þennan laugardag, er mögulegt að ferðin verði færð yfir á sunnudag. Skráðir þátttakendur verða boðaðir á rafrænan upplýsingafund og fá ítarlegan upplýsinga- og búnaðarpóst í aðdraganda ferðar. Að lágmarki er nauðsynlegt að eiga góða gönguskó, dagpoka og jöklaþrennuna; belti, brodda og ísöxi. Hægt er að leigja jöklaþrennuna, m.a. hjá Útilífi. Ferðin kostar 18.900. Innifalið í verði er leiðsögn, utanumhald og rafrænn upplýsingafundur í aðdraganda ferðar. Í þessari fjallgöngu er gengið með Útigenginu, fjallgönguhópi Útihreyfingarinnar sem æfir sig frá áramótum í því að ganga á fjöll með það að takmarki að ganga á Eyjafjallajökul að vori.
  • Fjallaskíði á vordögum 5. mars - 1. maí Með hækkandi sól er komin tími til að kanna fjöll og firnindi með fjallaskíðin á fótunum. Einmitt það ætlum við að gera í þessum æfingahópi sem æfir sig á fjöllum nálægt Reykjavík í mars, apríl og byrjun maí. Markmið hópsins eru nokkur. Í fyrsta lagi að þátttakendur læri vel á fjallaskíðin, skinnin, bindingarnar og skóna sem og alla tækni við beitingu skíðanna. Við byrjum því rólega og einbeitum okkur að tækninni í upphafi, rifjum upp, lærum og komum okkur í gírinn fyrir framhaldið. Öll getustig fá eitthvað fyrir sinn snúð. Leiðarval upp og niður. Brekkur í mismunandi bratta. Hliðarhalli. Ólík snjóalög, færi og undirlag. Allt þarf að læra á og æfa sig í að gera. Í öðru lagi finnst okkur alltaf gaman að skíða á nýjum stöðum og viljum nota tækifærið og fara á fjölbreytta og skemmtilega skíðaáfangastaði. Ekki er verra ef svæðið geymir einhverja sögu sem hægt er að fræðast um. Síðast en ekki síst viljum við í sameiningu skapa fallegan félagsskap fólks sem nærist á skemmtilegri samveru og útiveru og nýtur þess að leika sér úti. Hópurinn hittist alls sjö sinnum. Einu sinni á rafrænum fræðslufundi í upphafi, þrisvar í styttri skíðatúrum síðdegis á miðvikudögum og þrisvar á laugardagsmorgnum í lengri dagsferðum. Á fræðslufundinum verður farið yfir dagskrá vorsins, allt skipulagið í kringum ferðirnar og nauðsynlegan búnað, snjóflóðaspár, ýlatékk og góðar ferðavenjur í fjallaskíðaferðum. Þetta verður svo að sjálfsögðu æft fram og til baka í ferðunum sjálfum. Miðvikudagsferðirnar hefjast kl. 18, eru allar í nágrenni Reykjavíkur og munu taka að meðaltali 1.5-2.5 klst. Laugardagsferðirnar taka allt að 5-6 tíma og á þá áfangastaði er lengri keyrsla.
    • 5. mars. Kl. 20. Rafrænn upphafsfundur
    • 12. mars. Kl. 18. Skálafell
    • 19. mars. Kl. 18. Móskarðshnjúkar
    • 5. apríl. Kl. 8. Botnssúlur
    • 9. apríl. Kl. 18. Vífilsfell
    • 19. apríl. Kl. 8. Bláfell
    • 1. maí. Kl. 8. Tindfjallajökull
    Vert er að vekja athygli á því að ofangreindir áfangastaðir eru ekki geirnegldir niður því endanlegur áfangastaður verður alltaf að taka mið af veðri og aðstæðum. Af þeim sökum geta ferðir frestast eða áfangastaðurinn breyst. Skráðir þátttakendur fá nánari upplýsingar í tölvupósti í aðdraganda námskeiðsins. Athugið að í öllum ferðunum er gert ráð fyrir ólíkum getustigum en þessi æfingahópur hentar hins vegar ekki byrjendum á skíðum. Hér er ekki verið að kenna fólki að skíða á svigskíðum, heldur er verið að kenna og æfa notkun fjallaskíða í mismunandi aðstæðum. Þátttakendur þurfa auk hefðbundins fjallaskíðabúnaðar að mæta með snjóflóðaþrennuna; skóflu, stöng og ýli í allar ferðir. Fyrir verkefninu fara Helga María Heiðarsdóttir og Róbert Marshall sem eru með réttindi hjá Félagi íslenskra fjallaleiðsögumanna og gild skírteini í WFR, Fyrstu hjálp í óbyggðum.

Title

Go to Top