• Úti brautarskíði. Námskeið

    16.000 kr.20.000 kr.
    Stutt byrjendanámskeið á brautarskíðum Hefst 2. janúar með fræðslufundi Allir geta gengið á skíðum og allir ættu að læra þessa frábæru íþrótt sem reynir á allan líkamann og eykur úthald, þol og styrk. Við hjá Útihreyfingunni höldum því fram að hvort sem fólk stefni á frama og verðlaunapalla í skíðagöngukeppnum eða þverun jökla á ferðaskíðum með púlkur í eftirdragi, þá þurfi allir að byrja á því að læra undirstöðutæknina í skíðagöngu í braut. Grunntæknina verður að kenna í spori áður en sá lærdómur er yfirfærður yfir á ferðaskíðin þannig að fólk geti byrjað að láta skíðin vinna fyrir sig og svífi áfram í staðinn fyrir að þramma! Þetta námskeið er því bæði hugsað fyrir byrjendur á brautarskíðum sem og þá sem hafa hingað til aðeins gengið á ferðaskíðum en vilja bæta tæknina. Námskeiðið hefst á rafrænum fræðslufundi þar sem fjallað er um hvað þarf að hafa í huga þegar kemur að búnaði, hver er munurinn á mismunandi skíðategundum, skíðaskóm og stöfum og hvernig á að klæða sig þegar gengið er á skíðum í spori. Á fyrstu æfingunni er svo komið að því að læra á búnaðinn, hvernig á að spenna á sig skíðin, hvernig best er að detta (því allir detta!) og taka fyrstu skíðagöngusveifluna :) Fyrstu þrjár æfingarnar eru skipulagðar dag eftir dag en einmitt með því að láta ekki of langan tíma líða á milli æfinga í upphafi, nær fólk mestum árangri og framförum. Lögð er megináhersla á að allir þátttakendur læri taktinn og nái tökum á vanaganginum, þ.e. klassíska sporinu í skíðagöngunni með alls konar tækniæfingum og leikjum. Að auki fá þátttakendur grunnkennslu í öðrum skíðagöngusporum svo sem ýtingum, ýtingum með frásparki, síldarbeinagangi upp brekkur og æfingu í því að renna niður brekkur. Hver kennslustund tekur um 2 klukkustundir og kennsla fer fram á skíðagöngusvæðinu í Bláfjöllum. Aðgangur að svæðinu er ekki innifalinn í verði. Dagskrá námskeiðsins
    • Fim. 2. jan. Kl. 20. Fræðslufundur
    • Lau. 4. jan. Kl. 10.
    • Sun. 5. jan. Kl. 10
    • Mán. 6. jan. Kl. 18
    • Lau. 12. jan. Kl. 10
    Athugið að veður og snjóalög setja mjög oft strik í reikninginn þegar kemur að lagningu skíðaspora og því gæti þurft að hliðra kennslunni til um einhverja daga. Þátttakendur þurfa að eiga eða leigja brautargönguskíði, gönguskíðaskó og stafi. Hægt er að leigja skíði á nokkrum stöðum, m.a. hjá skíðaleigu Everest. Leiðbeinendur á námskeiðinu eru Brynhildur Ólafsdóttir, Helga María Heiðarsdóttir og Róbert Marshall, þrautreynt skíðagöngufólk með réttindi. Námskeiðið kostar 16 þúsund kr. fyrir þá sem æfa með Útihreyfingunni en 20 þúsund kr. fyrir aðra. Skráðir þátttakendur fá nánari upplýsingar í tölvupósti í aðdraganda námskeiðsins.
  • Hrútsfjallstindar. Fjallganga

    39.000 kr.45.000 kr.
    Löng dagsganga 31. maí Fáir tindar á Íslandi bjóða uppá jafn heillandi háfjallaumhverfi og Hrútfellstindar í Öræfasveit. Þetta er ganga sem að erfiðleikastigi er á pari við Hvannadalshnjúk en er fjölbreyttari og að margra mati mun skemmtilegri leið en á hæsta tind Íslands. Þessi fjallaleiðangur lifir lengi í minningunni enda útheimtir hann góðan undirbúning og góðar veðuraðstæður. Gangan krefst jöklabrodda, beltis og ísaxar og í næringu þarf að gera ráð fyrir að vera á fjalli í 10 til 15 tíma. Gengið verður í línu síðustu kílómetrana en efsti hluti leiðarinnar er á jökli. Gengið verður á hæsta tind Hrútfjallstinda, Norðurtindinn, sem er 1852 metra hár. Þetta er erfið leið og ætti enginn að leggja í þessa fjallgöngu án þess að hafa þjálfað vel í aðdragandanum og geta að minnsta kosti gengið upp að steini í Esjunni á undir klukkutíma. Þeir sem ekki eru vanir jöklaferðum, þurfa að auki að hafa tekið námskeiðið Vetrarfjallamennska. Athugið að ef veðurspá er óhagstæð fyrir þennan laugardag, er mögulegt að ferðin verði færð yfir á sunnudag. Gert er ráð fyrir að þátttakendur komi og gisti á eigin vegum í Öræfunum og við mælum sterklega með að fólk geri ráð fyrir gistingu bæði fyrir og eftir ferð. Tjaldstæðið í Svínafelli er t.d. í miklu uppáhaldi hjá okkur í Útihreyfingunni. Skráðir þátttakendur verða boðaðir á rafrænan upplýsingafund og fá ítarlegan upplýsinga- og búnaðarpóst í aðdraganda ferðar. Að lágmarki er nauðsynlegt að eiga góða gönguskó, dagpoka og jöklaþrennuna; belti, brodda og ísöxi. Hægt er að leigja jöklaþrennuna, m.a. hjá Útilífi. Ferðin kostar 39.000 kr. fyrir meðlimi Útihreyfingarinnar en annars 45.000 kr. Lágmarksþátttaka miðar við fjóra. Innifalið í verði er leiðsögn, utanumhald og rafrænn upplýsingafundur í aðdraganda ferðar, auk þess sem hópurinn mun hittast kvöldið fyrir gönguna í undirbúningsspjall og búnaðarskoðun.

Title

Go to Top