-
Tveggja kvölda grunnnámskeið 9. og 16. mars Á þessu tveggja kvölda námskeiði er fjallað um þrennuna sem alltaf er skyldubúnaður þegar ferðast er um jökla landsins og fjalllendi að vetri til, þ.e. ísbrodda, gönguísaxir og göngubelti. Fyrra kvöldið hittast þátttakendur á stuttum rafrænum fræðslufundi þar sem farið er yfir grunnatriðin sem hafa þarf á tæru. Hver er munurinn á mismunandi tegundum brodda, axa og belta? Hvað þarf að hafa í huga þegar þessir hlutir eru keyptir? Hvernig á að stilla þá og passa að þeir sitji rétt og hvað ber að varast? Seinna kvöldið er svo haldið til fjalla í nágrenni Reykjavíkur á 2-3 klst. verklega æfingu. Áfangastaðurinn fer eftir aðstæðum hverju sinni en á æfingunni er kennt á ísbrodda auk þess sem notkun þeirra og beiting er æfð við mismunandi aðstæður og í mismunandi halla. Þá er farið yfir notkun gönguísaxar í brattlendi og á jöklum og ísaxabremsa æfð við mismunandi aðstæður. Ennfremur er kennt hvaða reglur gilda um notkun línu þegar ferðast er í hópi á jökli og hvað megi teljast til góðrar línuhegðunar. Þátttakendur þurfa að eiga, leigja eða fá lánaða ísbrodda, gönguöxi og belti. Hægt er að leigja þennan búnað á nokkrum stöðum, m.a. hjá Útilíf. Nauðsynlegt er að hafa lokið þessu námskeiði eða sambærilegu til að taka þátt í vetrarfjallgöngum og jöklaferðum með Útihreyfingunni. Námskeiðið kostar 19.900 kr. Leiðbeinandi er Róbert Marshall. -
Dagsganga um gamla þjóðleið 7. mars Útihreyfingin hefur síðustu ár verið að þræða gamlar þjóðleiðir á Snæfellsnesi, nýja leið á hverju ári þar sem gengið er á ferðaskíðum á einum degi yfir Nesið frá norðri til suðurs. Að þessu sinni koma alls fjórar gamlar þjóðleiðir til greina en hver þeirra verður fyrir valinu fer eftir aðstæðum og snjóalögum. Sú stysta er um 15 km en sú lengsta 23 km. Allar leiðirnar liggja yfir innanvert Snæfellsnes, austan við Vatnaleiðina. Leiðirnar þræða dali og lág skörð svo að hvorki er um óyfirstíganlega hækkun né lækkun að ræða. Þátttakendur þurfa þó að hafa nokkuð gott vald á ferðaskíðum en þetta er einmitt tilvalin ferð til að taka ferðaskíðamennskuna upp á nýtt stig, æfa sig í tækninni og njóta þess að skoða nýja staði og nýtt landslag í leiðinni. Við bendum fólki líka á að nota æfingahópinn Úti ferðaskíði til að koma sér í ferðaform. Lagt er af stað snemma á laugardagsmorgun til að nýta daginn sem best og byrjað verður á því að skilja bíla eftir við lokastað göngunnar áður en haldið er á upphafsstaðinn og ferðin hefst fyrir alvöru. Gera má ráð fyrir að gengið verði allan daginn á meðan sauðljóst er og stefnt er að því að hópurinn ljúki síðan ferð með því að borða saman, annað hvort á Vegamótum eða í Borgarnesi. Það verður því ekki komið aftur til Reykjavíkur fyrr en um kvöldið. Ef veðurspáin er óhagstæð fyrir laugardaginn, er mögulegt að ferðin verði færð yfir á sunnudag. Þátttakendur fá nánari upplýsingar og búnaðarlista í tölvupósti í aðdraganda ferðar en þurfa að lágmarki að eiga eftirfarandi búnað, fá hann lánaðan eða leigðan: Ferðaskíði, þ.e. utanbrautarskíði með stálköntum, skinn undir skíðin og skíðastafi. Hægt er að leigja skíði á nokkrum stöðum, m.a. hjá skíðaleigu Útilífs. Ferðin kostar 27.900 kr. og innifalið í verðinu er leiðsögn og utanumhald. -
Dagsganga í jaðri þjóðgarðsins 7. febrúar Þjóðgarðurinn á Þingvöllum er dásamlegt útivistarsvæði allan ársins hring en vetrarferðir þangað eru í sérstöku uppáhaldi hjá Útihreyfingunni. Þar sem Þingvellir liggja að nokkru ofan í sigdal, þá geta frosthörkur orðið þar miklar og sambland íss og snævar breytt svæðinu í stórkostlegt undraland. Langskemmtilegast, og raunar auðveldast líka, er að njóta þessarar dýrðar á ferðaskíðum. Það þarf þó ætíð að fara mjög varlega þegar ferðast er um Þingvallasvæðið og sérstaklega að vetri til, þar sem alls konar holur, gjótur og gjár geta leynst undir snjónum. Því mælum við alltaf með því að fylgja einhverjum sem þekkir til og veit hvar best er að fara. Í þessari ferð er stefnt að því að ganga um austurhluta þjóðgarðsins, og fara skemmtilega hringleið um Reyðarbarm, Hrútafjöll og Stóra Dímon, alls um 15 km, sem tekur um 5-6 klst. Fyrsta hluta leiðarinnar er gengið nokkuð jafnt og þétt upp í móti en hvergi mjög bratt og um leið og haldið er til baka þá tekur við þægileg lækkun, jafnvel þannig að hægt verður að renna sér frekar áreynslulaust nánast alla leið aftur í bíl! Lagt er af stað kl. 8 á laugardagsmorgni úr Reykjavík og stefnt að því að komið sé til baka til Reykjavíkur ekki seinna en um kl. 16. Athugið að endanleg ferðatilhögun svona skíðaferða þarf alltaf að taka tillit til bæði veðurs og snjóalaga. Þannig gæti þurft að breyta leiðarvali og ef veðurspáin er óhagstæð fyrir laugardaginn, er mögulegt að ferðin verði færð yfir á sunnudag. Þátttakendur fá nánari upplýsingar og búnaðarlista í tölvupósti í aðdraganda ferðar en þurfa að lágmarki að eiga eftirfarandi búnað, fá hann lánaðan eða leigðan: Ferðaskíði, þ.e. utanbrautarskíði með stálköntum, skinn undir skíðin og skíðastafi. Hægt er að leigja skíði á nokkrum stöðum, m.a. hjá skíðaleigu Útilífs. Ferðin kostar 19.900 kr. og innifalið er leiðsögn og utanumhald.