• Himneskir Jötunheimar. Ferðaskíði

    Price range: 80.000 kr. through 297.000 kr.
    Skíðað á milli skála í Noregi 19.-24. mars Við höldum áfram að kanna ný svæði í Jötunheimum í Noregi, sem líkja má við Fjallabak okkar Íslendinga. Þetta stórkostlega fjallahérað er eitt vinsælasta útivistarsvæði Norðmanna, umkringt jöklum og hæstu fjöllum landsins. Á milli fjallanna liggja stór og mikil vötn sem á veturnar bjóða upp á sannkallaðar himnabrautir fyrir skíðafólk á gönguskíðum. Á veturnar er líka aðeins hægt að ferðast um Jötunheima fótgangandi eða á skíðum og það gerum við í þessari ferð því gengið er á ferðaskíðum (utanbrautarskíðum með stálköntum) í alls  fjóra daga og gist í huggulegum, hlýjum og oftast fullþjónustuðum fjallaskálum. Fyrsti og síðasti dagurinn eru ferðadagar. Leiðangurinn hefst á lestarferðalagi frá Gardemoen flugvelli í Osló. Haldið er norður í Guðbrandsdal en þaðan er svo ekið með smárútu á fyrsta næturstaðinn, sem er hálfgert fjallakofaþorp sem kúrir undir Galdhøpiggen, hæsta fjalli Noregs. Sá farangur þátttakenda sem ekki verður notaður í skíðaferðinni sjálfri, er hins vegar fluttur á síðasta næturstaðinn. Eftir staðgóðan morgunmat næsta dag hefst skíðaferðalagið sjálft, en þennan dag er gengið á skíðum um 15 km leið í stóran og góðan skála sem liggur nánast í hjarta Jötunheima, umkringdur jöklum og bröttum fjöllum. Næstu tvo daga er svo gengið á skíðunum í þessu stórbrotna umhverfi, yfir frosin og rennislétt fjallavötn og á milli ógurlegra fjalla. Gist er í einum fábrotnum og óþjónustuðum skála á leiðinni en líka í einum stærsta og þekktasta fjallaskála Norðmanna sem hefur verið starfræktur í tæplega 150 ár og státar af glænýju sánabaði með óviðjafnanlegu útsýni. Síðasta skíðadaginn er svo haldið til byggða. Þetta er lengsti dagurinn í kílómetrum talið eða alls um 24 km en allt í góðum skíðasporum á lögðum skíðabrautum. Þennan dag endar hópurinn í einum af okkar uppáhalds gististöðum, rómantísku sveitasetri með mikla sögu. Þar bíður farangurinn og góður kvöldmatur eldaður úr hráefni frá héraði. Að auki er hægt að fara í sána og heitan pott til að láta ferðaþreytuna líða úr sér eftir átök síðustu daga. Snemma næsta dag sækir smárúta hópinn og ekur honum beint á Gardemoen flugvöllinn í Osló, þaðan sem flogið er heim til Íslands, nú eða hvert á land sem er! Þátttakendur þurfa að hafa einhverja reynslu á gönguskíðum og gott er að undirbúa sig í aðdraganda ferðar með því að taka þátt í æfingahópi á ferðaskíðum eða fara í æfingaferðir. Við bendum fólki á að fylgjast vel með úrvalinu hér á vefsíðu Útihreyfingarinnar. Haldinn er rafrænn undirbúningsfundur fyrir ferð þar sem m.a. verður farið ítarlega yfir búnað og annað skipulag. Fararstjórar eru Brynhildur Ólafsdóttir og Sandra Sif Morthens. Innifalið í ferðinni sem kostar 297 þúsund er öll gisting, þ.e. fjórar nætur í fjallaskálum og ein nótt á gistiheimili. Allur matur, utan dagsnesti ferðadagana tvo, þ.e. fyrsta og síðasta daginn. Allar lestar- og smárútuferðir innan Noregs. Undirbúningsfundur, leiðsögn og utanumhald. Í stóru fjallaskálunum er oftast gist í 2-4ja manna herbergjum og þar er boðið upp á alla mögulega þjónustu, hægt að kaupa drykki og ýmsan smávarning og komast í sturtu. Eina nótt er hins vegar gist í óþjónustuðum skála, þar sem hópurinn eldar sinn mat sjálfur. Flug til og frá Noregs er ekki innifalið, en ferðin er skipulögð þannig að þátttakendur geta flogið til Oslóar með Icelandair að morgni 19. mars, sama dag og leiðangurinn hefst, lending í Osló um 11:30. Einnig er hægt að fljúga heim til Íslands sama dag og ferðinni lýkur, þ.e. 24. mars, brottför um kl. 13 frá Osló. Staðfestingargjald ferðarinnar er 80.000 kr. og eftirstöðvar eru greiddar í síðasta lagi sex vikum fyrir ferð. Lágmarksþátttaka miðar við 10 manns.
    Veldu kosti This product has multiple variants. The options may be chosen on the product page Details
  • Fjórar þrautir: Ferðaskíði. Fjallganga. Fjallahjól. Sundhlaup Skráningu lýkur 4. janúar Útinaglinn er ný útivistar- og ævintýraáskorun, hönnuð fyrir þau sem vilja sameina útivist og þol, halda sér í formi og stíga örlítið út fyrir þægindarammann í þéttum og skemmtilegum félagsskap. Þetta er ferðalag í fjórum áföngum því þátttakendur taka þátt í fjórum mismunandi þrautum yfir árið. Árið 2026 eru það ferðaskíði, fjallganga, fjallahjól og sundhlaup. Þau sem klára allar fjórar þrautir ársins fá heiðursnafnbótina Útinaglinn 2026. Á hverju ári verða svo nýjar áskoranir og þrautir á nýjum slóðum, því markmiðið er að halda sér í frábæru útivistarformi með því að hafa alltaf skemmtileg, krefjandi og fjölbreytt verkefni til að stefna að. Útinaglaþrautirnar eru ekki keppnir, heldur alvöru útivistaráskoranir. Þetta eru ólíkar áskoranir en allar krefjast bæði úthalds og þrautseigju þar sem þú sjálf/ur ert þinn eini keppandi. Í leiðinni kynnistu nýju fólki, nýjum stöðum, lærir eitthvað nýtt, styrkir þig og bætir og færð mögulega nýja sýn á þig og þína getu! Naglaþrautir 2026 11. apríl. Ferðaskíði um Tröllakirkju Einn dagur. 10., 11. eða 12. apríl* Skíðað umhverfis Tröllakirkju á Holtavörðuheiði. 32 km Ekið samdægurs til og frá Rvk 23. maí. Fjallganga á Þverártindsegg Einn dagur. 22., 23. eða 24. maí* Jöklaganga á Þverártindsegg. 17 km Gist í Öræfum á eigin vegum 20. júní. Fjallahjól að Fjallabaki Einn dagur. 19., 20. eða 21. júní* Hjólað frá Landmannahelli í Hvanngil. 53 km Gist að Fjallabaki á eigin vegum 18. júlí. Sundhlaup í Gufunesi og Viðey** Einn dagur. 17., 18. eða 19. júlí* Hlaupið í Gufunesi. 2 km Synt frá Gufunesi í Viðey. 750 m Hlaupið í Viðey. 4,5 km Synt frá Viðey í Gufunes. 750 m Hvernig virkar þetta?
    • Árið 2026 er prufukeyrsla og aðeins 40 pláss í boði
    • Þátttaka í öllum fjórum Naglaþrautunum kostar 128 þúsund og þátttakendur skrá sig skuldbindandi inn í allar fjórar þrautirnar í einu lagi
    • Ef hópurinn fyllist ekki, er mögulegt að selt verði inn í stakar þrautir
    • Æfingar og undirbúningur fyrir þrautirnar fara fram í Útiræktinni og þátttakendur þurfa því að vera áskrifendur í aðdraganda þrautanna
    • Hægt er að slást í hópinn til áramóta, ef pláss leyfir
    Vertu með frá upphafi og komdu þér í frábært útivistarform til að geta tekist á við öll þau dásamlegu útivistarævintýri sem íslensk náttúra býður upp á. Skráning hér að neðan! *Athugaðu að við tökum þrjár dagsetningar frá fyrir hverja þraut. Stefnt er að því að halda þær allar á laugardegi, en ef veðrið er ekki að spila með, þá eru föstudagar og sunnudagar hafðir til vara. Ef veður er ekki hagstætt alla þessa þrjá daga, þá reynum við að flytja þrautina á milli landshluta. Og ef svo ólíklega vill til að það verði óveður um allt land, þá finnum við nýja dagsetningu fyrir uppbótarþraut, innan ársins. **Sundhlaup, hvað er nú það? Þetta er íþrótt sem rekur rætur sínar til fjögurra vina sem skoruðu hvert á annað að synda og hlaupa um 75 km leið í sænska skerjagarðinum. Og já, þau voru víst dálítið við skál þegar þetta var ákveðið :) Hér eru flottar upplýsingar frá áströlsku sundhlaupssamtökunum. Annars höldum við hjá Útihreyfingunni að mögulega sé þetta í fyrsta sinn sem sundhlaupsþraut er sett á dagskrá á Íslandi!
  • Jöklaáskorun Útihreyfingarinnar 30. apríl - 7. maí Stórkostlegur vikulangur leiðangur þar sem sjálfur konungur jöklanna, Vatnajökull, er genginn endilangur á ferðaskíðum. Svona leiðangrar verða jafnan eitt af stærstu ævintýrunum í lífi hverrar manneskju. Við lofum ógleymanlegu, valdeflandi og krefjandi ferðalagi, fyrir bæði líkama og sál. Þátttakendur ganga á svokölluðum ferðaskíðum (utanbrautargönguskíðum með stálköntum) og draga púlkur / sleða með öllum farangrinum á eftir sér. Gist er í tjöldum á jöklinum í fjórar nætur en eina nótt í skála á Grímsfjalli. Gert er ráð fyrir að jöklagangan sjálf taki 6-7 daga en nokkrir dagar eru hafðir til vara ef hópurinn þarf að hafast við á jöklinum og bíða af sér veður og jafnframt til að gera ráð fyrir ferðalögum til og frá jökli. Það fer eftir færð og veðri í aðdraganda ferðar hvort gengið verður frá austri til vesturs eða frá vestri til austurs. Leiðangurinn hefst því annað hvort við Jöklasel á Skálafellsjökli við suðurbrún Vatnajökuls eða upp frá Jökulheimum undir Tungnaárjökli við vesturbrún jökulsins. Ógnarfegurð, alger kyrrð og mikil núvitund felst í svona löngu ferðalagi yfir jökul. Fegurðin getur stundum verið yfirþyrmandi. Rósrauð sólris og sólsetur einkenna jökulinn og á leiðinni gefst stórkostlegt útsýni á marga af hæstu tindum landsins. Oft er þó líka gengið í hrímþoku eða algerri hvítablindu sem reynir á skilningarvitin á allt annan hátt. Þegar ferðalagið er nokkurn veginn hálfnað, nánast á miðjum jöklinum, er komið á Grímsfjall við Grímsvatnaeldstöðina. Þar bíður vistlegur skáli Jöklarannsóknarfélagsins eftir göngufólkinu, hlýr og notalegur. Í skálanum er hægt að kjarna sig, elda dýrindismat, þurrka föt ef á þarf að halda og síðast en ekki síst láta þreytuna líða úr sér í goðsagnakenndu jöklagufubaði! Heildarvegalengd leiðangursins er 130 km og gert er ráð fyrir að hópurinn skíði 20-25 km á hverjum degi, eftir færð og veðri. Þetta er krefjandi ferð sem hentar vönu ferðafólki með reynslu af vetrarferðalögum eða fólki sem ætlar að nota veturinn fyrir leiðangurinn til að læra og æfa sig. Við bendum fólki á að nota æfingahópinn Úti ferðaskíði og námskeiðið Ferðast á gönguskíðum, en hvoru tveggja verður á dagskrá í janúar 2026. Þeir sem ekki eru vanir jöklaferðum þurfa að auki að hafa tekið námskeiðið Vetrarfjallamennska (sem er líka alltaf á dagskrá Útihreyfingarinnar á vormánuðum) eða sambærilegt. Gert er ráð fyrir að hópurinn hittist töluvert og kynnist fyrir ferð og æfi sig að einhverju leyti saman, en stungið verður upp á sameiginlegum ferðum og æfingum í aðdraganda leiðangursins. Brynhildur Ólafsdóttir og Helga María Heiðarsdóttir leiða ferðina en báðar eru mjög reynslumiklar og hafa leiðsagt fjölmargar ævintýraferðir, bæði hérlendis og erlendis. Þær eru með gilt Wilderness First Responder skírteini og hafa lokið réttindanámi hjá Félagi íslenskra fjallaleiðsögumanna (AIMG), bæði í fjalla- og jöklaleiðsögn. Ferðin kostar 265.000 kr. Athugið að hægt er að greiða ferðina í einu lagi eða skipta greiðslum eins og hver og einn kýs inni í greiðsluferlinu sjálfu. Innifalið í verðinu er gisting í eina nótt á Grímsfjalli, far með jepparútum til og frá Reykjavík og að og frá jökli, nokkrir undirbúningsfundir, aðstoð með búnað, næringu, æfingaáætlun og pökkun, ein óveðursútilega í aðraganda ferðar ásamt leiðsögn og utanumhaldi í sjálfum leiðangrinum. Jöklafarar Þessi ferð telst hluti af verkefninu Jöklafarar sem er jöklaáskorun Útihreyfingarinnar, þar sem gengið er á ferðaskíðum yfir sex stærstu jökla landsins. Sjá nánar hér.
Go to Top