• Fjórar þrautir: Ferðaskíði. Fjallganga. Fjallahjól. Sundhlaup Skráningu lýkur 4. janúar Útinaglinn er ný útivistar- og ævintýraáskorun, hönnuð fyrir þau sem vilja sameina útivist og þol, halda sér í formi og stíga örlítið út fyrir þægindarammann í þéttum og skemmtilegum félagsskap. Þetta er ferðalag í fjórum áföngum því þátttakendur taka þátt í fjórum mismunandi þrautum yfir árið. Árið 2026 eru það ferðaskíði, fjallganga, fjallahjól og sundhlaup. Þau sem klára allar fjórar þrautir ársins fá heiðursnafnbótina Útinaglinn 2026. Á hverju ári verða svo nýjar áskoranir og þrautir á nýjum slóðum, því markmiðið er að halda sér í frábæru útivistarformi með því að hafa alltaf skemmtileg, krefjandi og fjölbreytt verkefni til að stefna að. Útinaglaþrautirnar eru ekki keppnir, heldur alvöru útivistaráskoranir. Þetta eru ólíkar áskoranir en allar krefjast bæði úthalds og þrautseigju þar sem þú sjálf/ur ert þinn eini keppandi. Í leiðinni kynnistu nýju fólki, nýjum stöðum, lærir eitthvað nýtt, styrkir þig og bætir og færð mögulega nýja sýn á þig og þína getu! Naglaþrautir 2026 11. apríl. Ferðaskíði um Tröllakirkju Einn dagur. 10., 11. eða 12. apríl* Skíðað umhverfis Tröllakirkju á Holtavörðuheiði. 32 km Ekið samdægurs til og frá Rvk 23. maí. Fjallganga á Þverártindsegg Einn dagur. 22., 23. eða 24. maí* Jöklaganga á Þverártindsegg. 17 km Gist í Öræfum á eigin vegum 20. júní. Fjallahjól að Fjallabaki Einn dagur. 19., 20. eða 21. júní* Hjólað frá Landmannahelli í Hvanngil. 53 km Gist að Fjallabaki á eigin vegum 18. júlí. Sundhlaup í Gufunesi og Viðey** Einn dagur. 17., 18. eða 19. júlí* Hlaupið í Gufunesi. 2 km Synt frá Gufunesi í Viðey. 750 m Hlaupið í Viðey. 4,5 km Synt frá Viðey í Gufunes. 750 m Hvernig virkar þetta?
    • Árið 2026 er prufukeyrsla og aðeins 40 pláss í boði
    • Þátttaka í öllum fjórum Naglaþrautunum kostar 128 þúsund og þátttakendur skrá sig skuldbindandi inn í allar fjórar þrautirnar í einu lagi
    • Ef hópurinn fyllist ekki, er mögulegt að selt verði inn í stakar þrautir
    • Æfingar og undirbúningur fyrir þrautirnar fara fram í Útiræktinni og þátttakendur þurfa því að vera áskrifendur í aðdraganda þrautanna
    • Hægt er að slást í hópinn til áramóta, ef pláss leyfir
    Vertu með frá upphafi og komdu þér í frábært útivistarform til að geta tekist á við öll þau dásamlegu útivistarævintýri sem íslensk náttúra býður upp á. Skráning hér að neðan! *Athugaðu að við tökum þrjár dagsetningar frá fyrir hverja þraut. Stefnt er að því að halda þær allar á laugardegi, en ef veðrið er ekki að spila með, þá eru föstudagar og sunnudagar hafðir til vara. Ef veður er ekki hagstætt alla þessa þrjá daga, þá reynum við að flytja þrautina á milli landshluta. Og ef svo ólíklega vill til að það verði óveður um allt land, þá finnum við nýja dagsetningu fyrir uppbótarþraut, innan ársins. **Sundhlaup, hvað er nú það? Þetta er íþrótt sem rekur rætur sínar til fjögurra vina sem skoruðu hvert á annað að synda og hlaupa um 75 km leið í sænska skerjagarðinum. Og já, þau voru víst dálítið við skál þegar þetta var ákveðið :) Hér eru flottar upplýsingar frá áströlsku sundhlaupssamtökunum. Annars höldum við hjá Útihreyfingunni að mögulega sé þetta í fyrsta sinn sem sundhlaupsþraut er sett á dagskrá á Íslandi!
  • Stutt ferðaskíðanámskeið fyrir byrjendur 12. - 17. janúar Markmið námskeiðsins er að þátttakendur fái að kynnast ferðaskíðum / utanbrautarskíðum og þessum frábæra ferðamáta sem sameinar skíðagöngu, náttúruupplifun og vetrargleði. Þetta er stutt, snarpt en hagnýtt námskeið þar sem þú fræðist um muninn á mismunandi búnaði, lærir á skíðin og skinnin, kynnist grunntækni í beitingu skíðanna og hvernig við skíðum örugglega og áreynslulaust á mismunandi undirlagi. Við byrjum rólega, lærum á skíðin, bindingarnar og skinnin og tökum svo fyrstu skrefin í brekkum og hliðarhalla, mismunandi færi og í fjölbreyttu landslagi. Námskeiðið samanstendur af rafrænum fræðslufundi og tveimur skíðaæfingum sem taka um 2 klst hvor. Staðsetning æfinganna fer eftir snjóalögum og færð, en reynt er að miða við að ekki taki meira en 30-40 mínútur að aka frá Reykjavík á æfingastaðinn. Dagskrá námskeiðsins
    • Mán. 12. jan. Kl. 20. Rafrænn fræðslufundur
    • Mið. 14. jan. Kl. 18. Æfing
    • Lau. 17. jan. Kl. 10. Æfing
    Í kjölfar námskeiðsins býðst þeim, sem vilja halda áfram, að skrá sig í Æfingahópinn Úti ferðaskíði, þar sem við ferðumst meira, heimsækjum fullt af skemmtilegum áfangastöðum, dýpkum tæknina og njótum vetrarins saman. Þátttakendur þurfa að eiga eða leigja ferðaskíði, þ.e. utanbrautarskíði með stálköntum. Hægt er að leigja skíði á nokkrum stöðum, m.a. hjá skíðaleigu Útilífs. Athugaðu að ef þú hefur aldrei gengið á gönguskíðum, þá er gott að byrja á því að læra á brautarskíði, áður en þú færir þig yfir á ferðaskíðin. Sjá t.d. námskeiðið Úti brautarskíði.  Leiðbeinendur eru Brynhildur Ólafsdóttir og Róbert Marshall, sem hafa menntað sig sem skíðakennarar og gengið á ferðaskíðum þvers og kruss, bæði á Íslandi og erlendis, eru með réttindi hjá Félagi íslenskra fjallaleiðsögumanna og gilt skírteini í WFR eða Fyrstu hjálp í óbyggðum. Skráðir þátttakendur fá nánari upplýsingar í tölvupósti í aðdraganda námskeiðsins.
  • Þriggja daga púlkuleiðangur. Ein nótt í tjaldi og ein í skála. 20.-22. febrúar Margar gamlar þjóðleiðir og fjöldi skemmtilegra slóða liggja um Skaftártungu og heiðarnar austan Mýrdalsjökuls. Þetta er frekar sjaldfarið svæði en gríðarlega margt að sjá og skoða og sagan lifnar hér við hvert fótmál. Í þessum leiðangri er ætlunin að fara góða hringleið um svæðið á ferðaskíðum (utanbrautarskíðum) með púlku í eftirdragi og leggja að baki um 50 km á þremur dögum. Fyrri nóttina verður gist í tjaldi en þá síðari í huggulegum og rúmgóðum fjallaskála. Ferðin hefst við nyrstu bæi í Skaftárhreppi, þaðan sem lagt er upp á Ljótarstaðaheiði. Stefnan er tekin norður undir Svartahnúk, þar sem slegið verður upp tjöldum eftir 15-20 km skíðagöngu, eftir færð og snjóalögum. Daginn eftir verður farin um 12 km leið, framhjá skálanum í Álftavötnum (sem ekki skyldi rugla saman við skálann við Álftavatn), yfir Syðri-Ófæru og í Hólaskjól, skálann í Lambaskarðshólum. Þar verður hægt að koma sér vel fyrir, slá upp veislu og henda í góða fjallakvöldvöku. Síðasta daginn er svo stefnan tekin stystu leið aftur niður í byggð og í bíla, 15-20 km leið. Þátttakendur þurfa að hafa nokkuð gott vald á ferðaskíðum og treysta sér í að skíða með púlkur í eftirdragi bæði upp og niður. Við bendum fólki á æfingahópinn Úti ferðaskíði ásamt námskeiðinu Ferðast á gönguskíðum. Athugið að endanleg ferðatilhögun þarf alltaf að taka tillit, bæði til veðurs og snjóalaga. Þannig gæti þurft að breyta leiðarvali vegna snjóleysis og að auki gæti þurft að hnika ferðinni fram eða aftur um dag, vegna veðurs. Haldinn verður rafrænn undirbúningsfundur í aðdraganda ferðar, þar sem farið verður yfir ferðatilhögun og búnaðarpælingar auk þess sem þátttakendur fá ítarlegan upplýsinga- og búnaðapóst. Fararstjórar eru Brynhildur Ólafsdóttir og Róbert Marshall.
Go to Top