• Hlaupagleði og grill 30. maí - 1. júní Sameiginleg helgarferð í hið stórskemmtilega og fjölbreytta utanvegahlaup, Mýrdalshlaupið, sem haldið er í Vík í Mýrdal, laugardaginn 31. maí. Gist verður í félagsheimilinu Eyrarlandi í Reynishverfi, steinsnar frá Reynisfjöru, Dyrhólaey og öðrum náttúruperlum. Bæði er hægt að gista í svefpokum á dýnum í félagsheimilinu eða tjalda fyrir utan, allt eftir því hvað þátttakendur kjósa. Eyrarland verður miðstöð hópsins þessa helgi en þar er fullbúið eldhús og góð aðstaða til að borða saman, syngja og fagna hlaupinu. Þátttakendur sameinast í bíla og aka austur seinnipartinn á föstudag og koma sér fyrir í félagsheimilinu. Eftir sameiginlegan morgunverð á laugardag er haldið að rásmarki hlaupsins í Vík þar sem ræst er í hlaupið kl. 11. Boðið er upp á þrjár miskrefjandi vegalengdir, 21 km, 10 km og 3 km. Eftir hlaupið er sundlaugin í Vík heimsótt áður en haldið er aftur að Eyrarlandi þar sem slegið verður upp veglegri grillveislu til að fagna áfanganum. Sunnudagurinn hefst á staðgóðum morgunmat og svo verður farið í stutt endurheimtarhlaup m.a. um Reynisfjöru og Dyrhólaós, áður en haldið er heim á leið. Innifalið í verðinu er utanumhald, svefnpokagisting og aðgangur að allri aðstöðu í eða við Eyrarland frá föstudegi til sunnudags, morgunmatur bæði laugardag og sunnudag, grillveisla á laugardagskvöld og leiðsagt endurheimtarhlaup á sunnudaginn. Athugið að verðið er það sama, hvort sem þátttakendur nýta sér gistinguna bæði föstudags- og laugardagsnótt eða bara aðra nóttina. Þátttökugjaldið í Mýrdalshlaupinu er ekki innifalið og við hvetjum alla til að tryggja sér miða strax með því að smella hér.
  • Fjórir göngudagar á Austfjörðum 1.-4. júlí Gerpissvæðið, svokallaða, er landssvæðið á milli Norðfjarðar og Reyðarfjarðar, kennt við Gerpi, sem ber þann sæmdartitil að vera austasti tangi á meginlandi Íslands. Svæðið er allt á náttúruminjaskrá og var friðlýst árið 2021. Landssvæðið minnir að nokkru leyti á Hornstrandir, því áður stóðu þarna blómlegir bæir með gróin tún og bátum í fjöru en nú er allt í eyði og aðeins fuglinn fljúgandi og stöku göngumann að sjá. Víða á svæðinu má finna stórbrotin jarðlög, stuðlabergsmyndanir og litfögur líparítbjörg og tignarlegir tindar gnæfa svo yfir öllu og gefa svæðinu hrikalega ásýnd. Tvær víkur og tveir firðir skerast inn í landið og á milli þeirra liggja nes og múlar sem sumir hverjir ganga þverhnípt beint í sjó fram. Í þessari ferð verður leitast við að ganga sem víðast um svæðið og kynnast því sem mest og best í fylgd heimafólks sem þekkir svæðið vel og alla sögu þess. Gengið verður fjóra daga og gist í vel búnum skála/húsi í þrjár nætur, þar af tvær nætur í húsi sem státar ekki bara af sturtum heldur líka gufubaði! Göngufólk þarf aðeins að bera léttan dagpoka hvern göngudag en farangur og matur verður trússaður á milli næturstaða. Að auki verður bátur til taks til að aðstoða göngufólk. Í upphafi og í lok ferðar þarf hópurinn að hjálpast að við að flytja bíla á milli staða, því ferðin byrjar á öðrum stað en hún endar. Fyrsta daginn verður gengið frá Karlsskála, þar sem vegurinn endar norðan Reyðarfjarðar, fyrir Krossanes og að Karlsstöðum, sem er vel búinn skáli Ferðafélags Fjarðarmanna í Vöðlavík. Um 20 km. Annan daginn verður gengið upp í Gerpisskarð þaðan sem stórbrotið útsýni býðst yfir Gerpi og Sandvík, svo yfir Nónskarð og endað í húsi í Viðfirði. Um 17 km. Þriðja daginn verður genginn hringur um Barðsnesið, út á Barðsneshornið og um hin fögru Rauðubjörg. Gist aftur í Viðfirði þar sem slegið verður upp veglegri grillveislu. Um 15 km. Fjórða og síðasta daginn er svo gengið út Viðfjörð, um Hellisfjörð og fyrir Hellisfjarðarmúla til Norðfjarðar. Þar lýkur ferðinni á því að náð verður í þá bíla sem skildir voru eftir fyrsta daginn, við upphafsstað göngunnar. Um 17 km. Ferðin kostar 118 þúsund kr og innifalið er utanumhald og leiðsögn, gisting í húsi í þrjár nætur, bíla- og bátatrúss og ein sameiginleg grillmáltíð. Skráðir þátttakendur fá ítarlegan búnaðarlista og boð á undirbúningsfund í aðdraganda ferðar. Fararstjórar og leiðsögumenn eru Brynhildur Ólafsdóttir og Róbert Marshall ásamt heimafólki.

Title

Go to Top