• Úti 102

    22.900 kr.

    NÁMSKEIÐ HEFST 4. MARS Fjögurra vikna framhaldsnámskeið fyrir fólk sem hefur farið á Úti 101 námskeið Útihreyfingarinnar eða er með einhvern grunn í útivist og langar til að bæta við sig; hlaupa lengra, fara hærra á fjöllum, og vera aðeins lengur ofan í sjónum. Æft er tvisvar til þrisvar í viku og mikið er um göngur, létt hlaup og þrekæfingar.

    Dagskrá námskeiðsins
    • Alla þriðjudaga kl. 17:30 Styrktar- og þrekæfingar með Útihreyfingunni. Æfingarnar fara fram á grænum svæðum í Reykjavík og nágrenni.
    • Alla fimmtudaga kl. 17:30 Tækni- og gæðaæfingar með Úti 102 þjálfara. Æfingarnar fara fram á grænum svæðum í Reykjavík og nágrenni.
    • Laugardagar / sunnudagar kl. 9:30 Tvær lengri helgaræfingar.
    Á Úti 102 er sérstök áhersla lögð á persónulegt utanumhald sem hefst með upphafsviðtali um markmið og væntingar. Námskeiðið er tilvalið fyrir þau sem vilja halda áfram að hreyfa sig, koma sér aftur af stað í útihreyfingu og einnig tilvalið fyrir þau sem hafa áhuga á að taka síðan þátt í Hálfvættanámskeiði Útihreyfingarinnar sem hefst í lok október 2025.
    Námskeiðið kostar 22.900 kr. og umsjón með því hefur Kristín Ýr Lyngdal.
  • Úti ferðaskíði. Námskeið

    24.000 kr.28.000 kr.
    Vikulegar æfingar á utanbrautarskíðum 8. janúar - 12. febrúar Markmið ferðaskíðahóps Útihreyfingarinnar eru þríþætt. Fyrst og fremst viljum við að þátttakendur læri vel á ferðaskíðin og skinnin og alla tækni við beitingu skíðanna. Við byrjum því veturinn á alls konar tækniæfingum. Bæði til að koma sér í gírinn fyrir skíðavertíðina en einnig til að mæta mismunandi getustigi. Þannig fá bæði byrjendur og lengra komnir eitthvað fyrir sinn snúð. Brekkur upp. Brekkur niður. Hliðarhalli. Mismunandi snjóalög, færi og undirlag. Allt þarf að læra á og æfa sig í að gera. Að auki verður ein æfing þar sem fólk getur fengið að skoða og prufa mismunandi sleða og púlkur. Í öðru lagi finnst okkur alltaf gaman að ganga á skíðum á nýjum stöðum. Við viljum því nota tækifærið til að kynna hópinn fyrir fjölbreyttum og skemmtilegum skíðaáfangastöðum í nágrenni Reykjavíkur. Og ekki er verra ef svæðið geymir einhverja sögu sem hægt er að fræðast um. Síðast en ekki síst viljum við í sameiningu skapa fallegan félagsskap fólks sem nærist á skemmtilegri samveru og útiveru og nýtur þess að leika sér úti við í öllum veðrum. Þetta er, og á alltaf að vera, BARA GAMAN :) Hópurinn hittist alls sjö sinnum. Einu sinni á fræðslufundi í upphafi, á fimm miðvikudagsgöngum og einni lengri laugardagsgöngu. Á fræðslufundinum verður farið yfir dagskrá vetrarins, allt skipulagið í kringum æfingarnar og nauðsynlegan búnað, muninn á mismunandi skíðum og skinnum etc. Miðvikudagsgöngurnar hefjast kl. 18, eru allar í nágrenni Reykjavíkur og reynt verður að miða við að það taki aldrei lengri tíma en að hámarki 40 mínútur að aka á upphafsstað göngunnar. Göngurnar sjálfar taka svo að meðaltali 1.5-2.5 klst. Í helgargöngunni leyfum við okkur að fara aðeins lengra og vera örlítið lengur á skíðunum. Stefnt er á göngu í jaðri Þingvallaþjóðgarðs, allt eftir snjóalögum og færi. Dagskrá námskeiðsins
    • Mið. 8. jan. Kl. 20. Fræðslufundur.
    • Mið. 15. jan. Kl. 18.
    • Mið. 22. jan. Kl. 18.
    • Mið. 29. jan. Kl. 18.
    • Mið. 5. feb. Kl. 18.
    • Lau. 8. feb. Kl. 10. Þingvellir
    • Mið. 12. feb. K. 18.
    Þátttakendur þurfa að eiga eða leigja ferðaskíði, þ.e. utanbrautarskíði með stálköntum. Hægt er að leigja skíði á nokkrum stöðum, m.a. hjá skíðaleigu Útilífs. Leiðbeinendur og fararstjórar eru Brynhildur Ólafsdóttir, Helga María Heiðarsdóttir og Róbert Marshall sem öll eru með réttindi hjá Félagi íslenskra fjallaleiðsögumanna og gilt skírteini í WFR eða Fyrstu hjálp í óbyggðum. Þau eru þrautreyndir leiðsögumenn sem á milli sín hafa þverað alla jökla landsins og Grænlandsjökul að auki, gengið þvers og kruss á ferðaskíðum á Íslandi og erlendis auk þess að búa yfir hafsjó af fróðleik og hafa menntað sig, ekki bara sem skíðakennarar (Brynhildur og Róbert), heldur líka í jarð- og jöklafræði (Helga María). Námskeiðið kostar 24 þúsund kr. fyrir þau sem æfa með Útihreyfingunni en 28 þúsund kr. fyrir aðra. Skráðir þátttakendur fá nánari upplýsingar í tölvupósti í aðdraganda námskeiðsins.
  • Jöklaáskorun Útihreyfingarinnar Þriggja ára stórbrotið ferðalag Jöklafarar er heitið á nýrri áskorun Útihreyfingarinnar þar sem þátttakendur ganga á ferðaskíðum þvert yfir sex stærstu jökla landsins, þ.e. Eyjafjallajökul, Drangajökul, Mýrdalsjökul, Hofsjökul, Langjökul og Vatnajökul. Markmiðið er ekki að fara upp á hæsta tind hvers jökuls fyrir sig, þ.e. fram og til baka, heldur að skíða þvert yfir jöklana þannig að endað sé á öðrum stað en ferðin hófst. Hægt er að klára áskorunina á eigin hraða, þ.e. á eins skömmum eða löngum tíma og hentar hverjum og einum. Hins vegar skipuleggur Útihreyfingin verkefnið og mælir með því að það sé klárað á alls þremur árum frá upphafi til enda, þannig að byrjað sé á æfingum á ferðaskíðum og minni jöklum áður en ráðist er í flóknari og lengri ferðir og jöklaútilegur. Í hnotskurn Þeir sem hafa enga reynslu og eru að byrja frá grunni, geta hafið vegferðina strax í janúar á næsta ári, 2025 með því að læra á ferðaskíði þ.e. utanbrautargönguskíði með stálköntum og æfa sig svo vikulega nágrenni Reykjavíkur með Úti ferðaskíðahópnum. Að auki þurfa óvanir að taka kvöldnámskeið þar sem kennd er línuhegðun á jökli og notkun á jöklabroddum og ísöxi. Að vori verða svo þrír jöklar þveraðir: Drangajökull, Eyjafjallajökull og Langjökull. Þessa jökla er hægt að þvera hvern um sig á einum löngum skíðadegi og því þarf ekki að gista í tjaldi á jökli þetta fyrsta árið. Annað árið hefst á námskeiðinu Ferðast á gönguskíðum þar sem þátttakendur læra öll trixin við að ferðast með púlku í eftirdragi og tjalda í snjó auk þess sem farið er í æfingaútilegu til að þjálfa handtökin. Að vori er síðan haldið í 3-4 daga ferðir á Hofsjökul annars vegar og Mýrdalsjökul hins vegar. Síðasta árið er svo komið að konungi íslenskra jökla, sjálfum Vatnajökli. Það er ferðalag sem tekur heila viku og þarfnast góðs undirbúnings og æfinga. Ekki aðeins þurfa þátttakendur að vera í góðu líkamlegu formi og þekkja búnaðinn sinn vel, heldur er líka nauðsynlegt að undirbúa hausinn fyrir átökin og langa daga á jökli. Að lokum fá þátttakendur viðurkenningarskjal og heiðursnafnbótina Jöklafari og eru þá komnir með fullan og óskoraðan rétt til að grobba sig á alla jöklakanta, jafnvel á alþjóðavettvangi 🙂 Síðasta tækifærið? Markmið þessa verkefnis er þó ekki eingöngu að vera þátttakendum til skemmtunar og áskorunar. Með frásögnum af ferðunum í máli og myndum, viljum við líka vekja athygli almennings, heima og erlendis, á hraðri bráðnun jöklanna af völdum loftslagshlýnunar. Myndum leiðangursmanna verður m.a. safnað á sameiginlega myndasíðu á samfélagsmiðlum undir samheitinu #lastoftheglaciers eða síðustu jöklarnir. Hópurinn reynir þannig að leggja sín lóð á vogarskálarnar svo að okkar kynslóð verði ekki síðasta kynslóðin sem nýtur þess að ferðast á skíðum um jökla landsins. Skráning Athugið að hvorki er nauðsynlegt að klára áskorunina í ofangreindri röð né á þremur árum. Ef fólk er vant því að ferðast á skíðum þá er hægt að raða jöklaferðunum saman á hvern þann hátt sem hentar og jafnvel byrja á Vatnajökli! Að auki geta þeir sem þegar eru búnir að þvera einhverja jökla auðvitað líka verið með og bætt í safnið. Til að taka þátt þarf aðeins að skrá sig til leiks með því að smella hér. Í kjölfarið verður þér boðið inn í sérstakan FB hóp allra þátttakanda og ævintýrið hefst. Hér að neðan eru linkar inn á viðeigandi jöklaferðir og undirbúningsnámskeið auk ferða sem hægt er að nýta til að æfa skíðatæknina og handtökin. JÖKLAFERÐIR 2025 Eyjafjallajökull. 29. mars Drangajökull. 12.-14. apríl Vatnajökull. 30. apríl - 7. maí Langjökull. 14.-15. júní Mýrdalsjökull. Á dagskrá 2026 Hofsjökull. Á dagskrá 2026 UNDIRBÚNINGSNÁMSKEIÐ 2025 Úti ferðaskíði. Námskeið og æfingahópur. Hefst 8. jan. Vetrarfjallamennska. Grunnnámskeið. 24. feb og 3. mars Ferðast á gönguskíðum. Námskeið og útilega. 13. jan. og 25.-26. jan. ÆFINGAFERÐIR 2025 Norðurljósaganga á ferðaskíðum. Kvöldganga. 18. jan. Þingvellir. Dagsferð. 8. feb. Undir Tröllakirkju. Púlkuferðalag. 15.-16. feb. Yfir Snæfellsnes. Dagsferð. 22. feb. Tvídægra. Skíðað á milli skála. 28. feb-2. mars. Ok. Dagsferð. 15. mars Jötunheimar í Noregi. Skíðað á milli skála. 20.-25. mars
  • Jöklaáskorun Útihreyfingarinnar 29. mars Þetta ævintýri fer ofarlega á montlista alls fjallafólks, enda getum við fullyrt að um er að ræða eina allra fallegustu jökladagleið á Íslandi! Lagt er af stað í rauðabítið úr Reykjavík því þetta er löng dagleið og það þarf að nýta alla þá birtu sem gefst. Bílar eru skildir eftir við Skógafoss og hópnum skutlað með jepparútu að vesturrönd jökulsins, upp af Hamragarðaheiði, þar sem ferðalagið hefst. Gengið er á skíðunum sem leið liggur austur yfir jökulinn, yfir öskjuna og niður á Fimmvörðuháls eins langt og hægt er að skíða, en búast má við að ganga þurfi með skíðin á bakinu síðasta spölinn niður í bíla. Landslagið er gríðarfjölbreytt. Í fyrstu er löng en jöfn hækkun upp á öskjubrún, með hin fallegu Sker á vinstri hönd og óviðjafnanlegt útsýni yfir til Vestmannaeyja. Svo tekur við glíma við hájökulinn þar sem stundum þarf að skipta skíðum út fyrir jöklabrodda. Þegar komið er yfir öskjuna blasir Þórsmörk, Tindfjallajökull og reyndar allt Fjallabakið við skíðafólki ásamt kærkominni langri og mikilli brekku niður í átt að Mýrdalsjökli og svo áfram niður Fimmvörðuhálsinn meðfram gljúfrum og fossum Skógárinnar. Það er alltaf áskorun að fara upp á Eyjafjallajökul og þetta ferðalag er krefjandi, ekki síst vegna þess að um er að ræða 35-40 km langa dagleið. Við bendum fólki á að nota æfingahópinn Úti ferðaskíði og fjölbreyttar ferðaskíðaferðir Úthreyfingarinnar til að æfa sig á skíðunum. Þeir sem ekki eru vanir jöklaferðum þurfa að auki að hafa tekið námskeiðið Vetrarfjallamennska. Athugið að ef veðurspá er óhagstæð fyrir þennan laugardag, er mögulegt að ferðin verði færð yfir á sunnudag. Haldinn er rafrænn undirbúningsfundur í aðdraganda ferðar og skráðir þátttakendur fá ítarlegan upplýsinga- og búnaðarpóst. Nauðsynlegt er að eiga ferðaskíði, stafi með stórri kringlu og skinn undir skíðin, jöklaþrennuna; belti, brodda og ísöxi ásamt góðum bakpoka sem hægt er að hengja skíðin utan á. Ferðin kostar 58.000 kr. og innifalið er skutl með jepparútu á upphafsstað, undirbúningsfundur, leiðsögn og utanumhald. Jöklafarar Þessi ferð telst hluti af verkefninu Jöklafarar sem er jöklaáskorun Útihreyfingarinnar, þar sem gengið er á ferðaskíðum yfir sex stærstu jökla landsins. Sjá nánar hér.
  • Kvöldganga í ljósadýrð 18. janúar Við fögnum myrkrinu og snjónum á köldu janúarkvöldi með því að halda í stjörnu- og norðurljósaskoðun á gönguskíðum. Markmiðið er að njóta kvöldsins, spjalla og fræðast um ljósasýningu himingeimsins, bæði stjörnur og norðurljós. Með því að ganga á skíðum halda allir sér heitum í vetrarnóttinni en við setjum líka upp tjald þar sem hægt er að leita skjóls og kveikjum lítinn varðeld auk þess að ylja okkur saman á heitu súkkulaði undir stjörnubjörtum himninum. Stefnt er að því að ganga í nágrenni höfuðborgarsvæðisins, laugardagskvöldið 18. janúar og að ferðin taki alls 2-3 klst., þannig að þátttakendur verði komnir heim og undir sæng fyrir miðnætti. Athugið að áfangastaðurinn miðar þó alltaf við snjóalög, veður og ekki síst skýjahuluspá en það getur reynst nauðsynlegt að færa ferðina fram eða aftur um eitt eða tvö kvöld, eftir spá. Ferðalagið hentar öllum getustigum og er tilvalið fyrir byrjendur á ferðaskíðum. Þátttakendur fá nánari upplýsingar og búnaðarlista í tölvupósti í aðdraganda ferðar en þurfa að lágmarki að eiga eftirfarandi búnað, fá hann lánaðan eða leigðan: Ferðaskíði, þ.e. utanbrautarskíði með stálköntum, skinn undir skíðin og skíðastafi. Hægt er að leigja skíði á nokkrum stöðum, m.a. hjá skíðaleigu Útilífs. Ferðin kostar 12.900 kr. og innifalið er leiðsögn og utanumhald.
  • Dagsganga í jaðri þjóðgarðsins 8. febrúar Þjóðgarðurinn á Þingvöllum er dásamlegt útivistarsvæði allan ársins hring en vetrarferðir þangað eru í sérstöku uppáhaldi hjá Útihreyfingunni. Þar sem Þingvellir liggja að nokkru ofan í sigdal, þá geta frosthörkur orðið þar miklar og sambland íss og snævar breytt svæðinu í stórkostlegt undraland. Langskemmtilegast, og raunar auðveldast líka, er að njóta þessarar dýrðar á ferðaskíðum. Það þarf þó ætíð að fara mjög varlega þegar ferðast er um Þingvallasvæðið og sérstaklega að vetri til, þar sem alls konar holur, gjótur og gjár geta leynst undir snjónum. Því mælum við alltaf með því að fylgja einhverjum sem þekkir til og veit hvar best er að fara. Í þessari ferð er stefnt að því að ganga um austurhluta þjóðgarðsins, og fara skemmtilega hringleið um Reyðarbarm, Hrútafjöll og Stóra Dímon, alls um 15 km, sem tekur um 5-6 klst. Fyrsta hluti leiðarinnar er gengið nokkuð jafnt og þétt upp í móti en hvergi mjög bratt og um leið og haldið er til baka þá tekur við þægileg lækkun, jafnvel þannig að hægt verður að renna sér frekar áreynslulaust nánast alla leið aftur í bíl! Lagt er af stað kl. 8 á laugardagsmorgni úr Reykjavík og stefnt að því að komið sé til baka til Reykjavíkur ekki seinna en um kl. 16. Athugið að endanleg ferðatilhögun svona skíðaferða þarf alltaf að taka tillit til bæði veðurs og snjóalaga. Þannig gæti þurft að breyta leiðarvali og ef veðurspáin er óhagstæð fyrir laugardaginn, er mögulegt að ferðin verði færð yfir á sunnudag. Þátttakendur fá nánari upplýsingar og búnaðarlista í tölvupósti í aðdraganda ferðar en þurfa að lágmarki að eiga eftirfarandi búnað, fá hann lánaðan eða leigðan: Ferðaskíði, þ.e. utanbrautarskíði með stálköntum, skinn undir skíðin og skíðastafi. Hægt er að leigja skíði á nokkrum stöðum, m.a. hjá skíðaleigu Útilífs. Ferðin kostar 12.900 kr. og innifalið er leiðsögn og utanumhald. Athugið að ferðin er hluti af námskeiðinu Úti ferðaskíði og er ókeypis fyrir þá sem æfa með hópnum.
  • Tveggja daga púlkuleiðangur 15.-16. febrúar Á milli Baulu í Norðurárdal og Tröllakirkju á Holtavörðuheiði leynist stórkostlegt fjallasvæði, sundurskorið af þröngum dölum, giljum og gljúfrum. Fáir fara um þetta svæði, enda að mörgu leyti óárennilegt eins giljótt og það er. Að vetri til fyllast gilin hins vegar af snjó og svæðið opnast fyrir vel skíðandi ferðalanga. Í þessum tveggja daga skíðaleiðangri verður þess freistað að skoða þetta svæði nánar með púlku í eftirdragi og gista eina nótt í tjaldi. Stefnt er að því að ganga á skíðum frá Holtavörðuheiði og vestur í Dali og nokkrar leiðir koma til greina. Ef veður og færi bjóða upp á, verður fyrsta daginn farið upp á sjálfa Tröllakirkjuna sem gnæfir í 1000 metra hæð, áður en tjaldað verður í Snjófjöllum sem liggja vestur undir fjallinu. Seinni daginn munu þátttakendur þræða giljaleiðir niður í Dali og enda í baði í heitri náttúrulaug. Gert er ráð fyrir að ferðin taki fulla tvo daga, þ.e. lagt er af stað frá Reykjavík í rauðabítið á laugardegi og ekki komið til baka fyrr en síðla kvölds á sunnudegi. Hvor dagleið er um 15 km og þar sem ferðast er um hæðótt landslag þá þurfa þátttakendur að hafa gott vald á ferðaskíðum og treysta sér í að skíða með púlkur í eftirdragi bæði upp og niður. Við bendum fólki á æfingahópinn Úti ferðaskíði ásamt námskeiðinu Ferðast á gönguskíðum. Athugið að endanleg ferðatilhögun þarf alltaf að taka tillit til bæði veðurs og snjóalaga. Þannig gæti þurft að breyta leiðarvali vegna snjóleysis og að auki er ekki ráðlegt að toppa Tröllakirkjuna nema í góðu veðri. Haldinn verður rafrænn undirbúningsfundur í aðdraganda ferðar og þátttakendur fá ítarlegan upplýsinga- og búnaðapóst. Ferðin kostar 49.000 kr. og innifalið í verðinu er leiðsögn og utanumhald, auk undirbúningsfundar.
  • Skíðað á milli skála 28. feb.-2. mars Þriggja daga skíðaleiðangur um Tvídægru, hásléttuna sem í grófum dráttum liggur á milli Holtavörðuheiðar og Eiríksjökuls/Húsafells. Þetta er tiltölulega þægilegt ferðalag sem hentar flestum getustigum enda er skíðað um frekar slétt landslag og að auki er farangur trússaður á milli skála. Ferðin hefst á því að bílar eru skildir eftir í uppsveitum Borgarfjarðar og rúta skutlar hópnum og farangri hans upp á háheiði Holtavörðuheiðar þar sem farangrinum er staflað inn í trússbílana áður en stigið er á skíðin. Fyrsta daginn er gengið á skíðunum tæplega 15 km leið í skála en ekki þarf að hafa áhyggjur af þungum byrðum því allur farangur og matur er fluttur á milli og bíður í skálanum við komuna þangað. Dagleiðin í næsta skála er stutt eða aðeins um 10 km. Á síðasta degi er svo gengið meðfram afar fallegu gili sem leið liggur niður í bíla en sú dagleið getur verið frá 12-20 km eftir snjóalögum hverju sinni. Gist er í tveimur gangnamannaskálum á leiðinni þar sem húsakynni eru frekar fábreytileg. Í báðum skálum er þó hiti, ágætis aðstaða til að elda mat, allur borðbúnaður og góð rúmstæði. Bæði morgunmatur og kvöldmatur er sameiginlegur en fólk tekur með sér nesti fyrir dagana þrjá. Þó að ekki sé farið um ýkja erfitt landslag, þá þarf fólk að hafa reynslu af ferðaskíðum og vera í ágætu formi. Við mælum með námskeiðinu Úti ferðaskíði og fjölbreyttum dagsferðum Útihreyfingarinnar á ferðaskíðum til að æfa sig á skíðunum. Haldinn verður rafrænn undirbúningsfundur í aðdraganda ferðar og þátttakendur fá ítarlegan upplýsinga- og búnaðapóst. Að lágmarki þarf að eiga eftirfarandi búnað, fá hann lánaðan eða leigðan: Ferðaskíði, þ.e. utanbrautarskíði með stálköntum, skinn undir skíðin og skíðastafi. Hægt er að leigja skíði á nokkrum stöðum, m.a. hjá skíðaleigu Útilífs. Ferðin kostar 128.000 kr. Innifalið í verðinu er rútuferð á upphafsstað, trúss á farangri á milli skála, skálagisting, tveir morgunverðir og tveir kvöldverðir, leiðsögn og utanumhald, auk undirbúningsfundar.
  • Dagsganga á horfin jökul 15. mars Í þessari dagsferð verður gengið á ferðaskíðum upp á Ok sem gnæfir yfir Húsafelli og býður upp á gríðargott útsýni nær og fjær. Okið missti jökultitil sinn fyrir skemmstu og er nú bara einföld og fábrotin dyngja! Engu að síður er feykigaman að koma þangað upp, skoða toppgíginn og þá stórfenglegu fjallasýn sem við blasir. Enda ætti allt fjallafólk að heimsækja Ok að minnsta kosti einu sinni á ævinni. Þetta er löng dagsganga á skíðum, 25-35 km, allt eftir því hversu langt er hægt að aka upp á Kaldadal frá Húsafelli sökum snjóa. Það er þó sama hversu löng gangan verður, það má alltaf hlakka til þess að á bakaleiðinni hallar allt undan fæti enda er hæðarferill göngunnar er afar einfaldur: Upp. Upp. Upp. Niður. Niður. Niður :) Lagt er af stað úr Reykjavík í rauðabítið á laugardagsmorgni til að nýta daginn sem best og ekki verður komið aftur til Reykjavíkur fyrr en undir kvöld. Þátttakendur þurfa að vera tilbúnir í langan dag á skíðum auk þess að hafa nokkuð gott vald á ferðaskíðum. Við mælum með námskeiðinu Úti ferðaskíði til að koma sér í ferðaform æfa sig á skíðunum. Athugið að endanleg ferðatilhögun þarf alltaf að taka tillit til bæði veðurs og snjóalaga. Þannig gæti þurft að breyta leiðarvali og ef veðurspáin er óhagstæð fyrir laugardaginn, er mögulegt að ferðin verði færð yfir á sunnudag. Þátttakendur fá nánari upplýsingar og búnaðarlista í tölvupósti í aðdraganda ferðar en þurfa að lágmarki að eiga eftirfarandi búnað, fá hann lánaðan eða leigðan: Ferðaskíði, þ.e. utanbrautarskíði með stálköntum, skinn undir skíðin og skíðastafi. Hægt er að leigja skíði á nokkrum stöðum, m.a. hjá skíðaleigu Útilífs. Ferðin kostar 24.900 kr. og innifalið í verðinu er leiðsögn og utanumhald.
  • Tveggja kvölda grunnnámskeið 24. febrúar og 3. mars Á þessu tveggja kvölda námskeiði er fjallað um þrennuna sem alltaf er skyldubúnaður þegar ferðast er um jökla landsins og fjalllendi að vetri til, þ.e. ísbrodda, gönguísaxir og göngubelti. Fyrra kvöldið hittast þátttakendur á stuttum rafrænum fræðslufundi þar sem farið er yfir grunnatriðin sem hafa þarf á tæru. Hver er munurinn á mismunandi tegundum brodda, axa og belta? Hvað þarf að hafa í huga þegar þessir hlutir eru keyptir? Hvernig á að stilla þá og passa að þeir sitji rétt og hvað ber að varast? Seinna kvöldið er svo haldið til fjalla í nágrenni Reykjavíkur á 2-3 klst. verklega æfingu. Áfangastaðurinn fer eftir aðstæðum hverju sinni en á æfingunni er kennt á ísbrodda auk þess sem notkun þeirra og beiting er æfð við mismunandi aðstæður og í mismunandi halla. Þá er farið yfir notkun gönguísaxar í brattlendi og á jöklum og ísaxabremsa æfð við mismunandi aðstæður. Ennfremur er kennt hvaða reglur gilda um notkun línu þegar ferðast er í hópi á jökli og hvað megi teljast til góðrar línuhegðunar. Þátttakendur þurfa að eiga, leigja eða fá lánaða ísbrodda, gönguöxi og belti. Hægt er að leigja þennan búnað á nokkrum stöðum, m.a. hjá Útilíf. Nauðsynlegt er að hafa lokið þessu námskeiði eða sambærilegu til að taka þátt í vetrarfjallgöngum og jöklaferðum með Útihreyfingunni. Námskeiðið kostar 15.900 kr.
  • Úti brautarskíði. Námskeið

    16.000 kr.20.000 kr.
    Stutt upphafsnámskeið á brautarskíðum Hefst 2. janúar með fræðslufundi Allir geta gengið á skíðum og allir ættu að læra þessa frábæru íþrótt sem reynir á allan líkamann og eykur úthald, þol og styrk. Við hjá Útihreyfingunni höldum því fram að hvort sem fólk stefni á frama og verðlaunapalla í skíðagöngukeppnum eða þverun jökla á ferðaskíðum með púlkur í eftirdragi, þá þurfi allir að byrja á því að læra undirstöðutæknina í skíðagöngu í braut. Grunntæknina verður að kenna í spori áður en sá lærdómur er yfirfærður yfir á ferðaskíðin þannig að fólk geti byrjað að láta skíðin vinna fyrir sig og svífi áfram í staðinn fyrir að þramma! Þetta námskeið er því bæði hugsað fyrir byrjendur á brautarskíðum sem og þá sem hafa hingað til aðeins gengið á ferðaskíðum en vilja bæta tæknina. Þetta er líka frábært upphafsnámskeið fyrir skíðavertíðina, þ.e. fyrir þá sem þegar kunna eitthvað á brautarskíðum, en þurfa að rifja upp grunntæknina og taktana! Námskeiðið hefst á rafrænum fræðslufundi þar sem fjallað er um hvað þarf að hafa í huga þegar kemur að búnaði, hver er munurinn á mismunandi skíðategundum, skíðaskóm og stöfum og hvernig á að klæða sig þegar gengið er á skíðum í spori. Á fyrstu æfingunni er svo komið að því að læra á búnaðinn, hvernig á að spenna á sig skíðin, hvernig best er að detta (því allir detta!) og taka fyrstu skíðagöngusveifluna :) Fyrstu þrjár æfingarnar eru skipulagðar dag eftir dag en einmitt með því að láta ekki of langan tíma líða á milli æfinga í upphafi, nær fólk mestum árangri og framförum. Lögð er megináhersla á að allir þátttakendur læri taktinn og nái tökum á vanaganginum, þ.e. klassíska sporinu í skíðagöngunni með alls konar tækniæfingum og leikjum. Að auki fá þátttakendur grunnkennslu í öðrum skíðagöngusporum svo sem ýtingum, ýtingum með frásparki, síldarbeinagangi upp brekkur og æfingu í því að renna niður brekkur. Hver kennslustund tekur um 2 klukkustundir og kennsla fer fram á skíðagöngusvæðinu í Bláfjöllum. Aðgangur að svæðinu er ekki innifalinn í verði. Dagskrá námskeiðsins
    • Fim. 2. jan. Kl. 20. Fræðslufundur
    • Lau. 4. jan. Kl. 10.
    • Sun. 5. jan. Kl. 10
    • Mán. 6. jan. Kl. 18
    • Sun. 12. jan. Kl. 10
    Athugið að veður og snjóalög setja mjög oft strik í reikninginn þegar kemur að lagningu skíðaspora og því gæti þurft að hliðra kennslunni til um einhverja daga. Þátttakendur þurfa að eiga eða leigja brautargönguskíði, gönguskíðaskó og stafi. Hægt er að leigja skíði á nokkrum stöðum, m.a. hjá skíðaleigu Everest. Leiðbeinendur á námskeiðinu eru Brynhildur Ólafsdóttir, Helga María Heiðarsdóttir og Róbert Marshall, þrautreynt skíðagöngufólk með réttindi. Námskeiðið kostar 16 þúsund kr. fyrir þá sem æfa með Útihreyfingunni en 20 þúsund kr. fyrir aðra. Skráðir þátttakendur fá nánari upplýsingar í tölvupósti í aðdraganda námskeiðsins.
  • Löng en heillandi dagsganga 31. maí Fáir tindar á Íslandi bjóða uppá jafn heillandi háfjallaumhverfi og Hrútfellstindar í Öræfasveit. Þetta er ganga sem að erfiðleikastigi er á pari við Hvannadalshnjúk en er fjölbreyttari og að margra mati mun skemmtilegri leið en á hæsta tind Íslands. Þessi fjallaleiðangur lifir lengi í minningunni enda útheimtir hann góðan undirbúning og góðar veðuraðstæður. Gangan krefst jöklabrodda, beltis og ísaxar og í næringu þarf að gera ráð fyrir að vera á fjalli í 10 til 15 tíma. Gengið verður í línu síðustu kílómetrana en efsti hluti leiðarinnar er á jökli. Gengið verður á hæsta tind Hrútfjallstinda, Norðurtindinn, sem er 1852 metra hár. Þetta er erfið leið og ætti enginn að leggja í þessa fjallgöngu án þess að hafa þjálfað vel í aðdragandanum og geta að minnsta kosti gengið upp að steini í Esjunni á undir klukkutíma. Þeir sem ekki eru vanir jöklaferðum, þurfa að auki að hafa tekið námskeiðið Vetrarfjallamennska. Athugið að ef veðurspá er óhagstæð fyrir þennan laugardag, er mögulegt að ferðin verði færð yfir á sunnudag. Gert er ráð fyrir að þátttakendur komi og gisti á eigin vegum í Öræfunum og við mælum sterklega með að fólk geri ráð fyrir gistingu bæði fyrir og eftir ferð. Tjaldstæðið í Svínafelli er t.d. í miklu uppáhaldi hjá okkur í Útihreyfingunni. Skráðir þátttakendur verða boðaðir á rafrænan upplýsingafund og fá ítarlegan upplýsinga- og búnaðarpóst í aðdraganda ferðar. Að lágmarki er nauðsynlegt að eiga góða gönguskó, dagpoka og jöklaþrennuna; belti, brodda og ísöxi. Hægt er að leigja jöklaþrennuna, m.a. hjá Útilífi. Ferðin kostar 45.000 kr. Innifalið í verði er leiðsögn, utanumhald og rafrænn upplýsingafundur í aðdraganda ferðar, auk þess sem hópurinn mun hittast kvöldið fyrir gönguna í undirbúningsspjall og búnaðarskoðun. Lágmarksþátttaka miðar við fjóra.
  • Úti fjallahjól. Námskeið

    20.000 kr.24.000 kr.
    Vikulegar fjallahjólaæfingar Hefst 23. apríl Staðreynd: Besta leiðin til að verða góð á fjallahjóli er að hjóla á fjallahjóli. Mikið og oft. Þetta vita allir. En hvað og hvernig á að æfa til að verða enn betri? Þetta getuskipta námskeið er skipulagt til að gera þig að betri hjólara og leggja góðan grunn að æfingum í fjallahjólreiðum. Bættu tæknina, fáðu meira út úr hverjum pedalahring og hjólaðu hraðar og lengra með þjálfurum Útihreyfingarinnar sem hafa í áraraðir miðlað af reynslu sinni og þekkingu í hjólafræðunum. Hver er besta leiðin til að klífa langar brekkur, hvernig á að tækla bratta niður í móti, yfirstíga hindranir, bæta jafnvægið og almennt bara vera á hjólinu? Þetta og margt fleira á þessu 6 vikna námskeiði sem hentar bæði fyrir þau sem eru að taka sína fyrstu hjólahringi sem og hina sem vilja bæta tæknina og koma sér í gírinn fyrir komandi hjólasumar. Hópurinn hittist alls sex sinnum, fimm sinnum seinnipartinn á miðvikudögum á æfingu sem tekur 1.5-2 klst. og einu sinni í lengri fjallahjólaferð á sunnudegi. Dagskrá námskeiðsins
    • Mið. 23. apríl. Kl. 18
    • Mið. 30. apríl. Kl. 18
    • Mið. 7. maí. Kl. 18
    • Mið. 14. maí. Kl. 18
    • Mið. 21. maí. Kl. 18
    • Sun. 25. maí. Kl. 10
    Til að taka þátt í námskeiðinu þurfa þátttakendur að eiga eða leigja eftirfarandi hjólatýpu: Fulldempað fjallahjól eða fulldempað rafmagnsfjallahjól. Fjallahjól sem eru einungis með framdempara (svokallað hardtail) ganga líka en þá er gott að hafa möguleikann á því að geta lækkað sætið á hjólinu. Miðvikudagana 14. og 21. maí verður hópnum skipt upp og þeir sem það vilja geta þá farið dýpra í tæknina, þ.e. læra grunntækni í tæknilegri leiðum / downhill. Athugið þá þarf að auki að eiga extra fjallahjólaöryggisbúnað, að lágmarki hnéhlífar, bakbrynju og hjálm með kjálka. Helga María Heiðarsdóttir leiðir námskeiðið en henni til halds og trausts eru Kjartan Salómonsson og Róbert Marshall. Námskeiðið kostar 24 þúsund kr. fyrir þau sem æfa með Útihreyfingunni en 28 þúsund kr. fyrir aðra. Skráðir þátttakendur fá nánari upplýsingar í tölvupósti í aðdraganda námskeiðsins.
  • Úti langhlaup

    24.000 kr.
    Fjögurra mánaða æfingahópur Hefst 1. apríl með fræðslufundi Fjögurra mánaða æfinga- og undirbúningshópur sem er sérstaklega hugsaður fyrir þau sem stefna að því að taka þátt í Kerlingarfjöll Ultra hlaupinu sem verður haldið laugardaginn 26. júlí, 2025. Æfingaáætlunin hentar bæði fyrir 22 og 60 km vegalengdina í Kerlingarfjallahlaupinu. Útihreyfingin á frátekin pláss í báðar þessar vegalengdir fyrir þátttakendur á námskeiðinu. Um takmarkaðan fjölda plássa er að ræða, svo að fyrstir koma, fyrstir fá! Þjálfarar munu líka aðlaga æfingaplanið fyrir þau sem eru að huga að öðrum langhlaupamarkmiðum næsta sumar svo sem Hengil Ultra, Laugavegshlaupið, Dyrfjallahlaupið og Súlur Vertical. Á svona markmiðstengdu ferðalagi skiptir höfuðmáli að æfingaferlið sé skemmtilegt og félagsskapurinn góður. Í þessum hópi finnur þú æfingafélagana sem halda þér við efnið, þjást með þér í gegnum súrt og sætt og deila með þér nördalegum áhuga á langhlaupum. Æskilegt er að þeir sem ætla að hlaupa 60 km í Kerlingarfjallahlaupinu, hafi hlaupið reglulega í þó nokkurn tíma fram að upphafi námskeiðs og geti a.m.k. hlaupið 15 km án vandræða. Þeir sem stefna á 22 km í Kerlingarfjallahlaupinu, þurfa að treysta sér í að hlaupa 5 km í upphafi námskeiðsins. Sameiginlegar æfingar hefjast 6. apríl, 2025 og standa til mánaðarmóta júlí/ágúst en gert er ráð fyrir að hópurinn hittist fyrst á rafrænum undirbúningsfundi kl. 20, þann 1. apríl (þetta er ekki gabb!). Hópurinn byggir ofan á grunnæfingaplan Útihreyfingarinnar sem samanstendur af 4-5 krossþjálfunaræfingum á viku, auk lengri hlaupaæfinga á sunnudögum, ýmist sameiginlegum eða á eigin vegum. Að auki er innifalið í þátttökugjaldinu sameiginleg æfingaferð í Kerlingarfjöll, sunnudaginn 22. júní. Auðvelt er að breyta æfingaferðinni í helgarferð, því þeim sem það kjósa, bjóðast góð kjör á gistingu á hótelinu í Kerlingarfjöllum aðfararnótt sunnudagsins. Þjálfarar hópsins eru Róbert Marshall, Kjartan Salómonsson og Helga María Heiðarsdóttir, allt þrautreyndir langhlauparar og útivistarfólk. Útihreyfingin er framkvæmdaraðili Kerlingarfjallahlaupsins og þjálfararnir þekkja því leiðina, landslag og aðstæður afar vel. Námskeiðið kostar 24.000 kr. en að auki er gert ráð fyrir því að þátttakendur séu meðlimir í Útihreyfingunni í þá fjóra mánuði sem námskeiðið stendur. Athugið að þátttökugjald í Kerlingarfjöll Ultra eða öðrum hlaupum er ekki innifalið í verðinu. Skráðir þátttakendur fá ítarlegan upplýsingapóst og boð á undirbúningsfundinn í aðdraganda námskeiðsins.  
  • Everest Base Camp. Gönguferð

    80.000 kr.565.000 kr.
    Ævintýri lífsins! 5.-17. nóvember 2025 Komdu með okkur í hið fullkomna Himalaya ævintýri upp í hinar goðsagnakenndu grunnbúðir Everest! Að komast upp í Everest Base Camp er alltaf mikið afrek og í raun lífsbreytandi ferðalag. Þessi ferð bíður upp á að haka þetta ævintýri út af draumaferðalistanum - undir faglegri og öruggri fararstjórn. Á níu dögum göngum við í gegnum fögur Sherpa þorp, forn klaustur og mismunandi gróðurlendi í stórkostlegum fjallasölum Himalaya. Við göngum í skugga hæstu fjalla jarðar, yfir hengibrýr sem hanga yfir beljandi jökulfljótum og njótum útsýnisins á Everestfjall og nágranna þess, útsýni sem mun gera þig orðlausa. Hópurinn gistir á krúttlegum tehúsum á leiðinni og kynnist hinni dásamlegu nepölsku menningu og upplifir nepalska matargerð. Á boðstólum er líka nóg af afslöppun og gæðatíma. Á leiðinni til baka gefst svo einstakt tækifæri til að skoða gönguleiðina og hæstu tinda veraldar úr lofti. Því af hverju að ganga sömu leið til baka þegar þú getur svifið yfir hið stórkostlega landslag Himalaya og skoðað útsýnið í einkaþyrlu? Ferðin byrjar og endar í höfuðborg Nepal, Katmandu þar sem gist verður á fimm stjörnu hóteli. Í lok ferðar verða litríkar og fjölskrúðugar götur Kathmandu skoðaðar, ásamt fornum musterum, og stöðum sem eru á heimsminjaskrá UNESCO. Þessi ferð er svo miklu meira en bara gönguferð. Þetta er ævintýraferð sem skilur eftir sig fullan poka af ógleymanlegum minningum. Helga María, leiðsögukona Útihreyfingarinnar í þessari ferð, hefur ferðast og gengið víða í Nepal og meðal annars mikið á þessu svæði og er að auki með mikla reynslu af ferðalögum í hæð. Helga María er með réttindi frá Félagi íslenskra fjallaleiðsögumanna og gilt Wilderness First Responder skírteini, áratuga reynslu af leiðsögn og hefur leiðsagt óteljandi ferðir bæði hérlendis sem erlendis. Hún er einnig land- og jöklafræðingur, þekkir jarðfræði og sögu Himalaya vel og hefur einstaklega gaman að því að deila þeim fróðleik með þeim sem ferðast með henni. Innifalið í ferðinni sem kostar 565 þúsund er íslensk fararstjórn, undirbúningsfundir og aðstoð við undirbúning, nepalskur leiðsögumaður og burðarmenn, öll ferðalög innanlands í Nepal (rútur, flug, þyrluferð), matur á meðan göngu stendur, gisting í tehúsum í göngunni, gisting á 5 stjörnu hótelum í Kathmandu, þjóðgarðsgjöld, skoðunarferð um sögufræga staði í Kathmandu og sameiginlegur kveðju kvöldverður. Athugið að flug til að frá Nepal er ekki innifalið. Heldur ekki vegabréfsáritun, ferðatryggingar, þjórfé fyrir nepalskt starfsfólk, matur í Kathmandu (fyrir utan loka kvöldverð), öll persónuleg útgjöld og annað sem ekki er tekið fram að sé innifalið. Ferðin er unnin í samstarfi við vini okkar hjá Himalayan Outdoor Project. Lágmarksþátttaka miðar við 8 manns en hópurinn getur að hámarki talið 12 manns. Staðfestingargjald skal greiða í síðasta lagi fyrir 1. maí en eftirstöðvar ferðarinnar eru greiddar í síðasta lagi sex vikum fyrir ferð. Einfalt er að dreifa greiðslum með því að senda póst á Útihreyfinguna.
  • Geirmundartindur í Akrafjalli 9. mars Ganga á Akrafjall er alltaf skemmtileg. Ekki síst því Akrafjallið kemur öllum á óvart með fjölbreytileika, útsýni og krefjandi tindum. Geirmundartindur er annar tveggja hápunkta fjallsins en jafnframt sá sem er sjaldfarnari. Fyrir þá sem hafa bara farið á Háahnjúk, að sunnanverðu, er þetta eiginlega skylduganga því hér gefst frábært færi á að virða fyrir sér Leirársveitina og Skarðsheiðina, já og allt Vesturland í einni hendingu af stórglæsilegum fjallstoppi. Þetta er jafnframt tilvalin fjallganga fyrir þau sem þjást af örlítilli lofthræðslu því ekkert er betra til að læknast af slíkum óþarfa en að æfa sig í því að ganga á öruggum fjallaslóðum sem jafnframt eru í nokkurri hæð. Gangan hefst kl. 9 frá bílastæðinu undir Akrafjalli og fyrst um sinn er gengið á fjölförnum slóða upp í mynni Berjadals sem klýfur fjallið nánast í sundur. Þetta er leiksvæði Skagamanna sem nota Akrafjall sem nokkurs konar líkamsræktarstöð og margir ganga hér um að minnsta kosti einu sinni í viku! Það er brattgengt upp úr Berjadalnum, norður eftir eggjum fjallsins og upp á Geirmundartind. Slóðin er að auki grýtt yfirferðar á köflum og því seinfarin en verðlaunin eru því meiri og betri þegar upp er komið. Leiðin fram og til baka er um 7 km með um 600 m hækkun og gera má ráð fyrir að gangan fram og til baka taki um 4 klst. Skráðir þátttakendur fá ítarlegan tölvupóst með ferðalýsingu og búnaðarlista í aðdraganda ferðar. Í þessari fjallgöngu er gengið með Útigenginu, fjallgönguhópi Útihreyfingarinnar. Í Útigenginu er gleðin í fyrirrúmi og dagskráin hentar fyrir þau sem langar að kynnast fjöllum og stöðum í nágrenni Reykjavíkur. Tilvalinn hópur fyrir fólk sem er að taka sín fyrstu skref í fjallgöngum eða þau sem langar að dusta rykið af göngubúnaðinum og vilja kynnast öðru útivistarfólki, nýjum stöðum og bæta við færni sína á fjöllum.

Title

Go to Top