• Fjallganga 29. september Fáir fjallstoppar bjóða uppá jafn glæsilegt útsýni og Botnsúlur sem standa fyrir botni Hvalfjarðar og eru á sama tíma krúnudjásnið í fjallasýn Þingvalla. Þessi þúsund metra hái fjallabálkur er skyldufag í íslenzkum fjallafræðum. Þarna þurfa allir að ganga upp og kynnast þessu risastóra útivistarsvæði í nágrenni höfuðborgarinnar. Þetta er umtalsverð fjallganga um gróið land og skriður í töluverðum bratta en efst er greiður og breiður hryggur. Búast má við 4-5 tíma göngu yfir um það bil 6 til 7 km, með hækkun uppá 970 metra. Útigengið er fjallgönguhópur þar sem gleðin er í fyrirrúmi. Dagskráin er fyrir öll sem langar að kynnast fjöllum og stöðum í nágrenni Reykjavíkur. Tilvalinn hópur fyrir fólk sem er að taka sín fyrstu skref í fjallgöngum eða þau sem langar að dusta rykið af göngubúnaðinum og vilja kynnast útivistarfólki, nýjum stöðum og bæta við færni sína á fjöllum.
  • Hvítárvatn. Kajak og fjallganga

    66.000 kr.83.000 kr.
    Tjaldnótt í krúnudjásni Hvítárvatns, Karlsdrætti 19.-20. júlí Sólkatla, Baldheiði og Hrefnubúðir. Örnefnin í kringum Karlsdrátt í Hvítárvatni eru nánast óþekkt og það er ótrúlegt til þess að hugsa að við séum rétt hjá Kili, Hvítárnesi og Bláfellshálsi en samt á svo framandi slóðum. Karlsdráttur er lítill og aflokaður, gróðursæll vogur í norðurenda Hvítárvatns þar sem fjölbreytt plöntulíf birtist óvænt milli jökulvatns og eyðisanda. Hér vex birki upp í miðjar hlíðar og einkennisblóm staðarins, eyrarrósin er alltumlykjandi. Alls vaxa hér 82 aðrar plöntutegundir í rúmlega 400 metra hæð yfir sjávarmáli sem þykir einstakt á Íslandi. Gegnt voginum skríður Norðurjökull út úr Langjökli við hlið Skriðufells og kelfir næstum því ofan í fölgrænt jökulvatnið. Neðar fellur sama jökulvatn í foss allra íslenskra fossa, Gullfoss í gljúfri Hvítár, sem Hvítárvatnið dregur nafn sitt af. Við leggjum í hann með vistir og viðlegubúnað til tveggja daga frá bökkum Hvítárvatns og róum 8-10 kílómetra leið að höfðanum sem lokar af voginum. Þarna sláum við upp tjöldum og gistum eina töfranótt í þessari vin á hálendinu. Þau allra hörðustu baða sig að sjálfsögðu í Hvítárvatni eða velta sér í það minnsta upp úr dögginni á þessum kyngimagnaða stað! Í morgunsárið daginn eftir, fyllum við á brúsa með tæru lindarvatni og göngum á Sólkötlu sem rís í ríflega 1000 metra hæð yfir sjávarmáli. Þaðan er stórkostlegt útsýni yfir Langjökul og jökulskerin Þursaborg og Fjallkirkju auk þess sem Hrútfellið, Hvítárvatnið sjálft og sögufrægt umhverfi Kjalvegar blasir við frá afar sjaldséðu sjónarhorni. Gangan er um 10 km fram og til baka. Að göngu lokinni, seinnipart sunnudags tökum við saman tjaldbúðir og róum til baka sömu leið og við komum. Athugið að kajaknámskeið og/eða kajakreynsla er forkrafa inn í ferðina. Við bendum á undirbúningsnámskeið Útihreyfingarinnar. Skráðir þátttakendur fá ítarlegan upplýsinga- og pökkunarpóst í aðdraganda ferðarinnar. Ferðin kostar 66 þúsund fyrir meðlimi Útihreyfingarinnar en 83 þúsund fyrir aðra. Athugið að hægt er að greiða ferðina í einu lagi eða skipta greiðslum eins og hver og einn kýs inni í greiðsluferlinu sjálfu. Innifalið í verðinu er leiðsögn og utanumhald, leiga og flutningur á kajak, ár, toppi, svuntu og björgunarvesti. Sérhæfðir kajakleiðsögumenn fylgja hópnum alla leið.
  • Aftur út

    4.900 kr.
    NÆSTA NÁMSKEIÐ HEFST 3. OKT
    Námskeið þar sem útivist er notuð til endurhæfingar ásamt samveru og jafningjaspjalli
    Ætlað öllum sem eru að koma sér aftur af stað eftir erfið veikindi svo sem krabbameinsmeðferð. Leiðarljós námskeiðsins er fólk finni sinn eigin kraft og frið í náttúrunni og öðlist styrk í gegnum samveru með öðrum sem eru á sama stað.  Frábært fyrsta skrefið fyrir meistara sem vilja koma sér í gott útivistarform, sigra fjöll og firnindi og sig sjálf í leiðinni. Léttar göngur, kaffispjall og raunhæf markmið, eitt skref í einu! Hópurinn hittist alls fimm sinnum og lokatakmarkið er hæg ganga upp á Úlfarsfell sem rís tæplega 300 metra yfir sjávarmál.  Dagskrá námskeiðsins
    • 3. okt, kl. 14. Laugardalur. Ganga og léttar æfingar. Kaffispjall í Kaffi Flóru.
    • 10. okt, kl. 14. Öskjuhlíð. Ganga og léttar æfingar. Kaffispjall á Bragganum.
    • 17. okt, kl. 14. Elliðaárdalur. Ganga og léttar æfingar. Kaffispjall á Bístró. 
    • 24. okt, kl. 14. Úlfarsfell. Sigurgangan :)
    • Í lok námskeiðs verður bónusferð í sjósund í Nauthólsvík.
    Guðrún Sigríður Ágústsdóttir, betur þekkt sem Sirrý, leiðir námskeiðið. Hún hefur tvisvar greinst með krabbamein og hefur reynt á eigin skinni hversu mikilvæg útivist er í endurhæfingu og bataferli. Tíu árum eftir að hún greindist fyrst, gekk hún á gönguskíðum eftir endilöngum Vatnajökli og ári síðar á Hvannadalshnúk. Hér fyrir neðan eru tvö viðtöl þar sem Sirrý segir sína sögu.  Viðtal í Vísi Viðtal á mbl.is Skráðir þátttakendur fá upplýsingapóst og boð á undirbúningsfund í aðdraganda námskeiðsins.

  • Tindfjöll. Giljaganga

    36.000 kr.49.000 kr.
    Stórbrotin gil undir Tindfjöllum 12.-13. október Okkur finnst fátt skemmtilegra en að skoða fáfarin svæði og nýjar slóðir og þessa hausthelgi er ferðinni heitið á svæðið í og undir Tindfjöllum. Þar leynast ótal náttúruperlur, gil og gljúfur sem ferðalöngum yfirsést oft þegar stefnt er á hærri og þekktari tinda fjallanna, svo sem Ými og Ýmu. Gengið er með vistir og svefnpoka á bakinu báða dagana, en gist er í nýuppgerðum skála Útivistar í Tindfjöllum, Tindfjallaseli, sem liggur í 700 metra hæð. Ferðin hefst snemma á laugardagsmorgni þegar ekið er í samfloti úr Reykjavík. Við notum þennan fyrri dag til að ganga gamla bakdyraleið upp í Tindfjallasel, meðfram gljúfrum sem liggja að baki Þórólfsfelli, um 12 km leið. Daginn eftir, á sunnudegi, eru byrðar axlaðar og haldið norðvestur yfir fjöllin í Austurdal, sannkallaðan leynidal sem kúrir undir Tindfjallajöklinum. Þegar búið er að skoða þennan grösuga dal og leyndardóma hans verður haldið niður með stórbrotnu gljúfri Valárinnar, Stóra-Valagili. Ferð líkur með því að gengið er yfir Eystri-Rangá á traustu vaði. Ferðin kostar 35 þúsund fyrir meðlimi Útihreyfingarinnar en annars 49 þúsund. Innifalið er gisting, leiðsögn og utanumhald. Gert er ráð fyrir að þátttakendur sameinist í bíla og hjálpist að við alls konar bílatilfæringar :) Skráðir þátttakendur fá nánari upplýsingapóst þegar nær dregur ferð.
  • Fjallastígar Mallorca. Gönguferð

    80.000 kr.305.000 kr.
    Upplifunarveisla fyrir sál og líkama 21.-28. apríl Í þessari ferð þarf oft að stoppa. Anda inn. Anda út. Og andvarpa svo af ánægju yfir lífsins lystisemdum. Gengið er á aldagömlum steinlögðum stígum um Tramuntana fjöllin á spænsku eyjunni Mallorca. Á milli friðsælla strand- og fjallaþorpa, um ilmandi appelsínu- og sítrónulundi, gil og klettaborgir, blágræn fjallavötn og litlar víkur. Fjölbreytt dýralíf, marglitt blómskrúð og ævaforn, kræklótt ólífutré gleðja augað við hvert fótmál. Svo ekki sé talað um matinn! Ferskur fiskur, ferskur appelsínusafi, sælkeratómatar, ólífur fyrir alla bragðlauka, brakandi súrdeigsbrauð, bragðsterkar harðpulsur og ótrúlegir eftirréttir úr möndlum og hunangi sem hvoru tveggja eru þekktar landbúnaðarafurðir frá eyjunni. Þetta er hlið á Mallorca sem fæstir kynnast og er í órafjarlægð og hrópandi andstöðu við háværa strandbari og yfirfullar sólarstrendur sem er ímynd flestra af þessari fallegu Miðjarðarhafseyju. Ferðin tekur alls átta daga en fyrsti og síðasti dagurinn eru ferðadagar. Gengið er í fimm daga og dagleiðirnar eru frekar þægilegar og engin lengri en 15 km. Einn hvíldardagur er inni í miðri ferð ásamt því að næstsíðasta daginn er aðeins gengið í tæpar 2 klst að morgni áður en við tekur afslöppun og dekur. Gist er í fjórar nætur á gistiheimilum, tvær nætur í fjallaskálum og eina nótt á lúxushóteli. Athugið að þar sem ekki er hægt að trússa farangur í fjallaskálana þá þurfa þátttakendur að ganga með bakpoka með fötum til skiptanna. Annar farangur verður fluttur á lokahótelið og bíður þar. Ferðin hefst í Barcelona um seinnpart mánudaginn, 21. apríl, þaðan sem hópurinn flýgur saman til Mallorca. Frá flugvellinum er ferðast í smárútu upp í Tramuntana fjöllin og fyrstu nóttina er gist í sögufrægu og afar fallegu fjallaþorpi, þar sem tími gefst til að skoða sig um og snæða góðan kvöldverð. Daginn eftir er gengið yfir Tramuntana fjallgarðinn og byrjað á því að ganga upp á ríflega 900 metra hátt fjall þar sem stórkostlegt útsýni opnast yfir stóran hluta Mallorca. Svo er fetað hægt og rólega niður bratt gil og niður í annað ekki síður fallegt fjallaþorp þar sem gist er um nóttina. 14 km. 500 m hækkun. Á þriðja degi er þræddur stígur sem liggur um friðsæla aldinlundi meðfram norðurströnd eyjunnar með útsýni yfir blágrænt hafið. Þennan dag er gist í litlum strandbæ þar sem hægt er að busla í sjónum og gæða sér á nýveiddu fiskmeti. 14 km. 250 m hækkun. Fjórði dagur ferðarinnar er menningarlegur afslöppunardagur. Morguninn er letilegur og kannski verður farið í sjóinn áður en ferðast er með opnum sporvagni inn í næsta þorp. Þar er hægt að skoða lítil söfn með verkum Picasso og Miró, rölta á milli búða og bragða á dæmigerðum réttum eyjunnar. Fimmti dagurinn er lengsti og erfiðasti göngudagurinn og því er gott að hafa safnað kröftum daginn áður. Gengið er á góðum stíg upp þverbratt en geysifagurt gil, framhjá uppistöðulónum, gegnum lítil jarðgöng og í huggulegan fjallaskála þar sem gist er um nóttina. 15 km. 1200 m hækkun. Á sjötta degi er byrjað á því að lækka sig niður úr fjöllunum áður en gengið er aftur upp og nú upp á snarbratta en hreint ótrúlega klettaborg sem hýsir gamla kapellu og kastala sem búið er að breyta í fjallaskála. Útsýnið er óviðjafnanlegt og næturstaðurinn svo einstakur að honum verður vart lýst með orðum. Þetta er einfaldlega eitthvað sem fólk verður að upplifa á eigin skinni! 15 km. 600 m hækkun. Að morgni næsta dags er gengið niður af klettaborginni og í næsta þorp þar sem smárúta bíður til að flytja hópinn á lúxushótel við draumfagra strönd. Þar er hægt að láta gönguþreytuna líða úr sér í algjöru dekri, marflöt undir sólhlíf, synda í tærum sjó og snæða saman síðustu kvöldmáltíðina. 7 km. Snemma síðasta daginn ferðast hópurinn með rútu á flugvöllinn í Mallorca og flýgur til Barcelona þar sem ferð lýkur í tæka tíð til að hægt sé að ná flugi seinnipart dags heim til Íslands eða hvert á land sem er. Leiðsögumenn ferðarinnar eru Brynhildur Ólafsdóttir og Róbert Marshall. Innifalið í ferðinni, sem kostar 305 þúsund er flug frá Barcelona til Mallorca og til baka, gisting í sjö nætur, allur morgunmatur og tvær kvöldmáltíðir, allar ferðir og flutningur á farangri innan Mallorca, undirbúningsfundur, leiðsögn og utanumhald. Athugið að flug til og frá Barcelona er ekki innifalið en ferðin er skipulögð þannig að þátttakendur geta flogið frá Íslandi til Barcelona, á upphafsdegi ferðarinnar, þ.e. snemma sunnudaginn 20. apríl og heim frá Barcelona, sama dag og ferð líkur, þ.e. mánudaginn 28. apríl. Lágmarksþátttaka miðar við 10 manns en sökum þess að staðfesta þarf gistingu í fjallaskálunum að lágmarki 4 mánuði fyrir ferð, þá er nauðsynlegt að greiða staðfestingargjald ferðarinnar FYRIR 15. DESEMBER. Eftirstöðvar ferðarinnar eru síðan greiddar í síðasta lagi sex vikum fyrir ferð.
  • Himneskir Jötunheimar. Ferðaskíði

    70.000 kr.272.000 kr.
    Skíðað á milli skála í Noregi 20.-25. mars Það má líkja Jötunheimum í Noregi við Fjallabak okkar Íslendinga. Þetta stórkostlega fjallahérað er eitt vinsælasta útivistarsvæði Norðmanna, umkringt jöklum og hæstu fjöllum landsins. Á milli fjallanna liggja stór og mikil vötn sem á veturnar bjóða upp á sannkallaðar himnabrautir fyrir skíðafólk á gönguskíðum. Á veturnar er líka aðeins hægt að ferðast um Jötunheima fótgangandi eða á skíðum og það gerum við í þessari ferð því gengið er á ferðaskíðum (utanbrautarskíðum með stálköntum) í alls  fjóra daga og gist í huggulegum, hlýjum og fullþjónustuðum fjallaskálum. Fyrsti og síðasti dagurinn eru ferðadagar. Leiðangurinn hefst á lestarferðalagi frá Gardemoen flugvelli í Osló. Haldið er norður í Guðbrandsdal en þaðan er svo ekið með smárútu á fyrsta næturstaðinn, rómantískt sveitasetur með mikla sögu. Þar bíður góður kvöldmatur eldaður úr hráefni frá héraði og að auki sána og heitur pottur þar sem hægt er að láta ferðaþreytuna líða úr sér og undirbúa sig fyrir átök næstu daga. Eftir staðgóðan morgunmat næsta dag hefst skíðaferðalagið sjálft á því að gengið er inn í Jötunheimana. Þennan dag er gengið á skíðum um 24 km leið, allt á skíðabrautum í góðum skíðasporum. Þessa aðra nótt er svo gist í einum stærsta og þekktasta fjallaskála Norðmanna sem hefur verið starfræktur í tæplega 150 ár! Næstu þrjá daga er gengið á skíðunum á milli stórra og vel útbúinna skála þar sem boðið er upp á allan mat og þjónustu, hægt að kaupa drykki og ýmsan smávarning og komast í sturtu. Dagleiðirnar þessa þrjá daga eru um 20 km og tvær þeirra liggja að mestu eftir frosnum, rennisléttum fjallavötnum sem gerir færið jafnt og slétt og býður upp á magnað útsýni á fjöllin sem umlykja okkur á alla vegu. Síðasta daginn er skíðað til byggða, niður í lítið fjallaþorp þar sem gist er á góðu hóteli með heilsulind. Þar gerir hópurinn vel við sig í mat og drykk en næsta dag er ekið með rútu beint á Gardemoen flugvöll í Osló, þar sem flogið er heim til Íslands, nú eða hvert á land sem er! Þátttakendur þurfa að hafa einhverja reynslu á gönguskíðum og gott er að undirbúa sig í aðdraganda ferðar með því að taka námskeið eða fara í æfingaferðir. Haldinn er rafrænn undirbúningsfundur fyrir ferð þar sem m.a. verður farið ítarlega yfir búnað og annað skipulag. Fararstjórar eru Brynhildur Ólafsdóttir og Róbert Marshall. Innifalið í ferðinni sem kostar 272 þúsund er öll gisting, þ.e. þrjár nætur í fjallaskálum, ein á gistiheimili og ein á hóteli. Allur matur utan dagsnesti ferðadagana tvo, þ.e. fyrsta og síðasta daginn. Lestar- og rútufargjöld innan Noregs. Undirbúningsfundur, leiðsögn og utanumhald. Flug til og frá Noregs er ekki innifalið, en ferðin er skipulögð þannig að þátttakendur geta flogið út að morgni 20. mars, sama dag og leiðangurinn hefst og heim daginn sem honum lýkur, þ.e. 25. mars. Hægt er að greiða ferð að fullu eða greiða staðfestingargjald 70.000 kr og eftirstöðvar í síðasta lagi sex vikum fyrir ferð. Lágmarksþátttaka miðar við 10 manns.
  • Úti 102

    22.900 kr.

    NÁMSKEIÐ HEFST 29. október Fjögurra vikna framhaldsnámskeið fyrir fólk sem hefur farið á Úti 101 námskeið Útihreyfingarinnar eða er með einhvern grunn í útivist og langar til að bæta við sig; hlaupa lengra, fara hærra á fjöllum, og vera aðeins lengur ofan í sjónum. Æft er tvisvar til þrisvar í viku og mikið er um göngur, létt hlaup og þrekæfingar.

    Dagskrá námskeiðsins
    • Alla þriðjudaga kl. 17:30 Styrktar- og þrekæfingar með Útihreyfingunni. Æfingarnar fara fram á grænum svæðum í Reykjavík og nágrenni.
    • Alla fimmtudaga kl. 17:30 Tækni- og gæðaæfingar með Úti 102 þjálfara. Æfingarnar fara fram á grænum svæðum í Reykjavík og nágrenni.
    • Laugardagar / sunnudagar kl. 9:30 Tvær lengri helgaræfingar, laugardaginn 2. nóvember og sunnudaginn 24. nóvember.
    Á Úti 102 er sérstök áhersla lögð á persónulegt utanumhald sem hefst með upphafsviðtali um markmið og væntingar. Námskeiðið er tilvalið fyrir þau sem vilja halda áfram að hreyfa sig, koma sér aftur af stað í útihreyfingu og einnig tilvalið fyrir þau sem hafa áhuga á að taka síðan þátt í Hálfvættanámskeiði Útihreyfingarinnar sem hefst í lok nóvember.
    Hægt er að greiða fyrir námskeiðið í einu lagi eða skipta greiðslum eins og hver og einn kýs inni í greiðsluferlinu sjálfu. Á meðan á námskeiðinu stendur njóta þátttakendur sérstakra afsláttarkjara Útihreyfingarinnar. Umsjón með námskeiðinu hefur Kristín Ýr Lyngdal.

Title

Go to Top