• Fjallastígar Mallorca. Gönguferð

    80.000 kr.305.000 kr.
    Upplifunarveisla fyrir sál og líkama 21.-28. apríl Í þessari ferð þarf oft að stoppa. Anda inn. Anda út. Og andvarpa svo af ánægju yfir lífsins lystisemdum. Gengið er á aldagömlum steinlögðum stígum um Tramuntana fjöllin á spænsku eyjunni Mallorca. Á milli friðsælla strand- og fjallaþorpa, um ilmandi appelsínu- og sítrónulundi, gil og klettaborgir, blágræn fjallavötn og litlar víkur. Fjölbreytt dýralíf, marglitt blómskrúð og ævaforn, kræklótt ólífutré gleðja augað við hvert fótmál. Svo ekki sé talað um matinn! Ferskur fiskur, ferskur appelsínusafi, sælkeratómatar, ólífur fyrir alla bragðlauka, brakandi súrdeigsbrauð, bragðsterkar harðpulsur og ótrúlegir eftirréttir úr möndlum og hunangi sem hvoru tveggja eru þekktar landbúnaðarafurðir frá eyjunni. Þetta er hlið á Mallorca sem fæstir kynnast og er í órafjarlægð og hrópandi andstöðu við háværa strandbari og yfirfullar sólarstrendur sem er ímynd flestra af þessari fallegu Miðjarðarhafseyju. Ferðin tekur alls átta daga en fyrsti og síðasti dagurinn eru ferðadagar. Gengið er í fimm daga og dagleiðirnar eru frekar þægilegar og engin lengri en 15 km. Einn hvíldardagur er inni í miðri ferð ásamt því að næstsíðasta daginn er aðeins gengið í tæpar 2 klst að morgni áður en við tekur afslöppun og dekur. Gist er í fjórar nætur á gistiheimilum, tvær nætur í fjallaskálum og eina nótt á lúxushóteli. Athugið að þar sem ekki er hægt að trússa farangur í fjallaskálana þá þurfa þátttakendur að ganga með bakpoka með fötum til skiptanna. Annar farangur verður fluttur á lokahótelið og bíður þar. Ferðin hefst í Barcelona um seinnpart mánudaginn, 21. apríl, þaðan sem hópurinn flýgur saman til Mallorca. Frá flugvellinum er ferðast í smárútu upp í Tramuntana fjöllin og fyrstu nóttina er gist í sögufrægu og afar fallegu fjallaþorpi, þar sem tími gefst til að skoða sig um og snæða góðan kvöldverð. Daginn eftir er gengið yfir Tramuntana fjallgarðinn og byrjað á því að ganga upp á ríflega 900 metra hátt fjall þar sem stórkostlegt útsýni opnast yfir stóran hluta Mallorca. Svo er fetað hægt og rólega niður bratt gil og niður í annað ekki síður fallegt fjallaþorp þar sem gist er um nóttina. 14 km. 500 m hækkun. Á þriðja degi er þræddur stígur sem liggur um friðsæla aldinlundi meðfram norðurströnd eyjunnar með útsýni yfir blágrænt hafið. Þennan dag er gist í litlum strandbæ þar sem hægt er að busla í sjónum og gæða sér á nýveiddu fiskmeti. 14 km. 250 m hækkun. Fjórði dagur ferðarinnar er menningarlegur afslöppunardagur. Morguninn er letilegur og kannski verður farið í sjóinn áður en ferðast er með opnum sporvagni inn í næsta þorp. Þar er hægt að skoða lítil söfn með verkum Picasso og Miró, rölta á milli búða og bragða á dæmigerðum réttum eyjunnar. Fimmti dagurinn er lengsti og erfiðasti göngudagurinn og því er gott að hafa safnað kröftum daginn áður. Gengið er á góðum stíg upp þverbratt en geysifagurt gil, framhjá uppistöðulónum, gegnum lítil jarðgöng og í huggulegan fjallaskála þar sem gist er um nóttina. 15 km. 1200 m hækkun. Á sjötta degi er byrjað á því að lækka sig niður úr fjöllunum áður en gengið er aftur upp og nú upp á snarbratta en hreint ótrúlega klettaborg sem hýsir gamla kapellu og kastala sem búið er að breyta í fjallaskála. Útsýnið er óviðjafnanlegt og næturstaðurinn svo einstakur að honum verður vart lýst með orðum. Þetta er einfaldlega eitthvað sem fólk verður að upplifa á eigin skinni! 15 km. 600 m hækkun. Að morgni næsta dags er gengið niður af klettaborginni og í næsta þorp þar sem smárúta bíður til að flytja hópinn á lúxushótel við draumfagra strönd. Þar er hægt að láta gönguþreytuna líða úr sér í algjöru dekri, marflöt undir sólhlíf, synda í tærum sjó og snæða saman síðustu kvöldmáltíðina. 7 km. Snemma síðasta daginn ferðast hópurinn með rútu á flugvöllinn í Mallorca og flýgur til Barcelona þar sem ferð lýkur í tæka tíð til að hægt sé að ná flugi seinnipart dags heim til Íslands eða hvert á land sem er. Leiðsögumenn ferðarinnar eru Brynhildur Ólafsdóttir og Róbert Marshall. Innifalið í ferðinni, sem kostar 305 þúsund er flug frá Barcelona til Mallorca og til baka, gisting í sjö nætur, allur morgunmatur og tvær kvöldmáltíðir, allar ferðir og flutningur á farangri innan Mallorca, undirbúningsfundur, leiðsögn og utanumhald. Athugið að flug til og frá Barcelona er ekki innifalið en ferðin er skipulögð þannig að þátttakendur geta flogið frá Íslandi til Barcelona, á upphafsdegi ferðarinnar, þ.e. snemma sunnudaginn 20. apríl og heim frá Barcelona, sama dag og ferð líkur, þ.e. mánudaginn 28. apríl. Lágmarksþátttaka miðar við 10 manns en sökum þess að staðfesta þarf gistingu í fjallaskálunum að lágmarki 4 mánuði fyrir ferð, þá er nauðsynlegt að greiða staðfestingargjald ferðarinnar FYRIR 15. DESEMBER. Eftirstöðvar ferðarinnar eru síðan greiddar í síðasta lagi sex vikum fyrir ferð.
  • Ferðast á gönguskíðum. Námskeið

    37.000 kr.52.000 kr.
    Námskeið í vetrarferðalögum Bóklegt 13. jan og verklegt 25.-26. jan Þátttakendur læra og æfa það helsta sem kunna þarf til að geta ferðast með öruggum hætti á ferðaskíðum (utanbrautarskíðum með stálköntum) um ótroðnar slóðir íslenskra óbyggða. Námskeiðið skiptist annars vegar í fræðslukvöld og hins vegar æfingaferð í nágrenni Reykjavíkur, þar sem markmiðið er að reyna sig í krefjandi en öruggum vetraraðstæðum. Á fræðslukvöldinu verður m.a. farið yfir hvaða útbúnað þarf til vetrarferðalaga á skíðum, hvernig tjöld, dýnur, svefnpoka og sleða / púlku best er að nota, þau öryggisatriði sem þarf að hafa í huga, hvernig á að velja tjaldstað og tjalda í snjó, hita vatn og næra sig, halda á sér hita og útbúa klósett! Á síðari hluta námskeiðsins er svo komið að því að nota þekkinguna í alvöru vetrarferðalagi. Gengið er á skíðum á laugardagsmorgni með farangurinn í eftirdragi og tjaldbúðir settar upp í snjó. Á leiðinni er skíðatæknin æfð, upp og niður brekkur sem og hliðrun í brattlendi. Hópurinn lærir og æfir að auki grunnatriði í leiðavali og rötun ásamt því hvernig á að moka út neyðarskýli í snjó og fleira. Áfangastaðurinn þessa æfingahelgi skiptir minna máli en ferðalagið sjálft og fer alfarið eftir snjóalögum og færð. Þó er stefnt að því að halda sig nálægt höfuðborgarsvæðinu. Námskeiði kostar 37.000 kr. fyrir meðlimi Útihreyfingarinnar en 52.000 kr. fyrir aðra. Hægt er að greiða ferðina í einu lagi eða skipta greiðslum eins og hver og einn kýs inni í greiðsluferlinu sjálfu. Innifalið í verði er öll kennsla og æfingar, búnaðarfundur, leiðsögn og utanumhald.
  • Fjallganga 29. september Fáir fjallstoppar bjóða uppá jafn glæsilegt útsýni og Botnsúlur sem standa fyrir botni Hvalfjarðar og eru á sama tíma krúnudjásnið í fjallasýn Þingvalla. Þessi þúsund metra hái fjallabálkur er skyldufag í íslenzkum fjallafræðum. Þarna þurfa allir að ganga upp og kynnast þessu risastóra útivistarsvæði í nágrenni höfuðborgarinnar. Þetta er umtalsverð fjallganga um gróið land og skriður í töluverðum bratta en efst er greiður og breiður hryggur. Búast má við 4-5 tíma göngu yfir um það bil 6 til 7 km, með hækkun uppá 970 metra. Útigengið er fjallgönguhópur þar sem gleðin er í fyrirrúmi. Dagskráin er fyrir öll sem langar að kynnast fjöllum og stöðum í nágrenni Reykjavíkur. Tilvalinn hópur fyrir fólk sem er að taka sín fyrstu skref í fjallgöngum eða þau sem langar að dusta rykið af göngubúnaðinum og vilja kynnast útivistarfólki, nýjum stöðum og bæta við færni sína á fjöllum.
  • Fjallganga 27. október Blákollur er fjall sem kemur á óvart! Þetta er sjaldfarinn tindur en samt í alfaraleið því við höfum öll ekið þarna framhjá mörg hundruð sinnum. Leiðin á tindinn opnar á útsýni á fjalllendi sem hulið er sjónum þegar ekið er framhjá Hafnarfjalli. Landsýnin á tindinum er stórfengleg. Í suðri er Akrafjall, Esjan og Reykjanesið, í vestri allt Snæfellsnesið, Baula og Holtavörðuheiði í norður og allir tindar Skarðsheiðarinnar í austur. Góður stígur hefur myndast á hryggnum á leið upp á Blákoll en búast má við að gangan taki 3-4 tíma með um það bil 700 metra hækkun yfir rúma 5 kílómetra. Útigengið er fjallgönguhópur þar sem gleðin er í fyrirrúmi. Dagskráin er fyrir öll sem langar að kynnast fjöllum og stöðum í nágrenni Reykjavíkur. Tilvalinn hópur fyrir fólk sem er að taka sín fyrstu skref í fjallgöngum eða þau sem langar að dusta rykið af göngubúnaðinum og vilja kynnast útivistarfólki, nýjum stöðum og bæta við færni sína á fjöllum.
  • Dagsferð í núvitund 8. desember Þessi skemmtilega aðventuhefð varð til fyrir nokkrum árum og hefur ræklega slegið í gegn. Gengið er á ferðaskíðum annan sunnudag í aðventu, með bókina Aðventu eftir Gunnar Gunnarsson í eyrunum, í snilldarlestri Róberts Arnfinnssonar. Þetta er sannkölluð núvitundarganga því við tökum hlustuninni alvarlega og í þessari göngu er ekki talað, bara hlustað! Göngumenn lifa sig inn í þjóðlegan reynsluheim fyrri alda og spegla sig í ævintýrum Fjalla-Bensa sem stundaði eftirleitir á jólaföstunni á Mývatnsöræfum. Þar gekk hann um á skíðum, oft í stórhríð og fimbulkulda, ásamt forystusauðinum Eitli og hundinum Leó og bjargaði sauðfé frá því að fenna í kaf og verða úti. Lagt er af stað í ljósaskiptunum eða kl. 15 og gengið með höfuðljós inn í myrkrið, í alls tæplega 3 klst. Gangan hefst og endar við Skíðaskálann í Hveradölum og þar geta þátttakendur, að göngu lokinni, gætt sér á nýbökuðum vöflum og rjúkandi heitu súkkulaði með rjóma. Ef ekki gefur nægan snjó til skíðagöngu frá Hveradölum, verður skoðað að færa gönguna. Ferðin er ókeypis fyrir meðlimi Útihreyfingarinnar sem þó þurfa að smella hér til að skrá sig til leiks, svo hægt sé að skipuleggja ferðina sem best. Aðrir greiða 13 þúsund kr. og fara í gegnum kaupferlið hér að neðan. Allir skráðir þátttakendur fá nánari upplýsingapóst þegar nær dregur ferð.
  • Aftur út

    4.900 kr.
    NÆSTA NÁMSKEIÐ HEFST 3. OKT
    Námskeið þar sem útivist er notuð til endurhæfingar ásamt samveru og jafningjaspjalli
    Ætlað öllum sem eru að koma sér aftur af stað eftir erfið veikindi svo sem krabbameinsmeðferð. Leiðarljós námskeiðsins er fólk finni sinn eigin kraft og frið í náttúrunni og öðlist styrk í gegnum samveru með öðrum sem eru á sama stað.  Frábært fyrsta skrefið fyrir meistara sem vilja koma sér í gott útivistarform, sigra fjöll og firnindi og sig sjálf í leiðinni. Léttar göngur, kaffispjall og raunhæf markmið, eitt skref í einu! Hópurinn hittist alls fimm sinnum og lokatakmarkið er hæg ganga upp á Úlfarsfell sem rís tæplega 300 metra yfir sjávarmál.  Dagskrá námskeiðsins
    • 3. okt, kl. 14. Laugardalur. Ganga og léttar æfingar. Kaffispjall í Kaffi Flóru.
    • 10. okt, kl. 14. Öskjuhlíð. Ganga og léttar æfingar. Kaffispjall á Bragganum.
    • 17. okt, kl. 14. Elliðaárdalur. Ganga og léttar æfingar. Kaffispjall á Bístró. 
    • 24. okt, kl. 14. Úlfarsfell. Sigurgangan :)
    • Í lok námskeiðs verður bónusferð í sjósund í Nauthólsvík.
    Guðrún Sigríður Ágústsdóttir, betur þekkt sem Sirrý, leiðir námskeiðið. Hún hefur tvisvar greinst með krabbamein og hefur reynt á eigin skinni hversu mikilvæg útivist er í endurhæfingu og bataferli. Tíu árum eftir að hún greindist fyrst, gekk hún á gönguskíðum eftir endilöngum Vatnajökli og ári síðar á Hvannadalshnúk. Hér fyrir neðan eru tvö viðtöl þar sem Sirrý segir sína sögu.  Viðtal í Vísi Viðtal á mbl.is Skráðir þátttakendur fá upplýsingapóst og boð á undirbúningsfund í aðdraganda námskeiðsins.

Title

Go to Top