-
Námskeið í vetrarferðalögum Bóklegt 21. jan og verklegt 31. jan - 1. feb Þátttakendur læra og æfa það helsta sem kunna þarf til að geta ferðast með öruggum hætti á ferðaskíðum (utanbrautarskíðum með stálköntum) um ótroðnar slóðir íslenskra óbyggða. Námskeiðið skiptist annars vegar í rafrænt fræðslukvöld í gegnum Zoom og hins vegar æfingaferð í nágrenni Reykjavíkur, þar sem markmiðið er að reyna sig í krefjandi en öruggum vetraraðstæðum. Á fræðslukvöldinu verður m.a. farið yfir hvaða útbúnað þarf til vetrarferðalaga á skíðum, hvernig tjöld, dýnur, svefnpoka og sleða / púlku best er að nota, þau öryggisatriði sem þarf að hafa í huga, hvernig á að velja tjaldstað og tjalda í snjó, hita vatn og næra sig, halda á sér hita og útbúa klósett! Þátttakendum er í kjölfarið boðið á búnaðarkvöld í bílskúr leiðbeinenda, þar sem hægt er að skoða alls konar mismunandi búnað og koma með eigin búnað og fá mat á honum. Á síðari hluta námskeiðsins er svo komið að því að nota þekkinguna í alvöru vetrarferðalagi. Gengið er á skíðum á laugardagsmorgni með farangurinn í eftirdragi og tjaldbúðir settar upp í snjó. Á leiðinni er skíðatæknin æfð, upp og niður brekkur sem og hliðrun í brattlendi. Hópurinn lærir og æfir að auki grunnatriði í leiðavali og rötun ásamt því hvernig á að moka út neyðarskýli í snjó og fleira. Áfangastaðurinn þessa æfingahelgi skiptir minna máli en ferðalagið sjálft og fer alfarið eftir snjóalögum og færð. Þó er stefnt að því að halda sig nálægt höfuðborgarsvæðinu. Námskeiðið kostar 58.000 kr og innifalið í verði er öll kennsla og æfingar, fræðslukvöld, búnaðarfundur, leiðsögn og utanumhald. Leiðbeinendur og kennarar eru Brynhildur Ólafsdóttir og Róbert Marshall. -
Fyrir öll sem elska fjöll! Níu göngur frá 18. jan til 17. maí Útigengið er fyrir fólk sem finnst gaman að vera úti í náttúrunni og vilja nýta hana til líkamsræktar, kynnast nýjum stöðum og bæta við færni sína á fjöllum. Vordagskráin er fjölbreytt og áhersla er á að ganga sig upp í getu til að geta glímt við meira krefjandi göngur, ásamt því að æfa sig í vetrarferðamennsku og því að nota brodda og ísöxi. Við bendum fólki sem er að byrja að ganga á fjöll að vetri til, á örstutt byrjendanámskeið í vetrarfjallamennsku. Útigengið heldur til fjalla á sunnudögum, að meðaltali aðra hvora helgi frá janúar til maí. Fyrstu göngurnar taka 3-4 klst. en þegar líður á og göngurnar verða meira krefjandi, þá verða þær líka lengri og sumar taka allan daginn, að akstri til og frá meðtöldum. Vordagskrá Útigengisins- 18. jan. Bjarnarfell við Geysi
- 1. feb. Þyrill í Hvalfirði
- 15. feb. Kálfatindar upp af Lyngdalsheiði
- 1. mar. Vikrafell ofan við Hreðavatn
- 15. mar. Mýrarhyrna á Snæfellsnesi
- 29. mar. Skessuhorn í Borgarfirði
- 19. apr. Hvalfell í Hvalfirði
- 3. maí. Hrútaborg á Mýrunum
- 17. maí. Blikdalshringurinn í Esju
-
Æfingaferðir á utanbrautarskíðum 17. janúar - 25. mars Eitt aðalmarkmið æfingahópsins er að þátttakendur læri vel á ferðaskíðin og skinnin og alla tækni við beitingu skíðanna. Brekkur upp. Brekkur niður. Hliðarhalli. Mismunandi snjóalög, færi og undirlag. Allt þarf að læra á og æfa sig í að gera. Í öðru lagi finnst okkur alltaf gaman að ganga á skíðum á nýjum stöðum. Við viljum því nota tækifærið til að kynna hópinn fyrir fjölbreyttum og skemmtilegum skíðaáfangastöðum í nágrenni Reykjavíkur. Og ekki er verra ef svæðið geymir einhverja sögu sem hægt er að fræðast um. Síðast en ekki síst viljum við í sameiningu skapa fallegan félagsskap fólks sem nærist á skemmtilegri samveru og útiveru og nýtur þess að leika sér úti við í öllum veðrum. Þetta er, og á alltaf að vera, BARA GAMAN :) Hópurinn hittist alls sex sinnum. Fyrsta æfingin er á laugardegi en næstu fimm kl. 18 á miðvikudögum. Allar æfingarnar eru í nágrenni Reykjavíkur og reynt verður að miða við að aldrei taki lengri tíma en um 40 mínútur að aka á upphafsstað göngunnar. Göngurnar sjálfar taka svo að meðaltali 1.5-2.5 klst. Dagskrá- Lau. 17. jan. Kl. 11
- Mið. 28. jan. Kl. 18
- Mið. 11. feb. Kl. 18
- Mið. 25. feb. Kl. 18
- Mið. 11. mar. Kl. 18
- Mið. 25. mar. Kl. 18
-
Stutt ferðaskíðanámskeið fyrir byrjendur 12. - 17. janúar Markmið námskeiðsins er að þátttakendur fái að kynnast ferðaskíðum / utanbrautarskíðum og þessum frábæra ferðamáta sem sameinar skíðagöngu, náttúruupplifun og vetrargleði. Þetta er stutt, snarpt en hagnýtt námskeið þar sem þú fræðist um muninn á mismunandi búnaði, lærir á skíðin og skinnin, kynnist grunntækni í beitingu skíðanna og hvernig við skíðum örugglega og áreynslulaust á mismunandi undirlagi. Við byrjum rólega, lærum á skíðin, bindingarnar og skinnin og tökum svo fyrstu skrefin í brekkum og hliðarhalla, mismunandi færi og í fjölbreyttu landslagi. Námskeiðið samanstendur af rafrænum fræðslufundi og tveimur skíðaæfingum sem taka um 2 klst hvor. Staðsetning æfinganna fer eftir snjóalögum og færð, en reynt er að miða við að ekki taki meira en 30-40 mínútur að aka frá Reykjavík á æfingastaðinn. Dagskrá námskeiðsins- Mán. 12. jan. Kl. 20. Rafrænn fræðslufundur
- Mið. 14. jan. Kl. 18. Æfing
- Lau. 17. jan. Kl. 10. Æfing
-
Kynningarfundur 8. janúar Fyrsta æfing 20. janúar Sex vikna grunnnámskeið, haldið þrisvar á ári, í janúar, maí og september. Námskeiðið er fyrir fólk sem er að byrja að stunda útihreyfingu eða að fara af stað eftir langt hlé og vill læra undirstöðuatriði í útihlaupi, kynnast sjósundi og byggja upp þol og styrk fyrir útihreyfingu og ævintýri. Æft er tvisvar til þrisvar í viku og mikið er um göngur, létt hlaup og þrekæfingar. Æfingarnar fara fram á útivistarsvæðum víðs vegar á höfuðborgarsvæðinu, svo sem í Elliðaárdal, Öskjuhlíð og Laugardal en líka er gengið á lægri fjöll í nágrenni Reykjavíkur svo sem upp á Mosfell og Úlfarsfell og víðar. Dagskrá- Alla þriðjudaga og fimmtudaga kl. 17:30
- Lengri æfingar aðra hvora helgi, kl. 9:30
- Laugardaginn 23. jan
- Sunnudaginn 8. feb
- Laugardaginn 28. feb
-
Stutt upphafsnámskeið á brautarskíðum 5. - 10. janúar Allir geta gengið á skíðum og allir ættu að læra þessa frábæru íþrótt sem reynir á allan líkamann og eykur úthald, þol og styrk. Við hjá Útihreyfingunni höldum því fram að hvort sem fólk stefni á frama og verðlaunapalla í skíðagöngukeppnum eða þverun jökla á ferðaskíðum með púlkur í eftirdragi, þá þurfi allir að byrja á því að læra undirstöðutæknina í skíðagöngu í braut. Grunntæknina verður að læra í spori áður en sá lærdómur er yfirfærður yfir á ferðaskíðin, þannig að fólk geti byrjað að láta skíðin vinna fyrir sig og svífi áfram í staðinn fyrir að þramma! Þetta námskeið er því bæði hugsað fyrir byrjendur á brautarskíðum sem og þá sem hafa hingað til aðeins gengið á ferðaskíðum en vilja bæta tæknina. Þetta er líka frábært upphafsnámskeið fyrir skíðavertíðina, þ.e. fyrir þá sem þegar kunna eitthvað á brautarskíðum, en þurfa að rifja upp grunntæknina og taktana! Námskeiðið hefst á rafrænum fræðslufundi þar sem fjallað er um hvað þarf að hafa í huga þegar kemur að búnaði, hver er munurinn á mismunandi skíðategundum, skíðaskóm og stöfum og hvernig á að klæða sig þegar gengið er á skíðum í spori. Á fyrstu æfingunni er svo komið að því að læra á búnaðinn, hvernig á að spenna á sig skíðin, hvernig best er að detta (því allir detta!) og taka fyrstu skíðagöngusveifluna :) Fyrstu þrjár æfingarnar eru skipulagðar dag eftir dag en einmitt með því að láta ekki of langan tíma líða á milli æfinga í upphafi, nær fólk mestum árangri og framförum. Lögð er megináhersla á að allir þátttakendur læri taktinn og nái tökum á vanaganginum, þ.e. klassíska sporinu í skíðagöngunni með alls konar tækniæfingum og leikjum. Að auki fá þátttakendur grunnkennslu í öðrum skíðagöngusporum svo sem ýtingum, ýtingum með frásparki, síldarbeinagangi upp brekkur og æfingu í því að renna niður brekkur. Hver kennslustund tekur um 2 klukkustundir og kennsla fer fram á skíðagöngusvæðinu í Bláfjöllum. Aðgangur að svæðinu er ekki innifalinn í verði. Dagskrá námskeiðsins- Mán. 5. jan. Kl. 20. Fræðslufundur
- Þri. 6. jan. Kl. 18
- Mið. 7. jan. Kl. 18
- Fim. 8. jan. Kl. 18
- Lau. 10. jan. Kl. 10
- Ég hef áður farið á helgarnámskeið en fagmennskan hér er framúrskarandi í samanburði.
- Gleði og þolinmæði kennaranna er áberandi.
- Gott að geta klárað þetta á stuttum tíma í stað þess að draga þetta yfir nokkrar vikur.
- Námskeiðið er vel upp byggt og frábært að blanda leikjum saman við tækniæfingar.
- Skilvirkar æfingar, ég náði miklum framförum á fáum skiptum.
- Frábært námskeið og rosa gaman.
- Allt skemmtilegt og gaman að brjóta kennsluna upp með leikjum.
-
Fjórar þrautir: Ferðaskíði. Fjallganga. Fjallahjól. Sundhlaup Skráningu lýkur 4. janúar Útinaglinn er ný útivistar- og ævintýraáskorun, hönnuð fyrir þau sem vilja sameina útivist og þol, halda sér í formi og stíga örlítið út fyrir þægindarammann í þéttum og skemmtilegum félagsskap. Þetta er ferðalag í fjórum áföngum því þátttakendur taka þátt í fjórum mismunandi þrautum yfir árið. Árið 2026 eru það ferðaskíði, fjallganga, fjallahjól og sundhlaup. Þau sem klára allar fjórar þrautir ársins fá heiðursnafnbótina Útinaglinn 2026. Á hverju ári verða svo nýjar áskoranir og þrautir á nýjum slóðum, því markmiðið er að halda sér í frábæru útivistarformi með því að hafa alltaf skemmtileg, krefjandi og fjölbreytt verkefni til að stefna að. Útinaglaþrautirnar eru ekki keppnir, heldur alvöru útivistaráskoranir. Þetta eru ólíkar áskoranir en allar krefjast bæði úthalds og þrautseigju þar sem þú sjálf/ur ert þinn eini keppandi. Í leiðinni kynnistu nýju fólki, nýjum stöðum, lærir eitthvað nýtt, styrkir þig og bætir og færð mögulega nýja sýn á þig og þína getu! Naglaþrautir 2026 11. apríl. Ferðaskíði um Tröllakirkju Einn dagur. 10., 11. eða 12. apríl* Skíðað umhverfis Tröllakirkju á Holtavörðuheiði. 32 km Ekið samdægurs til og frá Rvk 23. maí. Fjallganga á Þverártindsegg Einn dagur. 22., 23. eða 24. maí* Jöklaganga á Þverártindsegg. 17 km Gist í Öræfum á eigin vegum 20. júní. Fjallahjól að Fjallabaki Einn dagur. 19., 20. eða 21. júní* Hjólað frá Landmannahelli í Hvanngil. 53 km Gist að Fjallabaki á eigin vegum 18. júlí. Sundhlaup í Gufunesi og Viðey** Einn dagur. 17., 18. eða 19. júlí* Hlaupið í Gufunesi. 2 km Synt frá Gufunesi í Viðey. 750 m Hlaupið í Viðey. 4,5 km Synt frá Viðey í Gufunes. 750 m Hvernig virkar þetta?- Árið 2026 er prufukeyrsla og aðeins 40 pláss í boði
- Þátttaka í öllum fjórum Naglaþrautunum kostar 128 þúsund og þátttakendur skrá sig skuldbindandi inn í allar fjórar þrautirnar í einu lagi
- Ef hópurinn fyllist ekki, er mögulegt að selt verði inn í stakar þrautir
- Æfingar og undirbúningur fyrir þrautirnar fara fram í Útiræktinni og þátttakendur þurfa því að vera áskrifendur í aðdraganda þrautanna
- Hægt er að slást í hópinn til áramóta, ef pláss leyfir
-
Dagsferð í núvitund 14. desember Þessi skemmtilega aðventuhefð varð til fyrir nokkrum árum og hefur ræklega slegið í gegn. Gengið er á ferðaskíðum þriðja sunnudag í aðventu, með bókina Aðventu eftir Gunnar Gunnarsson í eyrunum, í snilldarlestri Róberts Arnfinnssonar. Þetta er sannkölluð núvitundarganga því við tökum hlustuninni alvarlega og í þessari göngu er ekki talað, bara hlustað! Göngumenn lifa sig inn í þjóðlegan reynsluheim fyrri alda og spegla sig í ævintýrum Fjalla-Bensa sem stundaði eftirleitir á jólaföstunni á Mývatnsöræfum. Þar gekk hann um á skíðum, oft í stórhríð og fimbulkulda, ásamt forystusauðinum Eitli og hundinum Leó og bjargaði sauðfé frá því að fenna í kaf og verða úti. Lagt er af stað skömmu fyrir ljósaskiptin eða kl. 14:30 og gengið með höfuðljós inn í myrkrið, í alls tæplega 3 klst. Gangan hefst og endar við Skíðaskálann í Hveradölum og þar geta þátttakendur, að göngu lokinni, gætt sér á nýbökuðum vöflum og rjúkandi heitu súkkulaði með rjóma. Ef ekki gefur nægan snjó til skíðagöngu frá Hveradölum, verður skoðað að færa gönguna. Ferðin er ókeypis fyrir þá sem æfa með Útihreyfingunni í Útiræktinni. Aðrir greiða 14.900 þúsund kr. og fara í gegnum kaupferlið hér að neðan. Allir þátttakendur fá nánari upplýsingapóst þegar nær dregur ferð.