• Jöklaáskorun Útihreyfingarinnar 23. apríl (næstu þrír dagar til vara) Þetta ævintýri fer ofarlega á montlista alls fjallafólks, enda getum við fullyrt að um er að ræða eina allra fallegustu jökladagleið á Íslandi! Lagt er af stað í rauðabítið úr Reykjavík því þetta er löng dagleið og það þarf að nýta alla þá birtu sem gefst. Bílar eru skildir eftir við Skógafoss og hópnum skutlað með jepparútu að vesturrönd jökulsins, upp af Hamragarðaheiði, þar sem ferðalagið hefst. Gengið er á skíðunum sem leið liggur austur yfir jökulinn, yfir öskjuna og niður á Fimmvörðuháls eins langt og hægt er að skíða, en búast má við að ganga þurfi með skíðin á bakinu síðasta spölinn niður í bíla. Landslagið er gríðarfjölbreytt. Í fyrstu er löng en jöfn hækkun upp á öskjubrún, með hin fallegu Sker á vinstri hönd og óviðjafnanlegt útsýni yfir til Vestmannaeyja. Svo tekur við glíma við hájökulinn þar sem stundum þarf að skipta skíðum út fyrir jöklabrodda. Þegar komið er yfir öskjuna blasir Þórsmörk, Tindfjallajökull og reyndar allt Fjallabakið við skíðafólki ásamt kærkominni langri og mikilli brekku niður í átt að Mýrdalsjökli og svo áfram niður Fimmvörðuhálsinn meðfram gljúfrum og fossum Skógárinnar. Það er alltaf áskorun að fara upp á Eyjafjallajökul og þetta ferðalag er krefjandi, ekki síst vegna þess að um er að ræða 35-40 km langa dagleið. Við bendum fólki á að nota æfingahópinn Úti ferðaskíði og fjölbreyttar ferðaskíðaferðir Úthreyfingarinnar til að æfa sig á skíðunum. Þeir sem ekki eru vanir jöklaferðum þurfa að auki að hafa tekið námskeiðið Vetrarfjallamennska. Athugið að ef veðurspá er óhagstæð þennan fimmtudag, sem jafnframt er sumardagurinn fyrsti, er mögulegt að ferðin verði færð yfir á einhvern næstu þriggja daga. Haldinn er rafrænn undirbúningsfundur í aðdraganda ferðar og skráðir þátttakendur fá ítarlegan upplýsinga- og búnaðarpóst. Nauðsynlegt er að eiga ferðaskíði, stafi með stórri kringlu og skinn undir skíðin, jöklaþrennuna; belti, brodda og ísöxi ásamt góðum bakpoka sem hægt er að hengja skíðin utan á. Ferðin kostar 59.000 kr. og innifalið er undirbúningsfundur, leiðsögn og utanumhald, skutl með jepparútu á upphafsstað og mögulegt skutl niður af Fimmvörðuhálsi í lok ferðar, eftir aðstæðum. Jöklafarar Þessi ferð telst hluti af verkefninu Jöklafarar sem er jöklaáskorun Útihreyfingarinnar, þar sem gengið er á ferðaskíðum yfir sex stærstu jökla landsins. Sjá nánar hér.
  • Jöklaáskorun Útihreyfingarinnar 30. apríl - 7. maí Stórkostlegur vikulangur leiðangur þar sem sjálfur konungur jöklanna, Vatnajökull, er genginn endilangur á ferðaskíðum. Svona leiðangrar verða jafnan eitt af stærstu ævintýrunum í lífi hverrar manneskju. Við lofum ógleymanlegu, valdeflandi og krefjandi ferðalagi, fyrir bæði líkama og sál. Þátttakendur ganga á svokölluðum ferðaskíðum (utanbrautargönguskíðum með stálköntum) og draga púlkur / sleða með öllum farangrinum á eftir sér. Gist er í tjöldum á jöklinum í fjórar nætur en eina nótt í skála á Grímsfjalli. Gert er ráð fyrir að jöklagangan sjálf taki 6-7 daga en nokkrir dagar eru hafðir til vara ef hópurinn þarf að hafast við á jöklinum og bíða af sér veður og jafnframt til að gera ráð fyrir ferðalögum til og frá jökli. Það fer eftir færð og veðri í aðdraganda ferðar hvort gengið verður frá austri til vesturs eða frá vestri til austurs. Leiðangurinn hefst því annað hvort við Jöklasel á Skálafellsjökli við suðurbrún Vatnajökuls eða upp frá Jökulheimum undir Tungnaárjökli við vesturbrún jökulsins. Ógnarfegurð, alger kyrrð og mikil núvitund felst í svona löngu ferðalagi yfir jökul. Fegurðin getur stundum verið yfirþyrmandi. Rósrauð sólris og sólsetur einkenna jökulinn og á leiðinni gefst stórkostlegt útsýni á marga af hæstu tindum landsins. Oft er þó líka gengið í hrímþoku eða algerri hvítablindu sem reynir á skilningarvitin á allt annan hátt. Þegar ferðalagið er nokkurn veginn hálfnað, nánast á miðjum jöklinum, er komið á Grímsfjall við Grímsvatnaeldstöðina. Þar bíður vistlegur skáli Jöklarannsóknarfélagsins eftir göngufólkinu, hlýr og notalegur. Í skálanum er hægt að kjarna sig, elda dýrindismat, þurrka föt ef á þarf að halda og síðast en ekki síst láta þreytuna líða úr sér í goðsagnakenndu jöklagufubaði! Heildarvegalengd leiðangursins er 130 km og gert er ráð fyrir að hópurinn skíði 20-25 km á hverjum degi, eftir færð og veðri. Þetta er krefjandi ferð sem hentar vönu ferðafólki með reynslu af vetrarferðalögum eða fólki sem ætlar að nota veturinn fyrir leiðangurinn til að læra og æfa sig. Við bendum fólki á að nota æfingahópinn Úti ferðaskíði og námskeiðið Ferðast á gönguskíðum, en hvoru tveggja verður á dagskrá í janúar 2026. Þeir sem ekki eru vanir jöklaferðum þurfa að auki að hafa tekið námskeiðið Vetrarfjallamennska (sem er líka alltaf á dagskrá Útihreyfingarinnar á vormánuðum) eða sambærilegt. Gert er ráð fyrir að hópurinn hittist töluvert og kynnist fyrir ferð og æfi sig að einhverju leyti saman, en stungið verður upp á sameiginlegum ferðum og æfingum í aðdraganda leiðangursins. Brynhildur Ólafsdóttir og Helga María Heiðarsdóttir leiða ferðina en báðar eru mjög reynslumiklar og hafa leiðsagt fjölmargar ævintýraferðir, bæði hérlendis og erlendis. Þær eru með gilt Wilderness First Responder skírteini og hafa lokið réttindanámi hjá Félagi íslenskra fjallaleiðsögumanna (AIMG), bæði í fjalla- og jöklaleiðsögn. Ferðin kostar 265.000 kr. Athugið að hægt er að greiða ferðina í einu lagi eða skipta greiðslum eins og hver og einn kýs inni í greiðsluferlinu sjálfu. Innifalið í verðinu er gisting í eina nótt á Grímsfjalli, far með jepparútum til og frá Reykjavík og að og frá jökli, nokkrir undirbúningsfundir, aðstoð með búnað, næringu, æfingaáætlun og pökkun, ein óveðursútilega í aðraganda ferðar ásamt leiðsögn og utanumhaldi í sjálfum leiðangrinum. Jöklafarar Þessi ferð telst hluti af verkefninu Jöklafarar sem er jöklaáskorun Útihreyfingarinnar, þar sem gengið er á ferðaskíðum yfir sex stærstu jökla landsins. Sjá nánar hér.
  • Jöklaáskorun Útihreyfingarinnar 15.-17. maí Þriggja daga skíðaferð yfir Drangajökul, í hinn draumfagra Reykjarfjörð á Ströndum þar sem ómótstæðileg heit sundlaug bíður ferðalanga. Skíðað er á ferðaskíðum yfir jökulinn með svefnpoka og vistir í bakpoka og gist í Reykjarfirði í tvær nætur. Ferðin hefst snemma að morgni föstudags 15. maí í Kaldalóni við Ísafjarðardjúp. Þar er stigið á skíðin, byrðar axlaðar og haldið sem leið liggur upp á Drangajökul. Gengið er yfir jökulinn og niður í Reykjarfjörð, alls um 25 km leið. Enginn vegur liggur í Reykjarfjörð sem fór í eyði árið 1964 og því er aðeins fært þangað gangandi, skíðandi eða á bát. Afkomendur síðustu ábúendanna hafa viðhaldið gömlu húsunum og hópurinn gistir einmitt í svokölluðu Gamlahúsi. Á laugardaginn mun hópurinn halda kyrru fyrir í Reykjarfirði, skoða nágrennið og liggja í bleyti í hinni víðfrægu bláu sundlaug sem er ótrúlegur unaðsreitur inni í þessu landslagi. Laugin er engin smásmíð eða 8x20 metrar og var reist af mikilli framsýni árið 1938. Eldsnemma sunnudaginn 17. maí, er svo gengið á skíðunum aftur til baka yfir Drangajökul og í bílana sem bíða í Kaldalóni. Ef veðurspá er sérlega óhagstæð þessa þrjá daga, verður skoðað að hnika ferðinni fram eða aftur um 1-2 daga. Dagleiðirnar eru langar og þátttakendur þurfa að hafa gott vald á ferðaskíðum og reynslu af ferðalögum á skíðum. Að auki má búast við að ganga þurfi nokkurn spotta bæði að og frá jöklinum með skíðin á bakinu. Við bendum fólki á að nota æfingahópinn Úti ferðaskíði og fjölbreyttar ferðaskíðaferðir Úthreyfingarinnar til að æfa sig á skíðunum. Þeir sem ekki eru vanir jöklaferðum þurfa að auki að hafa tekið námskeiðið Vetrarfjallamennska. Athugið að Útihreyfingin er búin að taka frá svefnpokapláss fyrir hópinn nóttina fyrir brottför, skammt frá Kaldalóni. Þeir sem það vilja, geta keypt sér gistingu þar og þá sofið lengur að morgni brottfarardagsins! Haldinn er rafrænn undirbúningsfundur í aðdraganda ferðar og skráðir þátttakendur fá ítarlegan upplýsinga- og búnaðarpóst. Nauðsynlegt er að eiga ferðaskíði, stafi með stórri kringlu og skinn undir skíðin, jöklaþrennuna; belti, brodda og ísöxi ásamt góðum bakpoka sem hægt er að hengja skíðin utan á. Ferðin kostar 94.000 kr. og innifalið er gisting í tvær nætur í Reykjarfirði, undirbúningsfundur, leiðsögn og utanumhald. Hægt er að greiða ferðina í einu lagi eða skipta greiðslum eins og hver og einn kýs inni í greiðsluferlinu sjálfu. Nokkrar umsagnir um Drangajökulsferðina
    • Skemmtilegir fararstjórar, veðurglöggir og flínkir að lesa í aðstæður.
    • Frábær leið og áfangastaður.
    • Léttleikinn stendur upp úr en líka leiðarvalið, náttúran, kvöldvakan...
    • Stórkostleg upplifun að skíða yfir jökulinn frá Kaldalóni og dvelja án rafmagns og símasambands í Reykjarfirði.
    • Frábær leiðsögn og félagsskapur.
    • Náttúrufegurðin er engu lík.
    • Húslesturinn var punkturinn yfir i-ið.
    Jöklafarar Þessi ferð telst hluti af verkefninu Jöklafarar sem er jöklaáskorun Útihreyfingarinnar, þar sem gengið er á ferðaskíðum yfir sex stærstu jökla landsins. Sjá nánar hér.
  • Kajaknámskeið

    27.000 kr.
    Náðu tökum á tækninni 1. júní (3. júní til vara) Fátt er eins nærandi, draumkennt og dásamlegt og að líða hljóðlaust áfram á kajak í fullkominni sátt og tengingu við náttúruna. Á þessu þriggja klukkustunda námskeiði verður farið yfir þann grunn sem þarf til að geta bjargað sér á kajak og byrjað að lifa drauminn! Farið er yfir búnaðinn og áratökin útskýrð áður en allir koma sér fyrir, hver í sínum kajak og ýtt er úr vör. Í framhaldi eru áratökin æfð ásamt mismunandi aðferðum við að stýra kajaknum, halda réttri stefnu, beygja og snúa við. Farið er yfir undirstöðuatriðin í félagabjörgun og að lokum eru allir látnir velta kajaknum sínum til að æfa sig í því að komast klakklaust úr honum og upp í hann aftur. Mæting er við höfnina á Stokkseyri, kl. 18, mánudaginn 1. júní, þar sem byrjað verður á því að taka til kajakana og klæða sig í viðeigandi fatnað áður en kennsla hefst. Athugið að ef veðurguðirnir eru ekki með okkur í liði, þá er miðvikudagurinn 3. júní, hafður til vara. Þátttakendur fá allan nauðsynlegan búnað á námskeiðinu og þurfa aðeins að mæta í hlýjum fötum og með aukaföt til skiptanna. Ítarlegur upplýsingapóstur er sendur á þátttakendur í aðdraganda námskeiðs. Athugið að þetta námskeið eða sambærilegt námskeið og/eða reynsla er forkrafa inn í allar kajakferðir Útihreyfingarinnar svo sem Kajakferð á Hvítárvatn og Kajakferð í norska skerjagarðinn. Námskeiðið kostar 27.000 kr. og innifalið er kajakleiga, ár, toppur, svunta og björgunarvesti ásamt kennslu faglærðra kajakkennara.
  • Tjaldnótt í krúnudjásni Hvítárvatns, Karlsdrætti 25.-26. júlí Sólkatla, Baldheiði og Hrefnubúðir. Örnefnin í kringum Karlsdrátt í Hvítárvatni eru nánast óþekkt og það er ótrúlegt til þess að hugsa að við séum rétt hjá Kili, Hvítárnesi og Bláfellshálsi en samt á svo framandi slóðum. Karlsdráttur er lítill og aflokaður, gróðursæll vogur í norðurenda Hvítárvatns þar sem fjölbreytt plöntulíf birtist óvænt milli jökulvatns og eyðisanda. Hér vex birki upp í miðjar hlíðar og einkennisblóm staðarins, eyrarrósin er alltumlykjandi. Alls vaxa hér 82 aðrar plöntutegundir í rúmlega 400 metra hæð yfir sjávarmáli sem þykir einstakt á Íslandi. Gegnt voginum skríður Norðurjökull út úr Langjökli við hlið Skriðufells og kelfir næstum því ofan í fölgrænt jökulvatnið. Neðar fellur sama jökulvatn í foss allra íslenskra fossa, Gullfoss í gljúfri Hvítár, sem Hvítárvatnið dregur nafn sitt af. Við leggjum í hann með vistir og viðlegubúnað til tveggja daga frá bökkum Hvítárvatns og róum 8-10 kílómetra leið að höfðanum sem lokar af voginum. Þarna sláum við upp tjöldum og gistum eina töfranótt í þessari vin á hálendinu. Þau allra hörðustu baða sig að sjálfsögðu í Hvítárvatni! Í morgunsárið daginn eftir, fyllum við á brúsa með tæru lindarvatni og göngum á Sólkötlu sem rís í ríflega 1000 metra hæð yfir sjávarmáli. Þaðan er stórkostlegt útsýni yfir Langjökul og jökulskerin Þursaborg og Fjallkirkju auk þess sem Hrútfellið, Hvítárvatnið sjálft og sögufrægt umhverfi Kjalvegar blasir við frá afar sjaldséðu sjónarhorni. Gangan er um 10 km fram og til baka. Að göngu lokinni, seinnipart sunnudags tökum við saman tjaldbúðir og róum til baka sömu leið og við komum. Athugið að kajaknámskeið og/eða kajakreynsla er forkrafa inn í ferðina. Við bendum á undirbúningsnámskeið Útihreyfingarinnar. Skráðir þátttakendur fá ítarlegan upplýsinga- og pökkunarpóst í aðdraganda ferðarinnar. Ferðin kostar 83.000 kr. og innifalið í verðinu er leiðsögn og utanumhald, leiga og flutningur á kajak, ár, toppi, svuntu og björgunarvesti. Sérhæfðir kajakleiðsögumenn fylgja hópnum alla leið.
  • Norski skerjagarðurinn. Kajak

    Price range: 60.000 kr. through 226.000 kr.
    Fjórir himneskir ferðadagar á kajak 14.-18. ágúst, 2026 Róleg og nærandi kajakferð til Suður-Noregs þar sem ferðast er á milli fallegra og afskekktra eyja og skerja. Aðeins er róið stutt í einu, mikið staldrað við, skoðað, synt og slappað af, auk þess sem sérstakur leiðangurskokkur er með í för til að halda hópnum vel nærðum og glöðum! Svæðið er þekkt fyrir mikla náttúrufegurð og er hluti þess friðaður. Yfir öllu liggur andi gamals tíma, ró og friður. Fátt er eins viðeigandi og að ferðast á kajak um þetta svæði, renna hljóðlaust yfir hafflötinn og njóta nálægðarinnar við náttúruna og fjörlegt fuglalíf. Dagleiðirnar eru mjög stuttar eða frá 2 til 12 km og róið er innan skerjagarðsins í vari fyrir öldum úthafsins. Hópurinn stoppar oft til að njóta umhverfisins, fara í land, ganga og skoða sig um. Þeir sem vilja, geta róið meira útfrá náttstað. Að auki verðum við með veiðistangir og línur svo allir geta reynt sig við að veiða í matinn. Svo er auðvitað ómissandi að skella sér að minnsta kosti einu sinni á dag í hressandi sjósund en sjórinn er að öllu jöfnu um 20° á þessum árstíma. Fyrstu nóttina er gist á hóteli í fallegum strandbæ en næstu þrjár nætur er gist í skálum sem eru hver öðrum glæsilegri og standa allir á draumfögrum og afskekktum eyjum sem aðeins eru aðgengilegar sjóleiðina. Í öllum skálunum er fyrirtaks aðstaða og uppábúin rúm en fólk þarf að koma með eigin skálapoka / lakpoka. Hver og einn flytur sinn eigin farangur og sameiginlegan mat í kajaknum á milli gistiskálanna. Í upphafi ferðarinnar kaupir hópurinn saman í matinn en annar fararstjóranna er lærður kokkur og galdrar fram dásemdarmáltíðir bæði kvölds og morgna. Auk þess verður stoppað á kaffihúsum og veitingastöðum sem finna má á sumum þeirra eyja sem heimsóttar verða. Ferðin tekur í heild fimm daga. Þar af er róið á kajak í fjóra daga en fyrsti dagurinn er ferðadagur. Þátttakendur koma sér til og frá Noregi á eigin vegum. Hópurinn heldur svo af stað frá Osló með rútu eftir hádegi föstudaginn 14. ágúst og ferðinni lýkur í Osló þriðjudagskvöldið 18. ágúst. Ferðin er skipulögð þannig að þátttakendur geta flogið til Oslóar með morgunflugi sama dag og ferðin hefst, þ.e. föstudaginn 14. ágúst og geta annað hvort flogið heim, seint á þriðjudagskvöld 18. ágúst eða gist í Osló í eina nótt eftir ferð og flogið heim á miðvikudagsmorgun 19. ágúst. Athugið að kajaknámskeið og/eða einhver kajakreynsla er forkrafa inn í ferðina. Við bendum á byrjendanámskeið Útihreyfingarinnar sem tekur eitt kvöld og verður haldið í byrjun júní, 2026. Fararstjórar eru Brynhildur Ólafsdóttir og Sirrý Ágústsdóttir. Verð 226.000 kr. Innifalið: Gisting í 4 nætur, allur matur sem borðaður er skálunum, þ.e. morgunmatur, kvöldmatur og nesti, ferðir innan Noregs með rútum og leigubílum, kajakleiga og allur tilheyrandi búnaður. Undirbúningsfundur, leiðsögn og utanumhald. Ekki innifalið: Flug til Noregs. Hægt er að greiða ferð að fullu eða staðfestingargjald 60.000 kr. og eftirstöðvar í síðasta lagi sex vikum fyrir ferð. Lágmarksþátttaka miðar við 10 manns.
    Veldu kosti This product has multiple variants. The options may be chosen on the product page Details
  • Jöklaáskorun Útihreyfingarinnar Þriggja ára stórbrotið ferðalag Jöklafarar er heitið á nýrri áskorun Útihreyfingarinnar þar sem þátttakendur ganga á ferðaskíðum þvert yfir sex stærstu jökla landsins, þ.e. Eyjafjallajökul, Drangajökul, Mýrdalsjökul, Hofsjökul, Langjökul og Vatnajökul. Markmiðið er ekki að fara upp á hæsta tind hvers jökuls fyrir sig, þ.e. fram og til baka, heldur að skíða þvert yfir jöklana þannig að endað sé á öðrum stað en ferðin hófst. Hægt er að klára áskorunina á eigin hraða, þ.e. á eins skömmum eða löngum tíma og hentar hverjum og einum. Hins vegar skipuleggur Útihreyfingin verkefnið og mælir með því að það sé klárað á alls þremur árum frá upphafi til enda, þannig að byrjað sé á æfingum á ferðaskíðum og minni jöklum áður en ráðist er í flóknari og lengri ferðir og jöklaútilegur. Í hnotskurn Við mælum með því að þau sem hafa enga reynslu og eru að byrja frá grunni, hefji vegferðina með því að læra á ferðaskíði þ.e. utanbrautargönguskíði með stálköntum og æfa sig svo vikulega nágrenni Reykjavíkur með Úti ferðaskíðahópnum. Að auki þurfa óvanir að taka kvöldnámskeið þar sem kennd er línuhegðun á jökli og notkun á jöklabroddum og ísöxi. Fyrsta árið er frábært að stefna að því að þvera einn eða alla af þessum þremur jöklum: Drangajökul, Eyjafjallajökul og Langjökul. Þessa jökla er hægt að þvera hvern um sig á einum löngum skíðadegi og því þarf ekki að gista í tjaldi á jökli þetta fyrsta árið. Annað árið mælum við með námskeiðinu Ferðast á gönguskíðum þar sem þátttakendur læra öll trixin við að ferðast með púlku í eftirdragi og tjalda í snjó auk þess sem farið er í æfingaútilegu til að þjálfa handtökin. Að vori er síðan hægt að halda í 3-4 daga ferðir á Hofsjökul annars vegar og Mýrdalsjökul hins vegar. Síðasta árið er svo komið að konungi íslenskra jökla, sjálfum Vatnajökli. Það er ferðalag sem tekur heila viku og þarfnast góðs undirbúnings og æfinga. Ekki aðeins þurfa þátttakendur að vera í góðu líkamlegu formi og þekkja búnaðinn sinn vel, heldur er líka nauðsynlegt að undirbúa hausinn fyrir átökin og langa daga á jökli. Að lokum fá þátttakendur viðurkenningarskjal og heiðursnafnbótina Jöklafari og eru þá komnir með fullan og óskoraðan rétt til að grobba sig á alla jöklakanta, jafnvel á alþjóðavettvangi 🙂 Síðasta tækifærið? Markmið þessa verkefnis er þó ekki eingöngu að vera þátttakendum til skemmtunar og áskorunar. Með frásögnum af ferðunum í máli og myndum, viljum við líka vekja athygli almennings, heima og erlendis, á hraðri bráðnun jöklanna af völdum loftslagshlýnunar. Myndum leiðangursmanna verður m.a. safnað á sameiginlega myndasíðu á samfélagsmiðlum undir samheitinu #lastoftheglaciers eða síðustu jöklarnir. Hópurinn reynir þannig að leggja sín lóð á vogarskálarnar svo að okkar kynslóð verði ekki síðasta kynslóðin sem nýtur þess að ferðast á skíðum um jökla landsins. Skráning Athugið að hvorki er nauðsynlegt að klára áskorunina í ofangreindri röð né á þremur árum. Ef fólk er vant því að ferðast á skíðum þá er hægt að raða jöklaferðunum saman á hvern þann hátt sem hentar og jafnvel byrja á Vatnajökli! Að auki geta þeir sem þegar eru búnir að þvera einhverja jökla auðvitað líka verið með og bætt í safnið. Til að taka þátt þarf aðeins að skrá sig til leiks með því að smella hér. Í kjölfarið verður þér boðið inn í sérstakan FB hóp allra þátttakanda og ævintýrið hefst. Hér að neðan setjum við jafnóðum inn linka inn á viðeigandi jöklaferðir og undirbúningsnámskeið auk ferða sem hægt er að nýta til að æfa skíðatæknina og handtökin. JÖKLAFERÐIR 2026 Eyjafjallajökull. Ný dagsetning fljótlega Drangajökull. Ný dagsetning fljótlega Vatnajökull. 30. apríl - 7. maí. Langjökull. Ný dagsetning fljótlega Mýrdalsjökull. Á dagskrá 2026 Hofsjökull. Á dagskrá 2026 UNDIRBÚNINGSNÁMSKEIÐ 2026 Úti ferðaskíði. Námskeið og æfingahópur. Ný dagsetning fljótlega Ferðast á gönguskíðum. Námskeið og útilega. 21. jan. og 31. jan-1. feb. Vetrarfjallamennska. Grunnnámskeið. Ný dagsetning fljótlega ÆFINGAFERÐIR 2025. Ferðir 2026 detta fljótlega inn Norðurljósaganga á ferðaskíðum. Kvöldganga. 18. jan. Ferð er lokið Þingvellir. Dagsferð. 8. feb. Ferð er lokið Undir Tröllakirkju. Púlkuferðalag. 15.-16. feb. Ferð er lokið Yfir Snæfellsnes. Dagsferð. 22. feb. Ferð er lokið Tvídægra. Skíðað á milli skála. 28. feb-2. mars. Ferð er lokið Ok. Dagsferð. 15. mars. Ferð er lokið Jötunheimar í Noregi. Skíðað á milli skála. 20.-25. mars. Ferð er lokið
  • Ævintýralega góð gjöf Dýrmætasta gjöfin er alltaf samvera með þeim sem þér þykir vænt um. Og það verður ekki betra en þegar samveran er í formi skemmtilegrar útivistar þar sem allir leika sér saman. Gefðu þér eða þínum gjafabréf sem gildir í alla útihreyfingu, námskeið eða ævintýri Útihreyfingarinnar. Það er hægt er að velja upphæð hér að neðan. Svo má senda póst á utihreyfingin@utihreyfingin.is til að gefa gjafabréf með upphæð að eigin vali eða til að panta gjafabréf inn í sérstaka ævintýraferð með Útihreyfingunni. Gjafabréfið kemur fallega uppsett í tölvupósti til útprentunar.
Go to Top