• Kvöldganga í ljósadýrð 23. janúar Við fögnum myrkrinu og snjónum á köldu janúarkvöldi með því að halda í stjörnu- og norðurljósaskoðun á gönguskíðum. Markmiðið er að njóta kvöldsins, spjalla og fræðast um ljósasýningu himingeimsins, bæði stjörnur og norðurljós. Með því að ganga á skíðum halda allir sér heitum í vetrarnóttinni en við setjum líka upp tjald þar sem hægt er að leita skjóls og kveikjum lítinn varðeld auk þess að ylja okkur saman á heitu súkkulaði undir stjörnubjörtum himninum. Stefnt er að því að ganga í nágrenni höfuðborgarsvæðisins, kl. 20, föstudagskvöldið 23. janúar og að ferðin taki alls 2-3 klst., þannig að þátttakendur verði komnir heim og undir sæng fyrir miðnætti. Athugið að áfangastaðurinn miðar þó alltaf við snjóalög, veður og ekki síst skýjahuluspá en það getur reynst nauðsynlegt að færa ferðina fram eða aftur um eitt eða tvö kvöld, eftir spá. Ferðalagið hentar öllum getustigum og er tilvalið fyrir byrjendur á ferðaskíðum. Þátttakendur fá nánari upplýsingar og búnaðarlista í tölvupósti í aðdraganda ferðar en þurfa að lágmarki að eiga eftirfarandi búnað, fá hann lánaðan eða leigðan: Ferðaskíði, þ.e. utanbrautarskíði með stálköntum, skinn undir skíðin og skíðastafi. Hægt er að leigja skíði á nokkrum stöðum, m.a. hjá skíðaleigu Útilífs. Ferðin kostar 14.900 kr. og innifalið er leiðsögn og utanumhald.
  • Dagsganga í jaðri þjóðgarðsins 14. febrúar Þjóðgarðurinn á Þingvöllum er dásamlegt útivistarsvæði allan ársins hring en vetrarferðir þangað eru í sérstöku uppáhaldi hjá Útihreyfingunni. Þar sem Þingvellir liggja að nokkru ofan í sigdal, þá geta frosthörkur orðið þar miklar og sambland íss og snævar breytt svæðinu í stórkostlegt undraland. Langskemmtilegast, og raunar auðveldast líka, er að njóta þessarar dýrðar á ferðaskíðum. Það þarf þó ætíð að fara mjög varlega þegar ferðast er um Þingvallasvæðið og sérstaklega að vetri til, þar sem alls konar holur, gjótur og gjár geta leynst undir snjónum. Því mælum við alltaf með því að fylgja einhverjum sem þekkir til og veit hvar best er að fara. Í þessari ferð er stefnt að því að ganga um austurhluta þjóðgarðsins, og fara skemmtilega hringleið um Reyðarbarm, Hrútafjöll og Stóra Dímon, alls um 15 km, sem tekur um 5-6 klst. Fyrsta hluta leiðarinnar er gengið nokkuð jafnt og þétt upp í móti en hvergi mjög bratt og um leið og haldið er til baka þá tekur við þægileg lækkun, jafnvel þannig að hægt verður að renna sér frekar áreynslulaust nánast alla leið aftur í bíl! Lagt er af stað kl. 8 á laugardagsmorgni úr Reykjavík og stefnt að því að komið sé til baka til Reykjavíkur ekki seinna en um kl. 16. Athugið að endanleg ferðatilhögun svona skíðaferða þarf alltaf að taka tillit til bæði veðurs og snjóalaga. Þannig gæti þurft að breyta leiðarvali og ef veðurspáin er óhagstæð fyrir laugardaginn, er mögulegt að ferðin verði færð yfir á sunnudag. Þátttakendur fá nánari upplýsingar og búnaðarlista í tölvupósti í aðdraganda ferðar en þurfa að lágmarki að eiga eftirfarandi búnað, fá hann lánaðan eða leigðan: Ferðaskíði, þ.e. utanbrautarskíði með stálköntum, skinn undir skíðin og skíðastafi. Hægt er að leigja skíði á nokkrum stöðum, m.a. hjá skíðaleigu Útilífs. Ferðin kostar 19.900 kr. og innifalið er leiðsögn og utanumhald.
  • Tveggja kvölda grunnnámskeið 2. og 9. febrúar Á þessu tveggja kvölda námskeiði er fjallað um þrennuna sem alltaf er skyldubúnaður þegar ferðast er um jökla landsins og fjalllendi að vetri til, þ.e. ísbrodda, gönguísaxir og göngubelti. Fyrra kvöldið hittast þátttakendur á stuttum rafrænum fræðslufundi þar sem farið er yfir grunnatriðin sem hafa þarf á tæru. Hver er munurinn á mismunandi tegundum brodda, axa og belta? Hvað þarf að hafa í huga þegar þessir hlutir eru keyptir? Hvernig á að stilla þá og passa að þeir sitji rétt og hvað ber að varast? Seinna kvöldið er svo haldið til fjalla í nágrenni Reykjavíkur á 2-3 klst. verklega æfingu. Áfangastaðurinn fer eftir aðstæðum hverju sinni en á æfingunni er kennt á ísbrodda auk þess sem notkun þeirra og beiting er æfð við mismunandi aðstæður og í mismunandi halla. Þá er farið yfir notkun gönguísaxar í brattlendi og á jöklum og ísaxabremsa æfð við mismunandi aðstæður. Ennfremur er kennt hvaða reglur gilda um notkun línu þegar ferðast er í hópi á jökli og hvað megi teljast til góðrar línuhegðunar. Þátttakendur þurfa að eiga, leigja eða fá lánaða ísbrodda, gönguöxi og belti. Hægt er að leigja þennan búnað á nokkrum stöðum, m.a. hjá Útilíf. Nauðsynlegt er að hafa lokið þessu námskeiði eða sambærilegu til að taka þátt í vetrarfjallgöngum og jöklaferðum með Útihreyfingunni. Námskeiðið kostar 19.900 kr. Leiðbeinandi er Róbert Marshall.
  • Stutt upphafsnámskeið á brautarskíðum 5. - 10. janúar Allir geta gengið á skíðum og allir ættu að læra þessa frábæru íþrótt sem reynir á allan líkamann og eykur úthald, þol og styrk. Við hjá Útihreyfingunni höldum því fram að hvort sem fólk stefni á frama og verðlaunapalla í skíðagöngukeppnum eða þverun jökla á ferðaskíðum með púlkur í eftirdragi, þá þurfi allir að byrja á því að læra undirstöðutæknina í skíðagöngu í braut. Grunntæknina verður að læra í spori áður en sá lærdómur er yfirfærður yfir á ferðaskíðin, þannig að fólk geti byrjað að láta skíðin vinna fyrir sig og svífi áfram í staðinn fyrir að þramma! Þetta námskeið er því bæði hugsað fyrir byrjendur á brautarskíðum sem og þá sem hafa hingað til aðeins gengið á ferðaskíðum en vilja bæta tæknina. Þetta er líka frábært upphafsnámskeið fyrir skíðavertíðina, þ.e. fyrir þá sem þegar kunna eitthvað á brautarskíðum, en þurfa að rifja upp grunntæknina og taktana! Námskeiðið hefst á rafrænum fræðslufundi þar sem fjallað er um hvað þarf að hafa í huga þegar kemur að búnaði, hver er munurinn á mismunandi skíðategundum, skíðaskóm og stöfum og hvernig á að klæða sig þegar gengið er á skíðum í spori. Á fyrstu æfingunni er svo komið að því að læra á búnaðinn, hvernig á að spenna á sig skíðin, hvernig best er að detta (því allir detta!) og taka fyrstu skíðagöngusveifluna :) Fyrstu þrjár æfingarnar eru skipulagðar dag eftir dag en einmitt með því að láta ekki of langan tíma líða á milli æfinga í upphafi, nær fólk mestum árangri og framförum. Lögð er megináhersla á að allir þátttakendur læri taktinn og nái tökum á vanaganginum, þ.e. klassíska sporinu í skíðagöngunni með alls konar tækniæfingum og leikjum. Að auki fá þátttakendur grunnkennslu í öðrum skíðagöngusporum svo sem ýtingum, ýtingum með frásparki, síldarbeinagangi upp brekkur og æfingu í því að renna niður brekkur. Hver kennslustund tekur um 2 klukkustundir og kennsla fer fram á skíðagöngusvæðinu í Bláfjöllum. Aðgangur að svæðinu er ekki innifalinn í verði. Dagskrá námskeiðsins
    • Mán. 5. jan. Kl. 20. Fræðslufundur
    • Þri. 6. jan. Kl. 18
    • Mið. 7. jan. Kl. 18
    • Fim. 8. jan. Kl. 18
    • Lau. 10. jan. Kl. 10
    Athugið að veður og snjóalög setja mjög oft strik í reikninginn þegar kemur að lagningu skíðaspora og því gæti þurft að hliðra kennslunni til um einhverja daga. Þátttakendur þurfa að eiga eða leigja brautargönguskíði, gönguskíðaskó og stafi. Hægt er að leigja skíði á nokkrum stöðum, m.a. hjá skíðaleigu Everest. Leiðbeinendur á námskeiðinu eru Brynhildur Ólafsdóttir og Róbert Marshall, þrautreynt skíðagöngufólk með réttindi. Námskeiðið kostar 28 þúsund kr. Skráðir þátttakendur fá nánari upplýsingar í tölvupósti í aðdraganda námskeiðsins. Umsagnir
    • Ég hef áður farið á helgarnámskeið en fagmennskan hér er framúrskarandi í samanburði.
    • Gleði og þolinmæði kennaranna er áberandi.
    • Gott að geta klárað þetta á stuttum tíma í stað þess að draga þetta yfir nokkrar vikur.
    • Námskeiðið er vel upp byggt og frábært að blanda leikjum saman við tækniæfingar.
    • Skilvirkar æfingar, ég náði miklum framförum á fáum skiptum.
    • Frábært námskeið og rosa gaman.
    • Allt skemmtilegt og gaman að brjóta kennsluna upp með leikjum.
  • Jöklaáskorun Útihreyfingarinnar 30. apríl - 7. maí Stórkostlegur vikulangur leiðangur þar sem sjálfur konungur jöklanna, Vatnajökull, er genginn endilangur á ferðaskíðum. Svona leiðangrar verða jafnan eitt af stærstu ævintýrunum í lífi hverrar manneskju. Við lofum ógleymanlegu, valdeflandi og krefjandi ferðalagi, fyrir bæði líkama og sál. Þátttakendur ganga á svokölluðum ferðaskíðum (utanbrautargönguskíðum með stálköntum) og draga púlkur / sleða með öllum farangrinum á eftir sér. Gist er í tjöldum á jöklinum í fjórar nætur en eina nótt í skála á Grímsfjalli. Gert er ráð fyrir að jöklagangan sjálf taki 6-7 daga en nokkrir dagar eru hafðir til vara ef hópurinn þarf að hafast við á jöklinum og bíða af sér veður og jafnframt til að gera ráð fyrir ferðalögum til og frá jökli. Það fer eftir færð og veðri í aðdraganda ferðar hvort gengið verður frá austri til vesturs eða frá vestri til austurs. Leiðangurinn hefst því annað hvort við Jöklasel á Skálafellsjökli við suðurbrún Vatnajökuls eða upp frá Jökulheimum undir Tungnaárjökli við vesturbrún jökulsins. Ógnarfegurð, alger kyrrð og mikil núvitund felst í svona löngu ferðalagi yfir jökul. Fegurðin getur stundum verið yfirþyrmandi. Rósrauð sólris og sólsetur einkenna jökulinn og á leiðinni gefst stórkostlegt útsýni á marga af hæstu tindum landsins. Oft er þó líka gengið í hrímþoku eða algerri hvítablindu sem reynir á skilningarvitin á allt annan hátt. Þegar ferðalagið er nokkurn veginn hálfnað, nánast á miðjum jöklinum, er komið á Grímsfjall við Grímsvatnaeldstöðina. Þar bíður vistlegur skáli Jöklarannsóknarfélagsins eftir göngufólkinu, hlýr og notalegur. Í skálanum er hægt að kjarna sig, elda dýrindismat, þurrka föt ef á þarf að halda og síðast en ekki síst láta þreytuna líða úr sér í goðsagnakenndu jöklagufubaði! Heildarvegalengd leiðangursins er 130 km og gert er ráð fyrir að hópurinn skíði 20-25 km á hverjum degi, eftir færð og veðri. Þetta er krefjandi ferð sem hentar vönu ferðafólki með reynslu af vetrarferðalögum eða fólki sem ætlar að nota veturinn fyrir leiðangurinn til að læra og æfa sig. Við bendum fólki á að nota æfingahópinn Úti ferðaskíði og námskeiðið Ferðast á gönguskíðum, en hvoru tveggja verður á dagskrá í janúar 2026. Þeir sem ekki eru vanir jöklaferðum þurfa að auki að hafa tekið námskeiðið Vetrarfjallamennska (sem er líka alltaf á dagskrá Útihreyfingarinnar á vormánuðum) eða sambærilegt. Gert er ráð fyrir að hópurinn hittist töluvert og kynnist fyrir ferð og æfi sig að einhverju leyti saman, en stungið verður upp á sameiginlegum ferðum og æfingum í aðdraganda leiðangursins. Brynhildur Ólafsdóttir og Helga María Heiðarsdóttir leiða ferðina en báðar eru mjög reynslumiklar og hafa leiðsagt fjölmargar ævintýraferðir, bæði hérlendis og erlendis. Þær eru með gilt Wilderness First Responder skírteini og hafa lokið réttindanámi hjá Félagi íslenskra fjallaleiðsögumanna (AIMG), bæði í fjalla- og jöklaleiðsögn. Ferðin kostar 265.000 kr. Athugið að hægt er að greiða ferðina í einu lagi eða skipta greiðslum eins og hver og einn kýs inni í greiðsluferlinu sjálfu. Innifalið í verðinu er gisting í eina nótt á Grímsfjalli, far með jepparútum til og frá Reykjavík og að og frá jökli, nokkrir undirbúningsfundir, aðstoð með búnað, næringu, æfingaáætlun og pökkun, ein óveðursútilega í aðraganda ferðar ásamt leiðsögn og utanumhaldi í sjálfum leiðangrinum. Jöklafarar Þessi ferð telst hluti af verkefninu Jöklafarar sem er jöklaáskorun Útihreyfingarinnar, þar sem gengið er á ferðaskíðum yfir sex stærstu jökla landsins. Sjá nánar hér.
  • Fjórar þrautir: Ferðaskíði. Fjallganga. Fjallahjól. Sundhlaup Skráningu lýkur 4. janúar Útinaglinn er ný útivistar- og ævintýraáskorun, hönnuð fyrir þau sem vilja sameina útivist og þol, halda sér í formi og stíga örlítið út fyrir þægindarammann í þéttum og skemmtilegum félagsskap. Þetta er ferðalag í fjórum áföngum því þátttakendur taka þátt í fjórum mismunandi þrautum yfir árið. Árið 2026 eru það ferðaskíði, fjallganga, fjallahjól og sundhlaup. Þau sem klára allar fjórar þrautir ársins fá heiðursnafnbótina Útinaglinn 2026. Á hverju ári verða svo nýjar áskoranir og þrautir á nýjum slóðum, því markmiðið er að halda sér í frábæru útivistarformi með því að hafa alltaf skemmtileg, krefjandi og fjölbreytt verkefni til að stefna að. Útinaglaþrautirnar eru ekki keppnir, heldur alvöru útivistaráskoranir. Þetta eru ólíkar áskoranir en allar krefjast bæði úthalds og þrautseigju þar sem þú sjálf/ur ert þinn eini keppandi. Í leiðinni kynnistu nýju fólki, nýjum stöðum, lærir eitthvað nýtt, styrkir þig og bætir og færð mögulega nýja sýn á þig og þína getu! Naglaþrautir 2026 11. apríl. Ferðaskíði um Tröllakirkju Einn dagur. 10., 11. eða 12. apríl* Skíðað umhverfis Tröllakirkju á Holtavörðuheiði. 32 km Ekið samdægurs til og frá Rvk 23. maí. Fjallganga á Þverártindsegg Einn dagur. 22., 23. eða 24. maí* Jöklaganga á Þverártindsegg. 17 km Gist í Öræfum á eigin vegum 20. júní. Fjallahjól að Fjallabaki Einn dagur. 19., 20. eða 21. júní* Hjólað frá Landmannahelli í Hvanngil. 53 km Gist að Fjallabaki á eigin vegum 18. júlí. Sundhlaup í Gufunesi og Viðey** Einn dagur. 17., 18. eða 19. júlí* Hlaupið í Gufunesi. 2 km Synt frá Gufunesi í Viðey. 750 m Hlaupið í Viðey. 4,5 km Synt frá Viðey í Gufunes. 750 m Hvernig virkar þetta?
    • Árið 2026 er prufukeyrsla og aðeins 40 pláss í boði
    • Þátttaka í öllum fjórum Naglaþrautunum kostar 128 þúsund og þátttakendur skrá sig skuldbindandi inn í allar fjórar þrautirnar í einu lagi
    • Ef hópurinn fyllist ekki, er mögulegt að selt verði inn í stakar þrautir
    • Æfingar og undirbúningur fyrir þrautirnar fara fram í Útiræktinni og þátttakendur þurfa því að vera áskrifendur í aðdraganda þrautanna
    • Hægt er að slást í hópinn til áramóta, ef pláss leyfir
    Vertu með frá upphafi og komdu þér í frábært útivistarform til að geta tekist á við öll þau dásamlegu útivistarævintýri sem íslensk náttúra býður upp á. Skráning hér að neðan! *Athugaðu að við tökum þrjár dagsetningar frá fyrir hverja þraut. Stefnt er að því að halda þær allar á laugardegi, en ef veðrið er ekki að spila með, þá eru föstudagar og sunnudagar hafðir til vara. Ef veður er ekki hagstætt alla þessa þrjá daga, þá reynum við að flytja þrautina á milli landshluta. Og ef svo ólíklega vill til að það verði óveður um allt land, þá finnum við nýja dagsetningu fyrir uppbótarþraut, innan ársins. **Sundhlaup, hvað er nú það? Þetta er íþrótt sem rekur rætur sínar til fjögurra vina sem skoruðu hvert á annað að synda og hlaupa um 75 km leið í sænska skerjagarðinum. Og já, þau voru víst dálítið við skál þegar þetta var ákveðið :) Hér eru flottar upplýsingar frá áströlsku sundhlaupssamtökunum. Annars höldum við hjá Útihreyfingunni að mögulega sé þetta í fyrsta sinn sem sundhlaupsþraut er sett á dagskrá á Íslandi!
  • Stutt ferðaskíðanámskeið fyrir byrjendur 12. - 17. janúar Markmið námskeiðsins er að þátttakendur fái að kynnast ferðaskíðum / utanbrautarskíðum og þessum frábæra ferðamáta sem sameinar skíðagöngu, náttúruupplifun og vetrargleði. Þetta er stutt, snarpt en hagnýtt námskeið þar sem þú fræðist um muninn á mismunandi búnaði, lærir á skíðin og skinnin, kynnist grunntækni í beitingu skíðanna og hvernig við skíðum örugglega og áreynslulaust á mismunandi undirlagi. Við byrjum rólega, lærum á skíðin, bindingarnar og skinnin og tökum svo fyrstu skrefin í brekkum og hliðarhalla, mismunandi færi og í fjölbreyttu landslagi. Námskeiðið samanstendur af rafrænum fræðslufundi og tveimur skíðaæfingum sem taka um 2 klst hvor. Staðsetning æfinganna fer eftir snjóalögum og færð, en reynt er að miða við að ekki taki meira en 30-40 mínútur að aka frá Reykjavík á æfingastaðinn. Dagskrá námskeiðsins
    • Mán. 12. jan. Kl. 20. Rafrænn fræðslufundur
    • Mið. 14. jan. Kl. 18. Æfing
    • Lau. 17. jan. Kl. 10. Æfing
    Í kjölfar námskeiðsins býðst þeim, sem vilja halda áfram, að skrá sig í Æfingahópinn Úti ferðaskíði, þar sem við ferðumst meira, heimsækjum fullt af skemmtilegum áfangastöðum, dýpkum tæknina og njótum vetrarins saman. Þátttakendur þurfa að eiga eða leigja ferðaskíði, þ.e. utanbrautarskíði með stálköntum. Hægt er að leigja skíði á nokkrum stöðum, m.a. hjá skíðaleigu Útilífs. Athugaðu að ef þú hefur aldrei gengið á gönguskíðum, þá er gott að byrja á því að læra á brautarskíði, áður en þú færir þig yfir á ferðaskíðin. Sjá t.d. námskeiðið Úti brautarskíði.  Leiðbeinendur eru Brynhildur Ólafsdóttir og Róbert Marshall, sem hafa menntað sig sem skíðakennarar og gengið á ferðaskíðum þvers og kruss, bæði á Íslandi og erlendis, eru með réttindi hjá Félagi íslenskra fjallaleiðsögumanna og gilt skírteini í WFR eða Fyrstu hjálp í óbyggðum. Skráðir þátttakendur fá nánari upplýsingar í tölvupósti í aðdraganda námskeiðsins.
  • Þriggja daga púlkuleiðangur. Ein nótt í tjaldi og ein í skála. 20.-22. febrúar Margar gamlar þjóðleiðir og fjöldi skemmtilegra slóða liggja um Skaftártungu og heiðarnar austan Mýrdalsjökuls. Þetta er frekar sjaldfarið svæði en gríðarlega margt að sjá og skoða og sagan lifnar hér við hvert fótmál. Í þessum leiðangri er ætlunin að fara góða hringleið um svæðið á ferðaskíðum (utanbrautarskíðum) með púlku í eftirdragi og leggja að baki um 50 km á þremur dögum. Fyrri nóttina verður gist í tjaldi en þá síðari í huggulegum og rúmgóðum fjallaskála. Ferðin hefst við nyrstu bæi í Skaftárhreppi, þaðan sem lagt er upp á Ljótarstaðaheiði. Stefnan er tekin norður undir Svartahnúk, þar sem slegið verður upp tjöldum eftir 15-20 km skíðagöngu, eftir færð og snjóalögum. Daginn eftir verður farin um 12 km leið, framhjá skálanum í Álftavötnum (sem ekki skyldi rugla saman við skálann við Álftavatn), yfir Syðri-Ófæru og í Hólaskjól, skálann í Lambaskarðshólum. Þar verður hægt að koma sér vel fyrir, slá upp veislu og henda í góða fjallakvöldvöku. Síðasta daginn er svo stefnan tekin stystu leið aftur niður í byggð og í bíla, 15-20 km leið. Þátttakendur þurfa að hafa nokkuð gott vald á ferðaskíðum og treysta sér í að skíða með púlkur í eftirdragi bæði upp og niður. Við bendum fólki á æfingahópinn Úti ferðaskíði ásamt námskeiðinu Ferðast á gönguskíðum. Athugið að endanleg ferðatilhögun þarf alltaf að taka tillit, bæði til veðurs og snjóalaga. Þannig gæti þurft að breyta leiðarvali vegna snjóleysis og að auki gæti þurft að hnika ferðinni fram eða aftur um dag, vegna veðurs. Haldinn verður rafrænn undirbúningsfundur í aðdraganda ferðar, þar sem farið verður yfir ferðatilhögun og búnaðarpælingar auk þess sem þátttakendur fá ítarlegan upplýsinga- og búnaðapóst. Fararstjórar eru Brynhildur Ólafsdóttir og Róbert Marshall.
Go to Top