• Norski skerjagarðurinn. Kajak

    Price range: 60.000 kr. through 226.000 kr.
    Fjórir himneskir ferðadagar á kajak 14.-18. ágúst, 2026 Róleg og nærandi kajakferð til Suður-Noregs þar sem ferðast er á milli fallegra og afskekktra eyja og skerja. Aðeins er róið stutt í einu, mikið staldrað við, skoðað, synt og slappað af, auk þess sem sérstakur leiðangurskokkur er með í för til að halda hópnum vel nærðum og glöðum! Svæðið er þekkt fyrir mikla náttúrufegurð og er hluti þess friðaður. Yfir öllu liggur andi gamals tíma, ró og friður. Fátt er eins viðeigandi og að ferðast á kajak um þetta svæði, renna hljóðlaust yfir hafflötinn og njóta nálægðarinnar við náttúruna og fjörlegt fuglalíf. Dagleiðirnar eru mjög stuttar eða frá 2 til 12 km og róið er innan skerjagarðsins í vari fyrir öldum úthafsins. Hópurinn stoppar oft til að njóta umhverfisins, fara í land, ganga og skoða sig um. Þeir sem vilja, geta róið meira útfrá náttstað. Að auki verðum við með veiðistangir og línur svo allir geta reynt sig við að veiða í matinn. Svo er auðvitað ómissandi að skella sér að minnsta kosti einu sinni á dag í hressandi sjósund en sjórinn er að öllu jöfnu um 20° á þessum árstíma. Fyrstu nóttina er gist á hóteli í fallegum strandbæ en næstu þrjár nætur er gist í skálum sem eru hver öðrum glæsilegri og standa allir á draumfögrum og afskekktum eyjum sem aðeins eru aðgengilegar sjóleiðina. Í öllum skálunum er fyrirtaks aðstaða og uppábúin rúm en fólk þarf að koma með eigin skálapoka / lakpoka. Hver og einn flytur sinn eigin farangur og sameiginlegan mat í kajaknum á milli gistiskálanna. Í upphafi ferðarinnar kaupir hópurinn saman í matinn en annar fararstjóranna er lærður kokkur og galdrar fram dásemdarmáltíðir bæði kvölds og morgna. Auk þess verður stoppað á kaffihúsum og veitingastöðum sem finna má á sumum þeirra eyja sem heimsóttar verða. Ferðin tekur í heild fimm daga. Þar af er róið á kajak í fjóra daga en fyrsti dagurinn er ferðadagur. Þátttakendur koma sér til og frá Noregi á eigin vegum. Hópurinn heldur svo af stað frá Osló með rútu eftir hádegi föstudaginn 14. ágúst og ferðinni lýkur í Osló þriðjudagskvöldið 18. ágúst. Ferðin er skipulögð þannig að þátttakendur geta flogið til Oslóar með morgunflugi sama dag og ferðin hefst, þ.e. föstudaginn 14. ágúst og geta annað hvort flogið heim, seint á þriðjudagskvöld 18. ágúst eða gist í Osló í eina nótt eftir ferð og flogið heim á miðvikudagsmorgun 19. ágúst. Athugið að kajaknámskeið og/eða einhver kajakreynsla er forkrafa inn í ferðina. Við bendum á byrjendanámskeið Útihreyfingarinnar sem tekur eitt kvöld og verður haldið í byrjun júní, 2026. Fararstjórar eru Brynhildur Ólafsdóttir og Sirrý Ágústsdóttir. Verð 226.000 kr. Innifalið: Gisting í 4 nætur, allur matur sem borðaður er skálunum, þ.e. morgunmatur, kvöldmatur og nesti, ferðir innan Noregs með rútum og leigubílum, kajakleiga og allur tilheyrandi búnaður. Undirbúningsfundur, leiðsögn og utanumhald. Ekki innifalið: Flug til Noregs. Hægt er að greiða ferð að fullu eða staðfestingargjald 60.000 kr. og eftirstöðvar í síðasta lagi sex vikum fyrir ferð. Lágmarksþátttaka miðar við 10 manns.
    Veldu kosti This product has multiple variants. The options may be chosen on the product page Details
  • Þriggja daga púlkuleiðangur. Ein nótt í tjaldi og ein í skála. 20.-22. febrúar Margar gamlar þjóðleiðir og fjöldi skemmtilegra slóða liggja um Skaftártungu og heiðarnar austan Mýrdalsjökuls. Þetta er frekar sjaldfarið svæði en gríðarlega margt að sjá og skoða og sagan lifnar hér við hvert fótmál. Í þessum leiðangri er ætlunin að fara góða hringleið um svæðið á ferðaskíðum (utanbrautarskíðum) með púlku í eftirdragi og leggja að baki um 50 km á þremur dögum. Fyrri nóttina verður gist í tjaldi en þá síðari í huggulegum og rúmgóðum fjallaskála. Ferðin hefst við nyrstu bæi í Skaftárhreppi, þaðan sem lagt er upp á Ljótarstaðaheiði. Stefnan er tekin norður undir Svartahnúk, þar sem slegið verður upp tjöldum eftir 15-20 km skíðagöngu, eftir færð og snjóalögum. Daginn eftir verður farin um 12 km leið, framhjá skálanum í Álftavötnum (sem ekki skyldi rugla saman við skálann við Álftavatn), yfir Syðri-Ófæru og í Hólaskjól, skálann í Lambaskarðshólum. Þar verður hægt að koma sér vel fyrir, slá upp veislu og henda í góða fjallakvöldvöku. Síðasta daginn er svo stefnan tekin stystu leið aftur niður í byggð og í bíla, 15-20 km leið. Þátttakendur þurfa að hafa nokkuð gott vald á ferðaskíðum og treysta sér í að skíða með púlkur í eftirdragi bæði upp og niður. Við bendum fólki á æfingahópinn Úti ferðaskíði ásamt námskeiðinu Ferðast á gönguskíðum. Athugið að endanleg ferðatilhögun þarf alltaf að taka tillit, bæði til veðurs og snjóalaga. Þannig gæti þurft að breyta leiðarvali vegna snjóleysis og að auki gæti þurft að hnika ferðinni fram eða aftur um dag, vegna veðurs. Haldinn verður rafrænn undirbúningsfundur í aðdraganda ferðar, þar sem farið verður yfir ferðatilhögun og búnaðarpælingar auk þess sem þátttakendur fá ítarlegan upplýsinga- og búnaðapóst. Fararstjórar eru Brynhildur Ólafsdóttir og Róbert Marshall.
  • Fjallastígar Mallorca. Gönguferð

    Price range: 80.000 kr. through 348.000 kr.
    Upplifunarveisla fyrir sál og líkama 19.-27. apríl Í þessari ferð þarf oft að stoppa. Anda inn. Anda út. Og andvarpa svo af ánægju yfir lífsins lystisemdum. Gengið er á aldagömlum steinlögðum stígum um Tramuntana fjöllin á spænsku eyjunni Mallorca. Á milli friðsælla strand- og fjallaþorpa, um ilmandi appelsínu- og sítrónulundi, gil og klettaborgir, blágræn fjallavötn og litlar sandvíkur. Fjölbreytt dýralíf, marglitt blómskrúð og ævaforn, kræklótt ólífutré gleðja augað við hvert fótmál. Svo ekki sé talað um matinn! Ferskur fiskur, ferskur appelsínusafi, sælkeratómatar, ólífur fyrir alla bragðlauka, brakandi súrdeigsbrauð, bragðsterkar harðpulsur og ótrúlegir eftirréttir úr möndlum og hunangi sem hvoru tveggja eru þekktar landbúnaðarafurðir frá eyjunni. Þetta er hlið á Mallorca sem fæstir kynnast og er í órafjarlægð og hrópandi andstöðu við háværa strandbari og yfirfullar sólarstrendur sem er ímynd flestra af þessari fallegu Miðjarðarhafseyju. Ferðin tekur alls níu daga en fyrsti og síðasti dagurinn eru ferðadagar. Gengið er í sex daga og dagleiðirnar eru frekar þægilegar og engin lengri en 15 km. Einn hvíldardagur er í lok ferðar í dásemdar afslöppun og dekri í gríðarfallegum strandbæ. Gist er í fimm nætur á hótelum og gistiheimilum, tvær nætur í fjallaskálum og eina nótt á lúxushóteli. Athugið að þar sem ekki er hægt að trússa farangur í fjallaskálana, þá þurfa þátttakendur að ganga með bakpoka með fötum til skiptanna þá daga. Annars verður farangur fluttur á milli næturstaða. Ferðin hefst í Barcelona seinnpart sunnudaginn 19. apríl, þaðan sem hópurinn flýgur saman til Mallorca. Frá flugvellinum er ferðast í smárútu upp í Tramuntana fjöllin og fyrstu nóttina er gist í sögufrægu og afar fallegu fjallaþorpi, þar sem tími gefst til að skoða sig aðeins um og snæða góðan kvöldverð. Daginn eftir er gengið yfir Tramuntana fjallgarðinn og byrjað á því að ganga upp á ríflega 900 metra hátt fjall þar sem stórkostlegt útsýni opnast yfir stóran hluta Mallorca. Svo er fetað hægt og rólega niður bratt gil og niður í annað ekki síður fallegt fjallaþorp þar sem gist er um nóttina. 12 km. 700 m hækkun. Á þriðja degi er byrjað á því að ganga niður að sjó til að taka smá dýfu, áður en haldið verður eftir stíg sem liggur eftir norðurströnd eyjunnar með útsýni yfir blágrænt hafið og friðsæla aldinlundi. Næstu tvær nætur er gist í litlum strandbæ þar sem hægt er að busla í sjónum og gæða sér á nýveiddu fiskmeti. 13 km. 500 m hækkun. Á fjórða degi er gengið um vínekrur og á fremur fáförnum stíg meðfram sjávarsíðunni að dásamlegum hálfföldum ströndum, þar sem hægt er að fara í sjóinn eða bara taka því rólega. Hópurinn siglir til baka með báti en það er ekki síður upplifun að sjá klettótta strandlengjuna frá hafi. Gist er á sama hóteli og nóttina áður. 10 km. 350 m hækkun. Fimmti dagurinn hefst á menningarlegu ferðalagi með opnum sporvagni inn í næsta þorp þar sem kíkt verður á lítil söfn með verkum Picasso og Miró, rölt á milli búða og bragðað á dæmigerðum réttum eyjunnar. Um hádegisbil nær smárúta í hópinn og skutlar honum að stíg sem liggur upp á snarbratta en hreint ótrúlega fallega klettaborg sem hýsir gamla kapellu og lítinn kastala sem búið er að breyta í fjallaskála. Útsýnið er óviðjafnanlegt og næturstaðurinn svo einstakur að honum verður vart lýst með orðum. Þetta er einfaldlega eitthvað sem fólk verður að upplifa á eigin skinni! 6 km. 600 m hækkun. Á sjötta degi er haldið niður af klettaborginni og rölt upp í annan fjallaskála sem er umvafinn aldingarði með kvakandi froskum! Þetta er léttur dagur og nægur tími til að slaka á og skoða umhverfið. 14 km. 400 m hækkun. Fimmti dagurinn er lengsti göngudagurinn en stærsti hluti leiðarinnar liggur niður í móti. Gengið er um gil, í gegnum nokkur lítil jarðgöng allt þar til komið er að gríðarstóru uppistöðulóni. Skömmu síðar hefst niðurgangan, á ævafornum steinlögðum götum niður þverbratt en geysifagurt gil, um falleg fjallaþorp og á stórskemmtilegt lítið gistiheimili. Um kvöldið verður farið á einhvern besta veitingastað Mallorca, sem sérhæfir sig í óvenjulegum og hreint ótrúlega bragðgóðum smáréttum. 15 km. 600 m hækkun og 1200 m lækkun. Næstsíðasti dagurinn er dekurdagur og hefst á um klukkustundar löngu rútuferðalagi beint á lúxushótel við draumfagra strönd. Hér er hægt að láta gönguþreytuna líða úr sér í leti, synda í sjónum eða liggja marflöt undir sólhlíf. Hópurinn snæðir svo saman síðustu kvöldmáltíðina og nóg er úrvalið. Snemma síðasta daginn ferðast hópurinn með rútu á flugvöllinn í Mallorca og flýgur til Barcelona þar sem ferð lýkur í tæka tíð til að hægt sé að ná flugi seinnipart dags heim til Íslands eða hvert á land sem er. Leiðsögumenn ferðarinnar eru Brynhildur Ólafsdóttir og matgæðingurinn Sirrý Ágústsdóttir, sem mun hafa yfirumsjón með matarupplifun hópsins. Innifalið í ferðinni, sem kostar 348 þúsund er flug frá Barcelona til Mallorca og til baka, gisting í átta nætur, allur morgunmatur og tvær kvöldmáltíðir, flutningur á farangri og allar ferðir með smárútum, báti, sporvagni etc. innan Mallorca, undirbúningsfundur, leiðsögn og utanumhald. Athugið að flug til og frá Barcelona er ekki innifalið en ferðin er skipulögð þannig að þátttakendur geta flogið frá Íslandi til Barcelona, á upphafsdegi ferðarinnar, þ.e. snemma sunnudaginn 19. apríl og heim frá Barcelona, sama dag og ferð líkur, þ.e. mánudaginn 27. apríl. Lágmarksþátttaka miðar við 10 manns. Sökum þess að ekki er hægt að tryggja gistingu í fjallaskálunum nema með því að bóka hana nokkra mánuði fram í tímann, þá er nauðsynlegt að áhugasamir greiði staðfestingargjald ferðarinnar sem fyrst. Eftirstöðvar eru síðan greiddar í síðasta lagi sex vikum fyrir ferð.
    Veldu kosti This product has multiple variants. The options may be chosen on the product page Details
  • Himneskir Jötunheimar. Ferðaskíði

    Price range: 80.000 kr. through 297.000 kr.
    Skíðað á milli skála í Noregi 19.-24. mars Við höldum áfram að kanna ný svæði í Jötunheimum í Noregi, sem líkja má við Fjallabak okkar Íslendinga. Þetta stórkostlega fjallahérað er eitt vinsælasta útivistarsvæði Norðmanna, umkringt jöklum og hæstu fjöllum landsins. Á milli fjallanna liggja stór og mikil vötn sem á veturnar bjóða upp á sannkallaðar himnabrautir fyrir skíðafólk á gönguskíðum. Á veturnar er líka aðeins hægt að ferðast um Jötunheima fótgangandi eða á skíðum og það gerum við í þessari ferð því gengið er á ferðaskíðum (utanbrautarskíðum með stálköntum) í alls  fjóra daga og gist í huggulegum, hlýjum og oftast fullþjónustuðum fjallaskálum. Fyrsti og síðasti dagurinn eru ferðadagar. Leiðangurinn hefst á lestarferðalagi frá Gardemoen flugvelli í Osló. Haldið er norður í Guðbrandsdal en þaðan er svo ekið með smárútu á fyrsta næturstaðinn, sem er hálfgert fjallakofaþorp sem kúrir undir Galdhøpiggen, hæsta fjalli Noregs. Sá farangur þátttakenda sem ekki verður notaður í skíðaferðinni sjálfri, er hins vegar fluttur á síðasta næturstaðinn. Eftir staðgóðan morgunmat næsta dag hefst skíðaferðalagið sjálft, en þennan dag er gengið á skíðum um 15 km leið í stóran og góðan skála sem liggur nánast í hjarta Jötunheima, umkringdur jöklum og bröttum fjöllum. Næstu tvo daga er svo gengið á skíðunum í þessu stórbrotna umhverfi, yfir frosin og rennislétt fjallavötn og á milli ógurlegra fjalla. Gist er í einum fábrotnum og óþjónustuðum skála á leiðinni en líka í einum stærsta og þekktasta fjallaskála Norðmanna sem hefur verið starfræktur í tæplega 150 ár og státar af glænýju sánabaði með óviðjafnanlegu útsýni. Síðasta skíðadaginn er svo haldið til byggða. Þetta er lengsti dagurinn í kílómetrum talið eða alls um 24 km en allt í góðum skíðasporum á lögðum skíðabrautum. Þennan dag endar hópurinn í einum af okkar uppáhalds gististöðum, rómantísku sveitasetri með mikla sögu. Þar bíður farangurinn og góður kvöldmatur eldaður úr hráefni frá héraði. Að auki er hægt að fara í sána og heitan pott til að láta ferðaþreytuna líða úr sér eftir átök síðustu daga. Snemma næsta dag sækir smárúta hópinn og ekur honum beint á Gardemoen flugvöllinn í Osló, þaðan sem flogið er heim til Íslands, nú eða hvert á land sem er! Þátttakendur þurfa að hafa einhverja reynslu á gönguskíðum og gott er að undirbúa sig í aðdraganda ferðar með því að taka þátt í æfingahópi á ferðaskíðum eða fara í æfingaferðir. Við bendum fólki á að fylgjast vel með úrvalinu hér á vefsíðu Útihreyfingarinnar. Haldinn er rafrænn undirbúningsfundur fyrir ferð þar sem m.a. verður farið ítarlega yfir búnað og annað skipulag. Fararstjórar eru Brynhildur Ólafsdóttir og Sandra Sif Morthens. Innifalið í ferðinni sem kostar 297 þúsund er öll gisting, þ.e. fjórar nætur í fjallaskálum og ein nótt á gistiheimili. Allur matur, utan dagsnesti ferðadagana tvo, þ.e. fyrsta og síðasta daginn. Allar lestar- og smárútuferðir innan Noregs. Undirbúningsfundur, leiðsögn og utanumhald. Í stóru fjallaskálunum er oftast gist í 2-4ja manna herbergjum og þar er boðið upp á alla mögulega þjónustu, hægt að kaupa drykki og ýmsan smávarning og komast í sturtu. Eina nótt er hins vegar gist í óþjónustuðum skála, þar sem hópurinn eldar sinn mat sjálfur. Flug til og frá Noregs er ekki innifalið, en ferðin er skipulögð þannig að þátttakendur geta flogið til Oslóar með Icelandair að morgni 19. mars, sama dag og leiðangurinn hefst, lending í Osló um 11:30. Einnig er hægt að fljúga heim til Íslands sama dag og ferðinni lýkur, þ.e. 24. mars, brottför um kl. 13 frá Osló. Staðfestingargjald ferðarinnar er 80.000 kr. og eftirstöðvar eru greiddar í síðasta lagi sex vikum fyrir ferð. Lágmarksþátttaka miðar við 10 manns.
    Veldu kosti This product has multiple variants. The options may be chosen on the product page Details
  • Tjaldnótt í krúnudjásni Hvítárvatns, Karlsdrætti 25.-26. júlí Sólkatla, Baldheiði og Hrefnubúðir. Örnefnin í kringum Karlsdrátt í Hvítárvatni eru nánast óþekkt og það er ótrúlegt til þess að hugsa að við séum rétt hjá Kili, Hvítárnesi og Bláfellshálsi en samt á svo framandi slóðum. Karlsdráttur er lítill og aflokaður, gróðursæll vogur í norðurenda Hvítárvatns þar sem fjölbreytt plöntulíf birtist óvænt milli jökulvatns og eyðisanda. Hér vex birki upp í miðjar hlíðar og einkennisblóm staðarins, eyrarrósin er alltumlykjandi. Alls vaxa hér 82 aðrar plöntutegundir í rúmlega 400 metra hæð yfir sjávarmáli sem þykir einstakt á Íslandi. Gegnt voginum skríður Norðurjökull út úr Langjökli við hlið Skriðufells og kelfir næstum því ofan í fölgrænt jökulvatnið. Neðar fellur sama jökulvatn í foss allra íslenskra fossa, Gullfoss í gljúfri Hvítár, sem Hvítárvatnið dregur nafn sitt af. Við leggjum í hann með vistir og viðlegubúnað til tveggja daga frá bökkum Hvítárvatns og róum 8-10 kílómetra leið að höfðanum sem lokar af voginum. Þarna sláum við upp tjöldum og gistum eina töfranótt í þessari vin á hálendinu. Þau allra hörðustu baða sig að sjálfsögðu í Hvítárvatni! Í morgunsárið daginn eftir, fyllum við á brúsa með tæru lindarvatni og göngum á Sólkötlu sem rís í ríflega 1000 metra hæð yfir sjávarmáli. Þaðan er stórkostlegt útsýni yfir Langjökul og jökulskerin Þursaborg og Fjallkirkju auk þess sem Hrútfellið, Hvítárvatnið sjálft og sögufrægt umhverfi Kjalvegar blasir við frá afar sjaldséðu sjónarhorni. Gangan er um 10 km fram og til baka. Að göngu lokinni, seinnipart sunnudags tökum við saman tjaldbúðir og róum til baka sömu leið og við komum. Athugið að kajaknámskeið og/eða kajakreynsla er forkrafa inn í ferðina. Við bendum á undirbúningsnámskeið Útihreyfingarinnar. Skráðir þátttakendur fá ítarlegan upplýsinga- og pökkunarpóst í aðdraganda ferðarinnar. Ferðin kostar 83.000 kr. og innifalið í verðinu er leiðsögn og utanumhald, leiga og flutningur á kajak, ár, toppi, svuntu og björgunarvesti. Sérhæfðir kajakleiðsögumenn fylgja hópnum alla leið.
  • Jöklaáskorun Útihreyfingarinnar 15.-17. maí Þriggja daga skíðaferð yfir Drangajökul, í hinn draumfagra Reykjarfjörð á Ströndum þar sem ómótstæðileg heit sundlaug bíður ferðalanga. Skíðað er á ferðaskíðum yfir jökulinn með svefnpoka og vistir í bakpoka og gist í Reykjarfirði í tvær nætur. Ferðin hefst snemma að morgni föstudags 15. maí í Kaldalóni við Ísafjarðardjúp. Þar er stigið á skíðin, byrðar axlaðar og haldið sem leið liggur upp á Drangajökul. Gengið er yfir jökulinn og niður í Reykjarfjörð, alls um 25 km leið. Enginn vegur liggur í Reykjarfjörð sem fór í eyði árið 1964 og því er aðeins fært þangað gangandi, skíðandi eða á bát. Afkomendur síðustu ábúendanna hafa viðhaldið gömlu húsunum og hópurinn gistir einmitt í svokölluðu Gamlahúsi. Á laugardaginn mun hópurinn halda kyrru fyrir í Reykjarfirði, skoða nágrennið og liggja í bleyti í hinni víðfrægu bláu sundlaug sem er ótrúlegur unaðsreitur inni í þessu landslagi. Laugin er engin smásmíð eða 8x20 metrar og var reist af mikilli framsýni árið 1938. Eldsnemma sunnudaginn 17. maí, er svo gengið á skíðunum aftur til baka yfir Drangajökul og í bílana sem bíða í Kaldalóni. Ef veðurspá er sérlega óhagstæð þessa þrjá daga, verður skoðað að hnika ferðinni fram eða aftur um 1-2 daga. Dagleiðirnar eru langar og þátttakendur þurfa að hafa gott vald á ferðaskíðum og reynslu af ferðalögum á skíðum. Að auki má búast við að ganga þurfi nokkurn spotta bæði að og frá jöklinum með skíðin á bakinu. Við bendum fólki á að nota æfingahópinn Úti ferðaskíði og fjölbreyttar ferðaskíðaferðir Úthreyfingarinnar til að æfa sig á skíðunum. Þeir sem ekki eru vanir jöklaferðum þurfa að auki að hafa tekið námskeiðið Vetrarfjallamennska. Athugið að Útihreyfingin er búin að taka frá svefnpokapláss fyrir hópinn nóttina fyrir brottför, skammt frá Kaldalóni. Þeir sem það vilja, geta keypt sér gistingu þar og þá sofið lengur að morgni brottfarardagsins! Haldinn er rafrænn undirbúningsfundur í aðdraganda ferðar og skráðir þátttakendur fá ítarlegan upplýsinga- og búnaðarpóst. Nauðsynlegt er að eiga ferðaskíði, stafi með stórri kringlu og skinn undir skíðin, jöklaþrennuna; belti, brodda og ísöxi ásamt góðum bakpoka sem hægt er að hengja skíðin utan á. Ferðin kostar 94.000 kr. og innifalið er gisting í tvær nætur í Reykjarfirði, undirbúningsfundur, leiðsögn og utanumhald. Hægt er að greiða ferðina í einu lagi eða skipta greiðslum eins og hver og einn kýs inni í greiðsluferlinu sjálfu. Nokkrar umsagnir um Drangajökulsferðina
    • Skemmtilegir fararstjórar, veðurglöggir og flínkir að lesa í aðstæður.
    • Frábær leið og áfangastaður.
    • Léttleikinn stendur upp úr en líka leiðarvalið, náttúran, kvöldvakan...
    • Stórkostleg upplifun að skíða yfir jökulinn frá Kaldalóni og dvelja án rafmagns og símasambands í Reykjarfirði.
    • Frábær leiðsögn og félagsskapur.
    • Náttúrufegurðin er engu lík.
    • Húslesturinn var punkturinn yfir i-ið.
    Jöklafarar Þessi ferð telst hluti af verkefninu Jöklafarar sem er jöklaáskorun Útihreyfingarinnar, þar sem gengið er á ferðaskíðum yfir sex stærstu jökla landsins. Sjá nánar hér.
  • Fjórar þrautir: Ferðaskíði. Fjallganga. Fjallahjól. Sundhlaup Skráningu lýkur 4. janúar Útinaglinn er ný útivistar- og ævintýraáskorun, hönnuð fyrir þau sem vilja sameina útivist og þol, halda sér í formi og stíga örlítið út fyrir þægindarammann í þéttum og skemmtilegum félagsskap. Þetta er ferðalag í fjórum áföngum því þátttakendur taka þátt í fjórum mismunandi þrautum yfir árið. Árið 2026 eru það ferðaskíði, fjallganga, fjallahjól og sundhlaup. Þau sem klára allar fjórar þrautir ársins fá heiðursnafnbótina Útinaglinn 2026. Á hverju ári verða svo nýjar áskoranir og þrautir á nýjum slóðum, því markmiðið er að halda sér í frábæru útivistarformi með því að hafa alltaf skemmtileg, krefjandi og fjölbreytt verkefni til að stefna að. Útinaglaþrautirnar eru ekki keppnir, heldur alvöru útivistaráskoranir. Þetta eru ólíkar áskoranir en allar krefjast bæði úthalds og þrautseigju þar sem þú sjálf/ur ert þinn eini keppandi. Í leiðinni kynnistu nýju fólki, nýjum stöðum, lærir eitthvað nýtt, styrkir þig og bætir og færð mögulega nýja sýn á þig og þína getu! Naglaþrautir 2026 11. apríl. Ferðaskíði um Tröllakirkju Einn dagur. 10., 11. eða 12. apríl* Skíðað umhverfis Tröllakirkju á Holtavörðuheiði. 32 km Ekið samdægurs til og frá Rvk 23. maí. Fjallganga á Þverártindsegg Einn dagur. 22., 23. eða 24. maí* Jöklaganga á Þverártindsegg. 17 km Gist í Öræfum á eigin vegum 20. júní. Fjallahjól að Fjallabaki Einn dagur. 19., 20. eða 21. júní* Hjólað frá Landmannahelli í Hvanngil. 53 km Gist að Fjallabaki á eigin vegum 18. júlí. Sundhlaup í Gufunesi og Viðey** Einn dagur. 17., 18. eða 19. júlí* Hlaupið í Gufunesi. 2 km Synt frá Gufunesi í Viðey. 750 m Hlaupið í Viðey. 4,5 km Synt frá Viðey í Gufunes. 750 m Hvernig virkar þetta?
    • Árið 2026 er prufukeyrsla og aðeins 40 pláss í boði
    • Þátttaka í öllum fjórum Naglaþrautunum kostar 128 þúsund og þátttakendur skrá sig skuldbindandi inn í allar fjórar þrautirnar í einu lagi
    • Ef hópurinn fyllist ekki, er mögulegt að selt verði inn í stakar þrautir
    • Æfingar og undirbúningur fyrir þrautirnar fara fram í Útiræktinni og þátttakendur þurfa því að vera áskrifendur í aðdraganda þrautanna
    • Hægt er að slást í hópinn til áramóta, ef pláss leyfir
    Vertu með frá upphafi og komdu þér í frábært útivistarform til að geta tekist á við öll þau dásamlegu útivistarævintýri sem íslensk náttúra býður upp á. Skráning hér að neðan! *Athugaðu að við tökum þrjár dagsetningar frá fyrir hverja þraut. Stefnt er að því að halda þær allar á laugardegi, en ef veðrið er ekki að spila með, þá eru föstudagar og sunnudagar hafðir til vara. Ef veður er ekki hagstætt alla þessa þrjá daga, þá reynum við að flytja þrautina á milli landshluta. Og ef svo ólíklega vill til að það verði óveður um allt land, þá finnum við nýja dagsetningu fyrir uppbótarþraut, innan ársins. **Sundhlaup, hvað er nú það? Þetta er íþrótt sem rekur rætur sínar til fjögurra vina sem skoruðu hvert á annað að synda og hlaupa um 75 km leið í sænska skerjagarðinum. Og já, þau voru víst dálítið við skál þegar þetta var ákveðið :) Hér eru flottar upplýsingar frá áströlsku sundhlaupssamtökunum. Annars höldum við hjá Útihreyfingunni að mögulega sé þetta í fyrsta sinn sem sundhlaupsþraut er sett á dagskrá á Íslandi!
  • Jöklaáskorun Útihreyfingarinnar 30. apríl - 7. maí Stórkostlegur vikulangur leiðangur þar sem sjálfur konungur jöklanna, Vatnajökull, er genginn endilangur á ferðaskíðum. Svona leiðangrar verða jafnan eitt af stærstu ævintýrunum í lífi hverrar manneskju. Við lofum ógleymanlegu, valdeflandi og krefjandi ferðalagi, fyrir bæði líkama og sál. Þátttakendur ganga á svokölluðum ferðaskíðum (utanbrautargönguskíðum með stálköntum) og draga púlkur / sleða með öllum farangrinum á eftir sér. Gist er í tjöldum á jöklinum í fjórar nætur en eina nótt í skála á Grímsfjalli. Gert er ráð fyrir að jöklagangan sjálf taki 6-7 daga en nokkrir dagar eru hafðir til vara ef hópurinn þarf að hafast við á jöklinum og bíða af sér veður og jafnframt til að gera ráð fyrir ferðalögum til og frá jökli. Það fer eftir færð og veðri í aðdraganda ferðar hvort gengið verður frá austri til vesturs eða frá vestri til austurs. Leiðangurinn hefst því annað hvort við Jöklasel á Skálafellsjökli við suðurbrún Vatnajökuls eða upp frá Jökulheimum undir Tungnaárjökli við vesturbrún jökulsins. Ógnarfegurð, alger kyrrð og mikil núvitund felst í svona löngu ferðalagi yfir jökul. Fegurðin getur stundum verið yfirþyrmandi. Rósrauð sólris og sólsetur einkenna jökulinn og á leiðinni gefst stórkostlegt útsýni á marga af hæstu tindum landsins. Oft er þó líka gengið í hrímþoku eða algerri hvítablindu sem reynir á skilningarvitin á allt annan hátt. Þegar ferðalagið er nokkurn veginn hálfnað, nánast á miðjum jöklinum, er komið á Grímsfjall við Grímsvatnaeldstöðina. Þar bíður vistlegur skáli Jöklarannsóknarfélagsins eftir göngufólkinu, hlýr og notalegur. Í skálanum er hægt að kjarna sig, elda dýrindismat, þurrka föt ef á þarf að halda og síðast en ekki síst láta þreytuna líða úr sér í goðsagnakenndu jöklagufubaði! Heildarvegalengd leiðangursins er 130 km og gert er ráð fyrir að hópurinn skíði 20-25 km á hverjum degi, eftir færð og veðri. Þetta er krefjandi ferð sem hentar vönu ferðafólki með reynslu af vetrarferðalögum eða fólki sem ætlar að nota veturinn fyrir leiðangurinn til að læra og æfa sig. Við bendum fólki á að nota æfingahópinn Úti ferðaskíði og námskeiðið Ferðast á gönguskíðum, en hvoru tveggja verður á dagskrá í janúar 2026. Þeir sem ekki eru vanir jöklaferðum þurfa að auki að hafa tekið námskeiðið Vetrarfjallamennska (sem er líka alltaf á dagskrá Útihreyfingarinnar á vormánuðum) eða sambærilegt. Gert er ráð fyrir að hópurinn hittist töluvert og kynnist fyrir ferð og æfi sig að einhverju leyti saman, en stungið verður upp á sameiginlegum ferðum og æfingum í aðdraganda leiðangursins. Brynhildur Ólafsdóttir og Helga María Heiðarsdóttir leiða ferðina en báðar eru mjög reynslumiklar og hafa leiðsagt fjölmargar ævintýraferðir, bæði hérlendis og erlendis. Þær eru með gilt Wilderness First Responder skírteini og hafa lokið réttindanámi hjá Félagi íslenskra fjallaleiðsögumanna (AIMG), bæði í fjalla- og jöklaleiðsögn. Ferðin kostar 265.000 kr. Athugið að hægt er að greiða ferðina í einu lagi eða skipta greiðslum eins og hver og einn kýs inni í greiðsluferlinu sjálfu. Innifalið í verðinu er gisting í eina nótt á Grímsfjalli, far með jepparútum til og frá Reykjavík og að og frá jökli, nokkrir undirbúningsfundir, aðstoð með búnað, næringu, æfingaáætlun og pökkun, ein óveðursútilega í aðraganda ferðar ásamt leiðsögn og utanumhaldi í sjálfum leiðangrinum. Jöklafarar Þessi ferð telst hluti af verkefninu Jöklafarar sem er jöklaáskorun Útihreyfingarinnar, þar sem gengið er á ferðaskíðum yfir sex stærstu jökla landsins. Sjá nánar hér.
Go to Top