• UPPSELT Jöklaáskorun Útihreyfingarinnar 8.-15. maí Stórkostlegur vikulangur leiðangur þar sem sjálfur konungur jöklanna, Vatnajökull, er genginn endilangur á ferðaskíðum. Svona leiðangrar verða jafnan eitt af stærstu ævintýrunum í lífi hverrar manneskju. Við lofum ógleymanlegu, valdeflandi og krefjandi ferðalagi, fyrir bæði líkama og sál. Þátttakendur ganga á svokölluðum ferðaskíðum (utanbrautargönguskíðum með stálköntum) og draga púlkur / sleða með öllum farangrinum á eftir sér. Gist er í tjöldum á jöklinum í fjórar nætur en eina nótt í skála á Grímsfjalli. Gert er ráð fyrir að jöklagangan sjálf taki 6-7 daga en nokkrir dagar eru hafðir til vara ef hópurinn þarf að hafast við á jöklinum og bíða af sér veður og jafnframt til að gera ráð fyrir ferðalögum til og frá jökli. Það fer eftir færð og veðri í aðdraganda ferðar hvort gengið verður frá austri til vesturs eða frá vestri til austurs. Leiðangurinn hefst því annað hvort við Jöklasel á Skálafellsjökli við suðurbrún Vatnajökuls eða upp frá Jökulheimum undir Tungnaárjökli við vesturbrún jökulsins. Ógnarfegurð, alger kyrrð og mikil núvitund felst í svona löngu ferðalagi yfir jökul. Fegurðin getur stundum verið yfirþyrmandi. Rósrauð sólris og sólsetur einkenna jökulinn og á leiðinni gefst stórkostlegt útsýni á marga af hæstu tindum landsins. Oft er þó líka gengið í hrímþoku eða algerri hvítablindu sem reynir á skilningarvitin á allt annan hátt. Þegar ferðalagið er nokkurn veginn hálfnað, nánast á miðjum jöklinum, er komið á Grímsfjall við Grímsvatnaeldstöðina. Þar bíður vistlegur skáli Jöklarannsóknarfélagsins eftir göngufólkinu, hlýr og notalegur. Í skálanum er hægt að kjarna sig, elda dýrindismat, þurrka föt ef á þarf að halda og síðast en ekki síst láta þreytuna líða úr sér í goðsagnakenndu jöklagufubaði! Heildarvegalengd leiðangursins er 130 km og gert er ráð fyrir að hópurinn skíði 20-25 km á hverjum degi, eftir færð og veðri. Þetta er krefjandi ferð sem hentar vönu ferðafólki með reynslu af vetrarferðalögum eða fólki sem ætlar að nota veturinn fyrir leiðangurinn til að læra og æfa sig. Við bendum fólki á að nota æfingahópinn Úti ferðaskíði og námskeiðið Ferðast á gönguskíðum. Þeir sem ekki eru vanir jöklaferðum þurfa að auki að hafa tekið námskeiðið Vetrarfjallamennska. Gert er ráð fyrir að hópurinn hittist töluvert og kynnist fyrir ferð og æfi sig að einhverju leyti saman, en stungið verður upp á sameiginlegum ferðum og æfingum í aðdraganda leiðangursins. Róbert Marshall, (AIMG í fjalla-, jökla-, og skíðaleiðsögn plús gilt Wilderness First Responder skírteini) leiðir ferðina og honum til halds og trausts er Kjartan Salómonsson, þrautvanur skíða- og fjallagarpur. Jöklafarar Þessi ferð telst hluti af verkefninu Jöklafarar sem er jöklaáskorun Útihreyfingarinnar, þar sem gengið er á ferðaskíðum yfir sex stærstu jökla landsins. Sjá nánar hér.
  • Jöklaáskorun Útihreyfingarinnar Þriggja ára stórbrotið ferðalag Jöklafarar er heitið á nýrri áskorun Útihreyfingarinnar þar sem þátttakendur ganga á ferðaskíðum þvert yfir sex stærstu jökla landsins, þ.e. Eyjafjallajökul, Drangajökul, Mýrdalsjökul, Hofsjökul, Langjökul og Vatnajökul. Markmiðið er ekki að fara upp á hæsta tind hvers jökuls fyrir sig, þ.e. fram og til baka, heldur að skíða þvert yfir jöklana þannig að endað sé á öðrum stað en ferðin hófst. Hægt er að klára áskorunina á eigin hraða, þ.e. á eins skömmum eða löngum tíma og hentar hverjum og einum. Hins vegar skipuleggur Útihreyfingin verkefnið og mælir með því að það sé klárað á alls þremur árum frá upphafi til enda, þannig að byrjað sé á æfingum á ferðaskíðum og minni jöklum áður en ráðist er í flóknari og lengri ferðir og jöklaútilegur. Í hnotskurn Þeir sem hafa enga reynslu og eru að byrja frá grunni, geta hafið vegferðina strax í janúar á næsta ári, 2025 með því að læra á ferðaskíði þ.e. utanbrautargönguskíði með stálköntum og æfa sig svo vikulega nágrenni Reykjavíkur með Úti ferðaskíðahópnum. Að auki þurfa óvanir að taka kvöldnámskeið þar sem kennd er línuhegðun á jökli og notkun á jöklabroddum og ísöxi. Að vori verða svo þrír jöklar þveraðir: Drangajökull, Eyjafjallajökull og Langjökull. Þessa jökla er hægt að þvera hvern um sig á einum löngum skíðadegi og því þarf ekki að gista í tjaldi á jökli þetta fyrsta árið. Annað árið hefst á námskeiðinu Ferðast á gönguskíðum þar sem þátttakendur læra öll trixin við að ferðast með púlku í eftirdragi og tjalda í snjó auk þess sem farið er í æfingaútilegu til að þjálfa handtökin. Að vori er síðan haldið í 3-4 daga ferðir á Hofsjökul annars vegar og Mýrdalsjökul hins vegar. Síðasta árið er svo komið að konungi íslenskra jökla, sjálfum Vatnajökli. Það er ferðalag sem tekur heila viku og þarfnast góðs undirbúnings og æfinga. Ekki aðeins þurfa þátttakendur að vera í góðu líkamlegu formi og þekkja búnaðinn sinn vel, heldur er líka nauðsynlegt að undirbúa hausinn fyrir átökin og langa daga á jökli. Að lokum fá þátttakendur viðurkenningarskjal og heiðursnafnbótina Jöklafari og eru þá komnir með fullan og óskoraðan rétt til að grobba sig á alla jöklakanta, jafnvel á alþjóðavettvangi 🙂 Síðasta tækifærið? Markmið þessa verkefnis er þó ekki eingöngu að vera þátttakendum til skemmtunar og áskorunar. Með frásögnum af ferðunum í máli og myndum, viljum við líka vekja athygli almennings, heima og erlendis, á hraðri bráðnun jöklanna af völdum loftslagshlýnunar. Myndum leiðangursmanna verður m.a. safnað á sameiginlega myndasíðu á samfélagsmiðlum undir samheitinu #lastoftheglaciers eða síðustu jöklarnir. Hópurinn reynir þannig að leggja sín lóð á vogarskálarnar svo að okkar kynslóð verði ekki síðasta kynslóðin sem nýtur þess að ferðast á skíðum um jökla landsins. Skráning Athugið að hvorki er nauðsynlegt að klára áskorunina í ofangreindri röð né á þremur árum. Ef fólk er vant því að ferðast á skíðum þá er hægt að raða jöklaferðunum saman á hvern þann hátt sem hentar og jafnvel byrja á Vatnajökli! Að auki geta þeir sem þegar eru búnir að þvera einhverja jökla auðvitað líka verið með og bætt í safnið. Til að taka þátt þarf aðeins að skrá sig til leiks með því að smella hér. Í kjölfarið verður þér boðið inn í sérstakan FB hóp allra þátttakanda og ævintýrið hefst. Hér að neðan eru linkar inn á viðeigandi jöklaferðir og undirbúningsnámskeið auk ferða sem hægt er að nýta til að æfa skíðatæknina og handtökin. JÖKLAFERÐIR 2025 Eyjafjallajökull. 29. mars Drangajökull. 12.-14. apríl Vatnajökull. 8.-15. maí. UPPSELT Langjökull. 14.-15. júní Mýrdalsjökull. Á dagskrá 2026 Hofsjökull. Á dagskrá 2026 UNDIRBÚNINGSNÁMSKEIÐ 2025 Úti ferðaskíði. Námskeið og æfingahópur. Hefst 8. jan. Námskeiði er lokið en verður aftur á dagskrá 2026 Ferðast á gönguskíðum. Námskeið og útilega. 13. jan. og 25.-26. jan. Námskeiði er lokið en verður aftur á dagskrá 2026 Vetrarfjallamennska. Grunnnámskeið. 24. feb og 3. mars ÆFINGAFERÐIR 2025 Norðurljósaganga á ferðaskíðum. Kvöldganga. 18. jan. Ferð er lokið Þingvellir. Dagsferð. 8. feb. Ferð er lokið Undir Tröllakirkju. Púlkuferðalag. 15.-16. feb. Ferð er lokið Yfir Snæfellsnes. Dagsferð. 22. feb. Ferð er lokið Tvídægra. Skíðað á milli skála. 28. feb-2. mars. Ferð er lokið Ok. Dagsferð. 15. mars Jötunheimar í Noregi. Skíðað á milli skála. 20.-25. mars. UPPSELT

Title

Go to Top