-
Skíðað á milli skála í Noregi 20.-25. mars Það má líkja Jötunheimum í Noregi við Fjallabak okkar Íslendinga. Þetta stórkostlega fjallahérað er eitt vinsælasta útivistarsvæði Norðmanna, umkringt jöklum og hæstu fjöllum landsins. Á milli fjallanna liggja stór og mikil vötn sem á veturnar bjóða upp á sannkallaðar himnabrautir fyrir skíðafólk á gönguskíðum. Á veturnar er líka aðeins hægt að ferðast um Jötunheima fótgangandi eða á skíðum og það gerum við í þessari ferð því gengið er á ferðaskíðum (utanbrautarskíðum með stálköntum) í alls fjóra daga og gist í huggulegum, hlýjum og fullþjónustuðum fjallaskálum. Fyrsti og síðasti dagurinn eru ferðadagar. Leiðangurinn hefst á lestarferðalagi frá Gardemoen flugvelli í Osló. Haldið er norður í Guðbrandsdal en þaðan er svo ekið með smárútu á fyrsta næturstaðinn, rómantískt sveitasetur með mikla sögu. Þar bíður góður kvöldmatur eldaður úr hráefni frá héraði og að auki sána og heitur pottur þar sem hægt er að láta ferðaþreytuna líða úr sér og undirbúa sig fyrir átök næstu daga. Eftir staðgóðan morgunmat næsta dag hefst skíðaferðalagið sjálft á því að gengið er inn í Jötunheimana. Þennan dag er gengið á skíðum um 24 km leið, allt á skíðabrautum í góðum skíðasporum. Þessa aðra nótt er svo gist í einum stærsta og þekktasta fjallaskála Norðmanna sem hefur verið starfræktur í tæplega 150 ár! Næstu þrjá daga er gengið á skíðunum á milli stórra og vel útbúinna skála þar sem boðið er upp á allan mat og þjónustu, hægt að kaupa drykki og ýmsan smávarning og komast í sturtu. Dagleiðirnar þessa þrjá daga eru um 20 km og tvær þeirra liggja að mestu eftir frosnum, rennisléttum fjallavötnum sem gerir færið jafnt og slétt og býður upp á magnað útsýni á fjöllin sem umlykja okkur á alla vegu. Síðasta daginn er skíðað til byggða, niður í lítið fjallaþorp þar sem gist er á góðu hóteli með heilsulind. Þar gerir hópurinn vel við sig í mat og drykk en um morguninn næsta dag er ekið með rútu beint á Gardemoen flugvöll í Osló, þar sem ferð lýkur um kl. 15 25. mars. Þátttakendur þurfa að hafa einhverja reynslu á gönguskíðum og gott er að undirbúa sig í aðdraganda ferðar með því að taka námskeið eða fara í æfingaferðir. Við mælum með æfingahópnum Úti ferðaskíði og bendum á mikið úrval skíðaferða inni í Ævintýrabúð Útihreyfingarinnar. Haldinn er rafrænn undirbúningsfundur fyrir ferð þar sem m.a. verður farið ítarlega yfir búnað og annað skipulag. Athugið að ekki er hægt að trússa farangur á milli fjallaskálanna og því er gengið á milli þeirra með lágmarksbúnað í bakpoka. Ef á þarf að halda, er hægt að geyma aukafarangur, meðan á ferðinni stendur, í farangursgeymslu á Gardemoen flugvelli, þar sem ferð hefst og lýkur. Fararstjórar eru Brynhildur Ólafsdóttir og Róbert Marshall. Innifalið í ferðinni sem kostar 272 þúsund er öll gisting, þ.e. þrjár nætur í fjallaskálum, ein á gistiheimili og ein á hóteli. Allur matur utan dagsnesti ferðadagana tvo, þ.e. fyrsta og síðasta daginn. Lestar- og rútufargjöld innan Noregs. Undirbúningsfundur, leiðsögn og utanumhald. Flug til og frá Noregs er ekki innifalið, en ferðin er skipulögð þannig að þátttakendur geta flogið út að morgni 20. mars, sama dag og leiðangurinn hefst og heim seinnipartinn, daginn sem honum lýkur, þ.e. 25. mars. Hægt er að greiða ferð að fullu eða greiða staðfestingargjald 70.000 kr og eftirstöðvar í síðasta lagi sex vikum fyrir ferð. Lágmarksþátttaka miðar við 10 manns.
-
Dagsganga á horfin jökul 15. mars Í þessari dagsferð verður gengið á ferðaskíðum upp á Ok sem gnæfir yfir Húsafelli og býður upp á gríðargott útsýni nær og fjær. Okið missti jökultitil sinn fyrir skemmstu og er nú bara einföld og fábrotin dyngja! Engu að síður er feykigaman að koma þangað upp, skoða toppgíginn og þá stórfenglegu fjallasýn sem við blasir. Enda ætti allt fjallafólk að heimsækja Ok að minnsta kosti einu sinni á ævinni. Þetta er löng dagsganga á skíðum, 25-35 km, allt eftir því hversu langt er hægt að aka upp á Kaldadal frá Húsafelli sökum snjóa. Það er þó sama hversu löng gangan verður, það má alltaf hlakka til þess að á bakaleiðinni hallar allt undan fæti enda er hæðarferill göngunnar er afar einfaldur: Upp. Upp. Upp. Niður. Niður. Niður :) Lagt er af stað úr Reykjavík í rauðabítið á laugardagsmorgni til að nýta daginn sem best og ekki verður komið aftur til Reykjavíkur fyrr en undir kvöld. Þátttakendur þurfa að vera tilbúnir í langan dag á skíðum auk þess að hafa nokkuð gott vald á ferðaskíðum. Við mælum með námskeiðinu Úti ferðaskíði til að koma sér í ferðaform æfa sig á skíðunum. Athugið að endanleg ferðatilhögun þarf alltaf að taka tillit til bæði veðurs og snjóalaga. Þannig gæti þurft að breyta leiðarvali og ef veðurspáin er óhagstæð fyrir laugardaginn, er mögulegt að ferðin verði færð yfir á sunnudag. Þátttakendur fá nánari upplýsingar og búnaðarlista í tölvupósti í aðdraganda ferðar en þurfa að lágmarki að eiga eftirfarandi búnað, fá hann lánaðan eða leigðan: Ferðaskíði, þ.e. utanbrautarskíði með stálköntum, skinn undir skíðin og skíðastafi. Hægt er að leigja skíði á nokkrum stöðum, m.a. hjá skíðaleigu Útilífs. Ferðin kostar 24.900 kr. og innifalið í verðinu er leiðsögn og utanumhald.
-
Geirmundartindur í Akrafjalli 9. mars Ganga á Akrafjall er alltaf skemmtileg. Ekki síst því Akrafjallið kemur öllum á óvart með fjölbreytileika, útsýni og krefjandi tindum. Geirmundartindur er annar tveggja hápunkta fjallsins en jafnframt sá sem er sjaldfarnari. Fyrir þá sem hafa bara farið á Háahnjúk, að sunnanverðu, er þetta eiginlega skylduganga því hér gefst frábært færi á að virða fyrir sér Leirársveitina og Skarðsheiðina, já og allt Vesturland í einni hendingu af stórglæsilegum fjallstoppi. Þetta er jafnframt tilvalin fjallganga fyrir þau sem þjást af örlítilli lofthræðslu því ekkert er betra til að læknast af slíkum óþarfa en að æfa sig í því að ganga á öruggum fjallaslóðum sem jafnframt eru í nokkurri hæð. Gangan hefst kl. 9 frá bílastæðinu undir Akrafjalli og fyrst um sinn er gengið á fjölförnum slóða upp í mynni Berjadals sem klýfur fjallið nánast í sundur. Þetta er leiksvæði Skagamanna sem nota Akrafjall sem nokkurs konar líkamsræktarstöð og margir ganga hér um að minnsta kosti einu sinni í viku! Það er brattgengt upp úr Berjadalnum, norður eftir eggjum fjallsins og upp á Geirmundartind. Slóðin er að auki grýtt yfirferðar á köflum og því seinfarin en verðlaunin eru því meiri og betri þegar upp er komið. Leiðin fram og til baka er um 7 km með um 600 m hækkun og gera má ráð fyrir að gangan fram og til baka taki um 4 klst. Skráðir þátttakendur fá ítarlegan tölvupóst með ferðalýsingu og búnaðarlista í aðdraganda ferðar. Í þessari fjallgöngu er gengið með Útigenginu, fjallgönguhópi Útihreyfingarinnar. Í Útigenginu er gleðin í fyrirrúmi og dagskráin hentar fyrir þau sem langar að kynnast fjöllum og stöðum í nágrenni Reykjavíkur. Tilvalinn hópur fyrir fólk sem er að taka sín fyrstu skref í fjallgöngum eða þau sem langar að dusta rykið af göngubúnaðinum og vilja kynnast öðru útivistarfólki, nýjum stöðum og bæta við færni sína á fjöllum.
-
Fjallaskíði á vordögum 5. mars - 1. maí Með hækkandi sól er komin tími til að kanna fjöll og firnindi með fjallaskíðin á fótunum. Einmitt það ætlum við að gera í þessum æfingahópi sem æfir sig á fjöllum nálægt Reykjavík í mars, apríl og byrjun maí. Markmið hópsins eru nokkur. Í fyrsta lagi að þátttakendur læri vel á fjallaskíðin, skinnin, bindingarnar og skóna sem og alla tækni við beitingu skíðanna. Við byrjum því rólega og einbeitum okkur að tækninni í upphafi, rifjum upp, lærum og komum okkur í gírinn fyrir framhaldið. Öll getustig fá eitthvað fyrir sinn snúð. Leiðarval upp og niður. Brekkur í mismunandi bratta. Hliðarhalli. Ólík snjóalög, færi og undirlag. Allt þarf að læra á og æfa sig í að gera. Í öðru lagi finnst okkur alltaf gaman að skíða á nýjum stöðum og viljum nota tækifærið og fara á fjölbreytta og skemmtilega skíðaáfangastaði. Ekki er verra ef svæðið geymir einhverja sögu sem hægt er að fræðast um. Síðast en ekki síst viljum við í sameiningu skapa fallegan félagsskap fólks sem nærist á skemmtilegri samveru og útiveru og nýtur þess að leika sér úti. Hópurinn hittist alls sjö sinnum. Einu sinni á rafrænum fræðslufundi í upphafi, þrisvar í styttri skíðatúrum síðdegis á miðvikudögum og þrisvar á laugardagsmorgnum í lengri dagsferðum. Á fræðslufundinum verður farið yfir dagskrá vorsins, allt skipulagið í kringum ferðirnar og nauðsynlegan búnað, snjóflóðaspár, ýlatékk og góðar ferðavenjur í fjallaskíðaferðum. Þetta verður svo að sjálfsögðu æft fram og til baka í ferðunum sjálfum. Miðvikudagsferðirnar hefjast kl. 18, eru allar í nágrenni Reykjavíkur og munu taka að meðaltali 1.5-2.5 klst. Laugardagsferðirnar taka allt að 5-6 tíma og á þá áfangastaði er lengri keyrsla.
- 5. mars. Kl. 20. Rafrænn upphafsfundur
- 12. mars. Kl. 18. Skálafell
- 19. mars. Kl. 18. Móskarðshnjúkar
- 5. apríl. Kl. 8. Botnssúlur
- 9. apríl. Kl. 18. Vífilsfell
- 19. apríl. Kl. 8. Bláfell
- 1. maí. Kl. 8. Tindfjallajökull
-
NÁMSKEIÐ HEFST 4. MARS Fjögurra vikna framhaldsnámskeið fyrir fólk sem hefur farið á Úti 101 námskeið Útihreyfingarinnar eða er með einhvern grunn í útivist og langar til að bæta við sig; hlaupa lengra, fara hærra á fjöllum, og vera aðeins lengur ofan í sjónum. Æft er tvisvar til þrisvar í viku og mikið er um göngur, létt hlaup og þrekæfingar.
Dagskrá námskeiðsins- Alla þriðjudaga kl. 17:30 Styrktar- og þrekæfingar með Útihreyfingunni. Æfingarnar fara fram á grænum svæðum í Reykjavík og nágrenni.
- Alla fimmtudaga kl. 17:30 Tækni- og gæðaæfingar með Úti 102 þjálfara. Æfingarnar fara fram á grænum svæðum í Reykjavík og nágrenni.
- Laugardagar / sunnudagar kl. 9:30 Tvær lengri helgaræfingar.
Námskeiðið kostar 22.900 kr. og umsjón með því hefur Kristín Ýr Lyngdal. -
Skíðað á milli skála 28. feb.-2. mars Þriggja daga skíðaleiðangur um Tvídægru, hásléttuna sem í grófum dráttum liggur á milli Holtavörðuheiðar og Eiríksjökuls/Húsafells. Þetta er tiltölulega þægilegt ferðalag sem hentar flestum getustigum enda er skíðað um frekar slétt landslag og að auki er farangur trússaður á milli skála. Ferðin hefst á því að bílar eru skildir eftir í uppsveitum Borgarfjarðar og rúta skutlar hópnum og farangri hans upp á háheiði Holtavörðuheiðar þar sem farangrinum er staflað inn í trússbílana áður en stigið er á skíðin. Fyrsta daginn er gengið á skíðunum tæplega 15 km leið í skála en ekki þarf að hafa áhyggjur af þungum byrðum því allur farangur og matur er fluttur á milli og bíður í skálanum við komuna þangað. Dagleiðin í næsta skála er stutt eða aðeins um 10 km. Á síðasta degi er svo gengið meðfram afar fallegu gili sem leið liggur niður í bíla en sú dagleið getur verið frá 12-20 km eftir snjóalögum hverju sinni. Gist er í tveimur gangnamannaskálum á leiðinni þar sem húsakynni eru frekar fábreytileg. Í báðum skálum er þó hiti, ágætis aðstaða til að elda mat, allur borðbúnaður og góð rúmstæði. Bæði morgunmatur og kvöldmatur er sameiginlegur en fólk tekur með sér nesti fyrir dagana þrjá. Þó að ekki sé farið um ýkja erfitt landslag, þá þarf fólk að hafa reynslu af ferðaskíðum og vera í ágætu formi. Við mælum með námskeiðinu Úti ferðaskíði og fjölbreyttum dagsferðum Útihreyfingarinnar á ferðaskíðum til að æfa sig á skíðunum. Haldinn verður rafrænn undirbúningsfundur í aðdraganda ferðar og þátttakendur fá ítarlegan upplýsinga- og búnaðapóst. Að lágmarki þarf að eiga eftirfarandi búnað, fá hann lánaðan eða leigðan: Ferðaskíði, þ.e. utanbrautarskíði með stálköntum, skinn undir skíðin og skíðastafi. Hægt er að leigja skíði á nokkrum stöðum, m.a. hjá skíðaleigu Útilífs. Ferðin kostar 128.000 kr. Innifalið í verðinu er rútuferð á upphafsstað, trúss á farangri á milli skála, skálagisting, tveir morgunverðir og tveir kvöldverðir, leiðsögn og utanumhald, auk undirbúningsfundar.
-
Tveggja kvölda grunnnámskeið 24. febrúar og 3. mars Á þessu tveggja kvölda námskeiði er fjallað um þrennuna sem alltaf er skyldubúnaður þegar ferðast er um jökla landsins og fjalllendi að vetri til, þ.e. ísbrodda, gönguísaxir og göngubelti. Fyrra kvöldið hittast þátttakendur á stuttum rafrænum fræðslufundi þar sem farið er yfir grunnatriðin sem hafa þarf á tæru. Hver er munurinn á mismunandi tegundum brodda, axa og belta? Hvað þarf að hafa í huga þegar þessir hlutir eru keyptir? Hvernig á að stilla þá og passa að þeir sitji rétt og hvað ber að varast? Seinna kvöldið er svo haldið til fjalla í nágrenni Reykjavíkur á 2-3 klst. verklega æfingu. Áfangastaðurinn fer eftir aðstæðum hverju sinni en á æfingunni er kennt á ísbrodda auk þess sem notkun þeirra og beiting er æfð við mismunandi aðstæður og í mismunandi halla. Þá er farið yfir notkun gönguísaxar í brattlendi og á jöklum og ísaxabremsa æfð við mismunandi aðstæður. Ennfremur er kennt hvaða reglur gilda um notkun línu þegar ferðast er í hópi á jökli og hvað megi teljast til góðrar línuhegðunar. Þátttakendur þurfa að eiga, leigja eða fá lánaða ísbrodda, gönguöxi og belti. Hægt er að leigja þennan búnað á nokkrum stöðum, m.a. hjá Útilíf. Nauðsynlegt er að hafa lokið þessu námskeiði eða sambærilegu til að taka þátt í vetrarfjallgöngum og jöklaferðum með Útihreyfingunni. Námskeiðið kostar 15.900 kr.
-
Dagsganga um gamla þjóðleið 22. febrúar Útihreyfingin hefur síðustu ár verið að þræða gamlar þjóðleiðir á Snæfellsnesi, nýja leið á hverju ári þar sem gengið er á ferðaskíðum á einum degi yfir Nesið frá norðri til suðurs. Að þessu sinni koma alls fjórar gamlar þjóðleiðir til greina en hver þeirra verður fyrir valinu fer eftir aðstæðum og snjóalögum. Sú stysta er um 15 km en sú lengsta 23 km. Allar leiðirnar liggja yfir innanvert Snæfellsnes, austan við Vatnaleiðina. Leiðirnar þræða dali og lág skörð svo að hvorki er um óyfirstíganlega hækkun né lækkun að ræða. Þátttakendur þurfa þó að hafa nokkuð gott vald á ferðaskíðum en þetta er einmitt tilvalin ferð til að taka ferðaskíðamennskuna upp á nýtt stig, æfa sig í tækninni og njóta þess að skoða nýja staði og nýtt landslag í leiðinni. Við bendum fólki líka á að nota námskeiðið Úti ferðaskíði til að koma sér í ferðaform. Lagt er af stað snemma á laugardagsmorgun til að nýta daginn sem best og byrjað verður á því að skilja bíla eftir við lokastað göngunnar áður en haldið er á upphafsstaðinn og ferðin hefst fyrir alvöru. Gera má ráð fyrir að gengið verði allan daginn á meðan sauðljóst er og stefnt er að því að hópurinn ljúki síðan ferð með því að borða saman, annað hvort á Vegamótum eða í Borgarnesi. Það verður því ekki komið aftur til Reykjavíkur fyrr en um kvöldið. Ef veðurspáin er óhagstæð fyrir laugardaginn, er mögulegt að ferðin verði færð yfir á sunnudag. Þátttakendur fá nánari upplýsingar og búnaðarlista í tölvupósti í aðdraganda ferðar en þurfa að lágmarki að eiga eftirfarandi búnað, fá hann lánaðan eða leigðan: Ferðaskíði, þ.e. utanbrautarskíði með stálköntum, skinn undir skíðin og skíðastafi. Hægt er að leigja skíði á nokkrum stöðum, m.a. hjá skíðaleigu Útilífs. Ferðin kostar 24.900 kr. og innifalið í verðinu er leiðsögn og utanumhald.
-
Tveggja daga púlkuleiðangur 15.-16. febrúar Á milli Baulu í Norðurárdal og Tröllakirkju á Holtavörðuheiði leynist stórkostlegt fjallasvæði, sundurskorið af þröngum dölum, giljum og gljúfrum. Fáir fara um þetta svæði, enda að mörgu leyti óárennilegt eins giljótt og það er. Að vetri til fyllast gilin hins vegar af snjó og svæðið opnast fyrir vel skíðandi ferðalanga. Í þessum tveggja daga skíðaleiðangri verður þess freistað að skoða þetta svæði nánar með púlku í eftirdragi og gista eina nótt í tjaldi. Stefnt er að því að ganga á skíðum frá Holtavörðuheiði og vestur í Dali og nokkrar leiðir koma til greina. Ef veður og færi bjóða upp á, verður fyrsta daginn farið upp á sjálfa Tröllakirkjuna sem gnæfir í 1000 metra hæð, áður en tjaldað verður í Snjófjöllum sem liggja vestur undir fjallinu. Seinni daginn munu þátttakendur þræða giljaleiðir niður í Dali og enda í baði í heitri náttúrulaug. Gert er ráð fyrir að ferðin taki fulla tvo daga, þ.e. lagt er af stað frá Reykjavík í rauðabítið á laugardegi og ekki komið til baka fyrr en síðla kvölds á sunnudegi. Hvor dagleið er um 15 km og þar sem ferðast er um hæðótt landslag þá þurfa þátttakendur að hafa gott vald á ferðaskíðum og treysta sér í að skíða með púlkur í eftirdragi bæði upp og niður. Við bendum fólki á æfingahópinn Úti ferðaskíði ásamt námskeiðinu Ferðast á gönguskíðum. Athugið að endanleg ferðatilhögun þarf alltaf að taka tillit til bæði veðurs og snjóalaga. Þannig gæti þurft að breyta leiðarvali vegna snjóleysis og að auki er ekki ráðlegt að toppa Tröllakirkjuna nema í góðu veðri. Haldinn verður rafrænn undirbúningsfundur í aðdraganda ferðar og þátttakendur fá ítarlegan upplýsinga- og búnaðapóst. Ferðin kostar 49.000 kr. og innifalið í verðinu er leiðsögn og utanumhald, auk undirbúningsfundar.
-
Dagsganga í jaðri þjóðgarðsins 8. febrúar Þjóðgarðurinn á Þingvöllum er dásamlegt útivistarsvæði allan ársins hring en vetrarferðir þangað eru í sérstöku uppáhaldi hjá Útihreyfingunni. Þar sem Þingvellir liggja að nokkru ofan í sigdal, þá geta frosthörkur orðið þar miklar og sambland íss og snævar breytt svæðinu í stórkostlegt undraland. Langskemmtilegast, og raunar auðveldast líka, er að njóta þessarar dýrðar á ferðaskíðum. Það þarf þó ætíð að fara mjög varlega þegar ferðast er um Þingvallasvæðið og sérstaklega að vetri til, þar sem alls konar holur, gjótur og gjár geta leynst undir snjónum. Því mælum við alltaf með því að fylgja einhverjum sem þekkir til og veit hvar best er að fara. Í þessari ferð er stefnt að því að ganga um austurhluta þjóðgarðsins, og fara skemmtilega hringleið um Reyðarbarm, Hrútafjöll og Stóra Dímon, alls um 15 km, sem tekur um 5-6 klst. Fyrsta hluti leiðarinnar er gengið nokkuð jafnt og þétt upp í móti en hvergi mjög bratt og um leið og haldið er til baka þá tekur við þægileg lækkun, jafnvel þannig að hægt verður að renna sér frekar áreynslulaust nánast alla leið aftur í bíl! Lagt er af stað kl. 8 á laugardagsmorgni úr Reykjavík og stefnt að því að komið sé til baka til Reykjavíkur ekki seinna en um kl. 16. Athugið að endanleg ferðatilhögun svona skíðaferða þarf alltaf að taka tillit til bæði veðurs og snjóalaga. Þannig gæti þurft að breyta leiðarvali og ef veðurspáin er óhagstæð fyrir laugardaginn, er mögulegt að ferðin verði færð yfir á sunnudag. Þátttakendur fá nánari upplýsingar og búnaðarlista í tölvupósti í aðdraganda ferðar en þurfa að lágmarki að eiga eftirfarandi búnað, fá hann lánaðan eða leigðan: Ferðaskíði, þ.e. utanbrautarskíði með stálköntum, skinn undir skíðin og skíðastafi. Hægt er að leigja skíði á nokkrum stöðum, m.a. hjá skíðaleigu Útilífs. Ferðin kostar 12.900 kr. og innifalið er leiðsögn og utanumhald. Athugið að ferðin er hluti af námskeiðinu Úti ferðaskíði og er ókeypis fyrir þá sem æfa með hópnum.
-
NÆSTA NÁMSKEIÐ HEFST Í JANÚAR
Kynningarfundur kl. 17:30, 14. janúar í verslun Útilífs, Skeifunni 11 Fyrsta æfing þriðjudagur, 21. janúar
Sex vikna grunnnámskeið, haldið þrisvar á ári, í janúar, apríl og september. Námskeiðið er fyrir fólk sem er að byrja að stunda útihreyfingu eða að fara af stað eftir langt hlé og vill læra undirstöðuatriði í útihlaupi, kynnast sjósundi og byggja upp þol og styrk fyrir útihreyfingu og ævintýri. Æft er tvisvar til þrisvar í viku og mikið er um göngur, létt hlaup og þrekæfingar.Dagskrá námskeiðsins- Alla þriðjudaga kl. 17:30 Styrktar- og þrekæfingar. Æfingarnar fara fram í Elliðaárdal, Öskjuhlíð, Laugardal og víðar.
- Alla fimmtudaga kl. 17:30 Tækni- og gæðaæfingar. Á Hólmsheiðinni, Úlfarsfelli, í Heiðmörk, Bláfjöllum og víðar.
- Laugardagar / sunnudagar kl. 9:30 Lengri hreyfing aðra hvora helgi, til skiptis á laugardögum og sunnudögum. Gamlir og nýir slóðar í nágrenni Reykjavíkur. Helgaræfingarnar á næsta námskeiði verða laugardaginn 25. janúar, sunnudaginn 9. febrúar og laugardaginn 22. febrúar.
Á Úti 101 er sérstök áhersla lögð á persónulegt utanumhald sem hefst með upphafsviðtali um markmið og væntingar. Námskeiðið er því tilvalið fyrir þá sem vilja koma sér af stað í útihreyfingu og að því loknu er hægt að skrá sig á framhaldsnámskeið Úti 102 eða jafnvel taka þátt í Hálfvættanámskeiði Útihreyfingarinnar. Úti 101 endar á sameiginlegri útskriftarferð þar sem áfanganum er fagnað. Hægt er að greiða fyrir námskeiðið í einu lagi eða skipta greiðslum eins og hver og einn kýs inni í greiðsluferlinu sjálfu. Á meðan á námskeiðinu stendur njóta þátttakendur sérstakra afsláttarkjara Útihreyfingarinnar. Umsjón með námskeiðinu hefur Kristín Ýr Lyngdal ásamt Helgu Maríu Heiðarsdóttur. -
NÆSTA NÁMSKEIÐ HEFST 19. JANÚAR Fyrir öll sem elska fjöll og vilja nýta náttúruna til líkamsræktar Útigengið er fyrir fólk sem finnst gaman að vera úti í náttúrunni, kynnast nýjum stöðum, bæta við færni sína á fjöllum, eða þau sem langar að dusta rykið af göngubúnaðinum. Dagskráin er fjölbreytt að vanda og áhersla á stuttar til meðallangar fjallgöngur. Gengið er á sunnudögum, tvær helgar í mánuði og flestar göngurnar taka 3-5 klst. Þátttakendum gefst þó einnig tækifæri til að ganga sig í form fyrir erfiðari og flóknari göngu því haldið er á Eyjafjallajökul í lok apríl þar sem reynir meira á færni og form. Útigengið er einnig tilvalin æfingahópur fyrir lengri göngur að vori eins og til dæmis á Hrútsfjallstinda. Dagskrá eftir áramót
- 19. jan. Helgafell í Hfj.
- 2. feb. Mosfellsbæjarfjöll hringleið
- 23. feb. Esjuhringur
- 9. mar. Geirmundartindur í Akrafjalli. Hægt að kaupa sem staka ferð
- 23. mar. Stóra Kóngsfell, Drottning og Eldborg. Hægt að kaupa sem staka ferð
- 6. apr. Hellutindar/Stapatindar
- 26. apr. Eyjafjallajökull. Hægt að kaupa sem staka ferð
- 11. maí. Vífilsfell
-
Kvöldganga í ljósadýrð 18. janúar Við fögnum myrkrinu og snjónum á köldu janúarkvöldi með því að halda í stjörnu- og norðurljósaskoðun á gönguskíðum. Markmiðið er að njóta kvöldsins, spjalla og fræðast um ljósasýningu himingeimsins, bæði stjörnur og norðurljós. Með því að ganga á skíðum halda allir sér heitum í vetrarnóttinni en við setjum líka upp tjald þar sem hægt er að leita skjóls og kveikjum lítinn varðeld auk þess að ylja okkur saman á heitu súkkulaði undir stjörnubjörtum himninum. Stefnt er að því að ganga í nágrenni höfuðborgarsvæðisins, laugardagskvöldið 18. janúar og að ferðin taki alls 2-3 klst., þannig að þátttakendur verði komnir heim og undir sæng fyrir miðnætti. Athugið að áfangastaðurinn miðar þó alltaf við snjóalög, veður og ekki síst skýjahuluspá en það getur reynst nauðsynlegt að færa ferðina fram eða aftur um eitt eða tvö kvöld, eftir spá. Ferðalagið hentar öllum getustigum og er tilvalið fyrir byrjendur á ferðaskíðum. Þátttakendur fá nánari upplýsingar og búnaðarlista í tölvupósti í aðdraganda ferðar en þurfa að lágmarki að eiga eftirfarandi búnað, fá hann lánaðan eða leigðan: Ferðaskíði, þ.e. utanbrautarskíði með stálköntum, skinn undir skíðin og skíðastafi. Hægt er að leigja skíði á nokkrum stöðum, m.a. hjá skíðaleigu Útilífs. Ferðin kostar 12.900 kr. og innifalið er leiðsögn og utanumhald.
-
Námskeið í vetrarferðalögum Bóklegt 13. jan og verklegt 25.-26. jan Þátttakendur læra og æfa það helsta sem kunna þarf til að geta ferðast með öruggum hætti á ferðaskíðum (utanbrautarskíðum með stálköntum) um ótroðnar slóðir íslenskra óbyggða. Námskeiðið skiptist annars vegar í fræðslukvöld og hins vegar æfingaferð í nágrenni Reykjavíkur, þar sem markmiðið er að reyna sig í krefjandi en öruggum vetraraðstæðum. Á fræðslukvöldinu verður m.a. farið yfir hvaða útbúnað þarf til vetrarferðalaga á skíðum, hvernig tjöld, dýnur, svefnpoka og sleða / púlku best er að nota, þau öryggisatriði sem þarf að hafa í huga, hvernig á að velja tjaldstað og tjalda í snjó, hita vatn og næra sig, halda á sér hita og útbúa klósett! Á síðari hluta námskeiðsins er svo komið að því að nota þekkinguna í alvöru vetrarferðalagi. Gengið er á skíðum á laugardagsmorgni með farangurinn í eftirdragi og tjaldbúðir settar upp í snjó. Á leiðinni er skíðatæknin æfð, upp og niður brekkur sem og hliðrun í brattlendi. Hópurinn lærir og æfir að auki grunnatriði í leiðavali og rötun ásamt því hvernig á að moka út neyðarskýli í snjó og fleira. Áfangastaðurinn þessa æfingahelgi skiptir minna máli en ferðalagið sjálft og fer alfarið eftir snjóalögum og færð. Þó er stefnt að því að halda sig nálægt höfuðborgarsvæðinu. Námskeiðið kostar 52.000 kr og innifalið í verði er öll kennsla og æfingar, búnaðarfundur, leiðsögn og utanumhald.
-
Vikulegar æfingar á utanbrautarskíðum 8. janúar - 12. febrúar Markmið ferðaskíðahóps Útihreyfingarinnar eru þríþætt. Fyrst og fremst viljum við að þátttakendur læri vel á ferðaskíðin og skinnin og alla tækni við beitingu skíðanna. Við byrjum því veturinn á alls konar tækniæfingum. Bæði til að koma sér í gírinn fyrir skíðavertíðina en einnig til að mæta mismunandi getustigi. Þannig fá bæði byrjendur og lengra komnir eitthvað fyrir sinn snúð. Brekkur upp. Brekkur niður. Hliðarhalli. Mismunandi snjóalög, færi og undirlag. Allt þarf að læra á og æfa sig í að gera. Að auki verður ein æfing þar sem fólk getur fengið að skoða og prufa mismunandi sleða og púlkur. Í öðru lagi finnst okkur alltaf gaman að ganga á skíðum á nýjum stöðum. Við viljum því nota tækifærið til að kynna hópinn fyrir fjölbreyttum og skemmtilegum skíðaáfangastöðum í nágrenni Reykjavíkur. Og ekki er verra ef svæðið geymir einhverja sögu sem hægt er að fræðast um. Síðast en ekki síst viljum við í sameiningu skapa fallegan félagsskap fólks sem nærist á skemmtilegri samveru og útiveru og nýtur þess að leika sér úti við í öllum veðrum. Þetta er, og á alltaf að vera, BARA GAMAN :) Hópurinn hittist alls sjö sinnum. Einu sinni á fræðslufundi í upphafi, á fimm miðvikudagsgöngum og einni lengri laugardagsgöngu. Á fræðslufundinum verður farið yfir dagskrá vetrarins, allt skipulagið í kringum æfingarnar og nauðsynlegan búnað, muninn á mismunandi skíðum og skinnum etc. Miðvikudagsgöngurnar hefjast kl. 18, eru allar í nágrenni Reykjavíkur og reynt verður að miða við að það taki aldrei lengri tíma en að hámarki 40 mínútur að aka á upphafsstað göngunnar. Göngurnar sjálfar taka svo að meðaltali 1.5-2.5 klst. Í helgargöngunni leyfum við okkur að fara aðeins lengra og vera örlítið lengur á skíðunum. Stefnt er á göngu í jaðri Þingvallaþjóðgarðs, allt eftir snjóalögum og færi. Dagskrá námskeiðsins
- Mið. 8. jan. Kl. 20. Fræðslufundur.
- Mið. 15. jan. Kl. 18.
- Mið. 22. jan. Kl. 18.
- Mið. 29. jan. Kl. 18.
- Mið. 5. feb. Kl. 18.
- Lau. 8. feb. Kl. 10. Þingvellir
- Mið. 12. feb. K. 18.
-
Stutt upphafsnámskeið á brautarskíðum Hefst 2. janúar með fræðslufundi Allir geta gengið á skíðum og allir ættu að læra þessa frábæru íþrótt sem reynir á allan líkamann og eykur úthald, þol og styrk. Við hjá Útihreyfingunni höldum því fram að hvort sem fólk stefni á frama og verðlaunapalla í skíðagöngukeppnum eða þverun jökla á ferðaskíðum með púlkur í eftirdragi, þá þurfi allir að byrja á því að læra undirstöðutæknina í skíðagöngu í braut. Grunntæknina verður að kenna í spori áður en sá lærdómur er yfirfærður yfir á ferðaskíðin þannig að fólk geti byrjað að láta skíðin vinna fyrir sig og svífi áfram í staðinn fyrir að þramma! Þetta námskeið er því bæði hugsað fyrir byrjendur á brautarskíðum sem og þá sem hafa hingað til aðeins gengið á ferðaskíðum en vilja bæta tæknina. Þetta er líka frábært upphafsnámskeið fyrir skíðavertíðina, þ.e. fyrir þá sem þegar kunna eitthvað á brautarskíðum, en þurfa að rifja upp grunntæknina og taktana! Námskeiðið hefst á rafrænum fræðslufundi þar sem fjallað er um hvað þarf að hafa í huga þegar kemur að búnaði, hver er munurinn á mismunandi skíðategundum, skíðaskóm og stöfum og hvernig á að klæða sig þegar gengið er á skíðum í spori. Á fyrstu æfingunni er svo komið að því að læra á búnaðinn, hvernig á að spenna á sig skíðin, hvernig best er að detta (því allir detta!) og taka fyrstu skíðagöngusveifluna :) Fyrstu þrjár æfingarnar eru skipulagðar dag eftir dag en einmitt með því að láta ekki of langan tíma líða á milli æfinga í upphafi, nær fólk mestum árangri og framförum. Lögð er megináhersla á að allir þátttakendur læri taktinn og nái tökum á vanaganginum, þ.e. klassíska sporinu í skíðagöngunni með alls konar tækniæfingum og leikjum. Að auki fá þátttakendur grunnkennslu í öðrum skíðagöngusporum svo sem ýtingum, ýtingum með frásparki, síldarbeinagangi upp brekkur og æfingu í því að renna niður brekkur. Hver kennslustund tekur um 2 klukkustundir og kennsla fer fram á skíðagöngusvæðinu í Bláfjöllum. Aðgangur að svæðinu er ekki innifalinn í verði. Dagskrá námskeiðsins
- Fim. 2. jan. Kl. 20. Fræðslufundur
- Lau. 4. jan. Kl. 10.
- Sun. 5. jan. Kl. 10
- Mán. 6. jan. Kl. 18
- Sun. 12. jan. Kl. 10