Eyjafjallajökull. Fjallganga

18.900 kr.

Einn af þessum stóru!
26. apríl

Klassísk jöklaganga á Hámund í Eyjafjallajökli, sem telst einn af flottari jöklatindum landsins.

Gígur Eyjafjallajökuls er prýddur fjórum tindum og er Hámundur sá hæsti, rís í 1620 m hæð og er einn af hundrað hæstu tindum landsins. Útsýnið af jöklinum á sér vart hliðstæðu. Bæði er fádæma fallegt útsýni yfir suðurströndina og til Vestmannaeyja sem jökullinn er kenndur við og þegar upp á Hámund er komið opnast að auki sýn yfir öskjuna og norður um allt Fjallabak.

Gengið er upp frá Seljavöllum, sunnan undir jöklinum og sömu leið niður aftur. Leiðin liggur alveg frá upphafi nánast viðstöðulaust upp í mót en alls er hækkunin um 1500 m. Þegar komið er á jökul, fara allir í jöklabelti og ganga í línu. Mjög líklega verða jöklabroddar nauðsynlegir þegar ofar dregur og þá er ísöxin sjaldan langt undan.

Þetta er erfið uppganga sem krefst líkamlegrar hreysti og andlegs styrks. Gera má ráð fyrir að gangan taki 8-12 tíma, allt eftir aðstæðum. Þátttakendur ættu að miða við að geta gengið upp að Steini í Esjunni á undir klukkutíma. Þeir sem ekki eru vanir jöklaferðum, þurfa að auki að hafa tekið námskeiðið Vetrarfjallamennska.

Á jöklum er auðvitað allra veðra von og að auki er gengið upp í töluverða hæð, svo að nauðsynlegt er að vera vel útbúinn með hlý, vatns-, og vindþétt utanyfirföt og gott nesti. Athugið að ef veðurspá er óhagstæð fyrir þennan laugardag, er mögulegt að ferðin verði færð yfir á sunnudag.

Skráðir þátttakendur verða boðaðir á rafrænan upplýsingafund og fá ítarlegan upplýsinga- og búnaðarpóst í aðdraganda ferðar. Að lágmarki er nauðsynlegt að eiga góða gönguskó, dagpoka og jöklaþrennuna; belti, brodda og ísöxi. Hægt er að leigja jöklaþrennuna, m.a. hjá Útilífi.

Ferðin kostar 18.900. Innifalið í verði er leiðsögn, utanumhald og rafrænn upplýsingafundur í aðdraganda ferðar.

Í þessari fjallgöngu er gengið með Útigenginu, fjallgönguhópi Útihreyfingarinnar sem æfir sig frá áramótum í því að ganga á fjöll með það að takmarki að ganga á Eyjafjallajökul að vori.

Title

Go to Top