Akrafjall. Fjallganga

7.900 kr.

Geirmundartindur í Akrafjalli
9. mars

Ganga á Akrafjall er alltaf skemmtileg. Ekki síst því Akrafjallið kemur öllum á óvart með fjölbreytileika, útsýni og krefjandi tindum.

Geirmundartindur er annar tveggja hápunkta fjallsins en jafnframt sá sem er sjaldfarnari. Fyrir þá sem hafa bara farið á Háahnjúk, að sunnanverðu, er þetta eiginlega skylduganga því hér gefst frábært færi á að virða fyrir sér Leirársveitina og Skarðsheiðina, já og allt Vesturland í einni hendingu af stórglæsilegum fjallstoppi.

Þetta er jafnframt tilvalin fjallganga fyrir þau sem þjást af örlítilli lofthræðslu því ekkert er betra til að læknast af slíkum óþarfa en að æfa sig í því að ganga á öruggum fjallaslóðum sem jafnframt eru í nokkurri hæð.

Gangan hefst kl. 9 frá bílastæðinu undir Akrafjalli og fyrst um sinn er gengið á fjölförnum slóða upp í mynni Berjadals sem klýfur fjallið nánast í sundur. Þetta er leiksvæði Skagamanna sem nota Akrafjall sem nokkurs konar líkamsræktarstöð og margir ganga hér um að minnsta kosti einu sinni í viku!

Það er brattgengt upp úr Berjadalnum, norður eftir eggjum fjallsins og upp á Geirmundartind. Slóðin er að auki grýtt yfirferðar á köflum og því seinfarin en verðlaunin eru því meiri og betri þegar upp er komið. Leiðin fram og til baka er um 7 km með um 600 m hækkun og gera má ráð fyrir að gangan fram og til baka taki um 4 klst.

Skráðir þátttakendur fá ítarlegan tölvupóst með ferðalýsingu og búnaðarlista í aðdraganda ferðar.

Í þessari fjallgöngu er gengið með Útigenginu, fjallgönguhópi Útihreyfingarinnar. Í Útigenginu er gleðin í fyrirrúmi og dagskráin hentar fyrir þau sem langar að kynnast fjöllum og stöðum í nágrenni Reykjavíkur. Tilvalinn hópur fyrir fólk sem er að taka sín fyrstu skref í fjallgöngum eða þau sem langar að dusta rykið af göngubúnaðinum og vilja kynnast öðru útivistarfólki, nýjum stöðum og bæta við færni sína á fjöllum.

Title

Go to Top