Útihreyfingin á Austurlandi

12 mánaða fjarþjálfun

Útihreyfingin ætlar að bjóða upp á ársáskrift í fjarþjálfun allt næsta ár, 2023.

Í áskriftinni felst aðgangur að æfingaáætlun sem byggir á tveimur til þremur krossþjálfunaræfingum á viku þar sem blandað er saman mismunandi æfingum og mismunandi hreyfingu. Markmiðið er að tryggja líkamlega getu, þol og þrek fyrir alls konar útivist og ævintýramennsku.

Á þriðjudögum eru styrktar- og þrekæfingar ásamt alls konar hraðasprettum, oftast hlaupandi en stundum á hjólum. Fimmtudagsæfingarnar eru tækni- og gæðaæfingar, hlaup, hjól eða skíði. Á laugardögum og sunnudögum til skiptis er lengri hreyfing sem er stundum fjallganga eða hjólreiðar, fjallahlaup, fjallaskíði, gönguskíði og jafnvel sjósund í bland!

Við trúum ekki á átaksverkefni en vitum að það getur verið erfitt að halda sér að verki. Þess vegna er persónulegt utanumhald mikilvægur þáttur í Útihreyfingunni. Strax eftir skráningu er meðlimum boðið í rafrænt upphafsviðtal um markmið og væntingar, ásamt því að þrisvar á ári fá allir endurgjöf og mat á stöðu sinni og árangri.

Ársáskriftin endurnýjast sjálfkrafa ef henni er ekki sagt upp með að minnsta kosti mánaðarlöngum fyrirvara. Ef fleiri en einn frá sama lögheimili skráir sig í Útihreyfinguna í 12 mánuði, fá viðbótarmeðlimir 20% fjölskylduafslátt.

Meðlimir í Útihreyfingunni njóta forgangs og afsláttar í flestar ferðir og námskeið hreyfingarinnar, Úti ævintýri.

Verð fyrir þátttöku í fjarþálfunarhópnum er 108.000 kr. eða 9.000 kr. á mánuði í 12 mánuði. Það er um 30% afsláttur af fullu verði sem er 154.800 kr.

Landvættur og Hálfvættur 2023

Landvættaþrautirnar fjórar eru frábær áskorun til að setja sér. Áskorunin felst í því að taka þátt í fjórum þrautum á einu ári: Skíðagöngu á Vestfjörðum í apríl, fjallahjólreiðum á Reykjanesi í júní, fjallahlaupi á Tröllaskaga í byrjun júlí og vatnasundi skammt frá Egilsstöðum undir lok júlí. 

Þetta er áskorun og markmið sem ekki bara kemur þér í fantagott form, þú lærir líka helling í leiðinni, ferðast um landið og bætir fullt af vinum og gleðistundum í líf þitt 🙂

Útihreyfingin stefnir að því að mynda sérstakan fjarþjálfunarhóp á Austurlandi til undirbúnings fyrir Landvættaþrautirnar 2023. Hópurinn hefur æfingar í byrjun janúar. 

Þátttakendur fylgja grunn æfingaáætlun Útihreyfingarinnar en byggja svo ofan á hana og gert er ráð fyrir 3-4 æfingum á viku. Þar af er hópurinn hvattur til að hittast á einni sameiginlegri æfingu á viku, á mismunandi stöðum á Austfjörðum. 

Allir þátttakendur fara í gegnum upphafsviðtal um stöðu sína og markmið og fá markvissa endurgjöf, eftirfylgni og utanumhald allt tímabilið. Sérstakt markþjálfunarnámskeið er haldið í gegnum fjarfundabúnað í janúar og í gegnum allt námskeiðið er mikil kennsla og fræðsla, m.a. um tækni, búnað, keppnisundirbúning og keppnisnæringu. Þá eru fræðslu- og upplýsingafundir haldnir fyrir hverja keppnisgrein og þátttakendur fá stuðning og fylgni í gegnum keppnirnar sjálfar.

Ef fleiri en tíu skrá sig í fjarþjálfunarhópinn mun einn eða fleiri þjálfari koma austur a.m.k. eina helgi á æfingatímabilinu. Sú helgi verður undirlögð þéttpakkaðri æfingadagskrá þar sem sérstök áhersla verður lögð á kennslu og tækniæfingar í skíðagöngu og sundi. Landvættaþjálfarar Útihreyfingarinnar eru allir með margfalda Landvættatitla og hafa þjálfað vel yfir 50% af öllum sem klárað hafa Landvættaþrautirnar frá upphafi.

Þátttakendur í æfingahópnum geta valið að taka heilar Landvættaþrautir eða hálfar. 

  • Fossavatnsgangan 15. apríl 2023
    25 eða 50 km skíðaganga
  • Bláalónsþrautin 10. júní 2023
    30 eða 60 km hjólreiðar
  • Þorvaldsdalsskokkið 1. júlí 2023
    16 eða 25 km fjallahlaup
  • Urriðavatnssundið 22. júlí 2023
    1250 m eða 2500 m vatnasund

Verð fyrir þátttöku í fjarþálfunarhópnum er 98.000 kr. eða 14.000 kr. á mánuði í 7 mánuði. Það er um 40% afsláttur af fullu verði sem er 161.100 kr. Athugið að skráningargjöld í keppnirnar sjálfar eru ekki innifalin í þessu verði. 

Skráning og upphaf

Gert er ráð fyrir upphafsfundi kl. 20, þriðjudaginn 3. janúar og að æfingar hefjist fimmtudaginn 5. janúar. Áhugasamir eru beðnir um að skrá sig til þátttöku hér að neðan, hvort sem er í 12 mánaða fjarþjálfun eða Landvætta fjarþjálfunarhópinn. 

Allar nánari upplýsingar veitir Brynhildur í síma 6920029 eða brynhildur@utihreyfingin.is