Úti villisund. Áskorun
16.000 kr.
Synt í öllum 16 vötnum Reykjaness
Hefst 26. maí
Sex vikna villisundsáskorun þar sem synt er í öllum vötnum á Reykjanesskaganum, alls 16 talsins. Hópurinn hittist kl. 18 alla mánudaga, frá og með 26. maí til 30. júní.
Áskorunin felst í því að synda a.m.k. 100 m í öllum vötnunum sextán. Við gerum þá kröfu að allir þátttakendur séu með litríka sundhettu og öryggisbaujur / öryggisflot. Að öðru leyti er valkvætt hvort að fólk syndir í sundfötum eða sundgalla, með sundblöðkur, í neopren sokkum, skóm eða hönskum eða ekki.
Hópurinn hittist alls sex sinnum og í hvert skipti er synt í tveimur til þremur vötnum sem liggja hvert nálægt öðru.
Í flestum tilfellum er hægt að aka að vötnunum og á milli þeirra, en í að minnsta kosti tvö skipti þarf að ganga að og á milli þeirra vatna sem synt er í. Sundferðirnar verða því mislangar eftir því hversu langt þarf að aka/ganga eða allt frá 1 klst. að 3-4 klst.
Sum vötnin gætu verið það grunn, þegar að þeim er komið, að ekki sé raunhæft að taka sundtök í þeim! Alltaf er þó gert ráð fyrir að þátttakendur vaði eða sulli í vatninu a.m.k. 100 m, til að „klukka“ það.
Öllum tjörnum á Reykjanesinu er sleppt í þessari vatnasundsáskorun, svo sem Ástjörn í Hafnarfirði, Tjörninni í Reykjavík, Hrauntúnstjörn í Heiðmörk og þaðan af smærri tjörnum 🙃
Skráðir þátttakendur fá ítarlegan tölvupóst með nánari upplýsingum um áskorunina. Að auki verður stofnaður sérstakur spjallhópur á FB þar sem nánari samskipti fara fram, m.a. skipulag hverrar ferðar fyrir sig.
Umsjón hefur Brynhildur Ólafsdóttir sem hefur marga fjöruna sopið, bókstaflega, og m.a. synt í boðsundi yfir Ermarsundið.
Þátttaka í hópnum kostar 16 þúsund krónur.