Úti langhlaup
24.000 kr.
Fjögurra mánaða æfingahópur
Hefst 31. mars með fræðslufundi
Fjögurra mánaða æfinga- og undirbúningshópur sem er sérstaklega hugsaður fyrir þau sem stefna að því að taka þátt í Kerlingarfjöll Ultra hlaupinu sem verður haldið laugardaginn 26. júlí, 2025.
Æfingaáætlunin hentar bæði fyrir 22 og 60 km vegalengdina í Kerlingarfjallahlaupinu. Útihreyfingin á frátekin pláss í báðar þessar vegalengdir fyrir þátttakendur á námskeiðinu. Um takmarkaðan fjölda plássa er að ræða, svo að fyrstir koma, fyrstir fá!
Þjálfarar munu líka aðlaga æfingaplanið fyrir þau sem eru að huga að öðrum langhlaupamarkmiðum næsta sumar svo sem Mýrdalshlaupinu, Hengil Ultra, Laugavegshlaupið, Dyrfjallahlaupið og Súlur Vertical.
Á svona markmiðstengdu ferðalagi skiptir höfuðmáli að æfingaferlið sé skemmtilegt og félagsskapurinn góður. Í þessum hópi finnur þú æfingafélagana sem halda þér við efnið, þjást með þér í gegnum súrt og sætt og deila með þér nördalegum áhuga á langhlaupum.
Æskilegt er að þeir sem ætla að hlaupa 60 km í Kerlingarfjallahlaupinu, hafi hlaupið reglulega í þó nokkurn tíma fram að upphafi námskeiðs og geti a.m.k. hlaupið 15 km án vandræða. Þeir sem stefna á 22 km í Kerlingarfjallahlaupinu, þurfa að treysta sér í að hlaupa 5 km í upphafi námskeiðsins.
Sameiginlegar æfingar hefjast 6. apríl, 2025 og standa til mánaðarmóta júlí/ágúst en gert er ráð fyrir að hópurinn hittist fyrst á rafrænum undirbúningsfundi kl. 20, þann 31. mars. Í kjölfarið er svo stofnaður sérstakur FB hópur þar sem samskipti og samtal hópsins fer fram.
Hópurinn æfir eftir grunnæfingaplani Útihreyfingarinnar, þ.e. 4-5 krossþjálfunaræfingar á viku (m.a. fjallahlaup, þrekæfingar og sprettir). Ofan á það bætist svo sérhæft hlaupaprógram sem hver og einn þátttakandi fær, sem samanstendur af sameiginlegum lengri hlaupaæfingum á sunnudögum og hlaupum á eigin vegum plús undirbúningsfundi fyrir keppnina þar sem farið verður yfir hlaupaprófíl, næringu, búnað etc.
Að auki er innifalið í þátttökugjaldinu sameiginleg æfingaferð í Kerlingarfjöll, laugardaginn 21. júní. Auðvelt er að breyta æfingaferðinni í helgarferð, því þeim sem það kjósa, bjóðast góð kjör á gistingu á hótelinu í Kerlingarfjöllum aðfararnótt sunnudagsins.
Þjálfarar hópsins eru Róbert Marshall, Kjartan Salómonsson og Helga María Heiðarsdóttir, allt þrautreyndir langhlauparar og útivistarfólk. Útihreyfingin er framkvæmdaraðili Kerlingarfjallahlaupsins og þjálfararnir þekkja því leiðina, landslag og aðstæður afar vel.
Námskeiðið kostar 24.000 kr. en að auki er gert ráð fyrir því að þátttakendur æfi með Útihreyfingunni í þá fjóra mánuði sem námskeiðið stendur. Athugið að þátttökugjald í Kerlingarfjöll Ultra eða öðrum hlaupum er ekki innifalið í verðinu.
Skráðir þátttakendur fá ítarlegan upplýsingapóst og boð á undirbúningsfundinn í aðdraganda námskeiðsins.