Undir Eiger. Snarganga

80.000 kr.357.000 kr.

Dýrðardagar undir stórbrotnum Alpatindum

21.-28. ágúst

ÖRFÁ SÆTI LAUS

Ævintýraleg snargönguferð innan um stórbrotnustu alpatinda Sviss, þar sem saga háfjallaklifurs hófst. Svæðið er fyrirmynd Tolkiens að heimkynnum álfanna í Hringadróttinssögu enda annálað fyrir himneska fegurð.

Gengið er um stórkostlega fjallastíga undir og að frægustu fjallaþrenningu Alpanna: Eiger, Mönch og Jungfrau. Upplifunin er engu lík. Við reynum okkur líka við auðvelda klettagöngu, göngum smáspöl á jökli og hendum okkur við hvert gefið tækifæri í hressandi alpabað í öllum þeim blágrænu fjallavötnum sem á leið okkar verða.

Við köllum þennan ferðamáta snargöngu, sem er íslenskun á fyrirbærinu fast hiking og liggur á milli hefðbundinnar fjallgöngu og fjallahlaups. Í snargönguferðum er verið að njóta náttúrunnar og hraði er ekki takmark í sjálfu sér. Hins vegar er leitast við að ferðast með eins léttan bakpoka og kostur er og stundum er valhoppað við fót, því Sviss er jú heimaland sjálfrar Heidi 🙂

Ferðin hefst í Zurich með því að hópurinn ferðast saman með lest til bæjarins Interlaken þar sem gist er fyrstu tvær næturnar. Næstu sex daga er svo gengið í ólýsanlegu útsýni og fjallafegurð.

Dagleiðirnar eru mislangar en að meðaltali er farið um 15 km á dag. Stysti dagurinn er 10 km en sá lengsti 23 km. Flesta daga er líka hægt að velja um bæði lengri og styttri leiðir, þar sem oft er hægt að taka kláf upp/niður.

Þar sem að mestu er gengið langt utan akvega og alfaraleiða þá er ekki hægt að trússa daglegan farangur á milli næturstaða. Hann er hins vegar fluttur frá upphafsstað og á áfangastað auk þess að um mitt ferðalagið verður hægt að komast í töskurnar, skipta um föt og losa sig við allan óþarfa. Með þessum hætti þarf aldrei að ganga meira en í tvo daga án þess að komast í farangurinn.

Þrjár nætur er gist í sögufrægum fjallaskálum og þrjár nætur á huggulegum gistiheimilum. Síðustu nóttinni er svo eytt í gleði á góðu hóteli með sundlaug, gufu og öllum heimsins þægindum. Þar fagnar hópurinn líka áfanganum með veglegri sameiginlegri matarveislu.

Ferðin er skipulögð með þeim hætti að fólk getur flogið frá Íslandi til Zurich sama dag og ferðin hefst, þ.e. 21. ágúst og jafnframt náð flugi heim frá Sviss daginn eftir síðustu nóttina, þ.e. 28. ágúst. Athugið að einnig er hægt að fljúga til og frá Genfar eða koma annars staðar frá og slást í hópinn í Interlaken.

Fararstjórar eru Brynhildur Ólafsdóttir og Róbert Marshall.

Innifalið í ferðinni, sem kostar 357 þúsund er gisting í sjö nætur, allur morgunmatur og fimm af sjö kvöldmáltíðum, allar ferðir í lestum og kláfum, flutningur á farangri á milli staða, undirbúningsfundur, leiðsögn og utanumhald. Flug til og frá Sviss er ekki innifalið.

Hægt er að greiða ferð að fullu eða greiða staðfestingargjald 80.000 kr og eftirstöðvar í síðasta lagi sex vikum fyrir ferð. Lágmarksþátttaka miðar við 10 manns.

Umsagnir um ferðina

„Það er alltaf ævintýri að ferðast með Brynhildi og Róberti! Þau eru meistarar í að deila fróðleik og sögum af svæðinu og eiga þátt í að búa til einstaka stemmingu, eins og fararstjórar Útihreyfingarinnar allir.“

Fyrsta sinn sem ég fer í svona ferð og stóðst hún allar mínar væntingar og meira til. Frábær leiðsögn með endalausum fróðleik um fjöll og menn og allt skipulag upp á 10.

Enginn dagur eins sem gerði þetta einstaklega spennandi, ævintýralega gaman og oft farið út fyrir þægindarammann sem var mikill persónulegur sigur.

Minningarbankinn stútfullur af myndum og einstakri upplifun. Þakklát fyrir frábæra ferðafélaga og magnað ævintýri.

Title

Go to Top