Þórsmörk. Hlaup og fjölskyldugleði

25.000 kr.35.000 kr.

Fimmvörðuháls og Tindfjallahringur
15.-16. júní

Tveggja daga fjölskylduvæn hlaupaferð inn í Þórsmörk þar sem meðal annars er hlaupið yfir Fimmvörðuháls.

Hlaupið er bæði laugardag og sunnudag og nokkrar útfærslur eru í boði þannig að öll getustig geta tekið þátt. En það er ekki bara hlaupið, heldur líka grillað saman, spjallað, sungið og glaðst.

Á laugardag er boðið upp á tvær mismunandi langar leiðir.

  • Annars vegar Fimmvörðuhálsinn, frá Skógum yfir í Þórsmörk, alls um 23 km. Þetta er krefjandi en gríðarlega falleg leið með tæplega 1300 m hækkun fyrstu 14 km. Jafnan þarf að hlaupa nokkra kílómetra á snjó áður en leiðin liggur niður á við og dýrðir Þórsmerkurinnar blasa við.
  • Hins vegar 8-10 km fallegur útsýnishringur í Þórsmörk með um 4-500 m hækkun. Þessi leið er tilvalin fyrir þá sem vilja fara hægt, njóta og fræðast um svæðið og er alveg sérstaklega skemmtileg fyrir alla krakka.

Á sunnudag er svo hlaupið eða gengið um svokallaðan Tindfjallahring, sem er rétt 10 km langur og ægifagur. Þeir sem fara hægar yfir, leggja af stað á undan þeim hraðari. Hópurinn sameinast svo á leiðinni og klárar hringinn saman.

Fjölskyldan saman
Þessi hlaupahelgi er fjölskylduvæn sem þýðir að nóg er við að vera fyrir maka, börn, vini og vandamenn hlauparanna. Þeir geta annað hvort komið með í hlaupin, allt eftir getu og vilja eða bara dundað sér í dásemdar Þórsmörk.

Athugið að á laugardag er í líka boði að foreldrar hlaupi Fimmvörðuhálsinn á meðan börnin fara styttri útsýnishringinn, þ.e. ekki er nauðsynlegt að foreldrar fylgi börnum sínum þann daginn.

Miðstöð hópsins er í Básum þar sem hópurinn kemur sér fyrir í skála eða tjaldi. Þar er frábær aðstaða til að grilla og borða saman og halda kvöldvöku við varðeld.

Verð og innifalið
Ferðin kostar 25 þúsund fyrir meðlimi Útihreyfingarinnar en 35 þúsund fyrir aðra. Börn yngri en 16 ára borga 5 þúsund kr. Innifalið í verði er utanumhald, leiðsögn og öryggisviðbúnaður fyrir hlaupin/göngurnar og sameiginleg grillmáltíð á laugardagskvöld.

Gisting í Básum er ekki innifalin en Útihreyfingin er búin að tryggja skálapláss fyrir þá sem vilja. Fyrstir koma, fyrstir fá. Skálagisting kostar 11.600 kr. en tjaldgisting 2.200 kr.

Athugið að strax við skráningu þurfa þátttakendur að láta vita hvort að þeir vilja panta skálagistingu og einnig hvort og þá hversu mörg börn koma með í gleðina. Vinsamlegast sendið tölvupóst á utihreyfingin@utihreyfingin.is með þessum upplýsingum.

Hópurinn sameinast svo um það verkefni að flytja hlaupara að Skógum og allan akstur inn og út úr Þórsmörk. Þetta verður skipulagt í þaula þegar fjöldi þátttakanda er klár 🙂

Title

Go to Top