Sviss Snarganga*
70.000 kr. – 314.000 kr.
Átta dýrðardagar í skjóli Matterhorns
28. ágúst – 4. september
Ferðast um eitt stórbrotnasta svæði Alpanna, fjallasalina sem liggja um hið heimsfræga Matterhorn, fjallið sem stundum er kallað Toblerone-fjallið, enda er súkkulaðið mótað eftir þríhyrndri lögun fjallsins!
Í þessari ferð er gengið og hlaupið á milli vinalegra og vel útbúinna fjallaskála og m.a. gengið á hæsta Alpatindinn sem hægt er að sækja heim án sérstaks háfjallaútbúnaðar, 3.600 metra yfir sjávarmáli. Við reynum okkur líka við auðvelda klettagönguleið (via ferrata), dáumst að umhverfinu speglast í blátærum fjallavötnum, göngum yfir lengstu hengibrú í Ölpunum, ferðumst í kláfum og úðum í okkur svissnesku súkkulaði og bráðnum osti á meðan við fræðumst um sviplega fjallgöngusögu héraðsins og kapphlaupið um hver yrði fyrstur upp á Matterhorn.
Við köllum þennan ferðamáta snargöngu, sem er íslenskun á fyrirbærinu fast hiking og liggur á milli hefðbundinnar fjallgöngu og fjallahlaups. Í snargönguferðum er verið að njóta náttúrunnar og hraði er ekki takmark í sjálfu sér. Hins vegar er leitast við að ferðast með eins léttan bakpoka og kostur er og stundum er valhoppað við fót, því Sviss er jú heimaland sjálfrar Heidi 🙂
Ferðin hefst í Genf með því að ferðast er í lítilli rútu inn í þröngan háfjallasal, þaðan sem gengið er stuttan spöl upp í fyrsta fjallaskálann. Ferðin tekur í heild átta daga og þar af er gengið um stórkostlega fjallastíga í sjö daga. Dagleiðirnar eru aðeins um 10-13 km langar og oftast gefst tækifæri til að borða góðan hádegismat í skálum á leiðinni. Eftir því sem líður á ferðina, færist Matterhornið stöðugt nær og síðustu þrjá dagana er varla hægt að komast úr sporunum fyrir óviðjafnanlegu útsýni og fjallafegurð.
Okkar mottó er að það eigi alltaf að ljúka svona fjallaskálaferðum með góðu dekri. Hópurinn endar því í miklum vellystingum á lúxushóteli í Zermatt, þar sem hægt er að láta ferðaþreytuna líða úr sér í heitum nuddpotti á meðan sólin sest á bak við fjallið fagra.
Daglegur farangur er ekki trússaður á milli skála, enda liggja þeir flestir langt utan akvega og alfaraleiða. Í upphafi ferðar eru hins vegar töskur þátttakenda sendar til Zermatt, svo þar gefst tækifæri til að klæða sig í spariföt fyrir síðustu kvöldmáltíðina.
Verð: 314.000 kr.
Innifalið: Gisting í sjö nætur, þar af fimm í fjallaskálum með fullu fæði, eina á fjallahóteli og eina á lúxushóteli, þar sem morgunmatur er innifalinn en ekki kvöldmatur. Skutl frá Genf að upphafsstað göngunnar, flutningur á farangri frá Genf og til Zermatt, kláfar, undirbúningsfundur, leiðsögn og utanumhald.
Ekki innifalið: Flug til og frá Sviss og ferðalagið frá Zermatt að ferð lokinni. Ferðin er skipulögð með þeim hætti að fólk getur flogið frá Íslandi til Genfar sama dag og ferðin hefst, þ.e. 28. ágúst og jafnframt náð flugi heim frá Sviss daginn eftir síðustu nóttina í Zermatt, þ.e. 4. september. Líka er hægt að fljúga til og frá Zurich eða Milano, allt eftir hentugleika. Hafið samband ef spurningar vakna.
Hægt er að greiða ferð að fullu eða staðfestingargjald 70.000 kr. og eftirstöðvar í síðasta lagi sex vikum fyrir ferð.
Lágmarksþátttaka miðar við 10 manns.