Öskjuvegur og Herðubreið. Snarganga

108.000 kr.134.000 kr.

Fimm snargöngudagar og Herðubreið í kaupbæti
22.- 27. ágúst

Hrá og stórbrotin fimm daga óbyggðaleið á milli skála á hálendinu norðan Vatnajökuls. Leiðin, sem kölluð er Öskjuvegur, liggur á milli Herðubreiðalinda og Svartárkots og er samtals um 100 km löng. Þetta er skemmtileg áskorun, dagleiðirnar eru 15-26 km langar og slóðin liggur um afskekkt hálendi þar sem allra veðra er von, líka að sumri til. Verðlaunin eru hins vegar ekki af verri endanum. Svartir sandar, úfin hraun og kyngimagnaðar eldstöðvar einkenna leiðina og auðvitað fegursta fjall Íslands, Herðubreið.

Farangur er trússaður á milli skálanna fimm sem gist er í, svo að hægt er að ferðast hratt og létt yfir daginn. Við köllum þennan ferðamáta snargöngu, sem er íslenskun á fyrirbærinu fast hiking og liggur á milli hefðbundinnar fjallgöngu og fjallahlaups. Í snargönguferðum er verið að njóta náttúrunnar og hraði er ekki takmark í sjálfu sér. Hins vegar er leitast við að ferðast með eins léttan bakpoka og kostur er og stundum er valhoppað við fót!

Þátttakendur koma á eigin bílum að Svartárkoti í Bárðardal í upphafi ferðar en þaðan er haldið með rútu í Herðubreiðalindir þar sem gist er í Þorsteinsskála fyrstu nóttina. Daginn eftir er byrjað á því að ganga að og upp á Herðubreið, þaðan sem virða má fyrir sér næstu dagleiðir. Eftir fjallgönguna er stuttur spölur yfir söndugt helluhraun í skálann í Bræðrafelli.

Á degi tvö er gengið úr Bræðrafelli suður í Drekagil í Öskju sem er vinsæll áfangastaður ferðamanna. Á fáum stöðum er öræfakyrrðin dýpri en á þessum slóðum. Drekagil er alltaf gaman að skoða og ekki mun væsa um okkur í vel búnum skálunum.

Dagur þrjú er lengsti og erfiðasti en jafnframt fjölbreyttasti dagurinn. Stefnan er tekin yfir Dyngjufjöll og upp á austurbarm Öskju inn í eina mestu himnafegurð íslenskra fjalla. Askjan öll og hið dularfulla og síkvika Öskjuvatn blasir við okkur á meðan við lækkum okkur niður að Víti og Knebelsvörðunni og veltum fyrir okkur örlögum vísindamannanna sem hér hurfu árið 1907. Aftur þarf að hækka sig upp á norðurbarm Öskju áður en leiðin liggur niður í móti að skálanum í Dyngjufelli. Nú erum við komin vel út fyrir troðnar slóðir. Hér er fáfarið og auðvelt að gleyma stað og stund í eilífðarþögninni sem aðeins er rofin af taktföstum fótatökum göngumanna á grófum vikrinum niður Jónsskarð í Dyngjufjalladal.

Á fjórða degi er stefnan tekin í Botnaskála. Gengið er um sandorpin hraun í víðfeðmri fjallasýn þar sem Trölladyngja, Kollóttadyngja, Bláfjall og auðvitað Herðubreið skreyta sjóndeildarhringinn. Hér ríkir fegurðin ein og ummerki um slóða og mannaferðir mást smám saman út í sandinum meðfram apalhraunbrún Suðurárhraunsins.

Fimmti og síðasti dagurinn ber okkur í norðvestur og skyndilega er hér ofgnótt af silfurtæru lindarvatni en dagleiðirnar hingað til hafa verið giska vatnslitlar og einungis hægt að nálgast vatn í skálunum. Auðnir Ódáðahrauns eru brátt að baki og við komum á gróið land. Gengið er niður með Suðurá í átt að Stóruflesju og áfram í Svartárkoti þar sem bílarnir bíða og formlegri ferð lýkur.

Fararstjóri er Helga María Heiðarsdóttir.

Ferðin kostar 108 þúsund fyrir meðlimi Útihreyfingarinnar en 134 þúsund fyrir aðra. Hægt er að greiða ferð að fullu eða skipta greiðslum eins og hver og einn kýs inni í greiðsluferlinu sjálfu.

Innifalið í verði er leiðsögn og utanumhald, gisting í fimm nætur í skálum, trúss á farangri á milli skála og rútuferð úr Bárðardal að Herðubreiðalindum í upphafi ferðar.

Skráðir þátttakendur fá ítarlegan upplýsinga- og pökkunarpóst í aðdraganda ferðar. Lágmarksþátttaka er 10 manns.

Title

Go to Top