Lundahlaupið

44.500 kr.49.500 kr.

Hlaupaferð til Vestmannaeyja
3.-5. maí

Puffin Run í Vestmannaeyjum er eitt af skemmtilegustu hlaupum landsins og að sjálfsögðu fjölmennir Útihreyfingin á svæðið.

Hlaupið sjálft er haldið laugardaginn 4. maí, 2024. Þátttakendur hlaupa stórkostlegan útsýnishring um alla Heimaey, mest megnis á stígum en líka á malbiki og grófum malarvegum, alls 20 km. Einnig er í boði að tveir sameinist í lið og hlaupi 10 km hvor eða að fjórir hlaupi 5 km hver. Smellið hér til að lesa allt um Puffin Run og skrá ykkur í hlaupið.

Þessi ferð Útihreyfingarinnar snýst um að nýta túrinn til Vestmannaeyja til að gera smá ferðalag í kringum hlaupið, njóta stemningarinnar í botn og fagna afrekinu í ekta eftirpartýi að hætti heimamanna!

Hópurinn kemur á eigin vegum til Vestmannaeyja á föstudag og sameinast gjarnan í bíla. Gist er í skátaskálanum í Eyjum, bæði föstudags- og laugardagskvöld. Þetta er hlýlegur skáli, svipaður og hefðbundnir fjallaskálar en með tveimur baðherbergjum og sturtum ásamt vel útbúnu eldhúsi. Gist er í svefnpokaplássi, bæði í kojum og á dýnum. Fólk kemur með eigin lak og svefnpoka eða sæng og kodda með sér.

Á föstudagskvöld kl. 20 er fundur í skátaskálanum þar sem farið er nákvæmlega yfir keppnisleiðina sjálfa, spáð í veðurspá og heppilegum keppnisfötum etc. Á laugardagsmorgun er sameiginlegur keppnismorgunmatur áður en haldið er á upphafsstað og hlaupafjörið byrjar.

Eftir hlaup, seinnipart laugardags, er svo slegið upp gleðiveislu í skátaskálanum sem byrjar á glæsilegum hátíðarkvöldverði og endar í góðu söngpartýi þar sem meðal annars verður sungið um Nínu og hvað lífið sé nú yndislegt 🙂

Eftir letilegan sunnudagsmorgunmat og frágang í skála er farið í stutta endurheimtar- og liðleikafjallgöngu áður en haldið er heim á leið með Herjólfi. Valið stendur á milli þess að ganga á Heimaklett, Helgafell, Eldfell, Sæfell eða Dalfjall, allt eftir veðri og stemningu.

Ferðin kostar 44.500 kr. fyrir meðlimi Útihreyfingarinnar en 49.500 kr. fyrir aðra. Hægt er að greiða ferðina í einu lagi eða skipta greiðslum eins og hver og einn kýs inni í greiðsluferlinu sjálfu.

Innifalið í verði er gisting í tvær nætur, sameiginlegur morgunmatur laugardag og sunnudag, kvöldverður og partý á laugardag og leiðsögð fjallganga á sunnudag.

Athugið að hvorki sigling með Herjólfi né skráningin í Puffin Run er innifalið í verðinu og þátttakendur eru hvattir til að bóka hvoru tveggja með góðum fyrirvara, þar sem jafnan selst upp í þetta vinsæla hlaup. Að auki þá er þetta fast verð, þ.e. hvort sem fólk ætlar að borða eða ekki, gista báðar nætur eða bara aðra.

DAGSKRÁ

Föstudagur

 • Fólk tínist til Vestmanneyja með Herjólfi
 • Allir koma sér fyrir í skála
 • Keppnisfundur í skála, veður og búnaður

Laugardagur

 • Sameiginlegur morgunmatur
 • Puffin Run tekið í nefið
 • Sund og sjæn
 • Sameiginlegur kvöldmatur í skála
 • Glaumur og gleði

Sunnudagur

 • Sameiginlegur morgunmatur
 • Tiltekt og pökkun
 • Leiðsagður liðleikagöngutúr
 • Fólk tínist heim á leið með Herjólfi

Title

Go to Top