Hvannadalshnúkur. Fjallaskíði

34.000 kr.43.000 kr.

Fjallaskíðaferð á hæsta tind Íslands
18. maí

Allir íslenskir útivistarunnendur eru að sjálfsögðu með Hvannadalshnúk á fjallalistanum sínum og fyrir vant skíðafólk þá er það svokallaður nóbreiner að gera það á fjallaskíðum! Það breytir nefnilega töluverðu að geta skíðað niður eftir langa og erfiða uppgöngu enda styttir það bæði og léttir ferðina.

Ferðin byrjar í morgunsárið þegar fjallaskíði eða fjallabretti eru fest á bakpokann við Sandfell. Ef heppnin er með í för og snjóalög hagstæð verður hægt að byrja að skinna í um það bil 300 metra hæð, en annars er stefnt að því að fara á skíðin eins fljótt og auðið er.

Við tekur jöfn og róleg ganga upp að svokölluðum Línusteini þar sem farið er í línu eftir stutt nestisstopp. Það er gríðarlega mikilvægt að fara hægt yfir, svitna eins lítið og hægt er og drekka vel af vatni. Hér tekur löng og jöfn jökulbrekka á móti hópnum alla leið upp á öskjubrúnina í 1800 metra hæð og það er hérna sem prísum okkur fyrst sæl fyrir að geta gengið jöfnum fótum á skíðunum.

Á öskjubrún Öræfajökuls blasir Hvannadalshnúkur við í allri sinni dýrð. Hér er gott að staldra við og nesta sig áður en haldið er að Hnúknum sjálfum yfir nokkurn veginn flata öskjuna. Þá er bara eftir að hækka sig síðustu 300 metrana upp á hæsta tind Íslands og ef færið er gott þá er gaman að fara á skíðunum alla leið á toppinn, annars eru skíðin geymd fyrir neðan tindinn.

Hærra verður svo ekki farið á Íslandi. Eftir faðmlög, útsýnisandköf og hvorutveggja hóp- og montmyndatökur er kominn tími til að setja skinnin í bakpokann og innheimta beygjurnar sem unnið hefur verið fyrir.

Það útheimtir að sjálfsögðu varfærni að skíða á jökli og mikilvægt að fylgja förunum frá því fyrr um morguninn. En að skíða niður af Hvannadalshnúk er sannarlega engu líkt og eitthvað sem allt íslenskt fjallaskíðafólk með snefil af sjálfsvirðingu bókstaflega verður að gera að minnsta kosti einu sinni um ævina 😀

Ganga á Hvannadalshnúk kallar alltaf á gott þol og úthald. Heildarvegalengdin er 24 km með um 2 þúsund metra hækkun og má búast við því að ferðin taki 10-14 klst. Þátttakendur þurfa að auki að vera vant skíðafólk og hafa prufað fjallaskíði áður.

Athugið að veður getur alltaf sett strik í reikninginn og ef ekki viðrar vel þennan laugardag verða sunnudagur og mánudagur hafðir til vara. Þátttakendur fá nánari upplýsingar í tölvupósti þegar nær dregur.

Ferðin kostar 34.000 kr. fyrir meðlimi Útihreyfingarinnar en 43.000 kr. fyrir aðra. Innifalið í verði er leiðsögn, utanumhald og rafrænn upplýsingafundur í aðdraganda ferðar, auk þess sem hópurinn mun hittast kvöldið fyrir gönguna í undirbúningsspjall og búnaðarskoðun. Fólk gistir á eigin vegum í Öræfum fyrir og eftir ferð og stefnt er að því að hafa bækistöð í Svínafelli.

Title

Go to Top