Gullfossleiðin. Fjallahjól

78.000 kr.103.000 kr.

Tveir hjóladagar. Ein nótt í skála
7.-8. september

Dekurleiðangur að hausti. Hjólað um fáfarna vegaslóða frá Kerlingarfjöllum að Flúðum með nokkrum skemmtilegum útúrdúrum. Gist er í eina nótt í skála þar sem sérstakur leiðangurskokkur reiðir fram dýrindis kvöldmáltíð. Ferðin endar svo í Gömlu Lauginni / Secret Lagoon á Flúðum.

Að mestu er hjólað á ágætum malarvegum og því geta bæði fjallahjól og malarmerðir (gravelhjól) hentað í þetta ferðalag. Trússbíll fylgir hópnum alla leið og er til taks ef eitthvað bilar eða fólk verður þreytt. Vegalengdin sem hjóluð er á þessum tveimur dögum er alls um 100 km og hallar mest megnis niður í móti, þar sem byrjað er að hjóla í um 700 metra hæð yfir sjávarmáli og endað í 70 m hæð.

Ferðin hefst eldsnemma á laugardagsmorgni með því að ekið er á einkabílum að Flúðum. Þar eru bílar skildir eftir, hjólum komið fyrir á kerru og haldið með rútu upp í Kerlingarfjöll þaðan sem hjólað er af stað. Dagleiðin er um 45-50 km og á leiðinni verður meðal annars kíkt á hina víðfrægu Kerlingu sem Kerlingarfjöll draga nafn sitt af. Gist er í skemmtilegum fjallaskála um nóttina þar sem hópurinn gerir vel við sig í mat og drykk. Leiðangurskokkur er með í för sem sér til þess að allir séu saddir og sælir.

Seinni dagurinn hefst á staðgóðum sameiginlegum morgunmat og þegar búið er að ganga frá og pakka farangri inn í trússbílinn, heldur ferðalagið áfram. Fyrst um sinn liggur leiðin um eyðilega malarmela en eftir því sem hálendið fjarlægist og byggð nálgast verður sífellt gróskumeira og áður en varir er hjólað um gríðarfallegan birkiskóg. Þennan dag eru nokkrar náttúruperlur skoðaðar, meðal annars verður kíkt á Gullfoss frá allt öðru sjónarhorni en hefðbundið er. Deginum lýkur svo með baði í Gömlu Lauginni á Flúðum áður haldið er heim á leið. 50-55 km dagur.

Innifalið: Utanumhald, leiðsögn, flutningur á fólki, farangri og hjólum frá Flúðum og upp í Kerlingarfjöll, skálagisting í eina nótt, 1x kvöldmatur og morgunmatur. Trúss á farangri og bílafylgd alla leið.

Title

Go to Top