Gerpissvæðið. Dekurganga
118.000 kr.
Fjórir göngudagar á Austfjörðum
1.-4. júlí
Gerpissvæðið, svokallaða, er landssvæðið á milli Norðfjarðar og Reyðarfjarðar, kennt við Gerpi, sem ber þann sæmdartitil að vera austasti tangi á meginlandi Íslands. Svæðið er allt á náttúruminjaskrá og var friðlýst árið 2021.
Landssvæðið minnir að nokkru leyti á Hornstrandir, því áður stóðu þarna blómlegir bæir með gróin tún og bátum í fjöru en nú er allt í eyði og aðeins fuglinn fljúgandi og stöku göngumann að sjá.
Víða á svæðinu má finna stórbrotin jarðlög, stuðlabergsmyndanir og litfögur líparítbjörg og tignarlegir tindar gnæfa svo yfir öllu og gefa svæðinu hrikalega ásýnd. Tvær víkur og tveir firðir skerast inn í landið og á milli þeirra liggja nes og múlar sem sumir hverjir ganga þverhnípt beint í sjó fram.
Í þessari ferð verður leitast við að ganga sem víðast um svæðið og kynnast því sem mest og best í fylgd heimafólks sem þekkir svæðið vel og alla sögu þess.
Gengið verður fjóra daga og gist í vel búnum skála/húsi í þrjár nætur, þar af tvær nætur í húsi sem státar ekki bara af sturtum heldur líka gufubaði!
Göngufólk þarf aðeins að bera léttan dagpoka hvern göngudag en farangur og matur verður trússaður á milli næturstaða. Að auki verður bátur til taks til að aðstoða göngufólk. Í upphafi og í lok ferðar þarf hópurinn að hjálpast að við að flytja bíla á milli staða, því ferðin byrjar á öðrum stað en hún endar.
Fyrsta daginn verður gengið frá Karlsskála, þar sem vegurinn endar norðan Reyðarfjarðar, fyrir Krossanes og að Karlsstöðum, sem er vel búinn skáli Ferðafélags Fjarðarmanna í Vöðlavík. Um 20 km.
Annan daginn verður gengið upp í Gerpisskarð þaðan sem stórbrotið útsýni býðst yfir Gerpi og Sandvík, svo yfir Nónskarð og endað í húsi í Viðfirði. Um 17 km.
Þriðja daginn verður genginn hringur um Barðsnesið, út á Barðsneshornið og um hin fögru Rauðubjörg. Gist aftur í Viðfirði þar sem slegið verður upp veglegri grillveislu. Um 15 km.
Fjórða og síðasta daginn er svo gengið út Viðfjörð, um Hellisfjörð og fyrir Hellisfjarðarmúla til Norðfjarðar. Þar lýkur ferðinni á því að náð verður í þá bíla sem skildir voru eftir fyrsta daginn, við upphafsstað göngunnar. Um 17 km.
Ferðin kostar 118 þúsund kr og innifalið er utanumhald og leiðsögn, gisting í húsi í þrjár nætur, bíla- og bátatrúss og ein sameiginleg grillmáltíð. Skráðir þátttakendur fá ítarlegan búnaðarlista og boð á undirbúningsfund í aðdraganda ferðar.
Fararstjórar og leiðsögumenn eru Brynhildur Ólafsdóttir og Róbert Marshall ásamt heimafólki.