Arnarfjörður. Gönguferð

98.000 kr.117.000 kr.

Upplifun og dekur um fjöll og fjörur
20.-22. september

Ferðalög færast á annað stig þegar ferðast er í fylgd með heimamönnum. Þeir þekkja svæðið eins og lófann á sér, allar földu náttúruperlurnar og skemmtisögurnar. Í þessari upplifunar- og dekurferð leiðir kokkurinn og lífskúnstnerinn Sirrý Ágústsdóttir frá Bíldudal göngur um sínar heimaslóðir og dekrar við þátttakendur eins og henni einni er lagið.

Ferðin hefst snemma á föstudagsmorgni þegar ekið er í samfloti úr Reykjavík áleiðis vestur á firði eða allt upp á Dynjandisheiði. Bílar eru skildir eftir og lagt af stað gangandi ofan fjalla út Langanes og niður að Langanesvita við Arnarfjörð, um 16 km leið. Þar er slegið upp veislu við varðeld í fallegri fjörulaut á meðan hópurinn drekkur í sig útsýnið yfir hin dulmögnuðu vestfirsku alpafjöll með öllum sínum óteljandi hvilftum og flötum toppum.

Langanesið er magnaður staður. Enginn vegur liggur að vitanum og aðeins er fært þangað gangandi eða sjóleiðina. Hvergi er sólarlagið fallegra en einmitt þarna og eftir að búið er að njóta þess er hópurinn fluttur á bát þvert yfir Arnarfjörðinn á Bíldudal. Hnúfubakar, hrefnur og hnísur gera sig heimkomna í firðinum og ef heppnin er með í för sjáum við til þessara tignarlegu skepna. Gist er á hlýlegu og notalegu gistiheimili á Bíldudal næstu tvær nætur.

Daginn eftir er ekið á smárútu út Arnarfjörðinn og inn í Selárdal. Eftir að hafa skoðað hið merkilega safn listamannsins Samúels og Uppsali þar sem þjóðsagnapersónan Gísli bjó, eru bakpokar axlaðir og haldið upp Selárdalinn. Gengið er ofan á fjallgarðinum og komið niður hinn réttnefnda Fagradal í Tálknafirði, um 15 km leið. Á leiðarenda skolar hópurinn af sér göngurykið í fallegri náttúrulaug og svamlar í sjónum við gula sandströnd. Eftir gott bað og búbblur er haldið til baka á Bíldudal í kvöldmat og kvöldvöku að hætti heimamanna hjá sjálfum Vegamótaprinsinum.

Að loknum letilegum morgunmat er boðið upp á stutta en snarpa fjallgöngu upp á Bíldudalsfjall þaðan sem sést vítt og breitt yfir Arnarfjörðinn. Eftir léttan hádegismat er svo ekið heim á leið með viðkomu í náttúrulauginni í Reykjafirði.

Ferðin kostar 98 þúsund fyrir meðlimi Útihreyfingarinnar en 117 þúsund fyrir aðra. Athugið að hægt er að greiða ferðina í einu lagi eða skipta greiðslum eins og hver og einn kýs inni í greiðsluferlinu sjálfu. Mikið er innifalið í verðinu eða gisting í tvær nætur í tveggja manna herbergi með morgunmat, tveir kvöldverðir, nesti og fordrykkur, trúss og selflutningur á bílum og bátum ásamt leiðsögn og alls utanumhalds.

Title

Go to Top