Aðventugangan

11. des. Ferðaskíði

Þessi skemmtilega aðventuhefð varð til fyrir nokkrum árum og hefur ræklega slegið í gegn. Gengið er á ferðaskíðum þriðja sunnudag í aðventu, með bókina Aðventu eftir Gunnar Gunnarsson í eyrunum, í snilldarlestri Róberts Arnfinnssonar.

Við tökum hlustunina alvarlega og í þessari göngu er ekki talað, bara hlustað! Þetta er sannkölluð núvitundarganga þar sem göngumenn lifa sig inn í þjóðlegan reynsluheim fyrri alda og spegla sig í ævintýrum Fjalla-Bensa sem stundaði eftirleitir á skíðum, á jólaföstunni ásamt forystusauðinum Eitli og hundinum Leó.

Lagt er af stað kl. 15 í ljósaskiptunum og gengið með höfuðljós inn í myrkrið, í alls tæplega 3 klst. Gangan hefst og endar við Skíðaskálann í Hveradölum og þar geta þátttakendur, að göngu lokinni, gætt sér á nýbökuðum vöflum og rjúkandi heitu súkkulaði með rjóma.

Ferðagönguskíði henta best í þetta ferðalag, þ.e. gönguskíði með stálkanti, svokölluð utanbrautarskíði. Hægt er að notast við brautarskíði en það er erfiðara, þar sem leiðin liggur um ótroðnar slóðir.

Ferðin er ókeypis fyrir meðlimi Útihreyfingarinnar en kostar 10.000 kr fyrir aðra. Skráning fer fram með því að smella á viðeigandi gulan skráningarhnapp hér að neðan. Skráðir þátttakendur fá svo nánari upplýsingapóst þegar nær dregur ferð.

  • Göngutími 3 klst

  • Ferðaskíði henta best

Skráning. Meðlimur í Útihreyfingunni. Ókeypis
Skráning. Ekki meðlimur í Útihreyfingunni. 10.000 kr.