Úti fjallaskíði. Námskeið
48.000 kr.
Fjallaskíði á vordögum
5. mars – 1. maí
Með hækkandi sól er komin tími til að kanna fjöll og firnindi með fjallaskíðin á fótunum. Einmitt það ætlum við að gera í þessum æfingahópi sem æfir sig á fjöllum nálægt Reykjavík í mars, apríl og byrjun maí.
Markmið hópsins eru nokkur. Í fyrsta lagi að þátttakendur læri vel á fjallaskíðin, skinnin, bindingarnar og skóna sem og alla tækni við beitingu skíðanna. Við byrjum því rólega og einbeitum okkur að tækninni í upphafi, rifjum upp, lærum og komum okkur í gírinn fyrir framhaldið. Öll getustig fá eitthvað fyrir sinn snúð. Leiðarval upp og niður. Brekkur í mismunandi bratta. Hliðarhalli. Ólík snjóalög, færi og undirlag. Allt þarf að læra á og æfa sig í að gera.
Í öðru lagi finnst okkur alltaf gaman að skíða á nýjum stöðum og viljum nota tækifærið og fara á fjölbreytta og skemmtilega skíðaáfangastaði. Ekki er verra ef svæðið geymir einhverja sögu sem hægt er að fræðast um.
Síðast en ekki síst viljum við í sameiningu skapa fallegan félagsskap fólks sem nærist á skemmtilegri samveru og útiveru og nýtur þess að leika sér úti.
Hópurinn hittist alls sjö sinnum. Einu sinni á rafrænum fræðslufundi í upphafi, þrisvar í styttri skíðatúrum síðdegis á miðvikudögum og þrisvar á laugardagsmorgnum í lengri dagsferðum.
Á fræðslufundinum verður farið yfir dagskrá vorsins, allt skipulagið í kringum ferðirnar og nauðsynlegan búnað, snjóflóðaspár, ýlatékk og góðar ferðavenjur í fjallaskíðaferðum. Þetta verður svo að sjálfsögðu æft fram og til baka í ferðunum sjálfum.
Miðvikudagsferðirnar hefjast kl. 18, eru allar í nágrenni Reykjavíkur og munu taka að meðaltali 1.5-2.5 klst. Laugardagsferðirnar taka allt að 5-6 tíma og á þá áfangastaði er lengri keyrsla.
- 5. mars. Kl. 20. Rafrænn upphafsfundur
- 12. mars. Kl. 18. Skálafell
- 19. mars. Kl. 18. Móskarðshnjúkar
- 5. apríl. Kl. 8. Botnssúlur
- 9. apríl. Kl. 18. Vífilsfell
- 19. apríl. Kl. 8. Bláfell
- 1. maí. Kl. 8. Tindfjallajökull
Vert er að vekja athygli á því að ofangreindir áfangastaðir eru ekki geirnegldir niður því endanlegur áfangastaður verður alltaf að taka mið af veðri og aðstæðum. Af þeim sökum geta ferðir frestast eða áfangastaðurinn breyst. Skráðir þátttakendur fá nánari upplýsingar í tölvupósti í aðdraganda námskeiðsins.
Athugið að í öllum ferðunum er gert ráð fyrir ólíkum getustigum en þessi æfingahópur hentar hins vegar ekki byrjendum á skíðum. Hér er ekki verið að kenna fólki að skíða á svigskíðum, heldur er verið að kenna og æfa notkun fjallaskíða í mismunandi aðstæðum.
Þátttakendur þurfa auk hefðbundins fjallaskíðabúnaðar að mæta með snjóflóðaþrennuna; skóflu, stöng og ýli í allar ferðir.
Fyrir verkefninu fara Helga María Heiðarsdóttir og Róbert Marshall sem eru með réttindi hjá Félagi íslenskra fjallaleiðsögumanna og gild skírteini í WFR, Fyrstu hjálp í óbyggðum.