Undir Tröllakirkju. Ferðaskíði

39.000 kr.49.000 kr.

Tveggja daga púlkuleiðangur
15.-16. febrúar

Á milli Baulu í Norðurárdal og Tröllakirkju á Holtavörðuheiði leynist stórkostlegt fjallasvæði, sundurskorið af þröngum dölum, giljum og gljúfrum. Fáir fara um þetta svæði, enda að mörgu leyti óárennilegt eins giljótt og það er. Að vetri til fyllast gilin hins vegar af snjó og svæðið opnast fyrir vel skíðandi ferðalanga.

Í þessum tveggja daga skíðaleiðangri verður þess freistað að skoða þetta svæði nánar með púlku í eftirdragi og gista eina nótt í tjaldi.

Stefnt er að því að ganga á skíðum frá Holtavörðuheiði og vestur í Dali og nokkrar leiðir koma til greina. Ef veður og færi bjóða upp á, verður fyrsta daginn farið upp á sjálfa Tröllakirkjuna sem gnæfir í 1000 metra hæð, áður en tjaldað verður í Snjófjöllum sem liggja vestur undir fjallinu.

Seinni daginn munu þátttakendur þræða giljaleiðir niður í Dali og enda í baði í heitri náttúrulaug. Gert er ráð fyrir að ferðin taki fulla tvo daga, þ.e. lagt er af stað frá Reykjavík í rauðabítið á laugardegi og ekki komið til baka fyrr en síðla kvölds á sunnudegi.

Hvor dagleið er um 15 km og þar sem ferðast er um hæðótt landslag þá þurfa þátttakendur að hafa gott vald á ferðaskíðum og treysta sér í að skíða með púlkur í eftirdragi bæði upp og niður. Við bendum fólki á æfingahópinn Úti ferðaskíði ásamt námskeiðinu Ferðast á gönguskíðum.

Athugið að endanleg ferðatilhögun þarf alltaf að taka tillit til bæði veðurs og snjóalaga. Þannig gæti þurft að breyta leiðarvali vegna snjóleysis og að auki er ekki ráðlegt að toppa Tröllakirkjuna nema í góðu veðri.

Haldinn verður rafrænn undirbúningsfundur í aðdraganda ferðar og þátttakendur fá ítarlegan upplýsinga- og búnaðapóst.

Ferðin kostar 39.000 kr. fyrir meðlimi Útihreyfingarinnar en annars 49.000 kr. Innifalið í verðinu er leiðsögn og utanumhald, auk undirbúningsfundar.

Title

Go to Top