Úti ferðaskíði. Námskeið
24.000 kr. – 28.000 kr.
Vikulegar æfingar á utanbrautarskíðum
8. janúar – 12. febrúar
Markmið ferðaskíðahóps Útihreyfingarinnar eru þríþætt.
Fyrst og fremst viljum við að þátttakendur læri vel á ferðaskíðin og skinnin og alla tækni við beitingu skíðanna. Við byrjum því veturinn á alls konar tækniæfingum. Bæði til að koma sér í gírinn fyrir skíðavertíðina en einnig til að mæta mismunandi getustigi. Þannig fá bæði byrjendur og lengra komnir eitthvað fyrir sinn snúð. Brekkur upp. Brekkur niður. Hliðarhalli. Mismunandi snjóalög, færi og undirlag. Allt þarf að læra á og æfa sig í að gera. Að auki verður ein æfing þar sem fólk getur fengið að skoða og prufa mismunandi sleða og púlkur.
Í öðru lagi finnst okkur alltaf gaman að ganga á skíðum á nýjum stöðum. Við viljum því nota tækifærið til að kynna hópinn fyrir fjölbreyttum og skemmtilegum skíðaáfangastöðum í nágrenni Reykjavíkur. Og ekki er verra ef svæðið geymir einhverja sögu sem hægt er að fræðast um.
Síðast en ekki síst viljum við í sameiningu skapa fallegan félagsskap fólks sem nærist á skemmtilegri samveru og útiveru og nýtur þess að leika sér úti við í öllum veðrum. Þetta er, og á alltaf að vera, BARA GAMAN 🙂
Hópurinn hittist alls sjö sinnum. Einu sinni á fræðslufundi í upphafi, á fimm miðvikudagsgöngum og einni lengri laugardagsgöngu.
Á fræðslufundinum verður farið yfir dagskrá vetrarins, allt skipulagið í kringum æfingarnar og nauðsynlegan búnað, muninn á mismunandi skíðum og skinnum etc.
Miðvikudagsgöngurnar hefjast kl. 18, eru allar í nágrenni Reykjavíkur og reynt verður að miða við að það taki aldrei lengri tíma en að hámarki 40 mínútur að aka á upphafsstað göngunnar. Göngurnar sjálfar taka svo að meðaltali 1.5-2.5 klst.
Í helgargöngunni leyfum við okkur að fara aðeins lengra og vera örlítið lengur á skíðunum. Stefnt er á göngu í jaðri Þingvallaþjóðgarðs, allt eftir snjóalögum og færi.
Dagskrá námskeiðsins
- Mið. 8. jan. Kl. 20. Fræðslufundur.
- Mið. 15. jan. Kl. 18.
- Mið. 22. jan. Kl. 18.
- Mið. 29. jan. Kl. 18.
- Mið. 5. feb. Kl. 18.
- Lau. 8. feb. Kl. 10. Þingvellir
- Mið. 12. feb. K. 18.
Þátttakendur þurfa að eiga eða leigja ferðaskíði, þ.e. utanbrautarskíði með stálköntum. Hægt er að leigja skíði á nokkrum stöðum, m.a. hjá skíðaleigu Útilífs.
Leiðbeinendur og fararstjórar eru Brynhildur Ólafsdóttir, Helga María Heiðarsdóttir og Róbert Marshall sem öll eru með réttindi hjá Félagi íslenskra fjallaleiðsögumanna og gilt skírteini í WFR eða Fyrstu hjálp í óbyggðum. Þau eru þrautreyndir leiðsögumenn sem á milli sín hafa þverað alla jökla landsins og Grænlandsjökul að auki, gengið þvers og kruss á ferðaskíðum á Íslandi og erlendis auk þess að búa yfir hafsjó af fróðleik og hafa menntað sig, ekki bara sem skíðakennarar (Brynhildur og Róbert), heldur líka í jarð- og jöklafræði (Helga María).
Námskeiðið kostar 24 þúsund kr. fyrir þau sem æfa með Útihreyfingunni en 28 þúsund kr. fyrir aðra. Skráðir þátttakendur fá nánari upplýsingar í tölvupósti í aðdraganda námskeiðsins.