Skaftártunga. Ferðaskíði

62.000 kr.

Þriggja daga púlkuleiðangur. Ein nótt í tjaldi og ein í skála.
20.-22. febrúar

Margar gamlar þjóðleiðir og fjöldi skemmtilegra slóða liggja um Skaftártungu og heiðarnar austan Mýrdalsjökuls. Þetta er frekar sjaldfarið svæði en gríðarlega margt að sjá og skoða og sagan lifnar hér við hvert fótmál.

Í þessum leiðangri er ætlunin að fara góða hringleið um svæðið á ferðaskíðum (utanbrautarskíðum) með púlku í eftirdragi og leggja að baki um 50 km á þremur dögum. Fyrri nóttina verður gist í tjaldi en þá síðari í huggulegum og rúmgóðum fjallaskála.

Ferðin hefst við nyrstu bæi í Skaftárhreppi, þaðan sem lagt er upp á Ljótarstaðaheiði. Stefnan er tekin norður undir Svartahnúk, þar sem slegið verður upp tjöldum eftir 15-20 km skíðagöngu, eftir færð og snjóalögum.

Daginn eftir verður farin um 12 km leið, framhjá skálanum í Álftavötnum (sem ekki skyldi rugla saman við skálann við Álftavatn), yfir Syðri-Ófæru og í Hólaskjól, skálann í Lambaskarðshólum. Þar verður hægt að koma sér vel fyrir, slá upp veislu og henda í góða fjallakvöldvöku.

Síðasta daginn er svo stefnan tekin stystu leið aftur niður í byggð og í bíla, 15-20 km leið.

Þátttakendur þurfa að hafa nokkuð gott vald á ferðaskíðum og treysta sér í að skíða með púlkur í eftirdragi bæði upp og niður. Við bendum fólki á æfingahópinn Úti ferðaskíði ásamt námskeiðinu Ferðast á gönguskíðum.

Athugið að endanleg ferðatilhögun þarf alltaf að taka tillit, bæði til veðurs og snjóalaga. Þannig gæti þurft að breyta leiðarvali vegna snjóleysis og að auki gæti þurft að hnika ferðinni fram eða aftur um dag, vegna veðurs.

Haldinn verður rafrænn undirbúningsfundur í aðdraganda ferðar, þar sem farið verður yfir ferðatilhögun og búnaðarpælingar auk þess sem þátttakendur fá ítarlegan upplýsinga- og búnaðapóst.

Fararstjórar eru Brynhildur Ólafsdóttir og Róbert Marshall.