Norski skerjagarðurinn. Kajak
60.000 kr. – 226.000 kr.
Fjórir himneskir ferðadagar á kajak
14.-18. ágúst, 2026
Róleg og nærandi kajakferð til Suður-Noregs þar sem ferðast er á milli fallegra og afskekktra eyja og skerja. Aðeins er róið stutt í einu, mikið staldrað við, skoðað, synt og slappað af, auk þess sem sérstakur leiðangurskokkur er með í för til að halda hópnum vel nærðum og glöðum!
Svæðið er þekkt fyrir mikla náttúrufegurð og er hluti þess friðaður. Yfir öllu liggur andi gamals tíma, ró og friður. Fátt er eins viðeigandi og að ferðast á kajak um þetta svæði, renna hljóðlaust yfir hafflötinn og njóta nálægðarinnar við náttúruna og fjörlegt fuglalíf.
Dagleiðirnar eru mjög stuttar eða frá 2 til 12 km og róið er innan skerjagarðsins í vari fyrir öldum úthafsins. Hópurinn stoppar oft til að njóta umhverfisins, fara í land, ganga og skoða sig um. Þeir sem vilja, geta róið meira útfrá náttstað. Að auki verðum við með veiðistangir og línur svo allir geta reynt sig við að veiða í matinn. Svo er auðvitað ómissandi að skella sér að minnsta kosti einu sinni á dag í hressandi sjósund en sjórinn er að öllu jöfnu um 20° á þessum árstíma.
Fyrstu nóttina er gist á hóteli í fallegum strandbæ en næstu þrjár nætur er gist í skálum sem eru hver öðrum glæsilegri og standa allir á draumfögrum og afskekktum eyjum sem aðeins eru aðgengilegar sjóleiðina. Í öllum skálunum er fyrirtaks aðstaða og uppábúin rúm en fólk þarf að koma með eigin skálapoka / lakpoka.
Hver og einn flytur sinn eigin farangur og sameiginlegan mat í kajaknum á milli gistiskálanna. Í upphafi ferðarinnar kaupir hópurinn saman í matinn en annar fararstjóranna er lærður kokkur og galdrar fram dásemdarmáltíðir bæði kvölds og morgna. Auk þess verður stoppað á kaffihúsum og veitingastöðum sem finna má á sumum þeirra eyja sem heimsóttar verða.
Ferðin tekur í heild fimm daga. Þar af er róið á kajak í fjóra daga en fyrsti dagurinn er ferðadagur. Þátttakendur koma sér til og frá Noregi á eigin vegum. Hópurinn heldur svo af stað frá Osló með rútu eftir hádegi föstudaginn 14. ágúst og ferðinni lýkur í Osló þriðjudagskvöldið 19. ágúst.
Ferðin er skipulögð þannig að þátttakendur geta flogið til Oslóar með morgunflugi sama dag og ferðin hefst, þ.e. föstudaginn 14. ágúst og geta annað hvort flogið heim, seint á þriðjudagskvöld 18. ágúst eða gist í Osló í eina nótt eftir ferð og flogið heim á miðvikudagsmorgun 19. ágúst.
Athugið að kajaknámskeið og/eða einhver kajakreynsla er forkrafa inn í ferðina. Við bendum á byrjendanámskeið Útihreyfingarinnar sem tekur eitt kvöld og verður haldið í byrjun júní, 2026.
Fararstjórar eru Brynhildur Ólafsdóttir og Sirrý Ágústsdóttir.
Verð 226.000 kr.
Innifalið: Gisting í 4 nætur, ferðir innan Noregs með rútum og leigubílum, kajakleiga og allur tilheyrandi búnaður. Undirbúningsfundur, leiðsögn og utanumhald.
Ekki innifalið: Flug til Noregs.
Hægt er að greiða ferð að fullu eða staðfestingargjald 60.000 kr. og eftirstöðvar í síðasta lagi sex vikum fyrir ferð. Lágmarksþátttaka miðar við 10 manns.