Himneskir Jötunheimar. Ferðaskíði

80.000 kr.297.000 kr.

Skíðað á milli skála í Noregi
19.-24. mars

Við höldum áfram að kanna ný svæði í Jötunheimum í Noregi, sem líkja má við Fjallabak okkar Íslendinga. Þetta stórkostlega fjallahérað er eitt vinsælasta útivistarsvæði Norðmanna, umkringt jöklum og hæstu fjöllum landsins. Á milli fjallanna liggja stór og mikil vötn sem á veturnar bjóða upp á sannkallaðar himnabrautir fyrir skíðafólk á gönguskíðum.

Á veturnar er líka aðeins hægt að ferðast um Jötunheima fótgangandi eða á skíðum og það gerum við í þessari ferð því gengið er á ferðaskíðum (utanbrautarskíðum með stálköntum) í alls  fjóra daga og gist í huggulegum, hlýjum og oftast fullþjónustuðum fjallaskálum.

Fyrsti og síðasti dagurinn eru ferðadagar. Leiðangurinn hefst á lestarferðalagi frá Gardemoen flugvelli í Osló. Haldið er norður í Guðbrandsdal en þaðan er svo ekið með smárútu á fyrsta næturstaðinn, sem er hálfgert fjallakofaþorp sem kúrir undir Galdhøpiggen, hæsta fjalli Noregs. Sá farangur þátttakenda sem ekki verður notaður í skíðaferðinni sjálfri, er hins vegar fluttur á síðasta næturstaðinn.

Eftir staðgóðan morgunmat næsta dag hefst skíðaferðalagið sjálft, en þennan dag er gengið á skíðum um 15 km leið í stóran og góðan skála sem liggur nánast í hjarta Jötunheima, umkringdur jöklum og bröttum fjöllum.

Næstu tvo daga er svo gengið á skíðunum í þessu stórbrotna umhverfi, yfir frosin og rennislétt fjallavötn og á milli ógurlegra fjalla. Gist er í einum fábrotnum og óþjónustuðum skála á leiðinni en líka í einum stærsta og þekktasta fjallaskála Norðmanna sem hefur verið starfræktur í tæplega 150 ár og státar af glænýju sánabaði með óviðjafnanlegu útsýni.

Síðasta skíðadaginn er svo haldið til byggða. Þetta er lengsti dagurinn í kílómetrum talið eða alls um 24 km en allt í góðum skíðasporum á lögðum skíðabrautum. Þennan dag endar hópurinn í einum af okkar uppáhalds gististöðum, rómantísktu sveitasetri með mikla sögu. Þar bíður farangurinn og góður kvöldmatur eldaður úr hráefni frá héraði. Að auki er hægt að fara í sána og heitan pott til að láta ferðaþreytuna líða úr sér eftir átök síðustu daga.

Snemma næsta dag sækir smárúta hópinn og ekur honum beint á Gardemoen flugvöllinn í Osló, þaðan sem flogið er heim til Íslands, nú eða hvert á land sem er!

Þátttakendur þurfa að hafa einhverja reynslu á gönguskíðum og gott er að undirbúa sig í aðdraganda ferðar með því að taka ferðaskíðanámskeið eða fara í æfingaferðir. Við bendum fólki á að fylgjast vel með úrvalinu hér á vefsíðu Útihreyfingarinnar.

Haldinn er rafrænn undirbúningsfundur fyrir ferð þar sem m.a. verður farið ítarlega yfir búnað og annað skipulag.

Fararstjórar eru Brynhildur Ólafsdóttir og Róbert Marshall.

Innifalið í ferðinni sem kostar 297 þúsund er öll gisting, þ.e. fjórar nætur í fjallaskálum og ein nótt á gistiheimili. Allur matur, utan dagsnesti ferðadagana tvo, þ.e. fyrsta og síðasta daginn. Allar lestar- og smárútuferðir innan Noregs. Undirbúningsfundur, leiðsögn og utanumhald.

Í stóru fjallaskálunum er oftast gist í 2-4ja manna herbergjum og þar er boðið upp á alla mögulega þjónustu, hægt að kaupa drykki og ýmsan smávarning og komast í sturtu. Eina nótt er hins vegar gist í óþjónustuðum skála, þar sem hópurinn eldar sinn mat sjálfur.

Flug til og frá Noregs er ekki innifalið, en ferðin er skipulögð þannig að þátttakendur geta flogið til Oslóar með Icelandair að morgni 19. mars, sama dag og leiðangurinn hefst, lending í Osló um 11:30. Einnig er hægt að fljúga heim til Íslands sama dag og ferðinni lýkur, þ.e. 24. mars, brottför um kl. 13 frá Osló.

Staðfestingargjald ferðarinnar er 80.000 kr. og eftirstöðvar eru greiddar í síðasta lagi sex vikum fyrir ferð. Lágmarksþátttaka miðar við 10 manns.

Title

Go to Top