Frakkland. Brimbrettabúðir

60.000 kr.195.000 kr.

Fjölskylduferð par exelans
7.-13. júní

Þetta er afslappandi draumaferð fyrir foreldra með orkumikla unglinga og hreint frábær fermingargjöf. Auk þess að læra að sörfa á brimbretti er áhersla lögð á að gera skemmtilega hluti saman og skapa góðar minningar.

Hópurinn hefur aðsetur í notalegum brimbrettabúðum / surf camp / gistiheimili rétt utan við fallegt sveitaþorp, skammt norður af Biarritz í Suður-Frakklandi. Gist er í hefðbundnum herbergjum og í svokölluðum glæsilegutjöldum. (Glæsilega er íslenskun á enska orðinu glamping, dregið af orðinu útilega!).

Í húsinu og samliggjandi garði eru sameiginleg setusvæði, hengirúm, trampólín, badminton- og blakvöllur, lítil sundlaug, borðtennisborð og fleiri leiktæki, meðal annars margs konar hjólabretti sem gaman er að æfa sig á.

Garðurinn er bæði friðsæll og fallegur og liggur í þéttu skóglendi þar sem oft má sjá ýmis skógardýr á vappi. Ingrid og Mathieu, hjónin sem reka búðirnar, eru ekki bara brimbrettameistarar heldur líka yndislegir gestgjafar og aldrei að vita nema þau taki fróðleiksfúsa gesti í örlitla frönskukennslu 🙂

Hópurinn borðar morgunmat saman á hverjum morgni og hefur síðan val um að elda saman í vel útbúnu sameiginlegu eldhúsi, nýta sér grillaðstöðuna í garðinum eða skreppa í bæinn þar sem góðir veitingastaðir eru á hverju horni.

Brimbrettakennslan sjálf fer að mestu fram við fullkomnar aðstæður á stórkostlegri villiströnd sem liggur við Biscayaflóa, í um 15 mínútna akstursfjarlægð frá búðunum. Allt svæðið er eitt stórt Mekka fyrir brimbrettaunnendur enda hægt að finna öldur við allra hæfi. Kennararnir hafa marga fjöruna sopið og búa að áratuga reynslu við að kenna bæði fullorðnum og börnum niður í 7 ára aldur á brimbretti. Flestir eru farnir að standa upp á brettinu og svífa á öldunum eftir aðeins nokkra daga, sumir jafnvel á fyrsta degi.

Hver brimbrettatími tekur um það bil einn og hálfan tíma og á eftir er ágætt, að minnsta kosti fyrir þá fullorðnu, að jafna sig með smá lúr annað hvort undir sólhlíf á ströndinni eða í hengirúmi í garðinum. Hver tími í sjónum reynir glettilega mikið á og gott er að endurnýja orkuna með því að taka slökun inn á milli.

Yngri og orkumeiri meðlimir hópsins þurfa þó ekki að láta sér leiðast á meðan, því nóg er við að vera, ekki bara í búðunum sjálfum heldur er boðið upp á margs konar afþreyingu í nágrenninu. Meðal annars er hægt að leigja hjól og skoða sig um eða róa á kajak á stóru vatni skammt frá.

Skipulögð verður að minnsta kosti ein hópferð í stórskemmtilegan via ferrata adrenalíngarð og að auki er stefnt að einu spássikvöldi í nálægum strandbæ.

Gert er ráð fyrir að þátttakendur komi á eigin vegum í brimbrettabúðirnar, föstudaginn 7. júní en við hjá Útihreyfingunni aðstoðum skráða þátttakendur við skipulagningu á ferðum til og frá.

Innifalið í ferðinni er allt utanumhald og fararstjórn í Frakklandi, gisting með morgunverði í sex nætur og fimm kennslustundir á brimbretti. Hægt er að greiða ferð að fullu eða staðfestingargjald 60.000 kr. og eftirstöðvar í síðasta lagi sex vikum fyrir ferð. Athugið að það er hægt er að skipta greiðslum eins og hver og einn kýs inni í greiðsluferlinu sjálfu.

Lágmarksþátttaka miðar við 10 manns.

Title

Go to Top