Fjallastígar Mallorca. Gönguferð
80.000 kr. – 305.000 kr.
Upplifunarveisla fyrir sál og líkama
21.-28. apríl
Í þessari ferð þarf oft að stoppa. Anda inn. Anda út. Og andvarpa svo af ánægju yfir lífsins lystisemdum.
Gengið er á aldagömlum steinlögðum stígum um Tramuntana fjöllin á spænsku eyjunni Mallorca. Á milli friðsælla strand- og fjallaþorpa, um ilmandi appelsínu- og sítrónulundi, gil og klettaborgir, blágræn fjallavötn og litlar víkur.
Fjölbreytt dýralíf, marglitt blómskrúð og ævaforn, kræklótt ólífutré gleðja augað við hvert fótmál. Svo ekki sé talað um matinn! Ferskur fiskur, ferskur appelsínusafi, sælkeratómatar, ólífur fyrir alla bragðlauka, brakandi súrdeigsbrauð, bragðsterkar harðpulsur og ótrúlegir eftirréttir úr möndlum og hunangi sem hvoru tveggja eru þekktar landbúnaðarafurðir frá eyjunni.
Þetta er hlið á Mallorca sem fæstir kynnast og er í órafjarlægð og hrópandi andstöðu við háværa strandbari og yfirfullar sólarstrendur sem er ímynd flestra af þessari fallegu Miðjarðarhafseyju.
Ferðin tekur alls átta daga en fyrsti og síðasti dagurinn eru ferðadagar. Gengið er í fimm daga og dagleiðirnar eru frekar þægilegar og engin lengri en 15 km. Einn hvíldardagur er inni í miðri ferð ásamt því að næstsíðasta daginn er aðeins gengið í tæpar 2 klst að morgni áður en við tekur afslöppun og dekur. Gist er í fjórar nætur á gistiheimilum, tvær nætur í fjallaskálum og eina nótt á lúxushóteli. Athugið að þar sem ekki er hægt að trússa farangur í fjallaskálana þá þurfa þátttakendur að ganga með bakpoka með fötum til skiptanna. Annar farangur verður fluttur á lokahótelið og bíður þar.
Ferðin hefst í Barcelona um seinnpart mánudaginn, 21. apríl, þaðan sem hópurinn flýgur saman til Mallorca. Frá flugvellinum er ferðast í smárútu upp í Tramuntana fjöllin og fyrstu nóttina er gist í sögufrægu og afar fallegu fjallaþorpi, þar sem tími gefst til að skoða sig um og snæða góðan kvöldverð.
Daginn eftir er gengið yfir Tramuntana fjallgarðinn og byrjað á því að ganga upp á ríflega 900 metra hátt fjall þar sem stórkostlegt útsýni opnast yfir stóran hluta Mallorca. Svo er fetað hægt og rólega niður bratt gil og niður í annað ekki síður fallegt fjallaþorp þar sem gist er um nóttina. 14 km. 500 m hækkun.
Á þriðja degi er þræddur stígur sem liggur um friðsæla aldinlundi meðfram norðurströnd eyjunnar með útsýni yfir blágrænt hafið. Þennan dag er gist í litlum strandbæ þar sem hægt er að busla í sjónum og gæða sér á nýveiddu fiskmeti. 14 km. 250 m hækkun.
Fjórði dagur ferðarinnar er menningarlegur afslöppunardagur. Morguninn er letilegur og kannski verður farið í sjóinn áður en ferðast er með opnum sporvagni inn í næsta þorp. Þar er hægt að skoða lítil söfn með verkum Picasso og Miró, rölta á milli búða og bragða á dæmigerðum réttum eyjunnar.
Fimmti dagurinn er lengsti og erfiðasti göngudagurinn og því er gott að hafa safnað kröftum daginn áður. Gengið er á góðum stíg upp þverbratt en geysifagurt gil, framhjá uppistöðulónum, gegnum lítil jarðgöng og í huggulegan fjallaskála þar sem gist er um nóttina. 15 km. 1200 m hækkun.
Á sjötta degi er byrjað á því að lækka sig niður úr fjöllunum áður en gengið er aftur upp og nú upp á snarbratta en hreint ótrúlega klettaborg sem hýsir gamla kapellu og kastala sem búið er að breyta í fjallaskála. Útsýnið er óviðjafnanlegt og næturstaðurinn svo einstakur að honum verður vart lýst með orðum. Þetta er einfaldlega eitthvað sem fólk verður að upplifa á eigin skinni! 15 km. 600 m hækkun.
Að morgni næsta dags er gengið niður af klettaborginni og í næsta þorp þar sem smárúta bíður til að flytja hópinn á lúxushótel við draumfagra strönd. Þar er hægt að láta gönguþreytuna líða úr sér í algjöru dekri, marflöt undir sólhlíf, synda í tærum sjó og snæða saman síðustu kvöldmáltíðina. 7 km.
Snemma síðasta daginn ferðast hópurinn með rútu á flugvöllinn í Mallorca og flýgur til Barcelona þar sem ferð lýkur í tæka tíð til að hægt sé að ná flugi seinnipart dags heim til Íslands eða hvert á land sem er.
Leiðsögumenn ferðarinnar eru Brynhildur Ólafsdóttir og Róbert Marshall.
Innifalið í ferðinni, sem kostar 305 þúsund er flug frá Barcelona til Mallorca og til baka, gisting í sjö nætur, allur morgunmatur og tvær kvöldmáltíðir, allar ferðir og flutningur á farangri innan Mallorca, undirbúningsfundur, leiðsögn og utanumhald.
Athugið að flug til og frá Barcelona er ekki innifalið en ferðin er skipulögð þannig að þátttakendur geta flogið frá Íslandi til Barcelona, á upphafsdegi ferðarinnar, þ.e. snemma sunnudaginn 20. apríl og heim frá Barcelona, sama dag og ferð líkur, þ.e. mánudaginn 28. apríl.
Lágmarksþátttaka miðar við 10 manns en sökum þess að staðfesta þarf gistingu í fjallaskálunum að lágmarki 4 mánuði fyrir ferð, þá er nauðsynlegt að greiða staðfestingargjald ferðarinnar FYRIR 15. DESEMBER. Eftirstöðvar ferðarinnar eru síðan greiddar í síðasta lagi sex vikum fyrir ferð.